Skip to main content

Háskólaráðsfundur 21. febrúar 2008

2/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, fimmtudaginn 21. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Birna Arnbjörnsdóttir, Erna Kristín Blöndal, Helgi Þorbergsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Ólafur Proppé, Rúnar Vilhjálmsson, Þórdís Kristmundsdóttir og Þórir Hrafn Gunnarsson. Fundargerð ritaði Halldór Jónsson.

Í upphafi fundar bauð rektor Ólaf Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, velkominn á fundinn, en á síðasta fundi var samþykkt að hann yrði áheyrnarfulltrúi á fundum háskólaráðs fram að sameiningu skólanna 1. júlí nk.

Rektor minntist Háskóladagsins, námskynningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands sem fram fór 16. febrúar sl. og voru ráðsmenn samdóma um að hún hafi í alla staði gengið afar vel. Háskólaráð þakkar þeim fjölmörgu starfsmönnum Háskólans sem tóku þátt í námskynningunni fyrir þeirra mikilvæga framlag. Sérstakar þakkir eru færðar starfsfólki markaðs- og kynningarsviðs og starfsfólki og nemendum deilda háskólanna sem annast markaðs- og kynningarmál.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1. Mál á dagskrá

1.1 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðað skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands. Staða mála. Útfærsla skipulags stoðþjónustu og stjórnsýslu á vettvangi sameiginlegrar stjórnsýslu, fræðasviða og deilda Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir stöðu málsins. Í samræmi við umræður á síðasta fundi er nú verið að vinna úr niðurstöðum starfshópa háskólaráðs um málefni fræðasviðanna fimm. Rektor mun á næstu dögum halda fundi með starfshópunum til að fara yfir tillögur um verkaskiptingu, stoðþjónustu og stjórnsýslu í nýju skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs. Þá greindi rektor frá því að leitað hefði verið álits lögfræðinga á því hvort Háskólanum væri heimilt að auglýsa til umsóknar störf forseta fræðasviða. Var það niðurstaða lögfræðinganna að ekki væri ráðlegt að auglýsa störfin fyrr en skýr lagaheimild liggur fyrir.

1.2 Ferð rektors til Indlands.
Rektor reifaði framlagt minnisblað um heimsókn sína og fulltrúa Háskóla Íslands til Indlands dagana 5.-10. febrúar sl. Í heimsókninni flutti rektor erindi á vegum Delhi Sustainable Development Summit um notkun endurnýjanlegrar orku á Íslandi. Rektor vakti sérstaka athygli á ýmsum samstarfstækifærum fyrir kennara og nemendur sem fram komu í heimsókninni. Undirritaður var samstarfssamningur á milli Háskóla Íslands, TERI stofnunarinnar og TERI University um rannsóknasamstarf á sviði umhverfis- og auðlindafræða, orkuvísinda og jarðvísinda. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, var viðstaddur undirritunina. Þá var rætt við indverskt háskólafólk um samstarf á ýmsum fræðasviðum, svo sem jöklafræði, jarðhitavísindum, félagsvísindum, náttúruvísindum, indverskum fræðum, lýðheilsuvísindum og enskum bókmenntum. Málið var rætt.

1.3 Bráðabirgðauppgjör Háskóla Íslands 2007.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, formaður fjármálanefndar og sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Hann gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um rekstur Háskóla Íslands á árinu 2007. Fram kom hjá Guðmundi að á heildina litið hafi rekstur ársins verið í góðu jafnvægi og lýstu ráðsmenn ánægju með niðurstöðuna. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna.

1.4 Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2008. Staða máls.
Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2008. Áætlunin verður væntanlega lögð fram til afgreiðslu á næsta fundi háskólaráðs.

1.5 Kjaramál og kjarasamningar. Staða mála og horfur.
Guðmundur gerði grein fyrir undirbúningi fyrir væntanlegar kjaraviðræður. Fram kom í máli hans að nokkur óvissa ríkir um stöðu kjarafélaga kennara að svo stöddu. Ekki liggur fyrir hvort Félag prófessora fær stöðu kjarafélags eða hvort Félag háskólakennara og Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands muni sameinast. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og rektor framkomnum spurningum.

1.6 Stuðningur við afburðanemendur.
Rektor gerði grein fyrir hugmyndum um stuðning við afburðanemendur. Með samþykkt stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 hefur háskólaráð þegar ákveðið að verja nokkru fé til þessa verkefnis á þessu ári. Málið var rætt og lagði rektor til að eftirtaldir verði skipaðir í starfshóp til að útfæra hugmyndirnar: Björg Björnsdóttir, verkefnisstjóri samstarfsverkefna Háskóla Íslands, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor og fulltrúi heilbrigðisvísindasviðs í háskólaráði og Þórir Hrafn Guðmundsson, fulltrúi stúdenta í háskólaráði. Hópurinn leggi fram drög að tillögum um málið á næsta fundi ráðsins.
- Samþykkt einróma.

1.7 Fjárlagatillögur Háskóla Íslands fyrir árið 2009.
Fjallað var um þennan dagskrárlið í tengslum við liði 1.3 og 1.4 hér að framan. Guðmundur og rektor gerðu grein fyrir drögum að fjárlagatillögum Háskóla Íslands fyrir árið 2009 og drögum að framkvæmdaáætlun fyrir 2007-2011. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og rektor framkomnum spurningum.

1.8 Aðild Háskóla Íslands að REYST.
Inn á fundinn kom Jón Atli Benediktsson, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors. Lagt var fram bréf, dags. 21. febrúar, þar sem menntamálaráðherra heimilar Háskóla Íslands að gerast hluthafi í REYST. Rektor og Jón Atli gerðu grein fyrir málinu. Fram kom að hlutfé REYST verður 31,5 m. kr. og að Háskóli Íslands leggur fram þriðjung hlutafjár. Hlutafjárframlag Háskólans, 10,5 m. kr., felst í þjónustu vegna kennslu og rannsókna á árinu 2008. Rektor bar upp tillögu um að Háskóli Íslands verði aðili að REYST og var það samþykkt einróma. Síðan bar rektor upp tillögu um að fulltrúar Háskólans í stjórn verði Magnús Þór Jónsson, prófessor við verkfræðideild (aðalmaður) og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við raunvísindadeild (varamaður).
- Samþykkt einróma.

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Umsagnir starfsnefnda háskólaráðs um beiðni Háskólaútgáfunnar um að ráða ritstjóra til útgáfunnar.
- Frestað.

2.2 Stjórnir, nefndir og ráð:
a) Stjórn Konfúsíusarstofnunar við Háskóla Íslands.

b) Fulltrúar Háskóla Íslands og varamenn í stjórn Asíuvers Íslands (ASÍS).
c) Norræna Asíustofnunin (Nordic NIAS Council).
- Frestað.

2.3 Tillögur að breytingum á reglum og að nýjum reglum.
a) Erindi frá félagsvísindadeild um heimild til að taka inn nemendur fjarnám í diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf skólaárið 2008-2009 og takmarka fjölda nýrra nema við 20.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og gerði grein fyrir framlögðum gögnum. Málið var rætt og svöruðu Þórður og Ólafur Þ. Harðarson, fulltrúi félagsvísindasviðs og varaforseti háskólaráðs framkomnum spurningum.
- Samþykkt einróma.

b) Tillaga kennslumálanefndar að breytingu á reglum um upptöku- og sjúkrapróf.
Rektor og Þórður gerðu grein fyrir málinu. Tillagan felur m.a. í sér að sjúkra- og upptökupróf í ágúst verði felld niður og að þessi próf verði haldin strax í kjölfar almennra prófa í desember og maí. Þessi breyting mun einnig taka til Menntavísindasviðs sem verður til við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, með þeim fyrirvörum sem samþykktir voru í háskólaráði 17. janúar sl. (dagskrárliður 2.1) um gildistöku reglna í sameinuðum skóla. Málið var rætt og svaraði Þórður framkomnum spurningum.
- Samþykkt einróma.

c) Tillaga kennslusviðs um viðbót við reglur vegna útfærslu sameiginlegra prófgráða (joint degrees).
Þórður gerði grein fyrir tillögu um útfærslu sameiginlegra prófgráða í reglum fyrir Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Þórður framkomnum spurningum.
- Samþykkt einróma.

d) Erindi frá samstarfsnefnd Háskóla Íslands og Landsbókasafns - Háskólabókasafns um rafræn skil og varðveislu lokaritgerða nemenda.
Þórður gerði grein fyrir erindinu sem felur í sér að lokaritgerðum nemenda verði skilað rafrænt til Landsbókasafns - Háskólabókasafns. Málið verður undirbúið í samvinnu við safnið og mun kennslusvið síðan gera tillögu um viðeigandi breytingar á reglum fyrir Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.

2.4 Tillaga frá viðskipta- og hagfræðideild um veitingu heiðursdoktorsnafnbótar.
Rektor gerði grein fyrir erindi viðskipta- og hagfræðideildar og var það rætt.
- Samþykkt einróma.

2.5 Erindi frá viðskipta- og hagfræðideild, dags. 15. febrúar sl., um BS- og diplómanám með vinnu.
Rektor og Þórður gerðu grein fyrir málinu og framlögðum samþykktum deildarinnar um gjaldtöku vegna námsins. Háskólaráð hefur áður samþykkt að viðskipta- og hagfræðideild megi bjóða upp á nám með vinnu gegn gjaldi á grundvelli reglna um endurmenntun á vegum deilda. Málið var rætt ítarlega.
- Samþykkt samhljóða, fjórir sátu hjá.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Umsögn Háskóla Íslands, dags. 24. janúar sl., um frumvörp til laga um grunnskóla, 285. mál, (heildarlög), framhaldsskóla, 286. mál, (heildarlög), leikskóla, 287. mál, (heildarlög) og um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 288. mál.

3.2 Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir árið 2008.

3.3 Úthlutun úr Aðstoðarmannasjóði Háskóla Íslands vegna vormisseris 2008.

3.4 Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Staða mála.

3.5 Háskóli Íslands - menntun á heimsmælikvarða, tímarit útgefið í tilefni af Háskóladeginum, 16. febrúar sl.

4. Önnur mál

4.1 Lausn fulltrúa þjóðlífs í háskólaráði.
Inga Jóna Þórðardóttir, fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði, greindi frá þeirri ákvörðun sinni að biðjast lausnar frá setu í ráðinu vegna anna á öðrum vettvangi. Rektor þakkaði Ingu Jónu fyrir frábært starf í þágu Háskóla Íslands síðustu fimm ár. Rakti rektor hvernig Inga Jóna hefur tekið þátt í starfi skólans af einlægni og heilindum og nefndi m.a. ómetanlegan þátt hennar í vinnu að stefnumótun, húsnæðismálum og breytingum á skipulagi og stjórnkerfi Háskólans. Óskaði rektor Ingu Jónu farsældar í öllum þeim verkefnum sem bíða hennar, m.a. sem formanns framkvæmdanefndar um nýtt háskólasjúkrahús í Vatnsmýrinni. Tóku ráðsmenn einhuga undir orð rektors og klöppuðu Ingu Jónu lof í lófa.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.15.