1/2008
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2008, fimmtudaginn 17. janúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Birna Arnbjörnsdóttir, Helgi Þorbergsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Reynir Jóhannesson (varamaður Ernu Kristínar Blöndal), Rúnar Vilhjálmsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þórdís Kristmundsdóttir og Þórir Hrafn Gunnarsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.
1. Mál á dagskrá
1.1 Helstu verkefni Háskóla Íslands á árinu 2008.
Rektor fór yfir helstu verkefni sem eru á döfinni og framundan í starfi Háskóla Íslands, s.s. endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi skólans, sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, væntanlegt frumvarp til laga um opinbera háskóla, fyrirhugaða stefnumótun Háskólans í alþjóðamálum, lokafrágang og innflutning í Háskólatorg og Gimli, undirbúning framkvæmda við Vísindagarða, nýbyggingar fyrir Háskólasjúkrahús, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum o.fl.
1.2 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðað skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands. Staða mála.
a. Lokatillögur um heiti fræðasviða og deilda og staðsetningu einstakra greina, sbr. síðasta fund.
b. Framhald vinnu að breyttu skipulagi.
Inn á fundinn komu Jón Atli Benediktsson, aðstoðarmaður rektors og þróunarstjóri Háskólans, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs og Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands. Rektor fór yfir aðdraganda málsins og þeir Jón Atli og Halldór skýrðu framlagðar lokatillögur um heiti fræðasviða og deilda og staðsetningu einstakra greina. Í máli þeirra kom m.a. fram að tillögurnar hefðu verið ræddar ítarlega, bæði innan hverrar deildar fyrir sig og á vettvangi fræðasviðanna. Almenn sátt hefði náðst um tillögurnar. Málið var rætt og svöruðu rektor, Jón Atli og Halldór framkomnum spurningum og athugasemdum. Loks gerði rektor grein fyrir næstu skrefum í innleiðingu nýs skipulags og stjórnkerfis Háskóla Íslands.
- Lokatillögurnar voru teknar til afgreiðslu:
- Framlagðar tillögur um heiti fræðasviðanna 5 og 26 deilda voru samþykktar einróma, en rektor falið að ganga endanlega frá heitum deilda á hugvísindasviði í samráði við starfshóp háskólaráðs um málefni hugvísindasviðs.
- Samþykkt var að gerð verði úttekt á hinu nýja skipulagi Háskóla Íslands í síðasta lagi árið 2011 til að meta hversu vel það stuðli að þeim markmiðum sem Háskóli Íslands hefur sett sér um rannsóknir, kennslu, stjórnun og þjónustu í fremstu röð.
- Samþykkt var að taka ekki til afgreiðslu að sinni ósk fornleifafræði um að flytjast frá hugvísindasviði til félagsvísindasviðs, enda kom óskin seint fram og félagsvísindasvið hefur ekki haft ráðrúm til að fjalla um hana og taka afstöðu til hennar.
- Samþykkt var að uppeldis- og menntunarfræðiskor, að meðtöldu námi til kennsluréttinda auk tómstundafræði, en að frátalinni fötlunarfræði, flytjist frá núverandi félagsvísindadeild til Menntavísindasviðs að loknu háskólaárinu 2008-2009.
- Samþykkt var að framlögð tillaga um skiptingu Menntavísindasviðs í deildir sé til bráðabirgða fyrir háskólaárið 2008-2009, en framtíðarskipulag verði kynnt haustið 2008 og taki gildi fyrir háskólaárið 2009-2010.
Að afgreiðslu lokinni þakkaði rektor þeim Jóni Atla, Halldóri, Magnúsi Diðrik og Guðmundi R. Jónssyni, Ólafi Proppe, deildarforsetum og öllum öðrum fulltrúum í starfshópum fræðasviðanna fimm fyrir ómetanleg störf þeirra.
1.3 Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
a. Staða mála.
Inn á fundinn kom Steinunn Halldórsdóttir, verkefnisstjóri sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og gerði rækilega grein fyrir stöðu vinnunnar við undirbúning sameiningar skólanna og framlögðum skýrslum þriggja verkefnishópa um (1.) upplýsingatækni, safnþjónustu og kennsluþróun, (2.) upplýsingakerfi Uglu og (3.) um mótun stefnu í fjarkennslumálum hins sameinaða háskóla, ásamt viðbrögðum og tillögum verkefnisstjórnar sameiningarinnar. Málið var rætt ítarlega og svaraði Steinunn framkomnum spurningum og athugasemdum.
b. Húsnæðismál.
Inn á fundinn kom Ingjaldur Hannibalsson, formaður skipulagsnefndar háskólaráðs, og gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar um drög að framtíðarskipulagi á lóð Háskóla Íslands. Í skipulagsnefnd sitja, auk Ingjalds, Guðmundur Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kennaraháskóla Íslands, Helga Bragadóttir, arkitekt FAÍ, Hrund Ólöf Andradóttir, dósent í verkfræðideild og Inga Jóna Þórðardóttir, viðskiptafræðingur og fulltrúi í háskólaráði. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ingjaldur spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma að unnið verði að því að menntavísindasvið flytji inn á lóð Háskóla Íslands innan fimm ára. Háskólinn hefji viðræður við menntamálaráðuneyti um fjármögnun nýbygginga fyrir menntavísindasvið vestan Suðurgötu. Í öðru lagi verði rætt við skipulagsyfirvöld í Reykjavík um að auka byggingarmagn á reit A1, sbr. deiliskipulag vestan Suðurgötu, dags. 1.5.2004. Í þriðja lagi verði teknar aftur upp viðræður við skipulagsyfirvöld um byggingu og fjármögnun ganga undir Suðurgötu í því skyni að tengja saman austur- og vesturhluta háskólalóðar. Í fjórða lagi verði rætt við skipulagsyfirvöld um byggingarrétt Háskóla Íslands á lóðinni milli Aðalbyggingar og Þjóðminjasafns.
c. Samstarf háskólaráða Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
Rektor bar upp þá tillögu að Ólafur Proppé verði áheyrnarfulltrúi á fundum háskólaráðs Háskóla Íslands þar til nýtt háskólaráð sameinaðs háskóla verður skipað 1. júlí nk. Jafnframt að Allyson Macdonald, varaforseti háskólaráðs Kennaraháskólans, sitji fundi þegar rætt er um málefni sameiningarinnar. Ólafur Proppé vék af fundi áður en þessi dagskrárliður var tekinn til afgreiðslu.
- Samþykkt einróma.
1.4 Framtíðarstefna Háskóla Íslands í upplýsingatæknimálum.
Rektor gerði ítarlega grein fyrir málinu og var það rætt. Að umræðu lokinni bar rektor upp þá tillögu að settur verði á laggirnar starfshópur um endurskoðun upplýsingatæknimála og mótun upplýsingatæknistefnu Háskóla Íslands til framtíðar. Starfshópurinn verði skipaður þeim Helga Þorbergssyni, dósent í tölvunarfræði og formanni stjórnar Reiknistofnunar, sem mun leiða starfið, Jóni Erni Guðbjartssyni, sviðsstjóra markaðs- og samskiptasviðs, Sigurði Jónssyni, forstöðumanni smiðju og tölvumála í Kennaraháskóla Íslands og Svönu Helen Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Stika.
- Samþykkt einróma.
2. Erindi til háskólaráðs
2.1 Fyrirvarar í kennsluskrá og aðhald með skráningum 2008-2009.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og gerði grein fyrir málinu sem var rætt.
- Framlögð tillaga um fyrirvara í kennsluskrá Háskóla Íslands 2008-2009 samþykkt einróma.
2.2 Stjórnir, nefndir og ráð:
a) Listasafn Háskóla Íslands. Kjör eins fulltrúa í stjórn.
Rektor bar upp tillögu um að Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar, taki sæti í stjórn Listasafns Háskóla Íslands í staðinn fyrir Sigrúnu Júlíusdóttur prófessor sem beðist hefur lausnar.
- Samþykkt einróma.
2.3 Erindi frá tannlæknadeild, dags. 15. janúar 2008, um endurskoðun ákvörðunar um fjöldatakmörkun.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir erindi tannlæknadeildar og var það rætt ítarlega.
- Rektor er falið að taka ákvörðun í málinu að fengnum frekari rökstuðningi frá tannlæknadeild.
3. Mál til fróðleiks
3.1 Nýir gestakennarar.
3.2 Fjögur frumvörp um skóla sem lögð hafa verið fram á Alþingi og Háskólinn hefur fengið til umsagnar frá menntamálanefnd þingsins:
- Grunnskólar, 285. mál, (heildarlög).
- Framhaldsskólar, 286. mál, (heildarlög).
- Leikskólar, 287. mál, (heildarlög).
- Menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 288. mál.
3.3 Einkunnaskil í prófum haustmisseris.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.