Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 16. desember 2008

16/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, þriðjudaginn 16. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Ragnhildur Geirsdóttir (varamaður Hilmars B. Janussonar), Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Þórður Sverrisson. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir boðaði forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor stuttlega frá nýafstaðinni heimsókn sinni til Kína í boði þarlendra stjórnvalda í menntamálum sem bera ábyrgð á rekstri Konfúsíusarstofnana um allan heim. Í ferðinni sótti rektor alþjóðlega ráðstefnu Konfúsíusarstofnana í Beijing og ræddi víðtækt samstarf við fulltrúa kínverskra háskóla, en samvinna Háskóla Íslands við kínverskar menntastofnanir hefur aukist stórlega að undanförnu. Konfúsíusarstofnanir eru menntastofnanir sem stuðla að fræðslu um kínverska tungu og menningu. Fyrr á þessu ári var Konfúsíusarstofnunin Norðurljós stofnuð við Háskóla Íslands. Nú eru 8 stúdentar í kínverskum fræðum frá Háskóla Íslands í skiptinámi í Kína. Í ferðinni undirritaði rektor samstarfssamning við Peking háskóla, sem er einn virtasti háskóli í Asíu, og jafnframt við Beijing Foreign Studies University og hitti þar kínverska nemendur sem leggja stund á nám í íslensku. Rektor heimsótti jafnframt Renmin University þar sem lögð voru drög að samstarfi. Samstarfsskólar Háskóla Íslands í Kína eru því nú 7 talsins; auk fyrrnefndra háskóla Fudan University í Shanghai, Ningbo University, Beijing Normal University og Jilin University í Changchun.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á dagskrá

1.1 Fjármál Háskólans.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, sviðsstjóri rekstrar- og tæknisviðs, Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og Jón Atli Benediktsson, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors. Rektor greindi frá boðuðum niðurskurði á fjárveitingum til Háskóla Íslands að fjarhæð tæplega einn milljarður króna skv. endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Guðmundur gerði grein fyrir framlögðum gögnum um hagræðingu og aðhald í rekstri Háskólans, tillögum um skiptingu fjárveitinga, deililíkan og þróun nemenda- og starfsmannafjölda Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor og Guðmundur framkomnum spurningum og athugasemdum ráðsmanna.

1.2 Inntaka nemenda í janúar 2009. Staða mála.

Fyrir fundinum lá minnisblað frá kennslusviði um stöðu umsókna í grunnnám og framhaldsnám við Háskóla Íslands á vormisseri 2009. Í lok umsóknarfrests lágu samtals fyrir 1.625 umsóknir, sem samsvarar um 13% af núverandi stúdentafjölda við Háskólann.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Miðað við þann mikla niðurskurð sem skólinn stendur frammi fyrir er málið grafalvarlegt. Verið er að skoða gaumgæfilega hversu mörgum stúdentum er hægt að bjóða námsvist í hverri grein fyrir sig án þess að komi til skerðingar á námsgæðum. Málið verður afgreitt á fundi ráðsins fimmtudaginn 18. desember nk.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 15.40.