HÍ og Keðjan undirrita samstarfssamning vegna PMTO foreldrafærni
Menntavísindasvið HÍ og Keðjan, starfseining Reykjavíkurborgar sem veitir stuðningsþjónustu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra undirrituðu samstarfssamning á dögunum vegna PMTO foreldrafærni.
„Það er löng hefð fyrir markvissri notkun aðferða PMTO (Parent Management Training – Oregon) í íslensku samfélagi og fjöldi erlendra og íslenskra rannsókna sýna góðan árangur af úrræðinu sjálfu og innleiðingu þess víða um heim,“ segir Margrét Sigmarsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ. Hún segir rannsóknir sýna að með beitingu aðferðarinnar megi draga verulega úr hegðunarerfiðleikum meðal barna auk þess sem félagsfærni þeirra og námsárangur aukist. „Upphaflega var farið af stað með úrræðið hérlendis um aldamótin og þá einkum lögð áhersla á að sinna foreldrum barna á aldrinum 4-12 ára sem sýna hegðunarvanda. Seinna hefur aðferðin svo verið nýtt fyrir aðra hópa og sérstök aðlögun hennar er til staðar fyrir og í samstarfi við skólasamfélagið.“
Margt hefur breyst í áranna rás og fleiri komið að málum. Nýlega var gerður samningur á milli Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Keðjunnar í Reykjavík vegna rannsókna á nýjungum í PMTO innleiðingu á Íslandi en fyrir umleitan mennta- og barnamálaráðuneytisins starfrækir Keðjan í Reykjavík nú miðstöð fyrir PMTO fyrir allt landið. Að þessu sinni er horft sérstaklega til aðlögunar PMTO hópúrræða fyrir foreldra vegna skólaforðunar og í tengslum við markvissari áherslu á tilfinningafærni í skólasamfélaginu. Áður hefur verið markvisst samstarf milli sömu eininga um aðlögun PMTO fyrir flóttafólk í Evrópu (SPARE; Strengthening Parenting among Refugees in Europe) en það verkefni hefur gengið vel og vakið jákvæða athygli.
Á meðfylgjandi mynd eru þær sem voru til staðar þegar samningurinn var undirritaður: Talið frá vinstri þá er það Kristín Harðardóttir, forstöðumaður Menntavísindastofnunar, Margrét Sigmarsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ, Edda Vikar Guðmundsdóttir og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé hjá Keðjunni og Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ.