Skip to main content

Styrkur til náms við Minnesota-háskóla

Styrkur til náms við Minnesota-háskóla  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Auglýst er eftir umsóknum um Val Bjornson styrk til náms við Minnesota-háskóla skólaárið 2024-2025. Nemendur Háskóla Íslands sem sækja um skiptinám við Minnesota-háskóla og þau sem lokið hafa prófgráðu frá HÍ og stefna á fullt framhaldsnám við skólann geta sótt um styrkinn. 

Minnesota-háskóli er mikils metinn rannsóknaháskóli í Minneapolis-St. Paul, stórborg í miðríkjum Bandaríkjanna. Borgin býður upp á fjölbreytt menningarlíf og mikla útivistarmöguleika.

Styrktarsjóður Val Bjornson (Val Bjornson Icelandic Exchange Scholarship Fund) var stofnaður í minningu Valdimars „Val“ Bjornsonar (1906 –1987), fyrrverandi fjármálaráðherra Minnesota-fylkis sem var af íslensku bergi brotinn. Sjóðurinn nýtur mikils stuðnings vestur-íslenska samfélagsins í Minnesota. Val Bjornson styrktarsjóðurinn hefur styrkt íslenska nemendur til náms við Minnesota-háskóla frá árinu 1982. 

Styrkurinn nemur húsnæði, fæði, tryggingu, bókakostnaði o.fl. í eitt námsár. Skólagjöld eru auk þess felld niður. Skilyrði er að nemandi sé íslenskur ríkisborgari og hafi lokið a.m.k. 60 ECTS einingum í námi við Háskóla Íslands, eða hafi brautskráðst frá Háskóla Íslands sé sótt um styrk vegna framhaldsnáms.

Valnefnd styrktarsjóðs Val Bjornsonar metur umsóknir þar sem m.a. er tekið mið af námsferli, framtíðarmarkmiðum, meðmælum og frammistöðu í viðtali ef við á. Nefndin áskilur sér rétt til þess að skipta styrknum milli tveggja nemanda í eitt misseri hvor. Endanlegt val er háð samþykki Minnesota-háskóla.

Umsókn ásamt fylgigögnum (á ensku) skal skila í lokuðu umslagi merkt Minnesota 2024-2025 á Þjónustuborð, Háskólatorgi fyrir lokun fimmtudaginn 1. febrúar, 2024.

Fylgigögn (á ensku):

1. Ferilskrá

2. Kynningarbréf (e. personal statement), þar sem m.a. komi fram rökstuðningur fyrir því hvers vegna umsækjandi stefnir á nám við skólann (300-600 orð)

3. Staðfest námsferilsyfirlit með árangursröðun (e. ranking) - fæst á Þjónustuborði á Háskólatorgi

4. Tvenn meðmæli, a.m.k. önnur frá kennara við deild umsækjanda. Meðmæli sendist beint til Alþjóðasviðs á netfangið ask@hi.is

5. Staðfesting á að sótt hafi verið um skiptinám við Minnesota-háskóla (rafræn umsókn). Áður en sótt er um styrkinn þarf að sækja um skiptinámið

6. Umsækjendur sem stefna á fullt framhaldsnám við Minnesota-háskóla skila inn upplýsingum um námsleið sem sótt hefur verið um. 

Frekari upplýsingar má nálgast hjá Alþjóðasviði á ask@hi.is eða s. 525 4311. 

Umsóknarfrestur er 1. febrúar 2024