Skip to main content
14. maí 2024

Framúrskarandi BS-verkefni í hjúkrunarfræði

Framúrskarandi BS-verkefni í hjúkrunarfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á ráðstefnu Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ, Hjúkrun í fararbroddi, sem haldin var í Eirbergi þann 8. maí voru kynnt fjölmörg áhugaverð BS-verkefni. Þrjú þeirra fengu framúrskarandi góða umsögn og einkunn. Þetta voru eftirfarandi verkefni:

Áhrif krabbemeinsmeðferða á frjósemi kvenna: Hver er árangurinn af frystingu eggfrumna og fósturvísa

Dýrleif Arna Ómarsdóttir, Lovísa Gréta Leifsdóttir, Tinna Sif Arnarsdóttir, Þórey Símonardóttir, Nanna Friðriksdóttir og Sigríður Gunnarsdóttir

Bakgrunnur: Krabbameinsmeðferð getur ógnað frjósemi kvenna sem eru á barneignaraldri. Algengast er að frysta fósturvísa eða eggfrumur til þess að varðveita frjósemi. Mikilvægt er að konur þekki þessa valkosti, fái upplýsingar um þá og líkurnar á barneignum eftir krabbameinsmeðferð.

Tilgangur: Að skoða árangur af frystingu eggfrumna og/eða fósturvísa kvenna sem hafa greinst með krabbamein og farið í krabbameinsmeðferð og bera árangur þeirra saman við árangur kvenna sem ekki hafa gengist undir krabbameinsmeðferð.

Aðferð: Kerfisbundin heimildaleit var gerð í gagnagrunnum PubMed, Scopus og Proquest. Áhersla var á rannsóknir sem voru birtar á tímabilinu 2013-2024 og fjölluðu um árangur af frystingu eggfrumna og/eða fósturvísa hjá konum fyrir krabbameinsmeðferð. Við greiningu heimilda var notað PRISMA-flæðirit og framkvæmt gæðamat, niðurstöður rannsókna voru settar upp í töflur.

Niðurstöður: Fjórtán rannsóknir frá 11 löndum uppfylltu inntökuskilyrði. Tólf þeirra voru aftursýnar og tvær framsýnar. Algengara var að konur frystu fósturvísa. Hlutfall kvenna sem nýttu fósturvísa eða eggfrumur að meðferð lokinni var á bilinu 6,5-50%. Hlutfallsleg þungunartíðni var á bilinu 4-67% og hlutfallsleg tíðni lifandi fæðinga á bilinu 4-50%. Í samanburði við konur sem ekki höfðu fengið krabbamein en fóru í glasafrjóvgun var ekki marktækur munur á fjölda heimtra eggfrumna, lifandi eggfrumna og/eða fósturvísa eftir frystingu, fjölda uppsetninga, þungunartíðni og lifandi fæðingum.

Ályktun: Árangur af frystingu eggfrumna og fósturvísa virðist sambærilegur hjá konum sem hafa farið í krabbameinsmeðferð og hjá öðrum konum en lágt hlutfall nýtti sér úrræðið í kjölfar meðferðar. Þörf er á fleiri rannsóknum á því hvaða árangri varðveisla eggfrumna og fósturvísa fyrir krabbameinsmeðferð skilar. Þá er mikilvægt að útbúa íslenska verkferla fyrir hjúkrunarfræðinga til að vinna eftir, til að auka samfellu í þjónustu og styðja við konur í gegnum varðveitingar- og frjósemisferlið.

Leiðbeinandi: Sigríður Gunnarsdóttir 

Eldri einstaklingar með tíðar komur á bráðamóttöku Landspítala. Lýsandi rannsókn um helstu einkenni, heilsufar, þjónustu og hjúkrunarviðfangsefni

Björk Anne Peiser Ívarsdóttir, Guðlaug Eiríksdóttir, Hrafnhildur Kjartansdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir

Bakgrunnur: Örtröð á bráðamóttökum hefur verið stórt vandamál um allan heim. Rannsóknir benda til að eldri einstaklingar með tíðar komur á bráðamóttöku séu lítill hópur með hlutfallslega margar komur. Eins virðist þessi hópur oft hafa margþætt heilsufarsvandamál sem þarfnast sértækra úrræða og þjónustu.

Tilgangur: Tilgangur þessara rannsóknar var að skoða hvaða þættir gefa forspárgildi um tíðar komur eldri einstaklinga á bráðamóttöku Landspítala. Markmið rannsóknar var að kanna helstu einkenni, heilsufar, þjónustu og hjúkrunarviðfangsefni hjá eldri einstaklingum með tíðar komur á bráðamóttöku.

Aðferð: Rannsóknarsniðið var afturskyggð lýsandi rannsókn með öflun upplýsinga úr rafrænni sjúkraskrá Landspítala um 67 ára og eldri einstaklinga með 10 eða fleiri komur á ári á bráðamóttöku Landspítala á árunum 2017-2021.

Niðurstöður: Alls voru 92 einstaklingar sem uppfylltu skilyrðin fyrir þátttöku í rannsókninni og áttu þeir 1549 komur á bráðamóttöku Landspítala á árunum 2017-2021. Karlar áttu 859 komur (55,5%) og konur áttu 690 (44,5%). Flestir einstaklingar voru á aldursbilinu 75-79 ára (29,3%). Flestir voru með 10-15 komur á ári (78%) en tíðasta gildið var 71 koma á einu ári. Algengustu sjúkdómar einstaklinganna voru hjarta- og æðasjúkdómar (73,9%) og algengustu komuástæður voru vegna mæði/andþyngsla (16%). Flestir einstaklinganna voru með 4-6 langvinna sjúkdóma (48,9%). Algengustu hjúkrunarviðfangsefni voru lífsmarkamælingar (75,9%). Bráðaöldrunarráðgefandi hjúkrunarfræðingur kom að 62,2% málanna og voru flestir þeirra 75 ára eða eldri (85%).

Ályktun: Eldri einstaklinga með tíðar komur á bráðamóttöku Landspítala er lítill hópur sem hefur miklar þjónustuþarfir. Þessi hópur hefur oft fjölþættar áskoranir og krefst því þverfaglegrar nálgunar vegna undirliggjandi heilbrigðisvandamála og félagslegra þátta. Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að skilja betur þarfir og heilsufarsvandamál þessa hóps, svo hægt sé að veita viðeigandi þjónustu á bráðamóttöku.

Leiðbeinandi: Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir 

Tengsl útlimaverkja íslenskra grunnskólabarna við þátttöku þeirra í íþróttum, frístundastarfi og lífsánægju

Elísabet Phuong Vi Davíðsdóttir, Gunnar Árni Konráðsson, Hjálmdís Rún Níelsdóttir, Scott Gribbon og Guðrún Kristjánsdóttir

Tilgangur: Útlimaverkir hjá börnum hafa lítið verið rannsakaðir í gegnum tíðina. Í fyrri rannsóknum falla útlimaverkir gjarnan í flokk stoðkerfisverkja og fjallað um hvort þeir séu í efri eða neðri útlimum. Þá eru útlimaverkir sjaldan meginviðfangsefni rannsókna. Ætla má að rétt eins og aðrir verkir geti útlimaverkir haft víðtæk áhrif á líf barna og valdið langvarandi skaða á heilsu þeirra. Tilgangur þessarar ritgerðar er að skoða tengsl milli útlimaverkja grunnskólabarna og þátttöku þeirra í íþróttum, líkamlegri hreyfingu í frístund og lífsánægju.

Aðferð: Notuð var lýsandi megindleg rannsóknaraðferð í þessari ritgerð. Gögnum, sem nýtt voru við gerð rannsóknarinnar, var safnað með spurningalistakönnuninni Heilsa og lífskjör skólanema. Þátttakendur voru íslensk skólabörn í 6. 8. og 10. bekk. Alls svöruðu 11.019 á árunum 2013 til 2014. Svör barnanna voru unnin með tölfræðiforritinu SPSS út frá fyrir fram ákveðnum breytum og fylgni athuguð. Frumbreytan er útlimaverkur og fylgibreytur voru hversu oft þátttakendur stunduðu líkamsrækt utan skólatíma, líkamsrækt sem veldur áreynslu utan skólatíma, hversu oft þau æfðu/kepptu með íþróttafélagi og mat þeirra á lífsánægju sinni.

Niðurstöður: Af 11.019 þátttakendum nýttust rúmlega 97% svara þeirra. Um algengi útlimaverkja sýndu niðurstöður að 5% skólabarna úrtaksins tjáðu útlimaverki hér um bil daglega, 7,1% oftar en einu sinni í viku, 10,4% vikulega, 18,3% mánaðarlega og 59,3% sjaldan eða aldrei. Marktektarpróf sýndi marktækan mun (p<0,007) á útlimaverkjum milli kynja og að stúlkur upplifðu oftar útlimaverki en drengir. Einnig sýndu niðurstöður að útlimaverkir eru algengari meðal þátttakenda í 8. og 10. bekk heldur en í 6. bekk. Fylgni útlimaverkja og þátttöku í íþróttum var veik og jákvæð (r=0,051, p<0,001). Fylgnin gefur til kynna að tíðni útlimaverkja jókst samhliða aukinni þátttöku í íþróttum hjá úrtakinu. Fylgni útlimaverkja og líkamsræktar í frítíma var veik og neikvæð (r=-0,005, p<0,001). Fylgnin gaf til kynna að tíðni útlimaverkja ykist með minni þátttöku í líkamsrækt utan skólatíma hjá úrtakinu. Fylgni útlimaverkja og lífsánægju var miðlungssterk og jákvæð (r=0,24, p<0,001). Fylgnin gaf til kynna að aukin tíðni útlimaverkja tengdist minni lífsánægju.

Ályktanir: Niðurstöður segja einungis til um tengsl og gefa ekki skýr merki um orsakasamband en draga má þá ályktun að útlimaverkir eru útbreiddir og hafa fjölþætt áhrif á líf barna. Útlimaverkir barna eru hjúkrunarfræðilegt viðfangsefni og mikilvægt fyrir hjúkrunarfræðinga að þekkja líkamleg, sálræn og félagsleg áhrif þeirra.

Leiðbeinandi: Guðrún Kristjánsdóttir 
 

Frá ráðstefnu Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ, Hjúkrun í fararbroddi, sem haldin var í Eirbergi. MYND/Kristinn Ingvarsson
Helga Bragadóttir forseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ í ræðustól. MYND/Kristinn Ingvarsson
Frá ráðstefnu Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ, Hjúkrun í fararbroddi, sem haldin var í Eirbergi. MYND/Kristinn Ingvarsson
Frá ráðstefnu Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ, Hjúkrun í fararbroddi, sem haldin var í Eirbergi. MYND/Kristinn Ingvarsson
Frá ráðstefnu Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ, Hjúkrun í fararbroddi, sem haldin var í Eirbergi. MYND/Kristinn Ingvarsson