Skip to main content
1. maí 2024

Ein af ráðgátum íslenska hafsvæðisins afhjúpuð

Ein af ráðgátum íslenska hafsvæðisins afhjúpuð - á vefsíðu Háskóla Íslands

Haffræðingar á vegum ROCS og Háskóla Íslands greina í fyrsta sinn mikilvægi botnstrauma suður af landinu

Vísindamenn við ROCS (Rannsóknasetur Margrétar II Danadrottingar og frú Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag) og Háskóla Íslands hafa greint flóknar leiðir botnstrauma suður af Íslandi og jafnframt hver hlutur þeirra er í flæði djúpsjávar suður á bóginn í Norður-Atlantshaf. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Frönsku sjómælinga- og haffræðistofnunina. 

Niðurstöður rannsóknarinnar eru mikilvægt framlag til þekkingar á sviði haffræði og loftslags og kunna jafnframt að varpa ljósi á dreifingu botndýra meðfram íslenska landgrunninu. Mjög brýnt er að átta sig betur á straumum á þessum slóðum. Ekki bara fyrir hagræna þætti, þar sem uppvöxtur ýmissa nytjastofna á sér stað að hluta til á grunninu við suðurströnd landsins, heldur ekki síður þar sem breytingar á straumum við landið geta haft alvarlegar hnattrænar afleiðingar. Þetta á m.a. við um loftslag og líffræðilegan fjölbreytileika.

Niðurstöðurnar í rannsókninni voru birtar á dögunum í grein í tímaritinu Geophysical Research Letters. Aðalhöfundar greinarinnar eru Charly de Marez, nýdoktor við ROCS, og Angel Ruiz-Angulo, dósent við Háskóla Íslands og samstarfsaðili ROCS.  Matthieu le Corre, verkfræðingur við Frönsku sjómælinga- og haffræðistofnunina (SHOM), er einnig meðal höfunda. 

Rannsóknin varpar mikilvægu ljósi á gerð og leiðir botnstraums suður af Íslandi og hlut hans í streymi djúpsjávar í Norður-Atlantshaf sem á alþjóðavísu er skammstafað NADW. Það er hluti af lóðréttri hringrás sjávar í Norður-Atlantshafinu. Þessi hringrás er gjarnan kölluð veltihringrásin (AMOC) og er hún hluti af hnattrænni hringrás sjávar og þýðingarmikill þáttur í loftslagskerfi jarðar. 

Greinar af djúpsjávarstraumum blanda neðsta lag sjávar

„Þessi rannsókn sýnir glöggt að á sjávarbotni er sterkur straumur sem flæðir eftir sunnanverðri strandlengju Íslands. Þessi nýja þekking segir okkur fyrst og fremst að við getum enn dregið mikinn lærdóm af hafinu. Það á sérstaklega við um hafið suður af Íslandi en það svæði er enn lítið rannsakað miðað við önnur svæði í Norður-Atlantshafi,” segir Charly de Marez, nýdoktor við ROCS.

Að sögn höfunda eykur rannsóknin þekkingu sem snýr að flutningi djúpsjávar á næringu, varma og kolefni á svæðinu. Hún varpi í fyrsta sinn ljósi á stöðugan botnstraum sem ber eðlisþungan sjó meðfram hryggnum milli Íslands og Færeyja og suðurhluta landgrunnsbrúnarinnar. Rannsóknin sýni jafnframt hvernig straumurinn greinist að lokum í minni strauma við suðurodda landsins. Minni straumarnir dreifi eðlisþungum sjónum í Íslandsdjúp suður af landinu og blandist á leiðinni neðsta lagi sjávar verulega. Það er mögulegt að þetta ferli stuðli að dreifingu botndýra meðfram landgrunninu.

Upphaf mikilvægra rannsókna

Höfundar greinarinnar, sem nefnist á ensku „Structure of the Bottom Boundary Current South of Iceland and Spreading of Deep Waters by Submesoscale Processes“ segja að rannsóknin bæti verulega við skilning á djúpsjávarstraumum í Atlantshafi. Á sama tíma undirstriki hún mikilvægi samfelldra og víðtækra mælinga á eðlisþáttum sjávar á viðamiklu hafsvæði sunnan við Ísland. Þeir benda á að hlutar af veltihringrásinni (AMOC) streymi umhverfis landið og nauðsynlegt sé að fylgjast vel með þessari hringrás því breytingar á henni geti haft alvarlegar hnattrænar afleiðingar, meðal annars fyrir loftslag og líffræðilegan fjölbreytileika. 

„Ég vil taka sérstaklega fram að fyrirbærið sem við lýsum í þessari rannsókn hefur miklar afleiðingar fyrir líf á djúpsævi. Hér má nefna afkomu djúpsjávarkórala og hafsbotninn sjálfan auk varma- og kolefnaflutnings á miklu dýpi. Allir þessir þættir sýna viðbrögð við loftslagsbreytingum af mannavöldum,” segir Charly.

Grein Charly, Angel og Matthieu felur í sér nýstárlegt framlag til rannsókna á sjó sem flæði í Norður-Atlantshaf úr Norður-Íshafinu. Hana má nálgast í opnum aðgangi.
 

Angel Ruiz-Angulo, dósent í haffræði við Háskóla Íslands, og Charly de Marez, nýdoktor við Rannsóknasetur Margrétar II Danadrottingar og frú Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag (ROCS).