Skip to main content
16. maí 2024

Menntastefna og félagslegt réttlæti framhaldsskóla í brennidepli í Netlu

Menntastefna og félagslegt réttlæti framhaldsskóla í brennidepli í Netlu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Komstu inn í rétta framhaldsskólann? Hvað einkennir innritunarkerfið okkar og hvernig hefur það þróast á síðustu áratugum? Er hægt að tala um elítuskóla á Íslandi eða annars staðar Norðurlöndum? Hver er munurinn á finnska og íslenska framhaldsskólakerfinu? Hverjar eru framtíðarvæntingar nemenda af erlendum uppruna við lok grunnskóla? Hvernig er búið að nemendum með þroskahömlun í framhaldsskólakerfinu? Hverjir hagnast mest á innritunarkerfinu eins og það er og hverjir tapa helst? Þessum spurningum var m.a. varpað fram á málþingi RannMennt (Rannsóknarstofa um menntastefnu, alþjóðavæðingu og félagslegt réttlæti) sem fram fór í Stakkahlíð 15. maí í tilefni af nýtútkomnu sérriti Netlu sem ber heitið Framhaldsskólinn, menntastefna og félagslegt réttlæti.
Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, er gestaritstjóri þessa rits og ritar jafnframt eina af fimm fræðigreinum sem þar eru birtarásamt finnsku fræðikonunni Sonju Kosunen. Greinin ber heitið Útvalin og úrvals: Stofnanaháttur elítuskóla og vegferð stúdentsefna í Reykjavík og Helsinki, og Berglind kynnti helstu niðurstöður hennar á málþinginu.

Greinin er hluti af stærri rannsókn á íslenska framhaldsskólavettvanginum. Í henni er rýnt í tvo af þeim tíu framhaldsskólum sem tóku þátt í rannsókninni ásamt gögnum frá Sonju Kosunen um tvo sambærilega skóla Í Helsinki. „Markmið rannsóknarinnar er að greina stofnanahátt (e. institutional habitus; sögulegur arfur stofnunar og dýnamík sem tilteknir menningarhópar eða stéttir bera þangað með sér) aðgangsstífra bóknámsskóla á Íslandi og í Finnlandi úr frá bakgrunni og reynslu nemenda og skoða vegferð þeirra milli framhalds- og háskólastigsins. Nemendurnir hafa verið valdir úr stórum hópi ungmenna til að verða „úrvals“ eða „framúrskarandi“ fólk og ákváðum við að skoða upplifun stúdentsefna úr fjórum framhaldsskólum við lok námstímans í gegnum hálfstöðluð einstaklingsviðtöl við tuttugu nemendur á Íslandi og Finnlandi. Niðurstöðurnar benda til að stofnanaháttur skólanna sé keimlíkur en finnsku nemendurnir þurftu þó að laga sig meira að afar þröngum akademískum viðmiðum,“ segir Berglind Rós.

Svigrúm um námshegðun meira hér en í Finnlandi

Á Norðurlöndunum eins og annars staðar hefur aðgengi að bóknámi opnast til muna. Þessi þróun þekkingarhagkerfisins hefur breytt afstöðu milli stofnana og gerenda á menntavettvanginum. Aðgreining milli hópa mótast nú meira innan menntakerfisins, þ.e. milli skólastofnana og greinasviða háskóla, en í gegnum útilokun fólks frá framhalds- og háskólakerfinu.

Á Íslandi virðist meira svigrúm vera um námshegðun og hér vinna nemendur með námi sem tíðkast alls ekki meðal nemenda í hátt skrifuðum skólum í Finnlandi. Einnig virtist félagslíf innan skólanna blómlegra hér á landi. Í greininni segir að samræmt stúdentspróf og þröng inntökuskilyrði finnska háskólastigsins skapi þar mikið aðhald. Stofnanaháttur íslensku skólanna feli engu að síður í sér aðgengi að auðmagni sem nemendur gátu notað til að skapa sér yfirburðastöðu í félagsheimi ungmenna og nauðsynlega yfirsýn og þekkingu á framtíðarmöguleikum um frekara nám og störf. Eins var ljóst að námskrá og áherslur hátt skrifaðra skóla í Helsinki og Reykjavík kristölluðust vel í vali á háskólanámi nemenda, sem flest völdu sér stöðu- eða kanónugreinar en þar er átt við háskólanám með fjöldatakmörkunum eða þröngum inntökuskilyrðum, s.s. læknisfræði og verkfræði, eða krefjast mikillar tileinkunar og hafa almennt gildi, s.s. heimspeki eða sjaldgæf tungumál. Berglind segir niðurstöður gefa vísbendingar um að stofnanaháttur framhaldsskólanna skapi ásamt arfbundnu auðmagni forsendur fyrir tilteknum smekk og aðgengi að háskólanámi og aðgreiningu sem viðhaldi félagslegri mismunun og í þeim skilningi séu skólarnir elítustofnanir.

Hátt í 60 manns sóttu málþingið, þ.á m. starfandi framhaldsskólakennarar, skólameistarar, stefnumótunaraðilar úr menntakerfinu auk rannsakenda í menntavísindum 

Opið markaðskerfi innritunar ekki það jöfnunartæki sem vænst var

Berglind Rós segir niðurstöðurnar skiptast í fjóra kafla og fangi hver um sig ákveðinn þátt í stofnanahætti skólanna. „Fyrst er fjallað um bakgrunn nemenda og hvernig samanlögð áhrif auðmagns skólasamfélagsins mótar skólastofnun og yfirbragð hennar að mati nemenda. Einnig er fjallað um innritunarreglur, námskrá skólanna og hugmyndir um námshegðun sem aðgreinir innherja og þau sem teljast ekki hæf til að vera í skólanum. Samkvæmt rannsókn Kristjönu Stellu Blöndal og samstarfsfólks, sem Guðrún Ragnarsdóttir kynnti á málþinginu, er bakgrunnur nemenda í hæst skrifuðu skólunum afar einsleitur þegar kemur að efnahags- og félagsstöðu og menntabakgrunni foreldra. Að endingu er fjallað um val á háskólanámi og framtíð og hvernig það markast af arfbundnu auðmagni og stofnanahætti skólans,“ segir Berglind Rós.

Hún setti fram í erindi sínu helstu einkenni elítuskóla:

  • Sjálfsmyndarsköpun elítu fer að hluta fram í gegnum menntakerfið, sérstaklega menningar- og menntaelítu. 
  • Elítur eru ríkjandi í því félagslega rými sem franski fræðimaðurinn Pierre Bourdieu kallaði vettvang valdsins en þar er félagsleg og landfræðileg samþjöppun auðmagnsins mest og birtist m.a. innan ákveðinna skóla og hverfa á höfuðborgarsvæðinu. 
  • Elítuskólar skapa aukið aðgengi að verðugum starfsframa.
  • Þeir skapa verðmætan félagsauð til framtíðar, m.a. með mikilli félagslegri og námslegri helgun nemenda á námstímanum.
  • Stofnanaháttur elítuskóla felur í sér námsvenjur og námskrá sem er í takti við háskólanám í stöðugreinum/kanónugreinum
  • Veruháttur stofnunar og veruháttur nemenda þurfa að vera í samhljómi og styðja og viðhalda hvor öðrum. 
  • Þau sem hafa útskrifast úr elítuskólum hafa hlutfallslega mikil tengsl við valdastofnanir í samfélaginu og virðingarverða titla og viðurkenningar (e. nobility).

En hvaða þýðingu ætli rannsókn Berglindar Rósar og Sonju fyrir menntakerfið og menntastefnumótun?

„Á Norðurlöndunum eins og annars staðar hefur aðgengi að bóknámi opnast til muna. Þessi þróun þekkingarhagkerfisins hefur breytt afstöðu milli stofnana og gerenda á menntavettvanginum. Aðgreining milli hópa mótast nú meira innan menntakerfisins, þ.e. milli skólastofnana og greinasviða háskóla, en í gegnum útilokun fólks frá framhalds- og háskólakerfinu. Á sama tíma hefur innritunarkerfum verið breytt þannig að framhaldsskólar eru eitt markaðshagkerfi þar sem nemendur raðast í skóla eftir einkunnum og það sett fram sem stefnumið í átt að auknu félagslegu réttlæti. Þessir menntastraumar eru alþjóðlegir og einkenna einnig finnska kerfið. Bourdieu sýndi fram á í sínum rannsóknum að þegar aðgengi er opnað og verður almennara haldast eftir sem áður skýr tengsl milli ríkjandi hópa og tiltekinna skólastofnana eins og niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á. Opið markaðskerfi innritunar virðist ekki vera það jöfnunartæki sem talsmenn þess væntu ef marka má greinar Kristjönu Stellu o.fl og Magnúsar Þorkelssonar og fjölda erlendra rannsókna,“ segir Berglind Rós.

Rannsóknin sýnir einnig að flestir nemendur eru reiðubúnir til að leggja mikið á sig til að laga sig að menningu skólans því skólavistin gefur nemendum aukið virði (elítustöðu) þegar í aðgangsstífa skólann er komið. „Til þess fá þau gjarnan leiðsögn frá innherjum sem eru ýmist fjölskylda, skólafélagar eða vinir. Þau sem voru innflytjendur og börn verkafólks voru þau einu sem höfðu ekki náð að „ganga í takt“, voru með óljósar framtíðarhugmyndir og almennt lítið tengd. Þau voru engu að síður framúrskarandi námsmenn sem voru að ljúka stúdentsprófi úr þessum skólum. Aukið aðgengi að framhalds- og háskólamenntun almennt þarf ekki að þýða að gamla stigveldið milli hópa breytist verulega. Í norræna líkaninu eru tilfærslur, samþjöppun og nýting á auðmagni meira falin en víða annars staðar en engu að síður til staðar,“ segir Berglind Rós.

Hátt í 60 manns sóttu málþingið, þ.á m. starfandi framhaldsskólakennarar, skólameistarar, stefnumótunaraðilar úr menntakerfinu auk rannsakenda í menntavísindum og er augljóst að félagslegt réttlæti og menntastefnur tengdar framhaldsskólanum er heitt og mikilvægt umræðuefni innan menntakerfisins. Þess ber að geta höfundar allra greina í tilteknu sérriti Netlu voru á staðnum og kynntu megininntak og niðurstöður greina sinna. Höfundar og heiti eru eftirfarandi:  

  • Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við HÍ, og Sonja Kosunen, prófessor við Háskólann í Austur-Finnlandi. Útvalin og úrvals: Stofnanaháttur elítuskóla og vegferð stúdentsefna í Reykjavík og Helsinki.
  • Kristjana Stella Blöndal, dósent við HÍ, Elsa Eiríksdóttir, dósent við HÍ, og Guðrún Ragnarsdóttir, dósent við HÍ. Stigveldi framhaldsskóla: Frjálst skólaval ýtir undir og endurskapar félgslega lagskiptingu.
  • Anna Björk Sverrisdóttir, lektor við HÍ. Áskoranir og tækifæri í skipulagi náms nemenda með þroskahömlun á framhaldsskólastigi.
  • Eva Dögg Sigurðardóttir, aðjúnkt við HÍ. Brothættir menntunarmöguleikar nemenda af erlendum uppruna við lok grunnskóla: málamiðlun framtíðarvona.
  • Magnús Þorkelsson, fyrrverandi skólameistari og doktorsnemi við HÍ, og Gunnlaugur Magnússon, dósent við Háskólann í Uppsölum. Að eiga frjálst val um framhaldsskóla? Markaðsvæðing innritunar nýnema í íslenskum framhaldsskólum.

Rannsóknarstofan RannMennt stóð fyrir málþinginu og prentun sérritsins en  eintak af því verður sent í alla framhaldsskóla landsins. Ritið má finnaí heild sinni hér á vef Netlu.

Anna Björk Sverrisdóttir, lektor við HÍ, Magnús Þorkelsson, fyrrum skólameistari og doktorsnemi við HÍ, Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við HÍ, Guðrún Ragnarsdóttir dósent við HÍ, Eva Dögg Sigurðardóttir, aðjúnkt við HÍ, Gerður G. Óskarsdóttir, Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, faglegir ritstjórar Netlu og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.
Greinahöfundar sérrits Netlu: Anna Björk Sverrisdóttir, lektor við HÍ, Magnús Þorkelsson, fyrrum skólameistari og doktorsnemi við HÍ, Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við HÍ, Guðrún Ragnarsdóttir dósent við HÍ og Eva Dögg Sigurðardóttir, aðjúnkt við HÍ.
Hátt í 60 manns sóttu málþingið, þ.á m. starfandi framhaldsskólakennarar, skólameistarar, stefnumótunaraðilar úr menntakerfinu auk rannsakenda í menntavísindum
Sérrit Netlu - Framhaldsskólinn - Menntastefna og félagslegt réttlæti