Stefna HÍ fyrir árin 2021-2026 ber yfirskriftina „Betri háskóli – betra samfélag“ og undirstrikar hún það mikilvæga hlutverk sem Háskólinn hefur í þágu framþróunar samfélaga og þekkingarsköpunar í heiminum. Smelltu hér til að skoða heildarstefnu Háskóla Íslands, HÍ26. Leiðarljós HÍ 26 Gæði Við tryggjum gæði á öllum sviðum starfsins til að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni í kennslu og rannsóknum. Traust Við erum ábyrg og meðvituð um samfélagslegt mikilvægi skólans sem laða að starfsfólk og nemendur með fjölbreyttan bakgrunn. Snerpa Við ryðjum hindrunum í samstarfi úr vegi og tökum frumkvæði til að mæta breytingum og áskorunum innan skólans og í samfélaginu. Áherslur í starfi skólans 2021-2026 Opinn og alþjóðlegur Við eigum samstarf þvert á einingar skólans og í frjóu samtali og samstarfi við samfélag, atvinnulíf og háskóla um heim allan. Markmið: Þverfaglegt starf Umgjörð starfsins styðji í hvívetna við þverfaglegt samstarf í kennslu, rannsóknum og öllu starfi skólans. Alþjóðatengsl Sameiginlegum námsleiðum með erlendum háskólum verði fjölgað, tækifæri til skiptináms aukin og stutt við alþjóðlegt rannsóknasamstarf. Nýsköpun og framfarir Umhverfi nýsköpunar nemenda og rannsakenda verði eflt í samstarfi við Vísindagarða, atvinnulíf og samfélag. Stuðlað verði að eflingu íslenskunnar í heimi breytinga. Starfshæfni nemenda Aðgengi að símenntun verði eflt og áhersla lögð á hæfni nemenda til að takast á við fjölbreytt störf og áskoranir í kvikum og tæknivæddum heimi. Mælikvarðar: Ritrýndar birtingar í erlendu samstarfi. Nemendur sem taka hluta náms við erlenda háskóla. Einkaleyfi, nytjaleyfi og sprotafyrirtæki. Mat útskrifaðra nemenda á undirbúningi þeirra fyrir starf. Sjálfbærni og fjölbreytileiki Við erum fjölbreyttur hópur starfsfólks og nemenda sem leggur áherslu á að nám og rannsóknir mæti þörfum íslensks samfélags og atvinnulífs og stuðli að sjálfbærum heimi. Markmið: Þekking í þágu sjálfbærs samfélags Háskólinn verði leiðandi á sviði sjálfbærni í krafti kennslu, rannsókna og þekkingarsköpunar. Sjálfbær starfsemi Skólinn verði í forystu í sjálfbærri starfsemi og setji sér mælanleg markmið á sviði kolefnishlutleysis á stefnutímabilinu sem byggi á markmiðum Íslands í þeim málaflokki. Fjölbreytt háskólasamfélag Háskólinn verði enn betri vinnustaður sem tryggi jafnrétti og fjölbreyttan bakgrunn nemenda og starfsfólks. Stutt verði sérstaklega við nemendur af erlendum uppruna og áhersla lögð á fjölbreytileika nemendahópsins. Samstarf við samfélagið Kortlagning á hagsmunaaðilum og áætlun og aukinn stuðningur við miðlun og samstarf, með áherslu á milliliðalaust samtal rannsakenda og samfélags til að bregðast við falsfréttum, auka traust á vísindum og undirbyggja opinbera stefnumótun. Mælikvarðar: Framlag kennslu og rannsókna til heimsmarkmiða samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum. Kolefnisfótspor vegna samgöngumáta og starfsemi. Kynjahlutfall meðal nemenda eftir deildum og hlutfall innflytjenda af nemendahópnum. Ritrýndar birtingar með atvinnulífi. Samstarf við opinberar stofnanir og framkoma fræðafólks á innlendum vettvangi. Afl á grunni gæða Með áherslu á gæði og stöðugar umbætur í öllu okkar starfi rækjum við af ábyrgð hlutverk okkar sem drifkraftur framfara. Markmið: Notendamiðuð þjónusta Notendamiðuð þjónusta sem byggir á þörfum nemenda, starfsfólks og stjórnenda verði í forgrunni í starfsemi skólans með stafrænni umbreytingu. Gæði náms í fyrirrúmi Kennsluhættir og námsframboð verði í sífelldri þróun og burðarstólpi í gæðastarfi skólans með námsánægju og gæði að leiðarljósi. Áhersla verði á þróun stafrænna kennsluhátta, fjarnáms og opinna netnámskeiða. Vandað framhaldsnám Áhersla verði lögð á að styrkja umgjörð og fjármögnun doktorsnáms og að námsframboð á meistarastigi verði eflt. Framúrskarandi vísindi Stuðningur við rannsakendur verði efldur með bættu aðgengi að styrkjum og rannsóknainnviðum, sem og opnum og betri aðgangi að rannsóknagögnum og niðurstöðum. Mælikvarðar: Ánægja starfsfólks með þjónustu skólans. Námsánægja á öllum námsstigum. Brautskráningarhlutfall. Traust almennings til Háskóla Íslands. Einkunn Gæðaráðs íslenskra háskóla. Staða skólans á alþjóðlegum matslistum. Góður vinnustaður Við byggjum upp trausta innviði sem styðja við alla starfsemi skólans og gera nemendum og starfsfólki kleift að blómstra. Markmið: Mannauður og starfsgleði Stuðlað verði að hvetjandi starfsumhverfi með vellíðan nemenda og starfsfólks að leiðarljósi, sem laðar til sín metnaðarfullt fólk með fjölbreyttan bakgrunn. Stjórnun verði efld með stuðningi, styrkari umgjörð, fræðslu og þjálfun. Innviðir rannsókna og kennslu Rannsóknainnviðir, aðstaða og húsnæði styðji við markmið um framþróun rannsókna og kennslu, svo og þverfræðilegt starf og gæði í starfsemi skólans. Farsælt háskólasvæði Heildstæð sýn á skipulag háskólasvæðisins stuðli að jöfnu aðgengi og samheldnu þekkingarsamfélagi nemenda og starfsfólks af öllum fræðasviðum. Algild hönnun, vistvænar samgöngur og grænar tengingar verði í forgrunni. Fjármál og rekstur Fjármögnun, hagræði og skilvirkni í rekstri verði tryggð. Fjármögnun og launasetning endurspegli stefnu skólans. Mælikvarðar: Ánægja í starfi. Álag og streita í starfi. Kynbundinn munur á launum og eftir starfsheitum. Ánægja starfsfólks með stuðning við rannsóknir. Opinber framlög og sjálfsaflafé í samanburði við háskóla á Norðurlöndum. HÍ og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna Skírskotun til heimsmarkmiðanna Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun taka til helstu áskorana sem mannkyn stendur frammi fyrir og munu skipta sköpum fyrir lífsskilyrði okkar á jörðinni í framtíðinni. Háskólar eru þekkingarveitur sem gegna lykilhlutverki í leitinni að svörum við þessum áskorunum. HÍ26 hefur sterka skírskotun til heimsmarkmiðanna. Sjálfbærni og fjölbreytileiki er ein af fjórum megináherslum stefnunnar sem felur í sér að sjálfbærni er lögð til grundvallar í allri starfsemi skólans. Tvö markmið vega hér þyngst. Annars vegar að Háskóli Íslands verði leiðandi á sviði sjálfbærni í krafti kennslu, rannsókna og þekkingarsköpunar og hins vegar að hann taki forystu um sjálfbæra starfsemi og kolefnishlutleysi. Þekkingarsköpun, rannsóknir og kennsla við skólann hafa víðtæk áhrif og nýtast til að styðja við jafnrétti, lýðheilsu, glímuna við loftslagsvá, farsæla samfélagsþróun, sjálfbæran efnahagslegan stöðugleika og nýsköpun á öllum sviðum samfélags og atvinnulífs. Með þessu leggur háskólasamfélagið dýrmætt lóð á vogarskálar heimsmarkmiðanna. Háskóli Íslands, í samstarfi við erlenda samstarfsskóla, hefur nýverið ráðist í að kortleggja nánar framlag rannsókna og kennslu til heimsmarkmiðanna. Niðurstöðurnar verða birtar í sérstökum mælaborðum sem gefa skýra og yfirgripsmikla mynd af framlagi Háskóla Íslands til brýnna úrlausnarefna og sem verða notuð til að styðja við áframhaldandi þróun starfseminnar í þágu heimsmarkmiðanna. Alþjóðlegir matslistar um gæði háskóla taka í auknum mæli til samfélagslegra áhrifa þeirra. Árið 2021 var Háskóli Íslands þriðja árið í röð á lista tímaritsins Times Higher Education yfir þá háskóla í heiminum sem hafa mest samfélagsleg og efnahagsleg áhrif með tilliti til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Listinn nefnist University Impact Rankings og byggist á mati á því hvernig háskólar uppfylla mælikvarða sem snerta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif auk framlags til heimsmarkmiðanna. Í nýrri stefnu Háskóla Íslands eru sett fram metnaðarfull markmið sem varða þróun kennslu, rannsókna, nýsköpun og aðra starfsemi. Stefnan gerir skólanum kleift að rækja forystuhlutverk sitt varðandi sjálfbæra þróun í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við fjölmiðla, samfélag, atvinnulíf og stjórnvöld, íslensku samfélagi og heiminum öllum til hagsbóta. Fyrri stefnur HÍ 2016-2021 HÍ26: Betri háskóli - betra samfélag facebooklinkedintwitter