Skip to main content
30. apríl 2024

Háskólalestin heimsækir Höfn og Húsavík í maí

Háskólalestin heimsækir Höfn og Húsavík í maí - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vorið er komið og það þýðir aðeins eitt, Háskólalestin brunar af stað í sína árlegu ferð og mun heimsækja Höfn í Hornafirði og Húsavík í maí. 

Í Háskólalestinni er boðið upp á fjölbreytt og spennandi námskeið og smiðjur úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur. Megináhersla Háskólalestarinnar er að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl við landsmenn á öllum aldri. 

Í áhöfn lestarinnar eru margreyndir kennarar og nemendur við Háskóla Íslands og eru landsfrægir kennarar með í för eins og hinn margverðlaunaði Sævar Helgi Bragason, eða Stjörnu-Sævar, sem verður með stjörnufræðikennslu, og Sprengju-Kata, eða Katrín Lilja Sigurðardóttir, sem verður með kennslu í efnafræði. 

Ávallt er boðið er upp á fjölbreytt námskeið af fræðasviðum Háskólans. Til viðbótar við námskeiðahald fyrir nemendur er boðið upp á kennarasmiðjur þar sem áhugasamir kennarar á hverjum stað geta hitt fræðafólk Háskólans. Þá er einnig boðið upp á opið vísindahús þar sem heimamönnum á öllum aldri gefst kostur á því að koma og hitta kennara og fræðafólk og kynnast undrum vísindanna með gagnvirkum og lifandi hætti.

Háskólalestin hefur yfirreið sína með heimsókn á Höfn í Hornafirði föstudaginn 3. maí. Eftir kennslu fyrir grunnskólanemendur fyrri part dags verður opið vísindahús í Heppuskóla kl. 13.50-15.00. Þar býðst öllum, ungum sem öldnum, að kíkja inn í kennslustofur og spjalla við fræðafólkið og kynnast undrum vísindanna með gagnvirkum og lifandi hætti.

Þá verður áhöfn lestarinnar á Húsavík miðvikudaginn 22. maí og opið vísindahús í Borgarhólsskóla fyrir allt samfélagið kl. 16-17. Lestin verður svo aftur á ferðinni snemma í haust þegar skólastarf er hafið á ný eftir sumarleyfi.

Háskólestin, sem fengið hefur Vísindamiðlunarverðlaun Rannís, hefur heimsótt hátt í 40 áfangastaði um allt land frá árinu 2011 og ávallt fengið einstaklega hlýjar móttökur heimamanna. Allt starf lestarinnar er skipulagt í samstarfi við sveitarfélög og skóla hvers áfangastaðar og er skólum og nemendum að kostnaðarlausu.

Hægt verður að fylgjast með ferðum lestarinnar á vefsíðu hennar og á Facebook-síðu.
 

Háskóli unga fólksins