Rússneska - Grunndiplóma
Rússneska
Grunndiplóma – 60 einingar
Rússneska er eitt af útbreiddustu tungumálum veraldar og hafa um 150 milljónir manna rússnesku að móðurmáli. Kunnátta í rússnesku er mikilvæg fyrir pólitísk, efnahagsleg og ekki síst menningarleg samskipti við Rússland, löndin sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og Austur-Evrópu.
Skipulag náms
- Haust
- Rússnesk málfræði IE
- Rússnesk málnotkun IE
- Rússneskar bókmenntir I: 19. öld
- Vor
- Rússnesk málfræði IIE
- Rússnesk málnotkun IIE
- Rússland á tuttugustu öld: Sovétsaga
Rússnesk málfræði I (RÚS103G)
Inntak / viðfangsefni:
Ítarlega er farið yfir stafrófið, framburðar- og réttritunarreglur. Farið verður í orðaforða og málfræði sem ætlaður rússneskunemum á byrjendastigi, s.s.:
- nafnorð, lýsingarorð og fornöfn í nefnifalli eintölu og fleirtölu
- beyging nafnorða og fornafna í eintölu
- töluorð (1-1000)
- nútíðarbeyging sagna
- þátíðar- og framtíðarmyndun sagna og algengustu notkun sagnhorfa í nútíð og þátíð.
Nemendur fá einnig þjálfun í að setja fram einfaldar spurningar og svör og byrjað verður að kynna setningafræði einfaldra og samsettra setninga.
Áhersla er lögð á skriftarþjálfun.
Í námskeiðinu er farið yfir meginhluta þess efnis sem ætlaður er til að ná þekkingu á stigi A1.
Samhliða þessu námskeiði er gert ráð fyrir að byrjendur í rússnesku taki einnig námskeiðið RÚS104G: Rússnesk málnotkun I.
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi tal- og málfræðiþjálfun. Málfræði og málnotkun fléttast saman í kennslu. Kennsluefni byggir á töflum og yfirliti yfir málfræði, textum og æfingum af ýmsu tagi. Unnið verður með munnlegar og skriflegar æfingar. Æfingarnar byggja á orðaforða og málfræði sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að kunna skil á.
Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu.
Rússnesk málnotkun I (RÚS104G)
Inntak / viðfangsefni:
Ítarlega er farið yfir stafrófið og framburðarreglur. Farið verður í orðaforða sem ætlaður rússneskunemum á byrjendastigi. Nemendur fá þjálfun í að setja fram einfaldar spurningar og svör, halda uppi einföldum samræðum, segja frá sjálfum sér, fjölskyldu sinni, áhugamálum og nærumhverfi, endursegja texta og fjalla um þá. Byggt er á þeirri málfræði sem unnið er með í RÚS103G: Rússneskri málfræði I.
Byrjað verður að kynna setningafræði einfaldra og samsettra setninga. Áhersla er lögð á tal-, hlustunar- og skriftarþjálfun.
- Í námskeiðinu er farið yfir meginhluta þess efnis sem ætlaður er til að ná þekkingu á stigi A1.
- Samhliða þessu námskeiði er byrjendum í rússnesku skylt að taka námskeiðið RÚS103G: Rússnesk málfræði I.
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi tal- og málfræðiþjálfun. Kennsluefni byggir textum og æfingum af ýmsu tagi. Unnið verður með munnlegar og skriflegar æfingar. Æfingarnar byggja á orðaforða og málfræði sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að kunna skil á.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu.
- Auk hefðbundinnar kennslu eru vikulegir tímar í málveri, sem er hluti af námskeiðinu.
Rússneskar bókmenntir I: 19. öld (RÚS106G, RÚS201G)
Fjallað verður um strauma og stefnur í rússneskum bókmenntum á 19. öld og upphafi þeirrar 20. Lesnir verða valdir textar og verk í íslenskum eða enskum þýðingum. Fjallað verður um verkin og höfunda þeirra (Púshkín, Lermontov, Gogol, Túrgenev, Dostojevskí, Tolstoj, Tsjekhov o.fl.), sem og hlutverk og stöðu bókmennta í samfélagsumræðu í Rússlandi á gullöld rússneskra bókmennta á 19. öld og við aldahvörf.
Kennsluhættir / vinnulag:
Kennsla byggir á fyrirlestrum og umræðum.
Námskeiðið er kennt á íslensku.
Rússnesk málfræði II (RÚS203G)
Inntak / viðfangsefni:
Námskeiðið byggist á orðaforða og málfræði sem ætluð er nemendum á grunnstigi. Fjallað verður um beygingu nafnorða, lýsingarorða og fornafna í fleirtölu; raðtölur, hreyfisagnir án forskeyta og notkun sagnhorfa í nafnhætti og boðhætti. Byrjað verður að fjalla um setningafræði samsettra setninga: aðalsetningar með aðaltengingu, og aðalsetningar með aukasetningu (tilvísunar-, skilyrðis- og tilgangssetningar).
- Í námskeiðinu er lokið við að fara yfir málfræði á stigi A1 og farið yfir megin hluta þeirrar málfræði sem tilheyrir stigi A2.
- Samhliða þessu námskeiði er byrjendum í rússnesku skylt að taka námskeiðið Rússnesk málnotkun II: RÚS204G
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi tal- og málfræðiþjálfun. Málfræði og málnotkun fléttast saman í kennslu. Kennsluefni byggir á töflum og yfirliti yfir málfræði og textum af ýmsu tagi. Unnið verður með munnlegar og skriflegar æfingar. Æfingarnar byggja á orðaforða og málfræði sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að kunna skil á. Lesnir verða textar um tiltekin efni og unnið með þá á ýmsan hátt – einkum skriflega.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu.
- Auk hefðbundinnar kennslu í málfræði eru haldnir vikulegir málfræðiæfingatímar.
Rússnesk málnotkun II (RÚS204G)
Inntak/viðfangsefni:
Nemendur fá áframhaldandi þjálfun í skrift, lestri og talmáli, þannig að þeir nái tökum á að skilja og taka þátt í samræðum um hversdagsleg og menningartengd efni. Námsefnið byggir á þematísku efni; þ.e. unnið verður með ákveðin þemu sem nemendum er ætlað að geta fjallað um í samtölum, sem og munnlegri og skriflegri frásögn, (áhugamál, nám, söfn, leikhús, kvikmyndir o.fl.). Í því efni sem lagt verður fyrir er fjallað m.a. um sögu og menningu Rússlands. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfa framburð og tónfall, bæði í talmáli og lestri.
- Í námskeiðinu er lokið við að fara yfir málnotkunarefni á stigi A1 og farið yfir megin hluta þess efnis sem tilheyrir stigi A2.
- Samhliða þessu námskeiði er byrjendum í rússnesku skylt að taka námskeiðið Rússnesk málfræði II: RÚS203G
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi talþjálfun. Málfræði og málnotkun fléttast saman í kennslu. Unnið verður með munnlegar og skriflegar æfingar. Æfingarnar byggja á orðaforða og málfræði sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að kunna skil á. Lesnir verða textar um tiltekin efni og fjallað um þá í frásögn og samtölum.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu.
- Auk hefðbundinnar kennslu í málnotkun eru vikulegir æfingatímar í málveri.
Rússland á tuttugustu öld: Sovétsaga (RÚS206G, RÚS210G)
Í námskeiðinu er sögu Rússlands á tuttugustu öld gerð skil. Fjallað er um byltinguna 1917, borgarastríðið 1918-1922, Sovétríkin 1922-1991 og ástand mála eftir hrun þeirra. Megináhersla er á samfélagsþróun þriðja og fjórða áratugarins og þjóðfélagshræringar samyrkju- og iðnvæðingar. Tímabil stalínismans er rætt ítarlega, þar á meðal fangabúðakerfið og hreinsanirnar miklu. Þá er fjallað um alþjóðlega stöðu Sovétríkjanna, þar á meðal hugmyndafræðileg áhrif Sovéska kommúnistaflokksins og Alþjóðasambands kommúnista. Sovéskt samfélag og menning fær nokkra umfjöllun, samfélagsbreytingar í valdatíð Khrúsjovs, „stöðnunartíð“ Brezhnev-tímabilsins og ástand Sovétríkjanna á níunda áratugnum þegar endalokin færðust nær. Í lok námskeiðsins er horft til rússnesks samfélags, menningar og stjórnmála í dag og hugað að því að hve miklu leyti sovéskir stjórnarhættir hafa varðveist eða verið endurvaktir.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.