Skip to main content
14. maí 2024

Sjálfvirkt kóðunarkerfi fyrir sjúkraskrár hlaut Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ

Sjálfvirkt kóðunarkerfi fyrir sjúkraskrár hlaut Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sjálfvirkt kerfi sem getur kóðað sjúkraskýrslur á íslensku samkvæmt alþjóðlegu ICD-kóðunarkerfi bar sigur úr býtum í samkeppninni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands 2024. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Aðalbyggingar skólans í dag. Þrjú önnur verkefni nemenda og starfsfólks skólans voru einnig verðlaunuð en þau fela í sér nýja aðferð við föngun kolefnis, rannsókn á gervigreind í gegnum þróun snjallhljóðfæra og drónasegulmælingar sem geta flýtt fyrir greiningu á sprungum eins og þeim sem myndast hafa í umbrotunum í og við Grindavík undanfarin misseri.

Verðlaunin, sem hétu áður Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands, voru nú veitt í 26. sinn. Frá upphafi hafa verðlaunin verið hluti af stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi en mikilvægt er að styðja við nýsköpun þar sem hún getur falið í sér gríðarleg verðmæti og haft jákvæð áhrif á íslenskt hagkerfi. Samkeppnin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Árnason|Faktor og Auðnu-tæknitorgs og verðlaunaafhendingin er hluti af nýsköpunarvikunni Iceland Innovation Week 2024.

Nærri 40 tillögur bárust í samkeppnina að þessu sinni og veitt voru verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun auk þess sem sigurvegari keppninnar í heild var valinn úr hópi verðlaunahafa úr ofangreindum flokkum. Við mat á umsóknum tók dómnefndin einkum mið af nýnæmi og frumleika, útfærslu, samfélagslegum áhrifum, meðal annars út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og skoðaði hvort verkefnin væru í samræmi við stefnu skólans og styddu við starfsemi hans.

sigurvegarar

Haraldur Orri Hauksson og Hafsteinn Einarsson taka við viðurkenningu úr hendi Jóns Atla Benediktssonar.

Í flokknum Heilsa og heilbrigði hlaut verkefnið „Sjálfvirk kóðun á íslenskum sjúkraskrám“ verðlaun að upphæð 1,5 milljón króna. Það var jafnframt sigurvegari keppninnar í ár og hlutu aðstandendur þess því eina milljón króna til viðbótar í verðlaunafé. Að verkefninu standa Hafsteinn Einarsson, lektor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Haraldur Orri Hauksson, meistaranemi við ETH-háskólann í Zürich.

Verkefnið snýst um að þróa sjálfvirkt kóðunarkerfi fyrir sjúkraskrár á íslensku með notkun íslenskra mállíkana. Markmið verkefnisins er að auka skilvirkni og nákvæmni sjúkraskráningar með því að styðja heilbrigðisstarfsfólk við kóðun og bæta þar með gæði kóðunar í íslenskum sjúkraskrám. Afurð verkefnisins er mállíkan fyrir íslensku sem getur kóðað sjúkraskýrslur samkvæmt alþjóðlegu ICD-kóðunarkerfi með svipaðri nákvæmni og náðst hefur fyrir ensku. Það var mat dómnefndar að hagnýtingargildi og nýnæmi verkefnisins væri mikið. Verkefnið nýtti tækni með nýjum hætti til að styrkja heilbrigðiskerfið í heild sinni, hefði mikinn ávinning fyrir samfélagið og gæti jafnframt leitt af sér afurðir sem myndu nýtast í alþjóðlegu samhengi. 

xia

Lingxe Guan tekur við viðurkenningunni úr hendi Jóns Atla Benediktssonar.

Hlutskarpast í flokknum Tækni og framfarir var verkefnið „Integrating Pressure-Retarded Osmosis with Direct Air Capture Process for Electricity Production and Decarbonization“ og hlaut verðlaun að upphæð 1,5 milljónir króna. Að verkefninu standa Lingxe Guan doktorsnemi og Bing Wu, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, en aðrir samstarfsaðilar eru Xia Huang, prófessor við Tsinghua-háskóla í Kína; Tzyy Haur Chong, dósent við Nanyang-tækniháskólann í Singapúr, og Tian Li, dósent við Tongji-háskóla í Kína.

Kolefnisföngunartækni sem dregur úr kolefnislosun og stuðlar að auknum árangri í loftslagsaðgerðum er því miður oft orkufrek. Í þessu verkefni er þróuð ný, blönduð aðferð með litla losun en orkuvinnslu sem er fyrirferðarlítil og byggist á himnuflæði og notkun lofts með hámarksnýtingu. Þessi blandaða aðferð við kolefnisföngun skilar af sér samtímis endurnýjanlegri orkuframleiðslu og kolefnishlutleysi. Það var mat dómnefndar að verkefnið feli í sér mikinn samfélagslegan ávinning og nýnæmi. Verkefnið byggist á sterkri rannsóknarvinnu innan Háskóla Íslands og markmið þess falli vel að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þörf sé á nýstárlegum og umhverfisvænum lausnum eins og hér sé unnið að.

thorhallur og jon atli

Þórhallur Magnússon tekur við viðurkenningunni úr hendi Jóns Atla Benediktssonar.

Sigurvegari í flokknum Samfélag var verkefnið „Snjallhljóðfæri: að skilja gervigreind 21. aldar gegnum skapandi tónlistartækni“ og hlutu aðstandendur þess verðlaun að upphæð 1,5 milljón króna. Verkefnið leiðir Þórhallur Magnússon, rannsóknarprófessor við Heimspekistofnun HÍ, en aðrir samstarfsaðilar eru Experimental Music Technologies Lab í Sussex, Sussex Humanities Lab, Cambridge Digital Humanities, Orpheus Institute í Gent og Multi-Sensory Devices Group við University College London. Verkefnið er styrkt af Evrópska rannsóknarráðinu (ERC) og er á sviði tilraunakenndra hugvísinda. Í því er rannsakað hvernig hugmyndir, skilningur og orðræða myndast í kringum nútímagervigreind í gegnum þróun snjallhljóðfæra. Ein af meginrannsóknaraðferðum er því að vinna með fólki, smíða hljóðfæri, flytja tónlist og skoða víðara umhverfi tónlistar á breytingartímum í tækni. Var mat dómnefndar að verkefnið væri sérstaklega áhugavert og gott dæmi um þverfræðilegt samstarf. Verkefnið væri jafnframt frumleg nálgun á áhrifamikla tækni þar sem almenningi væru kynntar fjölbreyttar hugmyndir og fræðasvið.

Sindri go Jón Atli

Sindri Bernholt tekur við viðurkenningunni úr hendi Jóns Atla Benediktssonar. 

Hvatningarverðlaunin í ár að upphæð 500 þúsund krónur hlaut verkefnið „Hraðvirk sprungugreining með drónasegulmælingu“. Að baki verkefninu standa Sindri Bernholt, BS-nemi í jarðeðlisfræði, Elisa Johanna Piispa, fræðimaður við Jarðvísindastofnun, og Catherine Rachael Gallagher, nýdoktor við sömu stofnun.

Stórar sprungur og jarðföll hafa myndast í jarðhræringum á Reykjanesskaga að undanförnu og skapað mikla hættu fyrir fólk á svæðinu, sérstaklega í Grindavík. Þetta kallar á nýjar aðferðir til hraðvirkrar og öruggrar sprungugreiningar og í þessu verkefni er það gert með segulmælingum með dróna í bland við aðrar mæliaðferðir og fyrirliggjandi þekkingu. Verkefnið bætir aðferðir við hættumat sprungna, bæði á áhrifasvæði þeirra jarðhræringa sem nú standa yfir en einnig á svæðum þar sem vænta má svipaðra umbrota í framtíðinni. Það var mat dómnefndar að verkefnið hefði mikil tækifæri til framþróunar og væri sérstaklega viðeigandi í ljósi nýlegra atburða. Það byði einnig upp á tækifæri fyrir áframhaldandi rannsóknir, félli vel að stefnu og starfi skólans ásamt því að bjóða upp á marga kosti til samstarfs við aðila á markaði.

Fulltrúar verðlaunaverkefnanna ásamt rektor og formanni dómnefndar samkeppninar