Skip to main content

Reglur nr. 1300-2020

Reglur um framgang akademísks starfsfólks við Háskóla Íslands, nr. 1300/2020.

PDF-útgáfa

1. gr.  Markmið.

Reglur þessar gilda um framgang akademísks starfsfólks við Háskóla Íslands, sbr. III. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Markmið framgangskerfisins er að hvetja akademískt starfsfólk til virkni og árangurs í starfi sínu við Háskóla Íslands. Mat á framgangi byggir á heildstæðu faglegu mati á frammistöðu og árangri í rannsóknum, kennslu, stjórnun og þjónustu í þágu Háskóla Íslands og samfélagsins. Við matið ber einnig að líta til þess að Háskóli Íslands er í senn alþjóðlegur rannsóknaháskóli og þjóðskóli, sem gerir ríkar kröfur til árangurs í starfi.

Í reglum þessum er kveðið á um skilyrði þess að umsóknir um framgang verði teknar til meðferðar og lágmarksskilyrði þess að hljóta framgang í akademísku starfi. Deildir geta, með samþykki fræðasviðs, skilgreint frekari skilyrði en fram koma í reglum þessum sem leggja ber til grundvallar við mat á umsóknum um framgang. Fræðasvið geta einnig ákveðið að slíkar reglur skuli gilda um allar deildir fræðasviðsins. Viðkomandi fræðasvið skal leggja reglur fræðasviðs og deilda fyrir háskólaráð til staðfestingar.

2. gr.  Framgangur akademísks starfsfólks.

Rektor Háskóla Íslands veitir framgang samkvæmt reglum þessum. Lektor, dósent, sérfræðingur eða fræðimaður getur óskað eftir framgangi í starfi. Rektor getur, án auglýsingar, flutt lektor í dósentsstarf, dósent í prófessorsstarf, sérfræðing í starf fræðimanns og fræðimann í starf vísindamanns, enda liggi fyrir hæfnisdómur dómnefndar fræðasviðs og álit framgangs- og fastráðningarnefndar Háskóla Íslands samkvæmt ákvæðum reglna þessara.

3. gr.  Flýtiframgangur.

Rektor er heimilt að veita framgang við nýráðningu ef viðkomandi starfsmaður uppfyllir þau skilyrði sem tilgreind eru í 7. og 8. gr. reglna þessara, enda liggi fyrir dómnefndarálit sem staðfesti það og tillaga framgangsnefndar í samræmi við ákvæði reglna þessara og sérstakra verklagsreglna sem háskólaráð staðfestir.

Flýtiframgang skal þó einungis veita í sambærilegt starfsheiti og viðkomandi starfsmaður hefur áður gegnt eða næsta starfsheiti fyrir ofan, með þeim takmörkunum sem settar eru um lágmarkstíma í hverju starfsheiti samkvæmt 7. gr. þessara reglna. Um málsmeðferð vegna flýtiframgangs fer að öðru leyti eftir verklagsreglum sem um það gilda hverju sinni.

4. gr.  Umsóknarfrestur og umsóknir.

Sækja skal um framgang til skrifstofu vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands til og með 1. nóvember ár hvert, en um flýtiframgang er sótt strax í kjölfar nýráðningar (sjá 3. gr.). Framgangur samkvæmt reglum þessum tekur gildi við upphaf næsta háskólaárs, þ.e. 1. júlí, en flýtiframgangur frá sama tíma og nýráðning hefst.

Forsenda þess að umsókn um framgang sé tekin til meðferðar er að með umsókn fylgi staðfesting mannauðsstjóra á því að viðkomandi starfsmaður uppfylli lágmarkskröfur um árafjölda í starfi og stigafjölda sem umsækjandi hefur áunnið sér með árlegu framtali starfa samkvæmt Matskerfi opinberra háskóla, sbr. töflu 1 í 7. gr. Beiðni um ofangreindar upplýsingar skal berast mannauðsstjóra viðkomandi fræðasviðs fyrir 1. október ár hvert.

Forseti fræðasviðs getur óskað eftir upplýsingum hjá mannauðsstjóra sviðsins á því hvort starfsmaður, sem hann vill hvetja til að sækja um framgang, uppfylli skilyrði 7. gr. þessara reglna. Þegar staðfest hefur verið að skilyrðin séu uppfyllt, tekur viðkomandi starfsmaður ákvörðun um það hvort hann leggur fram umsókn um framgang.

Sækja skal um framgang með rafrænum hætti. Umsækjandi skal tilgreina fjóra einstaklinga sem samþykkt hafa að veita umsögn um verk hans. Þeir skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á sviði umsækjanda og a.m.k. tveir þeirra starfa utan Háskóla Íslands. Umsókn skal vera á íslensku eða ensku, eftir því sem við á.

Hafi umsækjandi fengið ótímabundna ráðningu á síðustu 12 mánuðum má vísa til þeirrar umsóknar. Umsækjandi um framgang ber ábyrgð á að uppfæra umsóknina eftir því sem við á.

5. gr.  Dómnefnd fræðasviðs.

Á hverju fræðasviði starfar fjögurra manna dómnefnd sem háskólaráð tilnefnir og rektor skipar til þriggja ára í senn. Tveir nefndarmanna, hvor af sínu kyni, skulu vera akademískir starfsmenn viðkomandi fræðasviðs háskólans, og er annar þeirra formaður nefndarinnar. Þriðji nefndarmaðurinn skal starfa utan Háskóla Íslands eða vera emeritus við háskólann.

Fjórði nefndarmaðurinn er skipaður af rektor fyrir hvert framgangsmál. Hann skal tilnefndur af viðkomandi deild eða stofnun og að jafnaði vera deildarforseti eða námsbrautarformaður þegar það á við, formaður stjórnar eða akademískur forstöðumaður viðeigandi rannsóknastofnunar eða rannsóknaseturs Háskóla Íslands. Skipa skal tvo varamenn fyrir hvern aðalmann með sama hætti og tilnefning aðalmanna fer fram.

Fastafulltrúar í dómnefnd skulu hafa prófessorshæfi.

Um sérstakt hæfi nefndarmanna gilda ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hlutverk dómnefndar fræðasviðs er eftirfarandi:

  1. Að meta heildarárangur og virkni umsækjanda í starfi sínu við Háskóla Íslands samkvæmt 8. gr. reglna þessara auk viðbótarskilyrða í sérreglum fræðasviða og deilda, þar sem það á við.
  2. Að veita framgangs- og fastráðningarnefnd Háskóla Íslands rökstutt álit um hvort mælt sé með því að framgangur verði veittur.

Dómnefnd fræðasviðs aflar umsagna að lágmarki tveggja sérfræðinga í fræðigrein  umsækjandans og skal að minnsta kosti annar þessara umsagnaraðila starfa utan Háskóla Íslands. Umsagnir skulu fylgja málsgögnum til framgangs- og fastráðningarnefndar. Dómnefnd er heimilt að leita út fyrir þann hóp utanaðkomandi sérfræðinga sem umsækjandi tilgreinir í umsókn sinni, sbr. 4. gr. þessara reglna. Dómnefnd fræðasviðs er heimilt að óska eftir upplýsingum um mat á fyrri störfum umsækjanda frá stjórnsýslu háskólans.

Dómnefnd skal funda að lágmarki einu sinni um hvert mál.

Í upphafi dómnefndarálits skal dómnefnd fræðasviðs gera grein fyrir þeim forsendum og gögnum sem hún byggir á í mati sínu á umsækjanda. Í álitinu skal koma fram hvaða gagna dómnefnd hefur aflað um umsækjanda. Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um hvort umsækjandi telst, á grundvelli sjónarmiða sem fram koma í reglum þessum og reglum fræðasviðs og deildar ef við á, uppfylla skilyrði til að gegna því starfi sem umsækjandi óskar eftir framgang í.

Álit dómnefndar eða meirihluta hennar skal vera afdráttarlaust um hvort umsækjandi uppfylli skilyrðin. Ef ágreiningur er innan dómnefndar ber sérhverjum dómnefndarfulltrúa að taka afstöðu. Minnihluta er heimilt að gera grein fyrir afstöðu sinni með rökstuddu séráliti. Ef atkvæði í nefndinni falla jöfn sker atkvæði formanns úr um niðurstöðuna. Ef dómnefnd er á einu máli skal hún skila einu áliti. Þegar álit dómnefndar fræðasviðs liggur fyrir veitir nefndin umsækjanda 14 daga frest til þess að koma andmælum á framfæri, ef ekki er mælt með framgangi. Dómnefnd tekur afstöðu til andmæla og metur hvort þau gefi tilefni til breytinga á dómnefndarálitinu.

Mæli dómnefnd með framgangi sendir nefndin framgangs- og fastráðningarnefnd háskólans öll gögn málsins innan fjögurra mánaða frá því að umsóknarfresti lauk, eða eigi síðar en 1. mars. Mæli dómnefnd ekki með framgangi er málið sent rektor til endanlegrar afgreiðslu.

6. gr.  Framgangs- og fastráðningarnefnd Háskóla Íslands.

Rektor skipar framgangs- og fastráðningarnefnd Háskóla Íslands. Í nefndinni sitja samtals sex fulltrúar. Til að gæta þess að hlutfall kynjanna í nefndinni sé sem jafnast og ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, þá tilnefnir hvert fræðasvið tvo fulltrúa, hvorn af sínu kyni og velur rektor annan þeirra til að koma til móts við áðurnefnd sjónarmið. Auk þess skipar rektor formann án tilnefningar. Tilnefna skal varamenn með sama hætti og á sama tíma. Nefndin er skipuð til þriggja ára í senn. Um sérstakt hæfi nefndarmanna gilda ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í framgangs- og fastráðningarnefnd Háskóla Íslands má skipa þá eina sem hlotið hafa prófessorshæfi. Enn fremur skal miða við að þeir sem skipaðir eru í nefndina hafi viðamikla reynslu af rannsóknum, kennslu og akademískum stjórnunar- og þjónustustörfum.

Framgangs- og fastráðningarnefnd Háskóla Íslands metur umsóknir um framgang á grundvelli fyrirliggjandi gagna og ákvæða 7. og 8. gr. þessara reglna og sérreglna fræðasviða og deilda um framgang, ef við á. Nefndin gerir á grundvelli mats tillögu til rektors um hvort veita beri framgang. Ef atkvæði í nefndinni falla jöfn sker atkvæði formanns úr um niður-stöðuna. Ef það er niðurstaða nefndarinnar að ekki beri að veita framgang skal nefndin rökstyðja þá niðurstöðu og veita umsækjanda 14 daga frest til þess að koma að andmælum. Berist andmæli, ber nefndinni að taka afstöðu til þeirra. 

Álit framgangs- og fastráðningarnefndar Háskóla Íslands skal berast rektor eigi síðar en 1. júní.

7. gr.  Skilyrði þess að umsókn verði tekin til meðferðar.

Forsenda þess að umsókn um framgang í starfsheitið dósent eða fræðimaður sé tekin til meðferðar af dómnefnd fræðasviðs er sú að mannauðsstjóri viðkomandi sviðs hafi staðfest að umsækjandi:

  1. Hafi verið lektor (ef sótt er um framgang í dósent) eða sérfræðingur (ef sótt er um framgang í fræðimann) við Háskóla Íslands eða gegnt sambærilegu starfi í að minnsta kosti samanlagt þrjú ár þegar framgangur er veittur. Mögulegt er að uppfylla lágmarkstímann utan þeirrar deildar þar sem sótt er um framgang.
  2. Hafi í formlegu mati náð tilteknum lágmarksfjölda stiga í Matskerfi opinberra háskóla, sjá nánar töflur 1 og 2.

Forsenda þess að umsókn um framgang í starfsheitið prófessor eða vísindamaður sé tekin til meðferðar af dómnefnd fræðasviðs er að mannauðsstjóri sviðsins hafi staðfest að umsækjandi:

  1. Hafi verið dósent (ef sótt er um framgang í prófessor) eða fræðimaður (ef sótt er um framgang í vísindamann) við Háskóla Íslands eða gegnt sambærilegu starfi í að minnsta kosti samanlagt þrjú ár þegar framgangur er veittur. Mögulegt er að uppfylla lágmarkstímann utan þeirrar deildar þar sem sótt er um framgang.
  2. Hafi í formlegu mati náð tilteknum lágmarksfjölda stiga í Matskerfi opinberra háskóla, sjá nánar töflur 1 og 2.

Tafla 1

Tafla 2

8. gr.  Mat á umsókn um framgang.

Umsókn um framgang er metin af dómnefnd viðkomandi fræðasviðs og framgangs- og fastráðningarnefnd Háskóla Íslands á grundvelli þessara reglna og sérreglna fræðasviða og deilda, séu þær fyrir hendi. Lagt er heildstætt mat á það hvort þekking, reynsla og framlag umsækjanda sé í samræmi við alþjóðleg viðmið á fræðasviði fyrir starfsheitið sem sótt er um framgang í. Við matið er litið til vísindalegs framlags og annars árangurs umsækjanda á starfsferli hans.

Umbeðin fylgigögn með umsókn eru kennsluferilskrá, feril- og ritaskrá, fjögur til átta valin vísindaverk umsækjanda og upplýsingar um framlag umsækjanda til verkanna þegar um fjölhöfundaverk er að ræða. Skila má færri verkum ef um óvenju umfangsmikil rannsóknaverk er að ræða. Vísindaverkin skulu endurspegla feril viðkomandi.

Í umsókn skal gera grein fyrir rannsóknum, kennslu, stjórnun og þjónustu, sem og framtíðaráformum á þessum sviðum. Dómnefnd horfir til eftirfarandi þátta og metur eftir því sem við á. Ekki er gerð krafa um að umsækjandi uppfylli öll atriði. Þau eru til viðmiðunar og án forgangsröðunar til að auðvelda umsækjendum að gera grein fyrir störfum sínum og dómnefndum að meta fjölbreytt framlag starfsfólks. Einnig ber að líta til sérreglna fræðasviða og deilda séu þær til staðar.

1. Rannsóknir.

Lagt er mat á hæfni umsækjanda til að sinna rannsóknahluta þess starfsheitis sem sótt er um. Það er gert með því að skoða rannsóknaferil umsækjanda ásamt völdum vísindaverkum og framlagi umsækjanda til þeirra þegar um fjölhöfundaverk er að ræða.

Dósent/Fræðimaður.

Við mat á umsókn um framgang í starfsheitið dósent eða fræðimaður er horft til eftirfarandi þátta eftir því sem við á:

  1. Virkni, sjálfstæðis, frumkvæðis og áhrifa í rannsóknum.
  2. Fjölda rannsóknastiga og umfangs rannsókna.
  3. Gæða birtingarvettvangs.
  4. Sóknar umsækjanda í samkeppnissjóði sem eru í vörslu innan og utan Háskóla Íslands.
  5. Að hvaða marki umsækjandi er leiðandi í samstarfsverkefnum.
  6. Reynslu, virkni og framlags í alþjóðlegu og innlendu rannsóknasamstarfi. 

Prófessor/Vísindamaður.

Við mat á umsókn um framgang í starfsheitið prófessor eða vísindamaður eru gerðar víðtækari kröfur varðandi framlag til rannsókna en gildir um framgang til starfs dósents eða fræðimanns. Við mat á umsókn um framgang í starfsheitið prófessor/vísindamaður er horft til eftirfarandi þátta eftir því sem við á:

  1. Virkni, sjálfstæðis, frumkvæðis og áhrifa í rannsóknum.
  2. Fjölda rannsóknastiga og umfangs rannsókna.
  3. Birtingarvettvangs sem gerir strangar fræðilegar kröfur.
  4. Framlags umsækjanda þegar um fjölhöfundaverk er að ræða.
  5. Hlutverks við fjármögnun vísindarannsókna hér á landi og erlendis.
  6. Að hvaða marki umsækjandi er leiðandi í samstarfsverkefnum.
  7. Reynslu, virkni og framlags í alþjóðlegu og innlendu rannsóknasamstarfi.

2. Kennsla.

Lagt er mat á hæfni umsækjanda til að sinna kennsluhluta þess starfs sem sótt er um framgang í.

Dósent/Fræðimaður.

Við mat á umsókn um framgang í starfsheitið dósent eða fræðimaður (að því marki sem starfið hefur kennsluskyldu) er horft til eftirfarandi þátta eftir því sem við á:

  1. Umfangs kennslu.
  2. Mats á gæðum kennslu, m.a. með hliðsjón af kennslukönnunum.
  3. Samþættingar rannsókna og kennslu.
  4. Þátttöku í verkefnum á sviði kennsluþróunar.
  5. Viðurkenninga fyrir kennsluþróun, m.a. styrkveitingar úr sjóðum á sviði kennslu­mála.
  6. Leiðbeiningar lokaverkefna.

Prófessor/Vísindamaður.

Við mat á umsókn um framgang í starfsheitið prófessor eða vísindamaður (að því marki sem starfið hefur kennsluskyldu) er horft til þess hvort framþróun hafi átt sér stað frá því að umsækjandi fékk framgang í starf dósents/fræðimanns. Horft til eftirfarandi þátta eftir því sem við á:

  1. Umfangs kennslu.
  2. Mats á gæðum kennslu, m.a. með hliðsjón af kennslukönnunum.
  3. Samþættingar rannsókna og kennslu.
  4. Fjölbreytni í kennsluaðferðum.
  5. Þátttöku í verkefnum á sviði kennsluþróunar.
  6. Viðurkenninga fyrir kennsluþróun, m.a. styrkveitinga úr sjóðum á sviði kennslu­mála.
  7. Leiðbeiningar lokaverkefna í rannsóknatengdu framhaldsnámi.

3. Stjórnun.

Lagt er mat á hæfni umsækjanda til að sinna stjórnunarhluta þess starfs sem sótt er um framgang í. Við heildarmat umsóknar styrkir þátttaka í nefndum, starfshópum og öðrum stjórnunarstörfum umsóknina.

Dósent/fræðimaður.

Við mat á umsókn um framgang í starfsheitið dósent eða fræðimaður er gerð krafa um reynslu af akademískri stjórnun í samræmi við starfsskyldur lektors/akademísks sérfræðings. Horft til eftirfarandi þátta eftir því sem við á:

  1. Setu í nefndum, starfshópum eða annarrar stjórnunar á vegum deildar eða námsbrautar.
  2. Setu í nefndum, starfshópum eða annarrar stjórnunar á vegum fræðasviðs.
  3. Annarra mögulegra stjórnunarstarfa.

Prófessor/vísindamaður.

Við mat á umsókn um framgang í starfsheitið prófessor eða vísindamaður er gerð krafa um reynslu af akademískri stjórnun og akademískum þjónustustörfum í samræmi við starfsskyldur dósents/fræðimanns. Horft til eftirfarandi þátta eftir því sem við á:

  1. Setu í nefndum, starfshópum eða annarrar stjórnunar á vegum deildar eða námsbrautar.
  2. Setu í nefndum, starfshópum eða annarrar stjórnunar á vegum fræðasviðs.
  3. Setu í nefndum, starfshópum eða annarrar stjórnunar á vegum rektors eða háskólaráðs.
  4. Innlendra nefndarstarfa sem byggja á sérfræðiþekkingu umsækjanda, en eru utan Háskóla Íslands.
  5. Alþjóðlegra nefndarstarfa sem byggja á sérfræðiþekkingu umsækjanda.
  6. Að hve miklu leyti umsækjandi hefur haft leiðandi hlutverk við stjórnun.

4. Þjónusta – tengsl við samfélag og atvinnulíf.

Lagt er mat á hæfni umsækjanda til að sinna þjónustu við samfélag og atvinnulíf í krafti sérþekkingar sinnar. Horft er til þess hvernig sú þjónusta tengist stefnu Háskóla Íslands um virka þátttöku. Við heildarmat umsóknar styrkir þátttaka í nefndum, starfshópum og öðrum stjórnunarstörfum umsóknina.

Dósent/fræðimaður.

Við mat á umsókn um framgang í starfsheitið dósent eða fræðimaður er horft til eftirfarandi þátta eftir því sem við á:

  1. Erinda á málþingum, málstofum eða fundum sem ekki falla undir akademískan vettvang, hér á landi og erlendis.
  2. Annars konar miðlunar sérþekkingar, sem ekki fellur undir akademískan vettvang, til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag og á alþjóðavettvangi.
  3. Álitsgerða og skýrslna sem ætlaðar eru aðilum utan akademíunnar.
  4. Skipulagningar vísindaráðstefna.
  5. Setu í ritstjórnum bóka og tímarita almenns eðlis sem byggir á fræðilegri sérþekkingu.
  6. Almenns fræðsluefnis og þýðinga, byggt á fræðilegri sérþekkingu.

Prófessor/vísindamaður.

Við mat á umsókn um framgang í starfsheitið prófessor eða vísindamaður er horft til eftirfarandi þátta eftir því sem við á:

  1. Álitsgerða og skýrslna sem ætlaðar eru aðilum utan akademíunnar.
  2. Erinda á málþingum, málstofum eða fundum sem ekki falla undir akademískan vettvang, hér á landi og erlendis.
  3. Annars konar miðlunar sérþekkingar, sem ekki fellur undir akademískan vettvang, til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag og á alþjóðavettvangi.
  4. Skipulagningar alþjóðlegra vísindaráðstefna.
  5. Opinberra matsstarfa.
  6. Hagnýtingar rannsókna.
  7. Þátttöku í ritstjórnum bóka og tímarita almenns eðlis sem byggir á fræðilegri sérþekkingu.
  8. Almenns fræðsluefnis og þýðinga, byggt á fræðilegri sérþekkingu.
  9. Stofnunar sprotafyrirtækja.

9. gr.  Lagastoð og gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Reglurnar taka gildi 1. febrúar 2021, að því undanskildu að skilyrði reglnanna um lágmarkstíma í starfsheiti taka gildi 1. janúar 2022. Reglur nr. 263/2010 um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands falla úr gildi 1. febrúar 2021.

Reglurnar skulu endurskoðaðar þremur árum eftir gildistöku.

Háskóla Íslands, 7. desember 2020.