16. háskólaþing Háskóla Íslands
haldið 3. mars 2016 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu
Fundartími: Kl. 13.00-15.00
Dagskrá
Kl. 13.00 – 13.05 Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.
Kl. 13.05 – 15.00 Dagskrárliður 1. Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021.
a) Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor og Steinunn Gestsdóttir, prófessor, formenn stýrihóps um stefnumótun Háskóla Íslands, gera grein fyrir málinu (20 mín.).
b) Umræður og afgreiðsla (85 mín.)
c) Rektor gerir grein fyrir næstu skrefum.
Kl. 16.00 Rektor slítur háskólaþingi.
Kl. 13.00-13.05
Fundarsetning
Rektor setti háskólaþing Háskóla Íslands og bauð þingfulltrúa velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og var þetta 16. háskólaþing Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa sem mættir voru í fyrsta sinn á þingið og fulltrúa frá samstarfsstofnunum og formann Stúdentaráðs.
Fundargerð síðasta háskólaþings var send fulltrúum fyrir þingið og bárust engar athugasemdir við hana. Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra háskólans, að vera fundarritari.
Kl. 13.05-13.15
Dagskrárliður 1
Drög að Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021: Kynning
Steinunn Gestsdóttir prófessor, formaður stýrihóps um stefnumótun Háskóla Ísland, gerði grein fyrir málinu.
Helstu vörður
• Ágúst/september 2015:
– Stýrihópur og stefnumótunarhópur tóku til starfa
– Gögnum safnað
– Gátt 1 (allir starfsmenn/stúdentar)
• Október 2015:
– Fyrstu drög kynnt
• Nóvember 2015:
– Önnur drög rædd á háskólaþingi, háskólaráði og á opnum upplýsingafundi rektors
– Gátt 2 (allir starfsmenn/stúdentar)
• Desember 2015-janúar 2016:
– Lokadrög unnin með hliðsjón af athugasemdum
• Janúar 2016:
– Lokadrög afgreidd frá stefnumótunarhópi 28. janúar
• Febrúar-mars 2016:
– Stefna Háskóla Íslands 2016-2021 til umfjöllunar og afgreiðslu í háskólaráði og háskólaþingi
Stýring verkefnis
• Stýrihópur starfar í umboði rektors
– Sigurður Magnús Garðarsson, Steinunn Gestsdóttir, Magnús Diðrik Baldursson, Magnús Lyngdal Magnússon, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir
• Stefnumótunarhópur
– Anna Dóra Sæþórsdóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir, Anna María Hauksdóttir, Aron Ólafsson, Ásgrímur Angantýsson, Bryndís Eva Birgisdóttir, Börkur Hansen, Eiríkur Jónsson, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Guðmundur Hálfdánarson (Ástráður Eysteinsson tók við af honum), Guðrún Geirsdóttir, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, Halla Sif Svansdóttir, Heiða María Sigurðardóttir, Herdís Sveinsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Jón Páll Haraldsson, Kristján Leósson, Magnús Örn Úlfarsson, Sigríður Gunnarsdóttir, Sólveig Anna Bóasdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Tómas Guðbjartsson, Vilborg Lofts og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Leiðarljós við mótun stefnunnar
• Víðtækt samráð
• Byggt á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum
• Forgangsröðun – ekki hlaðborð
• Knappur texti
• Skilgreindar áherslur þvert á viðfangsefni
• Skýr markmið og aðgerðir – rýndar árlega
Víðtækt samráð
• Háskólasamfélagið
– Háskólaráð
– Háskólaþing
– Opnir fundir með starfsfólki
– Fundir með stjórnendum
• Stefnumótunarhópur
– 25 manns innan og utan HÍ (stúdentar, stjórnsýsla, akademískir starfsmenn, fulltrúar stofnana innan/utan HÍ, atvinnulífs, annarra skólastiga)
• Kallað eftir innleggi
– Vefgátt #1: spurningar til starfsmanna/nemenda
– Vefgátt #2: Athugasemdir við stefnudrög
– Kallað eftir efni frá deildum/sjálfsmatshópum
• Sérfræðingar innan HÍ
– Aðilar sem vinna að gerð fjölskyldustefnu
– Sérfræðingar um mótun gilda
– Aðilar sem vinna að úttekt á stjórnskipulagi
– Sérfræðingar á sviði jafnréttismála
• Stúdentar
– Stúdentaráð
– Nemendafélög
• Aðrar einingar/aðilar
– Forsetar fræðasviða
– Fastanefndir háskólaráðs
– Deildarforsetar
– Endurmenntun
– Félagsvísindastofnun
– Fjármálasvið
– Landsbókasafn-háskólabókasafn
– Kennslusvið
– Kennslumiðstöð
– Markaðs- og samskiptasvið
– Miðstöð framhaldsnáms
– Skrifstofa alþjóðasamskipta
– Náms- og starfsráðgjöf
– Jafnréttisfulltrúi
– Rekstrarstjórar fræðasviða
– Starfsmannasvið
– Stúdentaráð
– Vísinda- og nýsköpunarsvið
– Þverfaglegar námsleiðir
Vinna við lokadrög
• Frá því að drög 1 lágu fyrir (í nóvember sl.):
• Úrvinnsla athugasemda og ábendinga frá síðasta háskólaþingi
– Athugasemdir átta vinnuhópa
– Allar athugasemdir flokkaðar eftir því við hvaða hluta stefnunnar þær áttu
– Kerfisbundið farið yfir allar athugasemdir
• Útfærsla markmiða og aðgerða
• Endurskoðun inngangstexta, gilda og áherslna
• Áframhaldandi samráð
• Sérstök áhersla á gæðaúttektir
Lokadrög afgreidd frá stefnumótunarhópi 28. janúar sl.
Febrúar-mars: Tekið við síðustu athugasemdum/lokadrög kynnt og afgreidd
Háskólinn á tímamótum
Háskóli Íslands leikur lykilhlutverk í uppbyggingu þekkingarsamfélags
• Afkastamesta vísindastofnun landsins
• Sterk staða í alþjóðlegu vísindasamfélagi
• Leiðandi í menntun fagfólks á fjölbreyttum fræðasviðum
• Undirbýr nemendur fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi
• Uppbygging þekkingar á sviðum tengdri íslenskri menningu og sögu
Staðan
• Sókn þrátt fyrir niðurskurð – fjölgun nemenda og hröð uppbygging rannsókna
• Þróun náms og kennslu til að búa nemendur undir síbreytilegan starfsvettvang
• Alþjóðavæðing og áhersla á gæði hefur í för með sér tækifæri og áskoranir
• Mikilvægt að starf Háskólans hafi víðtæk áhrif og takist á við áskoranir samtímans
Sýn HÍ 21: Háskóli í fremstu röð
• Markviss styrking innviða kennslu og rannsókna og stuðningur við mannauð – festir í sessi þann árangur sem hefur náðst og skapar grundvöll fyrir áframhaldandi sókn
• Gæði háskólastarfsins er forsenda virkrar þátttöku í íslensku samfélagi og sterkrar stöðu á alþjóðavettvangi
• Markmið og aðgerðir beinast að:
– Námi og kennslu
– Rannsóknum
– Virkri þátttöku í samfélagi og atvinnulífi
– Mannauði
Gildi Háskóla Íslands
• Akademískt frelsi er grunnur alls háskólastarfs og stuðlar að gagnrýninni hugsun, skapandi þekkingarleit, víðsýni og framsækni
• Jafnrétti er leiðarljós í starfi skólans og grundvöllur fjölbreytni og virðingar í háskólasamfélaginu
• Fagmennska og metnaður einkenna störf starfsfólks og stúdenta og eru forsenda þess trausts sem Háskólinn nýtur í samfélaginu
Áherslur HÍ 21
• Í HÍ 21 eru tilgreindar 5 áherslur sem einkenna eiga starf og stefnu skólans næstu fimm árin
• Markmið og aðgerðir stuðla að því að áherslurnar nái fram að ganga
• Hvert markmið er útfært með 1-5 aðgerðum
• Heildarfjöldi markmiða er 22
Lykilmælikvarðar fanga megináherslur
• Valdir lykilmælikvarðar
• Nokkrar mælingar eru á bak við hvern mælikvarða
• Mælikvarðar eru í vinnslu
Útfærsla aðgerða og innleiðing
• Hver aðgerð verður útfærð m.t.t.:
– Ábyrgðar- og framkvæmdaraðila
– Tímasetninga
– Kostnaðar
– Árangursmælikvarða
• Innleiðing undir forystu rektors – á vettvangi:
– Fræðasviða
– Deilda
– Stoðþjónustu
– „Hvernig getum við stuðlað að framgangi HÍ 21?”
Rektor þakkaði Steinunni fyrir framsöguna og gaf orðið laust. Skiptist umræðan í tvo hluta og var fyrst rætt um fyrri hluta skjalsins (gildin, innganginn, áherslurnar og mælikvarðana) og síðan um markmið og aðgerðir á sviði náms og kennslu, rannsókna, virkrar þátttöku og mannauðs.
Forseti Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði stýrihópnum og stefnumótunarhópnum fyrir vandaða og góða vinnu og Steinunni fyrir kynninguna. Ræddi forsetinn hversu verði næstu skref varðandi innleiðingu stefnunnar og útfærslu hennar á vettvangi fræðasviða, deilda og annarstaðar. Sagði forsetinn mikilvægt að kynna nýja stefnu rækilega fyrir stjórnvöldum og að fá þau í lið með Háskólanum varðandi fjármögnun hennar.
Deildarforseti Læknadeildar þakkaði fyrir kynninguna og sagði að ný stefna Háskóla Íslands væri góð, skýr og vel unnin. Tók hann undir orð forseta Heilbrigðisvísindasviðs um að mikið velti á að vel takist til við að fjármagna stefnuna. Sagði deildarforsetinn það vera skoðun sína að háskólasamfélagið hafi of lengi setið hjá í opinberri umræðu um fjármögnun háskólastigsins á Íslandi og að brýnt væri að allir sem vettlingi gætu valdið létu í sér heyra. Sagði hann að ríkisstjórn Íslands hefði lýst því yfir að hún stefndi að því að fjárframlög til háskóla á Íslandi yrðu sambærileg við framlög í aðildarríkjum OECD og á Norðurlöndum, en í reynd hefði Ísland dregist afturúr öðrum löndum.
Deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar lýsti ánægju sinni með nýju stefnuna og sagði hana vera skýra og að það ætti að vera gott að vinna eftir henni. Benti deildarforsetinn á að þótt jafnrétti væri eitt af grunngildum Háskólans sæi þess ekki nægilega vel stað í umfjölluninni um rannsóknir, þ.e. í formi markmiðs um jafnrétti til rannsókna. Sagði forsetinn þetta vera mikilvægt því staðan væri þannig að deildir nytu í reynd ekki jafnræðis til rannsókna.
Formaður stýrihópsins brást við framkomnum sjónarmiðum og sagði að þegar háskólaþing og háskólaráð hefðu afgreitt endanlega stefnu væri tímabært að huga að innleiðingu hennar og eftirfylgni. Varðandi fjármögnun stefnunnar sagði formaðurinn að ekki væri búið að leggja endanlegt kostnaðarmat á framkvæmd hennar en gróft reiknað mætti ætla að framkvæmdin myndi kosta a.m.k. 400-700 m.kr. á ári. Rétt væri þó að hafa í huga að aðgerðir stefnunnar kölluðu ekki allar á fjárútlát.
Rektor sagði að samhliða stefnumótunarvinnunni hefðu verið unnin drög að innleiðingaráætlun en ekki væri tímabært að ræða hana í einstökum atriðum fyrr en búið væri að samþykkja stefnuna formlega. Þá sagðist rektor hafa fundað með ráðherrum og þingmönnum um fjármögnun Háskólans og hefði það skilað 80 m.kr. aukningu í Aldarafmælissjóð. Þetta væri vissulega jákvætt en þó væri ljóst að gera þyrfti miklu betur. Þegar stefnan hefði verið samþykkt yrði hún kynnt ítarlega og leitað eftir samtali við stjórnvöld um fjármögnun hennar.
Kjörinn fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs sagði að nýja stefnan geymdi fjölmörg spennandi nýmæli og væri tilhlökkunarefni að vinna eftir henni á næstu árum. Þá gerði fulltrúinn að umtalsefni gildið “akademískt frelsi” og varpaði fram þeirri spurningu hvort markmið stefnunnar um að styðja við sókn í erlenda samkeppnissjóði inni hugsanlega gegn þessu gildi í ljósi þess að t.d. Evrópusambandið væri að þrengja kröfur varðandi styrkumsóknir svo jaðraði við skerðingu akademísks frelsis.
Fulltrúi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ræddi málefni stundakennara. Sagði hann tímabært að Háskólinn mótaði sér stefnu um málefni þeirra og að stundakennurum sem sinntu mikilli kennslu yrðu boðin föst störf.
Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs hrósaði stýrihópnum fyrir góða vinnu og sagði vel af sér vikið að gera jafn flóknu viðfangsefni svo vel skil í stuttu plaggi. Beindi hann síðan orðum sínum að kaflanum um mannauð og sagði það truflandi að þar væri blandað saman málefnum starfsfólks og nemenda, auk þess sem sum atriði í mannauðskaflanum ættu þar ekki heima. Raunar væri algengt í stefnumótunarvinnu sem þessari að í mannauðskaflana væri sópað ýmsu sem ekki kæmist fyrir annarstaðar. Betra væri að taka mannauðskaflann frá fyrir starfsfólk.
Formaður kennslumálanefndar og fulltrúi í stefnumótunarhópi Háskólans sagði ánægjulegt að sjá hvernig niðurstöður margvíslegs innra og ytra mats á Háskólanum kæmu saman í stefnunni. Sagði hann kennslumálanefnd hafa átt gott samstarf stýrihópinn og að spennandi væri að hefja vinnu við framkvæmd stefnunnar. Mikilvægt væri þó að hraða sér ekki um of því ýmis atriði varðandi nám og kennslu í stefnunni væru langtímaverkefni sem yrðu ekki hrist fram úr erminni.
Formaður stýrihópsins brást við athugasemd fulltrúa Félagsvísindasviðs um mannauðsmál og sagði þau vera eitt af leiðarstefum stefnunnar. Fjölmargar aðgerðir miðuðu að því að draga úr álagi á starfsfólk og efla Háskóla Íslands sem vinnustað og margt af því ætti jafnt við um starfsfólk og stúdenta.
Rektor þakkaði fulltrúa Stofnunar Árna Magnússonar fyrir að taka upp málefni stundakennara. Sagði rektor að þau hefðu um nokkurt skeið verið sérstaklega til umfjöllunar á vettvangi háskólaráðs og svo yrði áfram. Nú þegar hefðu verið stigin skref til að bæta kjör stundakennara, nýlega hefði verið gerð könnun um viðhorf þeirra og áfram yrði unnið að því að bæta starfsumhverfi þeirra.
Formaður Stúdentaráðs brást við tillögu kjörins fulltrúa Félagsvísindasviðs um að mannauðskaflinn ætti alfarið að fjalla um málefni starfsmanna. Sagðist formaðurinn vera ósammála þessu viðhorfi því stúdentar væri órjúfanlegur hluti af mannauði Háskólans, þessir hópar hefðu í mörgum tilvikum sameiginlega hagsmuni og því væri rökrétt og mikilvægt að fjallað yrði um starfsfólk og stúdenta í sama kafla.
Skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, gæðastjóri Háskólans og fulltrúi í stýrihópi stefnumótunarinnar tók undir með formanni kennslumálanefndar og sagði mikilvægt að horfa á hina nýju stefnu í víðu samhengi. Á síðustu fimm árum hefðu allar deildir Háskólans og tvær þverfræðilegar námsleiðir að auki farið í gegnum viðamikið sjálfsmat og gert aðgerðaráætlanir til næstu ára. Niðurstöður þessarar vinnu hefðu svo runnið inn í sjálfsmat Háskólans alls og hefðu þær loks verið staðfestar í ytra mati erlendra sérfræðinga á skólanum vorið 2015. Þar hefði komið fram mikilvæg staðfesting á niðurstöðum sjálfsmats deilda og Háskólans og segði m.a. í skýrslu sérfræðinganna að Háskóli Íslands væri stofnun sem “þekkti sjálfa sig vel”. Umbótatillögur og aðgerðaráætlanir deildanna, Háskólans og erlendu sérfræðinganna hefðu verið teknar saman og væru þær ein meginforsenda nýju stefnunnar. Mikilvægt væri að sjá þetta samhengi hlutanna og að hafa hugfast að stefnan væri ekki átaksverkefni heldur áfangi á vegferð Háskóla Íslands til framtíðar.
Annar kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs sagðist sakna þess að í stefnunni væri ekki tekið á mikilli launavinnu nemenda með námi og málefnum LÍN í því sambandi. Það væri staðreynd að stór hluti nemendahópsins þyrfti að vinna með náminu til að framfleyta sér og það bitnaði á námsástundum og námsafköstum.
Fulltrúi Félags prófessora velti því upp hvort ástæða væri til að fjalla um tengsl launakerfis og stefnu Háskólans. Mikilvægt væri að þessir tveir þættir væru hugsaðir saman þannig að stefnan tæki mið af launakerfinu og launakerfið og kjarasamningar tækju mið af stefnunni, eins og leitast hefði verið við að gera í síðustu kjarasamningum.
Deildarforseti Viðskiptafræðideildar ræddi um mannauðskaflann og varpaði fram þeirri hugmynd að kannski færi betur á því að yfirskrift hans væri “mannauður og skipulag”. Í félagsvísindum væri stundum gerður greinarmunur á tengslaverðmætum, mannauðsverðmætum og skipulagsverðmætum. Í mannauðskaflanum væri fjallað um fyrri tvo þættina en minna um þann þriðja. Einnig benti deildarforsetinn á að í áherslunum væri ekki getið sérstaklega um “mannauð” og rétt væri að bæta úr því.
Kjörinn fulltrúi stúdenta tók undir orð kjörins fulltrúa Félagsvísindasviðs og sagði mikilvægt að efla Lánasjóð íslenskra námsmanna til að gera nemendum kleift að sinna nám sínu.
Formaður Stúdentaráðs bætti því við að skv. nýlegri könnun þyrftu um 70% stúdenta að vinna með námi en þetta hlutfall hefði verið um 50% fyrir áratug. Hluti þessa hóps væri í fullri launavinnu með námi. Jafnframt hefði könnunin leitt í ljós að mikill meirihluti þessara nemenda myndi vilja hætta að vinna með náminu ef hann ætti þess kost. Þetta myndi draga úr brottfalli og bæta ástundun.
Þriðji kjörni fulltrúi Félagsvísindasviðs tók til máls og þakkaði öllum sem komu að gerð nýju stefnunnar fyrir góða vinnu. Sagðist fulltrúinn hafa tekið þátt í vinnuhópi á síðasta háskólaþingi og hefðu þar komið fram fjölmargar tillögur og ábendingar. Sagðist fulltrúinn hafa borið niðurstöður vinnuhópsins saman við lokadrög stefnunnar og hefði það sýnt að mikið tillit hefði verið tekið til ábendinga fulltrúa á síðasta háskólaþingi og væri það vel. Stefnan hefði þroskast mikið á milli háskólaþinga og væri hún nú fyllri. Á þessu væri þó sú undantekning að í stefnuna vantaði áherslu á stuðning við rannsóknir á íslensku samfélagi. Slíkt ákvæði ætti heima í rannsóknakaflanum. Þar væri lögð áhersla á alþjóðlegar gæðakröfur og alþjóðlegar rannsóknir, sem væri mikilvægt, en á sama tíma mætti alls ekki gleyma rannsóknum á íslensku samfélagi, s.s. í lögfræði, sem væru ekki síður mikilvægar.
Kjörinn fulltrúi Menntavísindasviðs lýsti ánægju með hversu víðtækt samráð hefði verið viðhaft við mótun stefnunnar. Sagðist fulltrúinn sérstaklega ánægður með áhersluna á nám og kennslu, s.s. aðgerðina um að kennslusérfræðingur starfaði á hverju fræðasviði og að getið væri um fjarkennslu.
Annar kjörinn fulltrúi stúdenta tók undir þetta og sagði það vera afar ánægjulegt hversu mikill gaumur væri gefinn að námi og kennslu í stefnunni, s.s. um upptöku á kennslu. Þá ræddi stúdentafulltrúinn um ákvæði stefnunnar um inntökukröfur, aðgangspróf og skylda hluti. Sagði hann mikilvægt að stíga varlega til jarðar í þessum efnum og að mikilvægt væri að fulltrúar nemenda kæmu að mótun og útfærslu þessara aðgerða.
Formaður stýrihópsins brást við umræðunni um kjör nemenda og vinnu þeirra með námi. Sagði formaðurinn að þótt ekki væri beinlínis fjallað um þetta í stefnunni beindust ýmsar aðgerðir að stuðningi við nemendur, s.s. ákvæðin um doktorsnema, aukna þátttöku nemenda í aðstoðarkennslu, markvisst samtal um þróun námsins o.fl. Þá vék formaðurinn stuttlega að ábendingu fulltrúa Félags prófessora um tengsl launastefnu og heildarstefnu og sagði að hér væri um afar flókið samband að ræða sem fléttaðist víða inn í stefnuna án þess að vera þar sérstakur punktur. Um stuðning við rannsóknir í þágu íslensks samfélags sagði formaðurinn að þessu væru gerð nokkur skil í kaflanum um virka þátttöku.
Rektor minnti á að fundarritari tæki niður öll helstu sjónarmið sem fram kæmu í umræðunni og yrði farið yfir þau eftir þingið. Einnig væri þingfulltrúum velkomið að senda inn athugasemdir í kjölfar þingsins.
Deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar sagðist vera mjög ánægður með nýju stefnuna. Hún væri að mörgu leyti skýrari og skarpari en fyrri stefna, en myndaði jafnframt eðlilegt framhald af henni. Þá ræddi deildarforsetinn um jafnrétti sem gildi og sagði að innan Háskólans ríkti í raun mikill aðstöðumunur á milli starfsmanna vegna ólíkra reikniflokka. Þær deildir sem væru í lægsta reikniflokki gætu hreinlega ekki boðið nemendum sömu þjónustu og deildir í hæstu reikniflokkunum. Þetta þyrfti að jafna og það væri jafnréttismál, ekki síst fyrir nemendur.
Fulltrúi Félagsvísindasviðs ítrekaði fyrri ábendingu sína um mikilvægi þess að stefnan styddi við rannsóknir á íslensku samfélagi og sagði málið hvorki snúast um málstefnu né virka þátttöku heldur rannsóknir. Því ætti slíkt ákvæði heima í rannsóknakaflanum enda væri um að ræða hluta af rannsóknaframlagi Háskóla Íslands.
Forseti Heilbrigðisvísindasviðs brást við innleggi deildarforseta Félags- og mannvísindadeildar og sagði það vera misskilning að greinar sem væru í hærri reikniflokkum hefðu meira svigrúm til að þjónusta nemendur en greinar í lægri reikniflokkum. Reikniflokkarnir byggðust á fjölda nemenda og föstum kostnaði og það fæli ekki endilega í sér hærra þjónustustig.
Deildarforseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar tók undir með fulltrúa Félagsvísindasviðs og sagði að rökin fyrir stuðningi á rannsóknum á íslensku samfélagi ættu ekki síður við um Menntavísindasvið og þær rannsóknir á íslensku menntakerfi sem þar væru stundaðar.
Deildarforseti Læknadeildar sagði að í rannsóknakafla stefnunnar ætti ekki að kveða á um hvað skuli rannsaka. Vísindamenn Háskóla Íslands ættu að rannsaka allt sem væri mikilvægt en það væri ekki hlutverk heildarstefnu Háskólans að beina rannsóknunum í sérstakan farveg. Þegar talað væri um alþjóðleg viðmið rannsókna væri átt við leikreglur sem væru óháðar því hvort rannsakað væri innanlands eða utan.
Kjörinn fulltrúi stúdenta ræddi aðgerðina um innleiðingu formlegs umhverfisstjórnunarkerfis og spurði hvort hvaða kerfi ætti að nota. Einnig sagði hann að stúdentar ættu að fylkja sér að baki Háskólanum í baráttunni fyrir hækkun lægstu reikniflokkanna.
Formaður stýrihópsins benti á að í inngangskafla stefnunnar væri sérstaklega tekið fram að við Háskólann væru stundaðar mikilvægar rannsóknir á íslensku samfélagi, sögu og menningu. Einnig væri í stefnunni vikið að yfirstandandi úttekt á matskerfi opinberu háskólanna og væri mikilvægt að bíða niðurstöðu þeirrar vinnu. Um reikniflokkana sagði formaðurinn að óumdeilt væri að lægstu reikniflokkarnir væru alltof lágir. Loks sagðist formaðurinn eiga örðugt með að svara spurningunni um umhverfisstjórnunarkerfi end væri það sérgrein hins formanns stýrihópsins sem því miður hefði forfallast og hefði ekki getað setið þingið.
Rektor minnti á að stýrihópurinn myndi í kjölfar þingsins ganga frá stefnutextanum með hliðsjón af umræðum á háskólaþing og gilti það einnig um umræðuna um innlendar og erlendar rannsóknir. Þá tók rektor undir með formanni stýrihópsins og sagði að nú stæði yfir heildstæð úttekt á matskerfi opinberu háskólanna og einnig væri í undirbúningi úttekt á deililíkani Háskólans.
Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sagði að nýja stefnan væri nokkuð frábrugðin þeirri fyrri. Einnig benti hann á að óhjákvæmilega væri ekki gert ráð fyrir öllu starfi Háskólans í nýju stefnunni því unnið væri að mörgum mikilvægum málum á öðrum vettvangi, s.s. varðandi málefni stundakennara. Loks vakti forsetinn máls á því að mikilvægt væri að spyrja sig að því hvaða þætti starfseminnar Háskólinn gæti lagt niður ekki síður en að horfa til nýjunga og nýmæla.
Deildarforseti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda sló á létta strengi og sagði að ef til vill myndi fjármögnun háskólakerfisins á Íslandi nálgast fjármögnun háskóla á Norðurlöndunum með því að Norðurlöndin myndu draga verulega úr fjárveitingum! Þá ræddi deildarforsetinn um alþjóðavæðingu og menningarlega fjölbreytni og benti á að hin meinta alþjóðavæðing einskorðaðist í mögum tilvikum við aðlögun að engilsaxneskum málheimi og menningu og leiddi þannig í reynd til einsleitni. Sagði deildarforsetinn að Háskóli Íslands ætti að vera stefnumótandi í þessu efni og tryggja kennslu og nám á þýsku, frönsku, spænsku o.s.frv. ekki síður en ensku. Íslensk menningarflóra yrði um margt fátækari ef einblínt yrði á ensku. Þetta væri ekki aðeins spurning um tungumál heldur menningarheima. Háskólinn ætti að hvetja nemendur sína til að fara sem víðast og kynnast sem flestum tungumálum og menningarheimum.
Forseti Félagsvísindasviðs lýsti mikilli ánægju með það hvernig staðið hefði verið að stefnumótunarvinnunni og hve mikið hefði verið hlustað á ólík sjónarmið starfsfólks og stúdenta. Sagðist forsetinn sjálfur hafa tekið þátt í síðustu stefnumótun og vissi hann því vel hve vandasamt það væri að ná fram hnitmiðaðri stefnu fyrir svo breiðan og stóran háskóla. Mjög vel hefði tekist til.
Formaður Stúdentaráðs tók undir með deildarforseta Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda og sagði afar mikilvægt að einblína ekki á ensku sem eina erlenda tungumálið í háskólastarfinu. Það væri öllum stúdentum til góðs að fara sem víðast. Þá sagði formaðurinn það vera ánægjulegt hve virkir stúdentar hefðu verið í öllu stefnumótunarferlinu og ættu þeir miklar þakkir skilið. Niðurstaðan væri framtíðarstefna sem væri eign bæði stúdenta og starfsfólks.
Formaður stýrihópsins brást við spurningu forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um hvort rætt hefði verið um að leggja niður einhver verkefni eða starfsemi. Sagði formaðurinn erfitt að svara þessari spurningu almennt, en ætla mætti að þegar stefnan væri komin til framkvæmdar myndi það leiða af sjálfu sér að skerpt yrði á áherslum, nýmæli yrðu til og annað myndi hætta.
Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu að bókun:
„Háskólaþing fjallaði í dag um lokadrög að stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. Vinna við mótun stefnunnar hófst haustið 2015 og hefur farið fram undir stjórn stýrihóps með aðkomu fjölmennari stefnumótunarhóps skipaðs fulltrúum innan og utan Háskólans. Háskólaþing fjallaði um fyrstu drög að stefnunni í nóvember sl. Við stefnumótunina hefur verið haft víðtækt samráð við starfsfólk og stúdenta Háskólans, auk þess sem byggt var á fyrirliggjandi gögnum.
Í umræðum á háskólaþingi í dag komu fram gagnlegar athugasemdir og ábendingar um stefnudrögin og er stýrihópnum falið að ganga frá stefnunni með hliðsjón af þeim. Ný stefna Háskóla Íslands 2016-2021 verður lögð fram til afgreiðslu í háskólaráði 17. mars nk.“
- Samþykkt einróma með lófataki.
Rektor þakkaði stýrihópnum, stefnumótunarhópnum fyrir mikilvægt framlag og fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar og málefnalegar umræður, sleit þinginu og bauð fundarmönnum að þiggja kaffiveitingar í anddyri og Bókastofu Aðalbyggingar.
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Steinunnar Gestsdóttur, þau Inga Þórsdóttir, Magnús Karl Magnússon, Helga Jónsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Gísli Sigurðsson, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Börkur Hansen, Aron Ólafsson, Magnús Diðrik Baldursson, Hulda Þórisdóttir, Þórólfur Matthíasson, Runólfur Smári Steinþórsson, Tryggvi Másson, Björg Thorarensen, Þuríður Jóhannsdóttir, Sigþór Ási Þórðarson. Helgi Gunnlaugsson, Ástríður Stefánsdóttir, Hilmar Bragi Janusson, Geir Sigurðsson, Daði Már Kristófersson.
Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 16. háskólaþingi 3. mars 2016:
1. Fundargerð 15. háskólaþings 13. nóvember 2015.
2. Dagskrá og tímaáætlun 16. háskólaþings 3. mars 2016.
3. Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
4. Lokadrög að Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021, dags. 3. mars 2016