18. háskólafundur haldinn 17. nóvember 2005 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu
Fundartími: Kl. 13.00-16.30
Dagskrá
Kl. 13.00 - 13.05 Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum.
Kl. 13.05 - 13.20 Dagskrárliður 1. Rektor reifar málefni Háskóla Íslands.
Kl. 13.20 - 14.35 Dagskrárliður 2. Skýrsla starfshóps rektors um viðbrögð við niðurstöðum ytri úttekta á Háskóla Íslands 2004 og 2005.
Kl. 14.35 - 14.55 Dagskrárliður 3. Mótun stefnu og framkvæmdaáætlunar Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2010.
Kl. 14.55 - 15.15 Kaffihlé.
Kl. 15.15 - 15.55 Dagskrárliður 4. Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2005-2009.
Kl. 15.55 - 16.30 Dagskrárliður 5. Siðareglur Háskóla Íslands.
Kl. 16.30 Rektor slítur fundi.
Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning
Rektor setti 18. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Fundarritari var Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu.
Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að borist hafi svohljóðandi dagskrártillaga frá viðskipta- og hagfræðideild og lagadeild:
„Við undirritaðir flutningsmenn að dagskrárlið 6, um heimild viðskipta- og hagfræðideildar og lagadeildar til þess að taka skólagjöld í meistaranámi skv. nánari ákvörðun háskólaráðs, óskum eftir því að umfjöllun um þennan dagskrárlið verði frestað til næsta háskólafundar.
Reykjavík, 17. nóvember 2005. Virðingarfyllst, Gylfi Magnússon, deildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar, Páll Hreinsson, deildarforseti lagadeildar.“
Enginn fulltrúi gerði athugasemd við dagskrártillöguna og skoðaðist hún því samþykkt.
Þá bar rektor upp tillögu að breyttri dagskrá. Í kjölfar fyrri dagskrártillögunnar yrði dagskrárliður 2 lengdur um 30 mín., aðrir dagskrárliðir færðir aftur um 30 mín. og fundi loks slitið 30 mín. fyrr en upphaflega hafði verið áætlað. Enginn athugasemd kom fram við dagskrártillöguna og skoðaðist hún því samþykkt.
Loks fór rektor yfir breytta dagskrá og tímaáætlun og gerði grein fyrir fyrirliggjandi gögnum. Engar tillögur til ályktunar höfðu borist fundinum.
Kl. 13.05 - 13.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar málefni Háskóla Íslands
Ytri úttektir á Háskóla Íslands
Rektor byrjaði á að fara nokkrum orðum um þrjár nýafstaðnar ytri úttektir á Háskóla Íslands og kynningarfund um skýrslu Samtaka evrópskra háskóla (EUA) sem haldinn var í Hátíðasal 14. nóvember sl. Í máli rektors kom m.a. fram að í meginatriðum væru niðurstöður allra þriggja úttektanna mjög jákvæðar fyrir Háskóla Íslands. Þær sýndu svo ekki verður um villst að mikill árangur hefur náðst í kennslu, rannsóknum og framhaldsnámi sem og í rekstri Háskólans á síðustu árum. Jafnframt kæmi skýrt fram í niðurstöðum úttektanna að Háskólanum hefur verið sniðinn þröngur fjárhagslegur stakkur og að fjárveitingar til hans þyrftu að stóraukast til að hann fái að þróast áfram með eðlilegum hætti. Þá væru í lokaskýrslum úttektanna settar fram ýmsar ábendingar um það sem betur mætti fara í starfsemi Háskólans og myndu þær nýtast vel í þeirri stefnumótunarvinnu sem framundan væri. Nánar yrði rætt um úttektirnar og viðbrögð við þeim síðar á fundinum.
Fjármál
Næst beindi rektor orðum sínum að fjármálum Háskólans og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006. Greindi rektor frá því að í frumvarpinu kæmi fram að fjárveitingar til Háskólans myndu aukast um 19,3% á milli ára. Þetta orkaði þó tvímælis því inni í þessari tölu væri 350 m.kr. lán til Happdrættis Háskólans vegna byggingar Háskólatorgs. Að þessu frátöldu gerði frumvarpið því ráð fyrir 550 m.kr. hækkun sem skiptist þannig að 450 m.kr. væru vegna launahækkana og 100 m.kr. vegna fjölgunar nemenda. Ljóst væri að þetta dygði ekki til að mæta brýnni fjárþörf skólans og því myndi rektor beita sér fyrir því í viðræðum við menntamálaráðherra að fá frekari hækkun á fjárframlögum.
Lagafrumvörp er snerta Háskóla Íslands
Þá gerði rektor að umtalsefni frumvarp til laga um háskóla, svokölluð rammalög um háskólastigið sem nú eru í burðarliðnum. Samstarfsnefnd háskólastigsins hefði komið að samningu frumvarpsins á undirbúningsstigi og Háskóli Íslands myndi fá frumvarpið til formlegrar umsagnar á næstu mánuðum. Svo virtist sem frumvarpið markaði framfaraspor frá fyrri lögum um háskóla, einkum hvað varðar eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna. Gert væri ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum á næsta vorþingi og í kjölfarið verði hafist handa við að undirbúa frumvarp til laga um Háskóla Íslands og aðra opinbera háskóla. Það frumvarp yrði lagt fyrir háskólafund til umsagnar.
Um þessar mundir væri einnig í undirbúningi frumvarp til laga um nýja Stofnun íslenskra fræða - Árnastofnun sem m.a. gerði ráð fyrir að hinar einstöku stofnanir íslenskra fræða yrðu sameinaðar. Við samningu frumvarpsins hefði verið haft samráð við Háskóla Íslands og forstöðumenn viðkomandi stofnana og hefði verið tekið tillit til óska og athugasemda þessara aðila.
Byggingamál
Næst vék rektor að byggingamálum Háskólans. Mikið yrði um að vera á þessum vettvangi á næstu árum og fyrirhugaðar væru framkvæmdir sem myndu stórbæta starfsaðstöðu skólans. Helstu byggingaverkefni framundan væru í fyrsta lagi nýbygging Landspítala-háskólasjúkrahúss. Ríkisstjórnin hefði ákveðið að verja 18. milljörðum kr. af söluandvirði Símans til þessa verkefnis sem fæli m.a. í sér nýbyggingar fyrir heilbrigðisvísindadeildir Háskólans og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Í öðru lagi væri ákveðið að hefjast handa við byggingu Háskólatorgs vorið 2006. Um væri að ræða tvær byggingar sem hefðu verið skipulagðar að lokinni greiningu á húsnæðisaðstöðu deilda. Greiningin hefði sýnt fram á að þær deildir sem byggju við þrengstan húsakost væru viðskipta- og hagfræðideild og félagsvísindadeild og myndu þær því hafa forgang í Háskólatorgi. Jafnframt verði þar fyrir komið skrifstofum nokkurra deilda og þjónustuskrifstofum sameiginlegrar stjórnsýslu við nemendur. Í þriðja lagi hefði ríkisstjórnin ákveðið að verja einum milljarði kr. til byggingar nýs húss íslenskra fræða sem væntanlega yrði staðsett vestan Suðurgötu. Miðað væri við að húsið yrði tekið í notkun á aldarafmæli Háskólans árið 2011. Þá benti rektor á að þegar Háskólatorg og hús íslenskra fræða yrði komið í gagnið myndi talsvert húsnæði losna í Árnagarði, Aðalbyggingu og Félagsstofnun stúdenta. Ekki hefði verið tekin ákvörðun um ráðstöfun þess. Loks væri í fjórða lagi áfram unnið að því að undirbúa byggingu Vísindagarða í Vatnsmýrinni. Skipuð hefði verið stjórn Vísindagarða ehf. og ráðinn starfsmaður til að sinna verkefninu. Nú stæðu yfir viðræður við Framkvæmdasýslu ríkisins um framkvæmdina og unnið væri að því að ræða við stofnanir og fyrirtæki um þátttöku í þessu stóra verkefni.
Mótun stefnu um notkun upplýsingatækni í fjarkennslu í deildum Háskólans
Að lokum fjallaði rektor um stöðu og framtíð upplýsingatæknimála við Háskólann. Mörkuð hefði verið almenn stefna í þessum málaflokki, en áfram þyrfti að vinna að því að gera heildstæða áætlun um fjarkennslu almennt og notkun upplýsingatækni í tengslum við hana sérstaklega. Tæknilegar forsendur og nauðsynlegur búnaður væri fyrir hendi og þróun Uglunnar hefði stórbætt þjónustu við stúdenta og starfsmenn nær og fjær. Boðaði rektor að settur yrði á laggirnar starfshópur til að undirbúa áætlun Háskólans um notkun upplýsingatækni í námi og kennslu, einkum með tilliti til fjarkennslu. Starfshópurinn myndi hafa náið samráð við háskóladeildir og áætlað væri að hann legði tillögur sínar fyrir háskólafund á árinu 2006.
Róbert H. Haraldsson, dósent í hugvísindadeild, gerði grein fyrir málinu í fjarveru Jóns Atla Benediktssonar, prófessors í verkfræðideild og formanns starfshópsins. Byrjaði Róbert á því að reifa aðdraganda málsins. Á árunum 2004 og 2005 voru gerðar þrjár viðamiklar ytri úttektir á Háskóla Íslands, í fyrsta lagi úttekt Ríkisendurskoðunar sem beindist að fjárhagsstöðu, fjármögnun, árangri, gæðum, rekstrarformi og stjórnsýslu Háskólans, í öðru lagi úttekt sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið á akademískri stöðu Háskólans, einkum rannsóknastarfinu, og loks í þriðja lagi úttekt Samtaka evrópskra háskóla (EUA) á Háskólanum í heild, með sérstakri áherslu á framhaldsnám og gæðastarf innan skólans. Þegar niðurstöður úttektanna lágu fyrir um mitt ár 2005 höfðu þau Kristín Ingólfsdóttir, nýkjörinn rektor Háskóla Íslands, og Páll Skúlason, þáverandi rektor tekið sameiginlega ákvörðun um að skipa starfshóp til að taka saman helstu athugasemdir og ábendingar í niðurstöðum úttektanna og gera tillögur til rektors um viðbrögð við þeim. Í starfshópnum áttu sæti þau Jón Atli Benediktsson, prófessor í verkfræðideild og formaður vísindanefndar háskólaráðs, formaður, Anna Pála Sverrisdóttir, fulltrúi stúdenta í háskólaráði, Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild, Gylfi Zoëga, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild, Ingibjörg Harðardóttir, dósent við læknadeild, Matthías Páll Imsland, deildarsérfræðingur og fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði og Róbert H. Haraldsson, dósent við hugvísindadeild. Einnig unnu með hópnum Guðmundur R. Jónsson, prófessor við verkfræðideild og framkvæmdastjóri rekstrar og framkvæmda, Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs og Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri.
Hópurinn tók til starfa strax um sumarið og skilaði rektor skýrslu í byrjun nóvember sl. Auk úttektanna þriggja tók starfshópurinn mið af helstu stefnumálum nýkjörins rektors, en að öðru leyti var hann sjálfstæður í störfum sínum og ábyrgur fyrir niðurstöðunum. Þakkaði Róbert f.h. starfshópsins rektor fyrir að sýna hópnum það traust að fela honum þetta vandasama og mikilvæga verkefni.
Í skýrslu sinni flokkaði starfshópurinn athugasemdir úttektaraðila eftir viðfangsefnum í stjórnun, fjármál og rekstur, gæðamál, rannsóknir og framhaldsnám. Dregnar voru saman ábendingar úr úttektunum fyrir hvern flokk í stað þess að gera grein fyrir hverri úttekt fyrir sig. Í stjórnunarkafla skýrslu starfshópsins var einkum fjallað um þætti á borð við ábyrgð deildarforseta og val á þeim, sveigjanlegar starfsskyldur akademískra starfsmanna, skipan háskólaráðs og ráðningarmál. Í fjármálakaflanum var tekið á þáttum á borð við fjárhagsvanda og fjárveitingar til Háskólans, fjármögnun framhaldsnámsins, leiðir til aukinnar hagræðingar og loks skólagjöldum. Í gæðakaflanum var fjallað um innra gæðaeftirlit, þ.e. formlega stöðu gæðamála innan Háskóla Íslands og þróun gæðakerfis hans, kennslukannanir, starfsmannasamtöl og fleiri skyld atriði. Í rannsóknakafla skýrslunnar var fjallað um áherslusvið í rannsóknum, lágmarkskröfur um rannsóknarvirkni kennara og sérfræðinga sem og gæði rannsókna. Loks var í þeim kafla er lýtur að framhaldsnámi sérstaklega fjallað um eflingu doktorsnáms og gæði framhaldsnáms við Háskólann.
Alls hefði starfshópurinn greint 90 athugasemdir og ábendingar í úttektarskýrslunum og sett fram jafn margar tillögur um viðbrögð. Þótt athugasemdirnar og tillögurnar væru margvíslegar mætti segja að tveir meginþræðir væru ofnir í gegnum þær allar: Að efla Háskóla Íslands sem alþjóðlegan rannsóknaháskóla og að setja gæðamál í forgang.
Að lokinni framsögu Róberts þakkaði rektor starfshópnum fyrir frábært starf sem unnið hefði verið af metnaði og heilindum, og gaf að því búnu orðið laust.
Málið var rætt ítarlega og lýstu fundarmenn almennt ánægju með starf hópsins og tillögur hans. Var það mál manna að úttektarskýrslurnar myndu gagnast vel í því stefnumótunarstarfi sem framundan væri í Háskóla Íslands og þær yrðu honum mikilvæg leiðsögn á næstu árum. Bent var á að úttektirnar þrjár, sem sannarlega væru faglega unnar og málefnalegar, vísuðu á bug þeim orðrómi að Háskóli Íslands væri faglega veik og illa rekin stofnun. Þvert á móti sýndu úttektirnar ótvírætt fram á að við Háskólann væri unnið metnaðarfullt faglegt starf, árangur og afköst stæðust fyllilega samanburð við sambærilega erlenda skóla og að stjórnun skólans væri skilvirk og vel farið með fé. Hins vegar kæmi einnig skýrt fram að opinber framlög til Háskólans væru langtum lægri en gerist við sambærilega erlenda háskóla og að áframhaldandi fjárskortur gæti ógnað gæðum starfseminnar.
Í umræðunni var einnig komið inn á ýmis einstök atriði málsins. Þannig tóku nokkrir fundarmenn undir þá ábendingu skýrslnanna að styrkja þurfi stjórnun deilda og starf deildarforseta. Um leið var á það bent að styrkari stjórnun deilda mætti ekki verða til þess að kasta fyrir róða þeirri sterku lýðræðishefð sem ætíð hefði verið aðalsmerki vestrænna háskóla og birtist í jafningjastjórnuninni. Jafningjastjórnunin ætti áfram rétt á sér þegar leiða þyrfti til lykta akademísk málefni, þótt önnur sjónarmið gætu átt við þegar taka þyrfti ákvarðanir á vettvangi stjórnunar og fjármála.
Þá tóku fundarmenn undir þá ábendingu skýrslnanna að hefja skyldi gæðamál til öndvegis í öllu starfi Háskólans. Þó þyrfti að íhuga gaumgæfilega, hvaða þættir gæðastjórnunarinnar ættu að vera á forræði deilda og hvaða þættir ættu að lúta sameiginlegri stjórn. Mikilvægt væri að fylgja þeirri almennu reglu að gæðaeftirlit væri sem næst vettvangi og að vald og ábyrgð fari saman. Á móti var því haldið fram að brýnt væri að auka samræmingu í gæðastjórnun. Þótt deildirnar beri hitann og þungann af hinu akademíska starfi ættu þær mjög margt sameiginlegt og því væri sjálfsagt að sameiginleg stjórnsýsla hefði með höndum umsjón með gæðamálum. Reynslan af matskerfi rannsókna við Háskólann sýndi þetta með áþreifanlegum hætti.
Nokkrir fulltrúar gerðu að umtalsefni rannsóknaárangur vísindamanna Háskólans. Úttektarskýrslurnar leiddu ótvírætt í ljós að almennt hefði rannsóknastarf skólans einkennst af mikilli og vaxandi grósku, þótt ekki stæðu öll fræðasvið jafnvel að vígi. Mikilvægt væri því að halda áfram að styrkja rannsóknastarfið, ekki síst á þeim sviðum sem það væri veikast. Liður í þessari viðleitni væri enn frekari árangurstenging, t.d. með því að skilgreina lágmarks afköst í rannsóknum og setja reglur um árangurstengingu rannsóknamissera.
Tekið var undir tillögur skýrslnanna um sveigjanlegar starfsskyldur akademískra starfsmanna. Það væri úrelt og óraunhæft viðhorf að gera ráð fyrir því að allir akademískir starfsmenn hefðu sömu starfsskyldur. Til að nýta sem best mannauð Háskólans væri sjálfsagt að gefa hverjum starfsmanni kost á að helga sig þeim starfsþáttum sem hann væri best fallinn til að sinna. Einnig var rætt um aðrar tillögur skýrslu starfshóps rektors sem tengjast starfsmannamálum. Til dæmis væri lagt til að starfsmenn yrðu almennt ráðnir til ákveðins tíma, t.d. fimm ára, og að þeir fengju ekki fastráðningu nema standast settar kröfur á reynslutímanum. Hér væri á ferðinni framfaramál, þótt framkvæmd þess krefðist mikillar matsvinnu. Þá var vikið að því, hvernig draga mætti úr stjórnunarálagi á akademíska starfsmenn. Í þessu sambandi var m.a. bent á mikilvægi þess að verkaskipting milli sameiginlegrar stjórnsýslu og deilda væri skýr og skilvirk. Almennt voru fundarmenn þó á einu máli um að brýnast væri að styrkja stoðþjónustu deilda, ekki síst á sviði fjármála og rekstrar, m.a. til að létta á kennurum og gera þeim kleift að helga sig rannsóknum og kennslu.
Vikið var að hugmyndum um miðstöð framhaldsnáms sem settar eru fram í skýrslu starfshóps rektors. Fram komu efasemdir um nauðsyn slíkrar miðstöðvar, en á móti var á það bent að samfara gríðarlegum vexti í framhaldsnámi við Háskólann á síðustu árum hafi skapast þörf fyrir virkt utanumhald og umsjón með því að settum reglum um gæði námsins væri framfylgt.
Rætt var um mögulega endurskoðun á skiptingu Háskólans í deildir. Um þetta voru skiptar skoðanir. Töldu sumir að nauðsynlegt og sjálfsagt væri að yfirvega í sífellu deildarskiptinguna, m.a. með það í huga að Háskólanum yrði skipt í nokkurn veginn jafn stórar faglegar og rekstrarlegar grunneiningar. Aðrir bentu á að mikilvægara væri að auka samskipti á milli deildanna en að ráðast í slíkar formbreytingar.
Fulltrúi Landsbókasafns-háskólabókasafns benti á að í úttektarskýrslunum væri lítið minnst á bókasafnið, sem þó væri nauðsynlegt undirstaða alls náms og rannsókna. Til lítils væri að gera áætlanir um eflingu fjarnáms og doktorsnáms ef ekki væru fyrir hendi öflugar rafrænar upplýsingaveitur og rannsóknabókasafn. Taka þyrfti tillit til þessa við hugsanlega endurskoðun á reiknilíkani menntamálaráðuneytisins.
Töluvert var rætt um fjármál Háskólans. Var sammæli um það meðal fundarmanna að nauðsynlegt væri að gera virkan rannsóknasamning við ríkisvaldið sem tengdi árangur í rannsóknum og fjármögnun. Einnig væri brýnt að endurskoða skilgreiningar á reikniflokkum, reiknilíkan og deililíkan. Áréttað var að þótt gerða þyrfti grundvallarbreytingar á samningunum og framkvæmd þeirra væri mikilvægt að byggja áfram á samningum og líkönum því þau væru forsenda fyrir stöðugleika í rekstri og áætlanagerð.
Loks viku nokkrir fundarmenn að skólagjöldum. Tóku sumir undir það sjónarmið skýrslu starfshóps rektors að það væri ekki hlutverk Háskólans að taka af skarið varðandi skólagjaldaumræðuna heldur væri það í verkahring Alþingis. Einnig var varað við því að binda vonir við að skólagjöld myndu leysa fjárhagsvanda Háskólans. Brýnasta verkefnið væri að hækka opinber fjárframlög til Háskólans svo hann stæðist samanburð við sambærilega erlenda háskóla - og að því búnu mætti taka upp þá umræðu hvort það væri ákjósanlegt fyrir Háskólann að hafa almenna heimild til að innheimta skólagjöld. Aðrir fundarmenn héldu því fram að skólagjaldaumræðan væri komin í pattstöðu og að það væri ekki viðunandi fyrir Háskólann að hafa ekki skýra skoðun á jafn mikilvægu máli. Ekki dygði að einblína á neikvæðu hliðarnar á málinu, heldur þyrfti ekki síður að horfa á tækifærin sem almenn heimild til innheimtu skólagjalda og ýmissa annara þjónustugjalda fæli í sér.
Að lokum var á það bent að úttektarskýrslurnar sýndu hversu mikilvægt það væri að hér á landi væri starfræktur fullburða rannsóknaháskóli. Þannig væri um þessar mundir mikið um það rætt á Norðurlöndunum að eina leiðin til að standast alþjóðlega samkeppni væri að hafa a.m.k. einn öflugan rannsóknaháskóla í hverju landi.
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Róberts H. Haraldssonar, þau Sigurður Brynjólfsson, Ólafur Þ. Harðarson, Gylfi Magnússon, Magnús Diðrik Baldursson, Stefán B. Sigurðsson, Oddný G. Sverrisdóttir, Sigrún Klara Hannesdóttir, Eiríkur Tómasson, Hörður Filippusson og Inga Jóna Þórðardóttir.
Kl. 14.35 - 14.55 - Dagskrárliður 3: Mótun stefnu og framkvæmdaáætlunar Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2010
Rektor reifaði hugmyndir sínar um verklag við fyrirhugaða mótun stefnu og framkvæmdaáætlunar Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2010. Byrjaði rektor á því að nefna þrjár ástæður fyrir því að ákveðið hefði verið að ráðast í þetta verk. Í fyrsta lagi væri markmiðið að efla faglega stöðu og samkeppnishæfni Háskóla Íslands, bæði innanlands og utan. Í öðru lagi myndi skýr stefna og framkvæmdaáætlun styrkja skólann í viðræðum við stjórnvöld um framtíðarfjármögnun skólans. Í þriðja lagi væri það tilgangur stefnumótunarinnar að skapa kröftugan og lifandi háskóla. Á heildina litið væri skýr og metnaðarfull framtíðarsýn nauðsynleg forsenda fyrir því að Háskólinn næði því meginmarkmiði að verða rannsóknaháskóli í fremstu röð. Slík sýn myndi gera skólann samkeppnisfærari um fjármagn, kennara, vísindamenn og nemendur. Til þess að gera Háskólann með þessum hætti faglega öflugri og kraftmeiri væri jafnframt nauðsynlegt að gera skýrar kröfur og notast við alþjóðlega viðurkennda mælikvarða um gæði og árangur, einkum í rannsóknum og kennslu, fjölda brautskráðra doktora o.s.frv. Loks skipti miklu máli að sem flestir starfsmenn kæmu að stefnumótuninni þannig að allar hugmyndir yrðu virkjaðar og starfsmenn yrðu hvattir til dáða.
Stefnumótunin byggði á nokkrum meginforsendum. Í fyrsta lagi á metnaði og áræðni starfsmanna, í öðru lagi á þremur viðamiklum ytri úttektum sem gerðar voru á Háskóla Íslands á árunum 2004-2005, í þriðja lagi á nýlokinni skýrslu starfshóps rektors um niðurstöður og viðbrögð við þessum úttektum, og loks í fjórða lagi á ýmsum eldri stefnuskjölum, s.s. vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands sem samþykkt var á vettvangi háskólafundar árið 2001 og fimm ára áætlun Háskólans sem út kom undir yfirskriftinni „Uppbygging Háskóla Íslands. Markmið og aðgerðir 2002-2005.“
Þá lýsti rektor framkvæmd og skipulagi stefnumótunarstarfsins. Þegar hefði verið skipuð verkefnisstjórn, en að auki yrði leitað til fulltrúa atvinnulífs, erlendra sérfræðinga, nýdoktora, yngri kennara og stúdenta, auk starfsmanna. Að lokum fór rektor yfir tímaáætlun verkefnisins, en gert er ráð fyrir því að sameiginleg stefna fyrir Háskóla Íslands í heild sem og stefna fyrir hverja deild fyrir sig, auk stjórnsýslunnar, liggi fyrir vorið 2006.
Kl. 15.15 - 15.55 - Dagskrárliður 4: Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2005-2009
Fyrir fundinum lágu drög að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2005-2009 og gerði Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent og formaður jafnréttisnefndar, grein fyrir þeim. Byrjaði Hólmfríður á því að óska rektor og Háskóla Íslands til hamingju með jafnréttisverðlaun Jafnréttisráðs sem nýverið voru veitt Háskólanum í tilefni rektorskjörs og fyrir áralangt og kröftugt starf hans í þágu jafnréttismála. Þá rakti Hólmfríður aðdraganda fyrirliggjandi draga að jafnréttisáætlun. Við Háskóla Íslands hefur verið í gildi jafnréttisáætlun frá árinu 2000 og ýmis eftirtektarverð skref verið tekin á grundvelli hennar í því skyni að tryggja jafnræði og jafnrétti milli allra þeirra ólíku hópa og einstaklinga sem innan háskólasamfélagsins starfa. Engu að síður væri nauðsynlegt að yfirvega jafnréttismálin í sífellu og því hefði undanfarið ár verið unnið að því að uppfæra áætlunina og afraksturinn af þeirri vinnu lægi nú fyrir fundinum. Þakkaði Hólmfríður þeim fjölmörgu aðilum sem komið hefðu að undirbúningi málsins, jafnréttisnefnd, jafnréttisfulltrúa, sérfræðingum á sviði jafnréttismála sem og deildum og stofnunum sem veitt hefðu umsagnir um málið. Tvö meginstef væru ríkjandi í fyrirliggjandi drögum að jafnréttisáætlun: Annars vegar valddreifing og hins vegar samþætting jafnréttissjónarmiða og starfsemi Háskólans. Í þessum tveimur stefnum endurspeglaðist sú sannfæring að háskólasamfélagið allt vildi taka þátt í því að byggja upp skóla þar sem allir eru metnir af verðleikum, burtséð frá kyni eða öðrum sérkennum.
Í umsögnum deilda og stofnana hefðu komið fram fjölmargar athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara í textanum. Reynt hefði verið að taka sem flestar þeirra til greina við frágang textans. Margir hefðu gert athugasemd við það að ekki væri gerður nógu skýr greinarmunur á almennri stefnu og framkvæmdaáætlun og hefði verið brugðist við því. Þá hefðu komið fram ábendingar um að skerpa þyrfti á tímasettum aðgerðum innan hvers liðs áætlunarinnar og hefði það verið gert innan þeirra marka sem fjárveitingar til málaflokksins leyfðu. Bent hefði verið á að andstætt fyrri jafnréttisáætlun væri nú ekki sérstakur kafli um kynferðislega áreitni. Svaraði Hólmfríður því til að fyrir þessu væri sú ástæða að á gildistíma síðustu jafnréttisáætlunar hefði verið skilgreint skýrt verklag fyrir umkvörtunarmál á þessu sviði og starfsfólk verið þjálfað til að bregðast við slíkum málum. Málið væri því í góðum farvegi og ekki ástæða til að leggja á það sömu áherslu í nýrri áætlun. Raunar hefði margt fleira áunnist á gildistíma síðustu áætlunar, s.s. útrýming kynbundins launamunar í akademískum störfum, innleiðing starfsmats innan stjórnsýslunnar sem hefði þetta einnig að markmiði, samþykkt stefnu gegn mismunun, skipun ráðs um málefni fatlaðra, tilkoma styrktarsjóðs félags tví- og samkynhneigðra stúdenta, svo nokkuð væri nefnt.
Rektor gaf orðið laust. Málið var rætt og lýstu fundarmenn almennt ánægju með jafnréttisáætlunina og hversu vel hefði verið brugðist við athugasemdum umsagnaraðila. Einn fundarmanna beindi þeirri spurningu til Hólmfríðar, hvort raunhæft væri að taka sér fyrir hendur að samþætta alla starfsemi Háskólans við jafnréttissjónarmið, þ.m.t. kennslu í einstökum námskeiðum. Annar fulltrúi gerði að umtalsefni hversu mikið hefði áunnist í íslenska menntakerfinu á síðustu árum hvað varðar jafnrétti kynjanna til náms. Langt fram eftir 20. öld hefði kennsla og nám næstum eingöngu verið fyrir karla. Á þessu hefði orðið svo mikil breyting að varla væri hægt að tala um ójafnan aðgang að námi eða ójöfn kjör kennara. Í ljósi þessa mætti spyrja, að hvaða ójafnrétti hið nýja áætlun beindist. Svo virtist sem hún tæki mið af veruleika sem ríkt hefði í kynslóð foreldra okkar, en ekki þeim veruleika sem börn okkar stæðu frammi fyrir. Færa mætti rök fyrir því að kynbundið ójafnrétti væri að eldast upp úr kerfinu, enda væri kynskipting innan tiltekinna starfshópa, s.s. prófessora, mest meðal eldri starfsmanna en hverfandi lítil meðal hinna yngri. Í samtíma okkar væri hlutur kvenna mjög góður frá leikskóla og í grunnskóla. Strax í framhaldsskóla væru stúlkur í meirihluta og í háskóla væri næstum einn karl á móti hverjum tveimur konum. Í ljósi þessa virtist jafnréttisáætlunin taka mið af verkfræðideild sem væri eina deild Háskólans þar sem karlar væru enn í meirihluta meðal nemenda. Þá velti annar fundarmaður upp þeirri spurningu, hvort skynsamlegt væri að stefna að því að í öllum deildum og skorum skólans væru jafn margar konur og karlar. Ef aðgangur nemenda væri óhindraður gæti ekki verið um misrétti að ræða, heldur endurspegluðu ólík hlutföll kvenna og karla meðal nemenda öðru fremur mismunandi óskir eða frjálst námsval. Varðandi þátttöku kynjanna í nefndum og stjórnum mætti einnig spyrja, hvort og hvers vegna það væri talið æskilegt markmið að ætíð væru jafn margir af hvoru kyni. Með þessari kröfu væri hugsanlega gefin sú forsenda að kynin væru andstæðingar og að ekki væri hægt að fela öðru kyninu að fara með hagsmuni beggja. Í reynd væri þetta afar erfitt í framkvæmd, t.d. á þröngum sérfræðisviðum þar sem starfsmenn væru fáir. Ef þróunin yrði áfram sú sama og á undanförnum árum gæti jafnvel farið svo eftir tvo til þrjá áratugi að karlmenn ættu erfitt með að starfa í Háskólanum vegna stjórnunarálags til að uppfylla karlakvóta.
Svaraði Hólmfríður því til að jafnréttisáætlunin tæki aðeins til nokkurra ára og yrði endurmetin að þeim tíma liðnum eftir því sem ástæða er til. Um þátttöku kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum væri það að segja að ekki væri krafist skilyrðislauss jöfnuðar, heldur „eftir því sem við á“. Hér væri því um meginreglu að ræða en ekki ófrávíkjanlega kröfu. Loks mætti benda á að í þessum málum væri ekki um sérvisku að ræða, heldur væri mælt fyrir um það í landslögum að stofnunum á borð við Háskóla Íslands beri að hafa jafnréttisáætlun.
Formaður kennslumálanefndar benti á að í umsögn nefndarinnar hefði verið fundið að því að í 3. kafla, 3. lið væri þess krafist að „jafnréttissjónarmið og kynjafræðileg umfjöllun verði fléttuð inn í kennsluaðferðir og námsefni allra deilda eftir því sem við á.“ Þrátt fyrir fyrirvarann í lok setningarinnar orkaði þetta ákvæði tvímælis því það fæli í sér óljósan möguleika á íhlutun í starf kennarans. Í næsta lið á undan segði að unnið skuli að því að staðblær, viðhorf til náms og fyrirkomulag kennslu í einstökum deildum fæli hvorki karla né konur frá því að velja þá námsleið sem hugur þeirra standi til - og með því væri nógu skýrt kveðið á um þetta efni. Liður 3 væri því óþarfur og betra að fella hann niður. Í öðru lagi stingi orðfæri í inngangi 4. kafla í stúf við anda jafnréttisáætlunarinnar að öðru leyti, en þar segði að markmiðið með samþættingu væri að „flétta sjónarhorn kynferðis inn í alla stefnumótun, endurskilgreina viðteknar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika og að gera konum og körlum kleift af samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf.“ Hér gengi jafnréttisáætlunin of langt og auk þess væri vandséð hvernig ætti að efna þetta ákvæði. Í þriðja lagi ættu sömu efasemdir við um næstsíðustu setningu inngangsins, þar sem segði: „Í samþættingu felst viðurkenning á því að endurskoða þarf formgerð og kerfi samfélagsins þar sem þau eiga sinn þátt í að skapa og halda við kynbundnum vanda eða mismunun.“ Þessi orð væru óþarflega háfleyg - þau gætu í reynd merkt allt og ekkert og væru fyrir vikið ótrúverðug. Að því sögðu bar formaður kennslumálanefndar upp þrjár breytingatillögur. Í fyrsta lagi verði felldur niður 3. liður 3. kafla. Í öðru lagi verði felld niður orðin „endurskilgreina viðteknar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika“ í inngangi 3. kafla. Í þriðja lagi verði felld niður setningin „Í samþættingu felst viðurkenning á því að endurskoða þarf formgerð og kerfi samfélagsins þar sem þau eiga sinn þátt í að skapa og halda við kynbundnum vanda eða mismunun“ í inngangi 4. kafla.
Málið var rætt og að umræðu lokinni bar rektor upp svohljóðandi breytingatillögu:
Rektor og jafnréttisnefnd verði falið að endurorða næstsíðustu setninguna í inngangi að 4. kafla.
- Samþykkt með 22 atkvæðum, en einn var á móti.
Næst bar rektor upp tillögu um að felld verði niður í 2. setningu inngangs að 4. kafla orðin „endurskilgreina viðteknar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika“.
- Samþykkt með þorra atkvæða, en enginn var á móti.
Þá bar rektor upp tillögu um að 3. liður 3. kafla verði felldur niður.
- Samþykkt með 18 atkvæðum, en 8 voru á móti.
Loks bar rektor jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2005-2009, svo breytta, í heild sinni undir atkvæði.
- Samþykkt með þorra atkvæða, en enginn var á móti.
Að lokum þakkaði rektor Hólmfríði Garðarsdóttur kærlega fyrir kynninguna.
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Hólmfríðar Garðarsdóttur, þau Sigurður Brynjólfsson, Gylfi Magnússon, Sigurður Júlíus Grétarsson og Dagný Kristjánsdóttir.
Kl. 15.55 - 16.30 - Dagskrárliður 5: Siðareglur Háskóla Íslands
Einar Sigurbjörnsson, prófessor og formaður siðanefndar, gerði grein fyrir málinu. Hóf hann framsögu sína á því að rifja upp að á háskólafundi 26. maí 2005 hafi hann, Dagný Kristjánsdóttir prófessor, María Þorsteinsdóttir dósent, Rannveig Traustadóttir prófessor og Vilhjálmur Árnason prófessor verið skipuð í nefnd er skyldi útfæra tillögur um siðareglur Háskóla Íslands. Nefndin hélt nokkra fundi þar sem rætt var um stöðu siðareglna almennt og siðareglur Háskóla Íslands sérstaklega. Þá aflaði starfshópurinn ýmissa gagna um fyrirkomulag þessara mála meðal nágrannaþjóðanna. Niðurstaða hópsins varð sú að leggja til að siðareglur innan háskólasamfélagsins yrðu þríþættar:
1. Leiðarljós háskólasamfélagsins í heild, þ.e. almenn viðmið um háttvísi allra þeirra sem starfa við Háskólann.
2. Siðareglur sem draga sérstaklega fram skyldur og ábyrgð þeirra háskólamanna sem starfa við kennslu og rannsóknir.
3. Sérreglur fagstétta og fræðasviða, svo sem um meðferð rannsóknaviðfangsefna.
Viðvíkjandi fyrsta liðinn legði starfshópurinn til að núverandi siðareglur Háskóla Íslands haldi gildi sínu sem leiðarljós háskólasamfélagsins en um leið yrði staða og lögmæti þeirra svo og umboð siðanefndar styrkt með því móti sem lýst er í liðum a-d í tillögum starfshópsins.
Varðandi lið a) í tillögunum hefði Háskólinn þegar beint þeim tilmælum til menntamálaráðuneytisins að inn í nýja löggjöf um háskólastigið verði sett heimild til háskóla um að setja sér siðareglur.
Í lið b) segði að háskólaráð skyldi staðfesta þær siðareglur sem háskólasamfélagið hefði sjálft sett sér á háskólafundi.
Í lið c) væri þess farið á leit við félög kennara við Háskóla Íslands að þau samþykki siðareglurnar.
Loks væri í lið d) lagt til að siðanefndin verði styrkt þannig að auk formanns sem rektor skipar án tilnefningar tilnefni kennarafélögin hvort sinn fasta fulltrúa. Til viðbótar komi svo tveir fulltrúar sem rektor skipar sérstaklega eftir eðli hvers máls.
Viðvíkjandi öðrum lið leggi starfshópurinn til að félög kennara við Háskóla Íslands hafi að því frumkvæði, gjarnan í samstarfi við aðra aðila, að settar verði ítarlegri siðareglur um góð vísindaleg vinnubrögð, heiðarleika, hagsmunaárekstra og önnur siðferðileg álitamál sem tengjast kennslu og rannsóknum innan háskóla.
Varðandi þriðja liðinn leggi starfshópurinn til að á einstökum fræðasviðum hefjist vinna við að setja siðareglur um rannsóknir þar sem sérstakrar varúðar sé þörf svo sem vegna eðlis viðfangsefnisins. Bendi hópurinn á að það hafa þegar verið lögð drög að slíkum reglum um rannsóknir í félagsvísindum á vegum félagsvísindadeildar Háskólans og gætu þær á margan hátt verið fyrirmynd að slíkum reglum.
Rektor þakkaði Einari kærlega fyrir framsöguna og gaf orðið laust. Málið var rætt. Í umræðunni var þeirri spurningu beint til starfshóps rektors, hvers vegna siðareglur Háskólans væru nú aftur til meðferðar á háskólafundi þótt aðeins væri liðinn skammur tími frá því að þær hefðu verið samþykktar á sama vettvangi eftir vandlegan undirbúning. Svaraði einn meðlimur í starfshópi rektors því til að ekki hefði verið um það ágreiningur innan Háskólans að hann ætti að hafa leiðbeinandi siðareglur. Hins vegar hefði reynst nauðsynlegt að endurskoða reglurnar vegna þess að þeim hefði verið ögrað utanfrá. Í máli sem siðanefnd hefði haft til meðferðar hefði einn málsaðili leitað til dómstóls sem hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri nægileg lagastoð fyrir siðareglunum. Jafnframt hefði úrskurður dómstólsins verið um margt óljós og því hefðu siðareglurnar svifið í lausu lofti. Hópurinn legði til að brugðist verði við þeirri réttaróvissu sem upp væri komin með því að óska eftir því að við fyrirhugaða endurskoðun almennra laga um háskóla verði kveðið á um það að háskólum beri að setja sér siðareglur. Þetta væri fyrst og fremst til að styrkja grundvöll siðareglnanna, en í því fælist alls ekki að þær ættu að vera einhverskonar lagareglur og siðanefnd dómstóll. Samstarfsnefnd háskólastigsins hefði þegar fjallað um málið og komið þessari ósk á framfæri við stjórnvöld. Til viðbótar hefði starfshópurinn sett fram tillögur um ýmsa einstaka þætti sem gætu orðið til þess að styrkja siðareglurnar enn frekar í sessi. Þannig væri lagt til að Háskólinn hefði almennar siðareglur sem væru eins konar grunnur og síðan yrðu settar nánari reglur fyrir fagfélög kennara og loks sérstakar siðareglur um rannsóknir á einstökum fræðasviðum.
Einn fundarmanna varpaði fram þeirri spurningu, hvers vegna tillagan gerði ráð fyrir að í siðanefnd sitji aðeins fulltrúar tveggja kennarafélaga, þótt við Háskólann starfi hópur fræðimanna í öðrum félögum. Svaraði Einar því til að ástæðan væri sú að Félag háskólakennara og Félag prófessora væru langfjölmennustu félögin og því væru þau höfð til viðmiðunar.
Loks var á það bent að mikilvægt væri að Háskóli Íslands sæi til þess að ungir vísindamenn og nemendur tileinkuðu sér siðareglurnar, enda væri slíkt viðtekin venja við háskóla um allan heim.
Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að fyrirliggjandi tillögum starfshópsins verði vísað til umsagnar deilda, stofnana og Félags prófessora og Félags háskólakennara.
- Samþykkt einróma.
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Einars Sigurbjörnssonar, þau Sigurður Brynjólfsson, Hörður Filippusson, Rannveig Traustadóttir, Páll Hreinsson, Björg Thorarensen, Vilhjálmur Árnason og Magnús Diðrik Baldursson.
Að lokum þakkaði rektor fulltrúum á háskólafundi fyrir góðan fund.
Rektor sleit fundi kl. 16.30.
Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 18. háskólafundi 17. nóvember 2005:
1. Dagskrá og tímaáætlun 18. háskólafundar 17. nóvember 2005.
2. Endurskoðuð dagskrá og tímaáætlun.
3. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
4. Lokaskýrsla vegna úttektar Samtaka evrópskra háskóla (EUA) á Háskóla Íslands.
5. Skýrsla starfshóps rektors um viðbrögð við niðurstöðum ytri úttekta á Háskóla Íslands 2004 og 2005.
6. Endurskoðuð drög að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2005-2009 - samin af jafnréttisnefnd háskólaráðs.
7. Niðurstaða nefndar sem kosin var á háskólafundi 26. maí 2005 til að útfæra tillögur starfshóps rektors um stöðu siðareglna Háskóla Íslands.
8. Tillaga viðskipta- og hagfræðideildar og lagadeildar um heimild til þess að taka skólagjöld í meistaranámi, skv. nánari ákvörðun háskólaráðs.
9. Dagskrártillaga viðskipta- og hagfræðideildar og viðskiptafræðideildar.