Forkröfur fyrir hjúkrunarfræði eða ljósmóðurfræði - Undirbúningsnám
Forkröfur fyrir hjúkrunarfræði eða ljósmóðurfræði
Undirbúningsnám –
Námsleið fyrir þau sem hyggjast sækja um ljósmóðurfræði til starfsréttinda (MS). Einnig fyrir nemendur sem stefna á framhaldsnám og eru með íslenskt hjúkrunarleyfi en hafa lokið erlendu háskólaprófi í hjúkrunarfræði sem ekki telst sambærilegt íslensku BS prófi og þurfa að ljúka tilteknum forkröfunámskeiðum áður.
Skipulag náms
- Haust
- Klínísk færni í fjölskylduhjúkrun (forkrafa A & B)
- Heimahjúkrun (forkrafa A & B)
- Langveikir og heilbrigðisþjónustan (forkrafa A & B)
- Vor
- Tölfræði (forkrafa A & B)
- Aðferðafræði (forkrafa A & B)
- Lokaverkefni (forkrafa A & B)
Klínísk færni í fjölskylduhjúkrun (forkrafa A & B) (HJÚ139G)
Í námskeiðinu verður lögð áherslu á að nemendur kynnist hlutverki hjúkrunarfræðinga innan heilsugæslunnar s.s. ung- og smábarnavernd og almennri móttöku. Sérstök áhersla verður lögð á umfjöllun um umönnun og eftirlit nýbura, sængurkvenna og fjölskyldna, hjúkrun ungu fjölskyldunnar og um hugmyndafræði fjölskylduhjúkrunar og sú hugmyndafræði útfærð fyrir skjólstæðinga heilsugæslunnar.
Í námskeiðinu kynnast nemendur aðlögun foreldra að nýjum hlutverkum og er meðal annars farið í tengslamyndun í fjölskyldum. Jafnframt er farið í ýmis frávik svo sem áhrif meðgöngu- og fæðingarreynslu á heilsu móður og barns og þunglyndi mæðra eftir fæðingu. Nemendur öðlast grunnþekkingu og þjálfun í því að meta sérþarfir og heilsufarsástand mæðra, nýbura og fjölskyldna eftir fæðingu, bæði með klínískri starfsþjálfun og einnig með gerð lausnaleitarverkefna. Áhersla verður lögð á að þjálfa nemendur í samskiptum við skjólstæðinga og fyrirbyggjandi og heilbrigðishvetjandi hjúkrun.
Megin markmið námskeiðsins er að dýpka skilning nemenda á þeirri heilbrigðisþjónustu sem innt er af hendi innan heilsugæslunnar og um leið að auka skilning þeirra á hlutverki hjúkrunarfræðinga í almennri og sérhæfðri móttöku á heilsugæslustöðvum. Megin áhersla er lögð á heilsuvernd og fræðslu og stuðning við fjölskyldur sem eru skjólstæðingar heilsugæslunnar. Fjallað verður um hugtök og kenningar tengdar hjúkrun fjölskyldna, heilsuvernd og aðferðir við þróun fjölskylduviðtala og fræðslu- og stuðningsmeðferða. Auk þess verður fjallað um það hvernig hjúkrunarfræðingar geta nýtt gagnreynda starfshætti á klínískum vettvangi og hugmyndafræði heilsugæsluhjúkrunar í starfi og til rannsókna. Stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum verður höfð að leiðarljósi. Námskeiðinu er þannig ætlað að gefa nemendum tækifæri til að þróa eigin færni í að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur í eigin heilsurækt. Þannig gefur námskeiðið nemendum tækifæri til að kynnast ákveðnum sérsviðum innan hjúkrunar.
Heimahjúkrun (forkrafa A & B) (HJÚ140G)
Í námskeiðinu verður fjallað um heimilið sem vettvang heilbrigðisþjónustu. Rætt verður um gildi heimilisins fyrir fólk og áhrif tæknivæðingar á heimilismenn. Leitast verður við að skoða samspil umhverfis á heimilum og heilsu og lífsgæða. Samstarf við aðstandendur og aðstæður þeirra verða ræddar með hliðsjón af innlendum og erlendum rannsóknum. Gerð verður grein fyrir uppbyggingu og skipulagi heilbrigðis- og félagsþjónustu til þeirra sem dvelja heima og þarfnast aðstoðar vegna veikinda eða skerðingar á færni. Í fyrirlestrum og klínísku námi kynnist nemandi störfum í heimahjúkrun sem miða að því að viðhalda og efla vellíðan fólks með langvinn heilsufarsvandamál sem býr á eigin heimili.
Langveikir og heilbrigðisþjónustan (forkrafa A & B) (HJÚ141G)
Námskeiðið er ætlað 4. árs BS nemendum og MS nemendum í hjúkrunarfræði. Það er fræðilegt (4 ECTS) og klínískt (1 ECTS) og skiptist í tvo þætti:
Þjónustunotkun og íslensk heilbrigðisþjónusta í alþjóðlegu samhengi.
Fjallað er um veikindahegðun og þjónustunotkun, skýringar á þjónustunotkun, einkenni þeirra sem nota heilbrigðisþjónustu, skipulag á og aðgengi að þjónustu, árangur og árangursmælingar í heilbrigðisþjónustu. Umsjón með þessum þætti námskeiðsins hefur Rúnar Vilhjálmsson, prófessor.
Meðferð/þjónusta hjúkrunarfræðinga fyrir langveika og fjölskyldur þeirra.
Fjallað er um hugtök, einkenni og fyrirbæri sem tengjast langveikum og fjölskyldum þeirra og hjúkrunarmeðferðir sérsniðnar að þörfum langveikra og fjölskyldna þeirra. Einnig er fjallað um siðferðileg álitamál í þjónustu við langveika og fjölskyldur þeirra og úrvinnsla álitamála þjálfuð. Nemendur kynnast starfsemi stofnana sem þjónusta langveika, verða í klínísku námi á göngudeildum fyrir langveika og kynnast starfsemi sjúklingasamtaka.
Tölfræði (forkrafa A & B) (HJÚ267G)
Í námskeiðinu eru kennd undirstöðuatriði hagnýtrar tölfræði. Að megin efni er fjallað um tölfræðilega úrvinnslu, túlkun á niðurstöðum og framsetningu. Helstu efnisþættir eru: Mælingar á miðlægni og dreifingu í talnasöfnum, stöðlun, normaldreifing, öryggismörk, marktækni (z-, t- og x2-próf) og fylgni (líkindahlutfall, fí, Spearman's r og Pearson's r.
Aðferðafræði (forkrafa A & B) (HJÚ265G)
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á helstu hugtökum í aðferðafræði sem og þekkingu á algengustu rannsóknaaðferðum sem beitt er í hjúkrunarrannsóknum.
Lokaverkefni (forkrafa A & B) (HJÚ244L)
Lokaverkefni í hjúkrunarfræði er 10 eininga námskeið sem undirbýr nemendur fyrir að beita fræðilegum vinnubrögðum og aðferðafræðilegri þekkingu í þeim tilgangi að setja fram nýja þekkingu með hagnýtt gildi. Nemendur vinna verkefni að jafnaði tveir saman undir leiðsögn bæði fastráðinna kennara við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild og hjúkrunarfræðinga á klínískum vettvangi með a.m.k. meistarapróf. Verkefnin verða byggð á fræðilegum heimildum og tengjast klínískri vinnu hjúkrunarfræðinga.
Hafðu samband
Skrifstofa Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar
Eirberg, 1. hæð, Eiríksgata 34
101 Reykjavík
Sími 525 4960
hjukrun@hi.is
Opið virka daga frá kl. 9 - 14
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.