Skip to main content

Klassísk fræði - Aukagrein

Klassísk fræði - Aukagrein

Hugvísindasvið

Klassísk fræði

Aukagrein – 60 einingar

Klassísk fræði fást við menningarheim Forngrikkja og Rómverja. Megináhersla er lögð á sögu þeirra, bókmenntir, heimspeki og tungumál. Klassísk fræði eru þess vegna í senn sagn- og bókmenntafræði, heimspeki og málvísindi.

Skipulag náms

X

Latína I: Byrjendanámskeið (KLM101G)

Námskeiðið er 10 eininga inngangsnámskeið í latínu ætlað byrjendum. Ekki er gert ráð fyrir kunnáttu í latínu við upphaf námskeiðs en æskilegt er að nemendur hafi góðan skilning á íslenskri málfræði. Farið er yfir beygingafræði latínunnar svo og undirstöðuatriði setningafræðinnar. Stuttir leskaflar og málfræðiæfingar.

Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.

X

Forngríska I: Byrjendanámskeið (KLM102G)

Í námskeiðinu verður farið yfir beygingarfræði forngrísku (attísku) í meginatriðum svo og undirstöðuatriði setningafræðinnar. Áhersla er lögð á að nemendur læri í námskeiðinu þau atriði sem þeir þurfa til að geta byrjað að lesa og þýða forngríska texta. Ekki er gert ráð fyrir neinni kunnáttu í grísku í upphafi námskeiðs en æskilegt er að nemendur hafi góðan skilning á íslenskri málfræði.

Fylgt verður 2. útg. kennslubókar Donalds J. Mastronarde. Lögð verður áhersla á meginatriði. Kennt verður tvisvar í viku. Kennslustundir innihalda bæði fyrirlestur sem tekur fyrir afmarkað efni og verkefnavinnu þar sem reynir á virkni nemenda. Valdir textar verða þýddir og skýrðir málfræðilega. Lestur námsefnisins fyrir hvern tíma er nauðsynlegt skilyrði þess að nemendur nái valdi á námsefninu. Hverjum fyrirlestri fylgja glósur kennara, sem settar verða á Canvas.

Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.

X

Heimur Forngrikkja: Saga og samfélag (KLM115G)

Raktir verða þættir úr sögu Forngrikkja, með áherslu á menningu þeirra og hugmyndaheim frá upphafi til yfirráða Rómar. Lesnir verða valdir kaflar úr bókmenntaverkum þeirra í þýðingum.

X

Inngangur að Gamla testamentinu (GFR104G)

Fjallað verður um tilurðar- og bókmenntasögu Gamla testamentisins og þá mynd af stjórnmálasögu og trúarsögu „Ísraels“ sem þar er sett fram. Jafnframt verður fjallað um niðurstöður nýjustu ritskýringar-, sagnfræði- og fornleifarannsókna á stjórnmála- og trúarsögu landsvæðisins fyrir botni Miðjarðarhafs frá lokum bronsaldar og á 1. árþúsundi f. Kr. og þær niðurstöður bornar saman við söguskilning Gamla testamentisins. M.ö.o. verður annars vegar leitast við að varpa ljósi á „Ísrael“ Biblíunnar og hins vegar „Ísrael“ sögunnar (í sagnfræðilegum skilningi). Hugað verður að ólíkum hugmyndahefðum sem varðveittar eru í mismunandi bókmenntahefðum Gamla testamentisins og þessar hugmyndahefðir settar í almennt samhengi menningar og trúar þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs til forna. Einnig verður hugað að þróun guðsmyndarinnar í konungsríkjunum Ísrael og Júda á grundvelli rannsókna á félagssögulegu samhengi átrúnaðar í G.t.

Til grundvallar liggur nálgun og umfjöllun kennslubókar námskeiðsins, Introduction to the Bible eftir Christine Hayes, prófessor í trúarbragðafræðum við Yale-háskóla.

X

Hómer (KLM303G)

Lesið verður úr kviðum Hómers í þýðingu og á frummáli. Nemendur kynnast sögulegum bakgrunni kviðanna og inntaki þeirra en einnig bragarhætti og efnistökum Hómers og vinna nokkur smærri verkefni.

Nemendum stendur til boða að vinna sérverkefni sem byggja á lestri frumtexta (5 eða 10 eininga) samhliða námskeiðinu.

X

Gríska Nýja testamentisins (GFR212G)

Meginmarkmið þessa námskeiðs er að veita nemendum grunn til að lesa og túlka texta Nýja testamentisins á sjálfstæðan hátt. Farið verður yfir meginatriði málfræðilegrar uppbyggingar forngrísku og textadæmi úr Nýja testamentinu og öðrum frumkristnum textum lesin í því sambandi. Lögð verður áhersla á hagnýtingu grískukunnáttunnar innan guðfræði og trúarbragðafræði.

X

Fornaldarheimspeki (HSP104G)

Meginmarkmið námskeiðsins er þríþætt:

  • Í fyrsta lagi að nemendur öðlist skilning á viðfangsefnum vestrænnar heimspeki í fornöld, sögulegri þróun hennar og félagslegu umhverfi.
  • Í öðru lagi að þeir læri að lesa og greina heimspekilega texta úr fornöld og beita þeim til að svara brýnum spurningum samtímans.
  • Í þriðja lagi að þeir öðlist færni í að skrifa heimspekilega texta út frá lesefni í fornaldarheimspeki.

Við leggjum áherslu á að lesa heil verk í íslenskum þýðingum, með sérstakri áherslu á Ríkið eftir Platon, og í tímum munum við leitast við að greina helstu kenningar og rökfærslur í textunum. Nemendur vinna einir og í hópum að verkefnum undir leiðsögn kennara en stór þáttur námskeiðsins felst í gagnkvæmum stuðningi nemenda í verkefnum. 

Fyrsti tími verður haldinn þriðjudaginn 31. ágúst. Þá förum við saman yfir kennsluáætlun, hæfniviðmið og námsmat og nemendur fá fyrsta verkefni vetrarins. Þrisvar sinnum á önninni (eftir hádegi á föstudögum) verða jafningjamatsdagar þar sem nemendur lesa og meta verkefni hvers annars og er þátttaka í þeim mikilvægur hluti af námsmati.

Íslenskar þýðingar texta fást með 25% afslætti hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi (við Hagatorg) og skal tekið fram að sum verkin eru líka notuð í öðrum heimspekinámskeiðum. Eins er einfalt að nálgast þau á bókasöfnum.

X

Dauði og endurfæðing - Inngangur að síðmiðöldum - Heimssaga I (SAG115G)

Síðmiðaldir (14.-15. öld) einkenndust af andstreymi á flestum sviðum evrópsks samfélags. Eftir mannfjölgun, þenslu og vöxt undangenginna þriggja alda sóttu drepsóttir nú fast að með mannfelli og hörmungum. Efnahagsþrengingar settu svip sinn á mannlíf hátt og lágt ― valdamenningu, félagsformgerðir og trúarlíf. Menntun, menning og listir héldu fyrra afli en dauði og forgengileiki mannlegs lífs var víða í forgrunni. Innri friður álfunnar átti einnig undir högg að sækja þegar konungsveldi efldust enn frekar, oft með íþyngjandi og ófriðlegum hætti fyrir vinnandi stéttir og almúga. Rómarkirkjan, sem risið hafði hátt undir páfavaldi á hámiðöldum, fór hins vegar halloka fyrir veraldarvaldhöfum eða staðbundnu kirkjuvaldi og dró úr völdum páfa innan kirkju og kristindóms. En hvert sem litið er á tímabilinu haldast dauði og endurfæðing í hendur, eftirvænting eftir því sem tekur við þessa heims og annars í skugga dauðans.
Dauði og endurfæðing er inngangsnámskeið sniðið að nýnemum í sagnfræði ― öðrum er velkomið að nýta það sem valnámskeið. Lesin verður grunnbók um tímabilið en sjónum einkum beint að eftirtöldum þemum í fyrirlestrum: (1) Hnignun páfavalds og efling kirkjuþinga; (2) trúarinnlifun, alþýðutrú og mystisismi; (3) efling ríkisvalds við þröngan kost, stríð og örðuga skattheimtu; (4) Svarti dauði og mannfækkun af hallærum ― langvinn áhrif á efnahag, verslun og félagsgerðir; (5) menntun, menning og listir í skugga mannfellis og drepsótta; (6) rætur siðaskipta og endurreisnar í miðaldamenningu.
Námsmat byggir á stuttri ritgerð og skriflegu lokaprófi.

X

Inngangur að klassískum fræðum (KLM103G)

Námskeiðið er inngangur að klassískum fræðum eða fornfræði. Fjallað verður um sögu og þróun fræðigreinarinnar og helstu viðfangsefni hennar og aðferðir í nútímanum: Nemendum verður kynnt klassísk textafræði og hinar ýmsu greinar klassískra fræða og viðfangsefnum þeirra, svo sem sagnfræði, heimspeki og bókmenntir fornaldar. Auk þess verður fjallað um heimildavinnu og vinnulag í klassískum fræðum og þær venjur sem mótast hafa í greininni. Nemendum verða kynnt helstu stoðrit klassískra fræða og reynt verður að efla ratvísi þeirra um heim klassíkurinnar. Þekking á fornmálunum er ekki áskilin.

X

Grísk leikritun (KLM107G)

Óbilgirni, þrjóska, stolt og trúnaðarbrestur geta haft skelfilegar afleiðingar, svo ekki sé minnst á móðurmorð, föðurmorð og sifjaspell. En stundum er hreinlega eins og örlögin ráði ferðinni og kaldhæðni þeirra er oft mikil. Þetta eru kunnugleg stef úr grískum harmleikjum.

Námskeiði þessu er einmitt ætlað að kynna nemendum gríska harmleikinn sem bókmenntagrein. Nemendur lesa all nokkur leikrit í íslenskri þýðingu og kynnast þannig vel bæði formi og inntaki grískra harmleikja. Við munum leiða hugann að ýmsu í grískum harmleikjum, þ.á m. samskiptum manna og guða, valdi örlaganna og ábyrgð manna, stöðu kynjanna, sjálfsmynd Grikkja og birtingarmynd útlendinga.

Þekking á frummálinu er ekki nauðsynleg en þó vinni þeir nemendur þýðingarverkefni sem hafa forsendur til þess.

X

Heimspekilegir textar (KLM307G)

Í námskeiðinu eru lesnir valdir heimspekilegir textar klassískrar fornaldar. Að þessu sinni verður lesið úr Lögunum eftir Platon.

Lögin eru bæði lengsta verk Platons og það síðasta. Samræðan fjallar um stjórnmálaheimspeki en með nokkuð öðrum hætti en eldra verk Platons, Ríkið. Í námskeiðinu vörpum við ljósi á þá stjórnmálaheimspeki sem er að finna í Lögunum og setjum í samhengi við aðrar heimspekilegar hugmyndir Platons.

Kunnáttu í grísku og latínu er ekki krafist en nemendur í grísku, latínu eða klassískum fræðum geta valið að taka sérverkefni (5 eða 10 ECTS) um grískan eða latneskan frumtexta í tengslum við námskeiðið. Sérverkefnum sem nemendum stendur til boða að vinna er ætlað að styrkja grísku- og/eða latínukunnáttu nemenda (orðaforða og málfræði) og þjálfa nemendur í lestri frumtexta og greiningu þeirra.

X

Sagnfræðileg vinnubrögð (SAG101G)

Fjallað er um sérstöðu og einkenni sagnfræði og hvernig sambandi hennar við aðrar fræðigreinar er háttað. Rannsóknatækni sagnfræðinga er kynnt sem og fræðileg vinnubrögð í sagnfræði, einkum heimildafræði, megindlegar aðferðir í sagnfræði og ritgerðasmíð. - Námskeiðið skal taka á fyrsta misseri í sagnfræðinámi (öðru misseri fyrir þá nemendur sem byrja um áramót).

X

Heimur Rómverja: Saga og samfélag (KLM216G)

Námskeiðið kynnir nemendum menningu, sögu og samfélag Rómverja. Áhersla verður lögð á tímann frá 201 f.o.t. til 180 e.o.t. Fjallað verður um helstu atburði sögunnar, megin stofnanir samfélagsins, samfélagsgerð, fjölskyldu og kynjahlutverk, þrælahald, menntun, menningu, trú afþreyingu og hversdagslíf. Auk stoðrita verða lesnir fornir textar í þýðingu (enskri eða íslenskri) en ekki gert ráð fyrir latínukunnáttu.

X

Frumkristni: Samtíðar- og bókmenntasaga (GFR211G)

Í þessu námskeiði verður fjallað um upphaf frumkristni sem og sögulegan og hugmyndafræðilegan bakgrunn hennar. Áhersla verður lögð á rætur frumkristni í síðgyðingdómi og saga og þróun síðgyðingdómsins rakin í því sambandi. Einnig verða hugmyndafræðilegar rætur frumkristni í hinum helleníska menningarheimi skoðaðar. Fjallað verður um frumkristnar bókmenntir þar sem áhersla verður lögð á sagnfræðilega nálgun efnisins. Gefin verður innsýn í einstök rit Nýja testamentisins sem og önnur frumkristin rit, einkum í ljósi sögulegs samhengis þeirra og annarra samtímabókmennta. Einnig verður fjallað almennt um eðli og form rita af þessu tagi. Þannig verður lagður faglegur grunnur að lestri og rannsóknum á frumkristnum textum.

X

Miðaldabókmenntir (ÍSL206G)

Fjallað verður um mismunandi leiðir til þess að nálgast miðaldatexta, hvort sem er eftir hefðbundnum leiðum bókmenntafræði miðalda eða nútímabókmenntarannsókna. Þá verður lesið og rætt um viðhorf miðaldamanna til bókmenningar, sagnaskemmtunar og skáldskapar. Helstu greinar íslenskra miðaldabókmennta verða lesnar.

X

Miðaldalatína (KLM203G)

Í námskeiðinu verða lesnir og þýddir valdir kaflar úr latneskum miðaldabókmenntum (allt frá lokum 4ðu aldar til upphafs þeirrar 16du) úr ýmsum áttum: fagurbókmenntum og sagnaritun, heimspeki og guðfræði. Textar verða skýrðir málfræðilega og ræddir efnislega eftir þörfum.

Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendum, sem hafa annað móðurmál en íslensku, stendur til boða að ljúka verkefnum og prófum á ensku.

X

Latína II: Úrval latneskra texta (KLM201G)

Námskeiðið tekur við af KLM101G Latínu I. Í námskeiðinu verður lesið úrval latneskra texta eftir ýmsa höfunda.

Kennt er á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.

X

Forngríska II (KLM202G)

Námskeiðið tekur við af KLM102G Forngrísku I. Í fyrri hluta námskeiðsins er haldið áfram með málfræði og setningafræði forngrísku (attísku) þar sem yfirferð lauk í Forngrísku I. Í síðari hluta námskeiðsins lesa nemendur úrval forngrískra texta frá ýmsum tímum og eftir ýmsa höfunda.

Kennsla fer þannig fram að fyrir hvern tíma er settur ákveðinn texti. Ætlast er til að nemendur lesi textann heima. Í tímanum er textinn þýddur og skýrður málfræðilega (og efnislega eftir atvikum).

Nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.

X

Latneskar bókmenntir (ABF225G)

Með lestri valinna bókmenntaverka af ýmsu tagi verður leitast við að fá yfirsýn yfir meira en tvö þúsund ára sögu bókmennta á latínu frá Rómaríki til Skandinavíu á sautjándu öld. Verkin eru lesin í íslenskum þýðingum ef völ er á.

X

Forsaga (FOR204G)

Forsaga fjallar um menningarsögu mannkyns eins og hún birtist í efnismenningunni, frá upphafi verkmenningar fyrir rúmlega 2,5 milljónum ára til loka járnaldar (≈ 0-800 AD), þ.e. einkum þau tímabil sem aðeins takmarkaðar eða engar ritheimildir eru til um. Í námskeiðinu verður farið yfir grundvallaratriði forsögu, svo sem tímatalsfræði og skilgreiningar forsögulegra menningarsamfélaga. Auk þess  verður fjallað um ýmsar birtingarmyndir forsögulegra menningarsamfélaga, svo sem búsetumynstur, grafsiði, verkmenningu og verktækni, verslun og viðurværi. Áhersla verður lögð á þróun mannsins í hnattrænu samhengi og síðari forsögu Evrópu (≈ 10.000 BC-800 AD).

Í lok námskeiðsins er þess vænst að nemendur geti fótað sig í orðfæri forsögulegrar fornleifafræði og kunni skil á helstu vörðum forsögulegrar tímatalsfræði og evrópskrar forsögu.

X

Siðfræði (HSP202G)

Veitt verður yfirlit yfir þrjár af höfuðkenningum siðfræðinnar, reist á lestri frumtexta: kenningu Aristótelesar í Siðfræði hans, Johns Stuarts Mill í Nytjastefnunni og Immanuels Kant í Frumspeki siðlegrar breytni.

Námskeiðið er 10 eininga inngangsnámskeið í II. hluta heimspekináms. Ætlast er til að það sé tekið á öðru misseri fyrsta námsárs í heimspeki. Námskeiðið getur verið valnámskeið fyrir nemendur í ýmsum öðrum greinum.

Fluttir verða 2 x 12 fyrirlestrar. Lestur námsefnisins er nauðsynlegt skilyrði fyrir árangursríkri þátttöku í tímum. Hver fyrirlestur tekur fyrir afmarkað efni. Að loknum fyrirlestri verða glærur settar inn á heimasvæði námskeiðsins í Canvas.

X

Þróun málvísinda (AMV205G)

Í námskeiðinu er saga málvísinda og málspeki rakin í megindráttum frá fornöld til nútímans. Áhersla er lögð á þær kenningar og uppgötvanir sem afdrifaríkastar hafa orðið fyrir hugmyndir og aðferðafræði málvísinda. Meðal annars er fjallað um málvísindi fornaldar, íslenska miðaldamálfræði og sögu málvísindanna á 19. og 20. öld. Að lokum verður rætt um strauma og stefnur í málvísindum nútímans.

X

Miðaldalatína (KLM203G)

Í námskeiðinu verða lesnir og þýddir valdir kaflar úr latneskum miðaldabókmenntum (allt frá lokum 4ðu aldar til upphafs þeirrar 16du) úr ýmsum áttum: fagurbókmenntum og sagnaritun, heimspeki og guðfræði. Textar verða skýrðir málfræðilega og ræddir efnislega eftir þörfum.

Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendum, sem hafa annað móðurmál en íslensku, stendur til boða að ljúka verkefnum og prófum á ensku.

X

Grikklandssaga (SAG413G)

Fjallað verður um sögu Grikklands frá mínóískum tíma og fram að innlimun grísku borgríkjanna í Rómarveldi.
Áhersla verður lögð á klassískan og hellenískan tíma, tilkomu lýðræðis innan borgríkjanna, Persastríðin og Pelopsskagastyrjöldina, heimsveldi Alexanders mikla. Einnig verða rakin örlög arftakaríkjanna í Makedoníu,
Sýrlandi og Egyptalandi.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Hörður Brynjar Halldórsson
Trausti Örn Einarsson
Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir
Kristrún Ósk Óskarsdóttir
Hörður Brynjar Halldórsson
Klassísk mál - BA nám

Upphaflega vildi ég læra klassísk mál því margir frumtextar heimspekinnar voru ritaðir á forngrísku og latínu. Í gegnum námið hefur áhugi minn á öðrum fræðigreinum sem fást við fornöldina aukist sem og áhugi minn á íslensku og tungumálum almennt. Við lærum um ólík svið fornaldarinnar og getum líka unnið sérverkefni sem tengjast áhugamálum okkar. Námið er bæði krefjandi og skemmtilegt og eru kennararnir mjög hjálplegir. Ég hvet alla sem vilja fræðast um menningarsamfélög Forn-Grikkja og Rómverja og áhrif þeirra á menningu okkar að skrá sig í nám í klassískum málum.

Trausti Örn Einarsson
BA í klassískum fræðum

Klassísk fræði sem aukagrein hefur gefið mér tækifæri til að öðlast dýpri skilning á heimi Forngrikkja og Rómverja. Saga og trúarbrögð, forngríska og latína, heimspeki og bókmenntir. Allt þetta og miklu fleira er hægt að fræðast um í náminu. Ég mæli með náminu fyrir alla sem hafa áhuga á þessum heillandi menningarheimi og áhrifum hans á nútímann.

Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir
Klassísk mál - BA nám

Eitt af því sem heillaði mig mest við nám í klassísku málunum tveimur latínu og grísku er hvað námið er fjölbreytt. Ég hef í náminu hér heima og í skiptinámi við fornfræðideild háskólans í Glasgow tekið kúrsa sem tengjast öllum hliðum fornaldar: latínu, grísku og málvísindum, bókmenntum, sagnfræði, heimspeki og list. Gráðan veitir því góðan grunn á mjög breiðu sviði og að mörgu leyti tel ég að klassísk mál séu með þverfaglegustu námsgreinunum sem Háskóli Íslands býður upp á. Kennararnir eru mjög áhugasamir um fagið og alltaf tilbúnir að aðstoða nemendur og ræða við þá.

Kristrún Ósk Óskarsdóttir
Klassísk mál - BA nám

Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf haft mikinn áhuga á Forngrikkjum og Rómverjum. Í námi mínu í klassísku málunum, latínu og grísku, hef ég öðlast dýpri skilning á tungumáli og menningarheimi þessara þjóða. Námið er mjög fjölbreytt þar sem fjallað er um tungumálin og hinn mikla menningararf Forngrikkja og Rómverja. Kennararnir kunna vel sitt fag og eru alltaf reiðubúnir að aðstoða nemendur. Ég tel að allir, sem hafa áhuga á fornöldinni og áhrifum hennar á nútímann, ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi af þeim mörgu áföngum sem standa til boða.  

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2

Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.

Fylgstu með Hugvísindasviði:

Háskóli Íslands - aðalbygging

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.