Skip to main content
14. maí 2024

„Ég væri ekki þar sem ég er í dag án starfsþjálfunar”

„Ég væri ekki þar sem ég er í dag án starfsþjálfunar” - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aron Jóhannsson, fyrrverandi nemandi Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, landaði starfsþjálfunarstöðu hjá Crowberry Capital þegar hann var í námi árið 2020. Aron fékk í kjölfar starfsþjálfunarinnar starf hjá fyrirtækinu að námi loknu og starfar í dag fyrir fyrirtækið í Danmörku.

Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi gera eða verða“

Aðspurður um hvernig það kom til að hann sótti um í starfsþjálfun segir Aron sig hafa verið á ákveðnum krossgötum þar sem hann var ekki viss um hver næstu skref sín yrðu.

Ég man svo vel hvað maður var á miklum krossgötum á þessu tímabili því maður var að hefja síðasta árið í viðskiptafræði og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi gera eða verða eða hvað tæki við. Hvort maður ætti að þreifa fyrir sér í atvinnulífinu eða að fara í master. Svo datt ég inn á þessar auglýsingar um að starfsþjálfun væri nýtt fyrirbrigði í viðskiptafræðinni. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um og stökk á það og sótti um á nokkrum stöðum. Ég hugsaði að það væri frábært að fá áþreifanlega reynslu í því sem maður er búinn að vera að læra,“ segir Aron.

Aron undirstrikar hversu frábært tækifæri starfsþjálfun sé fyrir nemendur til að þreifa sig áfram í því sem þeir hafa áhuga á að starfa við eftir nám. Í starfsþjálfun býðst nemendum tækifæri til að máta sig við áhugaverð störf og öðlast innsýn í fjölbreyttar atvinnugreinar sem gerir þeim kleift að taka upplýstar ákvarðanir um starfsval sitt að námi loknu.

Starfsnámið opnaði dyr að starfi í Danmörku

Aron fékk kjölfarið starfsboð hjá tveimur fyrirtækjum en hann ákvað að þiggja starf hjá fyrirtækinu Crowberry Capital sem leiddi á endanum til þess að honum var boðin föst staða hjá fyrirtækinu. Aron hefur nú starfað hjá Crowberry Capital í tæplega þrjú ár og er í dag búsettur í Danmörku og sinnir störfum sínum fyrir fyrirtækið þar. Aron segir starfsþjálfunina hafa verið gott tækifæri til að beita þeirri þekkingu sem hann lærði í náminu í raunverulegum aðstæðum.

„Fyrir mitt leyti var þetta það langbesta sem ég tók úr mínu þriggja ára námi. Þetta alveg trónir yfir allt annað. Ég væri ekki þar sem ég er í dag án starfsþjálfunar. Ég væri mögulega enn þá á einhverjum villigötum að reyna að þreifa fyrir mér hvað ég ætti að gera,“ segir hann.

Aron hvetur öll sem hafa áhuga til að sækja um í starfsþjálfun. Það sé ekki síður gott tækifæri til að þjálfa sig í að fara í atvinnuviðtal ásamt því að búa til ferilskrá og kynningarbréf.

„Þetta er alveg einstakt tækifæri, að fá að vinna við það sem maður er að læra og brennur fyrir.”

Aron Jóhannsson