Doktorsvörn í ferðamálafræði - Magdalena Falter
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni: Magdalena Falter
Heiti ritgerðar: Endurhugsun ferðaþjónustu með stafrænni nýsköpun? Frumkvöðlar í ferðaþjónustu í dreifbýli á Íslandi (Rethinking tourism through digital innovation? Rural tourism entrepreneurs in Iceland).
Andmælendur:
Dr. Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri ferðamálafræðideildar Háskólans á Hólum.
Dr. Laila Gibson, lektor við Karlstads Universitet, Svíþjóð.
Doktorsnefnd:
Dr. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Dr.Carina Ren, prófessor við Aalborg University, Danmörku.
Dr. Wolfgang Dorner, prófessor við Technische Hochschule Deggendorf, Þýskalandi.
Stjórnandi varnar:
Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ.
Ágrip
Í þessari ritgerð er fjallað um stafræna nýsköpun og áskoranir fyrir endurhugsun ferðaþjónustunnar með áherslu á lífsstílsfrumkvöðla í dreifbýli. Útgangspunktur rannsóknarinnar er umræða um þróun ferðaþjónustu sem ávarpar þörf fyrir að draga úr neikvæðum áhrifum atvinnugreinarinnar á áfangastaði. Rýnt er í hvernig lífsstílsfrumkvöðlar í ferðaþjónustu í dreifbýli geta mögulega haft jákvæð áhrif með notkun stafrænnar nýsköpunar. Sérstök áhersla er lögð á að kanna samband stafrænnar nýsköpunar og frumkvöðlastarfs í dreifbýli á Íslandi. Byggt er á eigindlegri aðferðafræði og var gögnum safnað með vettangsvinnu, hálfstöðluðum viðtölum og með spurningalistum. Rætt var við 60 frumkvöðla og fulltrúa stoðkerfis ferðaþjónustunnar. Einnig var stofnað til lausnamóts (hakkaþon) og það nýtt sem tilvik í notendarannsókn (e. action research) til að draga fram hvernig ólíkar leiðir til að hagnýta stafvæðingu í dreifbýli birtast í verki. Rannsóknin skapar dýpri skilning á athöfnum og viðhorfum smárra aðila í ferðaþjónustu til þróunar ferðamála á Íslandi. Hún dregur fram hvernig þessir aðilar skilja og vinna með nýsköpun og stafrænar lausnir og hvaða hvatar liggja þar að baki. Rannsóknin veitir nýja þekkingu á möguleikum frumkvöðla til að taka þátt í endurhugsun ferðaþjónustunnar og setur í lokin fram tillögur um stefnu og aðgerðir til að efla slíkt starf. Markmið rannsóknarinnar er að brúa fræði og framkvæmd og skapa þekkingu á sviðum sem hingað til hafa verið lítt könnuð hérlendis sem og á alþjóðlegum vettvangi.
Um doktorsefnið
Magdalena er frá Bæjaralandi í Suður-Þýskalandi. Hún er með B.A. gráðu í spænsku og viðskiptafræði og M.A. gráðu í landafræði með áherslu á ferðamennsku. Áður en hún kom til Íslands til að vinna að doktorsverkefni sínu, starfaði hún sem sérfræðingur í landsbyggðarþróun í Bæjaralandi.
Í doktorsferlinu, stofnaði hún ásamt öðrum árið 2020, lausnamótið Hacking Hekla, og kom á fót víðtæku tengslaneti í íslenska ferðamanna- og nýsköpunargeiranum.
Hún er mjög tengd uppruna sínum í Bæjaralandi og eyðir þar eins miklum tíma og hún getur, einkum til að taka þátt í nýjasta frumkvöðlastarfi fjölskyldu sinnar, líflegu kaffihúsi í sögulegri byggingu.
Hestamennska á Íslandi gegnir einnig mikilvægu hlutverki í lífi hennar og hryssan hennar, Gjöf, veitir henni kærkomið frí frá námi og störfum.
Magdalena Falter