Starf nýdoktors við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands er laust til umsóknar. Nýdoktorinn mun verða hluti af CMBeam rannsóknarverkefninu sem er fjármagnað með styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu til tveggja ára en möguleiki er á að viðbótarstyrkur verði fyrir starfinu til eins árs í viðbót.
Auglýst er eftir umsóknum um starf doktorsnema í stjarneðlisfræði með áherslu á rannsóknir tengdar örbylgjukliðnum. Námið fer fram við Námsbraut í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Starf doktorsnemans er styrkt til a.m.k. þriggja ára með fjármunum frá Evrópska Rannsóknarráðinu (e. European Research Council).
Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands auglýsir laust til umsóknar fullt starf forstöðumanns Miðstöðvar í öldrunarfræðum. Um er að ræða starf sem er sérstaklega styrkt af Heilbrigðisráðuneyti og Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, tímabundið til þriggja ára. Mögulegt er að um verði að ræða áframhaldandi fjármögnun starfsins, en ekki liggur fyrir með hvaða hætti eða til hve langs tíma.Miðstöð í öldrunarfræðum (MÖ) er starfrækt í samvinnu Háskóla Íslands og Landspítala og er vistuð á Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands sem starfrækt er innan Heilbrigðisvísindasviðs. Hlutverk hennar er m.a. að vera miðstöð rannsókna á sviði öldrunarfræða er tekið geta tillit til heilbrigðistengdra, félagslegra, fjárhagslegra og annarra þátta sem tengjast lífsgæðum eldra fólks. Þá er hlutverk MÖ einnig að styðja við rannsóknasamstarf og kennslu á fræðasviðinu og veita ráðgjöf. Sjá einnig: https://www.hi.is/frettir/hi_leidir_midstod_i_oldrunarfraedum Forstöðumaðurinn mun hafa aðsetur á skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs í Læknagarði við Vatnsmýrarveg 16, ásamt öðru starfsfólki sviðsskrifstofu sem vinnur saman í teymum að margvíslegum stoðþjónustuverkefnum á sviði kennslu, rannsókna, mannauðsmála, markaðsmála, reksturs og fjármála.Í stefnu Háskóla Íslands - HÍ26 - er áhersla lögð á skólann sem góðan vinnustað, að starfsumhverfi sé hvetjandi með vellíðan nemenda og starfsfólks að leiðarljósi. Lögð er áhersla á að laða að metnaðarfullt fólk með fjölbreyttan bakgrunn. Stytting vinnuvikunnar hefur verið innleidd fyrir starfsfólk í stoðþjónustu skólans.
Laust er til umsóknar fullt starf lektors í lífeindafræði á fræðasviði efnafræði við Læknadeild Háskóla Íslands.
Auglýst er fullt starf nýdoktors eða rannsóknamanns til tveggja ára. Einnig kemur lægra starfshlutfall yfir lengra tímabil til greina eða samkvæmt nánara samkomulagi. Staðan er fjármögnuð af Rannsóknasjóði (www.rannis.is) með verkefnastyrknum: Einstaklingsmunur í kunnáttu í öðru og þriðja máli á Íslandi: framboð og notkun á tækifærum til málanáms og er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar Elín Þöll Þórðardóttir aðjúnkt við Læknadeild HÍ og prófessor við McGill háskóla í Kanada. Rannsóknin beinist einkum að málkunnáttu og málnotkun eldri barna og unglinga sem læra íslensku sem annað mál.
Laust er til umsóknar fullt starf lektors í mannfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.
Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir laust til umsóknar starf forstöðumanns, sem jafnframt er starf akademísks sérfræðings, við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum. Á vegum Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands hefur verið starfsemi í Vestmannaeyjum samfellt frá árinu 2021 og með hléum frá 1994. Rannsóknasetrinu er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði sjávarlíffræði með sérstaka áherslu á hvali og önnur sjávarspendýr. Forstöðumaðurinn verður starfsmaður Háskóla Íslands og hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum, í húsnæði sem það deilir með Þekkingarsetri Vestmannaeyja og fleiri stofnunum. Búseta á svæðinu er því skilyrði. Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru starfrækt 12 sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Markmið stofnunarinnar er m.a. að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni. Rannsóknir eru meginviðfangsefni rannsóknasetranna og eru viðfangsefnin fjölbreytt og tengjast nærumhverfi setranna með einhverjum hætti.
Laust er til umsóknar fullt starf dósents í talmeinafræði við Læknadeild Háskóla Íslands
Raunvísindastofnun Háskóla Íslands auglýsir laust fullt starf forstöðumanns. Markmið starfs forstöðumanns er að tryggja að stofnunin sé leiðandi á sérsviði sínu og starf hennar falli að lögum og reglum, stefnu og gildum Háskóla Íslands. Forstöðumaður er ábyrgur gagnvart stjórn Raunvísindastofnunar- og forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í starfi sínu.Raunvísindastofnun er vettvangur grunnrannsókna á sviðum raun og jarðvísinda og starfar í alþjóðlegu vísindaumhverfi. Hlutverk hennar er einkum að afla nýrrar þekkingar með grunn- og nytjarannsóknum á sviðum raun- og jarðvísinda, starfa með innlendum og erlendum háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum, efla kennslu og veita nemendum í rannsóknanámi aðgang og aðstöðu. Stofnunin er hluti af Raunvísinda- og Jarðvísindadeildum og heyrir undir Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar um hlutverk og skipulag er að finna í reglum Raunvísindastofnunar: https://www.hi.is/haskolinn/reglur_nr_685_2011
Háskóli Íslands kallar eftir umsóknum um starf nýdoktors við Heimspekistofnun, Hugvísindasviði, tengt rannsóknaverkefninu Frelsi til merkingarsköpunar sem styrkt er af Rannsóknasjóði (RANNÍS). Styrkurinn er til tveggja ára.Frelsi til merkingarsköpunar: Líkamlegar reynslubundnar rannsóknir (Freedom to Make Sense: Embodied, Experiential and Mindful Research) er þriggja ára rannsóknarverkefni sem rekið er í samstarfi Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Verkefnið felst í rannsóknum á líkamlegri gagnrýninni hugsun á tímum umhverfis- og samfélagskreppu sem krefst breyttrar hugsunar. Í verkefninu, sem byggir á heimspeki og vitsmunavísindum, eru gerðar tilraunir með aðferðir sem nýta forðabúr upplifunarinnar í rannsóknaskyni. Kjarni samstarfsteymisins hefur þegar lagt grunn að verkefninu með því að reka Erasmus+ þjálfunarprógram (TECTU www.trainingect.com) í aðferðum líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar frá árinu 2021.Aðalrannsakendur Frelsis til merkingarsköpunar eru Donata Schoeller (Háskóli Íslands og Universität Koblenz), Björn Þorsteinsson (Háskóli Íslands), Sigríður Þorgeirsdóttir (Háskóli Íslands), Guðbjörg R. Jóhannesdóttir (Listaháskóli Íslands) og Kristín Valsdóttir (Listaháskóli Íslands) en auk þess koma alþjóðlegir rannsakendur frá um 20 háskólum og rannsóknarstofnunum víða um heim að verkefninu. Verkefnið skapar Íslandi sérstöðu á sviði aðferða í líkamlegum, reynslubundnum rannsóknum með því að safna saman vísinda- og fræðafólki sem er leiðandi í heiminum á sviði tilfærslunnar frá kenningum um líkamleika yfir í iðkun líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar.Nálgast má frekari upplýsingar um verkefnið á heimasíðu verkefnisins: https://makesense.hi.is/