Skip to main content

Háskólaráðsfundur 14. júní 2012

06/2012

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2012, fimmtudaginn 14. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigríður Valgeirsdóttir (varamaður fyrir Þórð Sverrisson) og Soffía Auður Birgisdóttir (varamaður fyrir Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur). Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands
a)    Rektor greindi frá því að 1. júlí nk. mun Hilmar B. Janusson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar hf., taka við starfi forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Matvæla- og næringarfræðideildar, taka við starfi forseta Heilbrigðisvísindasviðs. Þá hefur Jenný Bára Jensdóttir, sérfræðingur við mennta- og menningarmálaráðuneytið, verið ráðin fjármálastjóri Háskóla Íslands og tekur hún við starfinu í ágúst nk.
b)    Metfjöldi er í umsóknum um bæði grunn- og framhaldsnám við Háskóla Íslands og hafa tæplega 9.500 umsóknir borist fyrir komandi haustmisseri. Athygli vekur mikil fjölgun umsókna um nám í tölvu- og verkfræðigreinum, lögfræði og matvælafræði.
c)    Árleg brautskráning kandídata fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 23. júní nk. Eins og verið hefur síðustu ár er athöfnin tvískipt og verða framhaldsnemar brautskráðir fyrir hádegið og grunnnemar eftir hádegið.
d)    11. júní sl. var þess minnst að eitt ár var liðið frá því að tímamótaaðgerð var framkvæmd þegar plastbarki baðaður stofnfrumum var í fyrsta sinn græddur í mann. Af þessu tilefni efndi Háskóli Íslands til tveggja málþinga, annars vegar fyrir fagfólk og hins vegar fyrir fróðleiksfúsan almenning.
e)    Vísindamenn Háskóla Íslands, í samstarfi við erlenda vísindamenn, hlutu nýlega tvo stóra styrki úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. Annar styrkurinn er til evrópskrar ofurstöðvar í eldfjallafræði sem verður stýrt frá Íslandi og nemur heildarstyrkfjárhæðin 6 milljónum evra. Hinn styrkurinn er til Senator-verkefnis á vegum Lyfjafræðideildar og Landspítalans. Styrkfjárhæðin er einnig 6 milljónir evra og verður verkefnisstjórnin á Írlandi.
f)    Hinn 31. maí sl. voru veittir við hátíðlega athöfn 24 doktorsstyrkir úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Nemur heildarstyrkfjárhæðin 160 m.kr.
g)    Heimsóknum rektors í deildir háskólans er áfram haldið og hefur rektor lokið 18 heimsóknum og mun heimsækja síðustu 7 deildirnar eftir sumarhlé.
h)    Páll Jakobsson, prófessor í stjarneðlisfræði við Raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hlaut Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs árið 2012.  Hvatningarverðlaunin eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr.
i)    Hinn 16. maí sl. var tilkynnt um úrslit hönnunarsamkeppni um byggingu fyrir alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Varð arkitektastofan Arkitektúr.is hlutskörpust í samkeppninni.
j)    Rektor vakti athygli á Árbók Háskóla Íslands 2010 sem lögð var fram á fundinum og þakkaði Magnúsi Diðrik Baldurssyni fyrir vönduð skrif og umsjón með útgáfunni.

2.    Fjármál Háskóla Íslands.
a)    Fjárhagsstaða Háskóla Íslands eftir fyrstu fjóra mánuði ársins 2012.
Fyrir fundinum lá yfirlit um fjárhagsstöðu Háskóla Íslands eftir fyrstu fjóra mánuði ársins 2012. Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði grein fyrir málinu.

b)    Fjárlagagerð fyrir árið 2013. Staða mála.
Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir áherslum Háskóla Íslands í tengslum við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2013. Málið var rætt.

c)    Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands.
Á fundi háskólaráðs 8. desember sl. skipaði háskólaráð millifundanefnd sem ætlað var að gera tillögu til ráðsins um úthlutun úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands. Í nefndina voru skipuð þau Jón Atli Benediktsson, formaður, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, starfaði með nefndinni.

Fyrir fundinum lá tillaga millifundanefndarinnar um ráðstöfun framlags í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands árin 2012, 2013 og 2014, dags. 8. júní sl., og ályktun deildarfundar Læknadeildar Heilbrigðisvísindasviðs um úthlutun úr Aldarafmælissjóði, dags. 30. maí sl. Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs. Rektor og Halldór kynntu málið og var það rætt ítarlega. Svöruðu rektor, Halldór og fulltrúar úr millifundanefnd framkomnum spurningum og athugasemdum.

- Tillagan var samþykkt einróma, en áfram verður á vettvangi rektors unnið að nánari útfærslu hennar, einkum á starfsháttum nýliðunarsjóðs og dreifingu greiðslna til einstakra þátta í samræmi við fjárveitingar til Aldarafmælissjóðs. Hilmar B. Janusson tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.

Áður en Guðmundur R. Jónsson vék af fundi þakkaði rektor honum f.h. ráðsins fyrir að hafa tekið að sér að gegna tímabundið starfi forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs til viðbótar við önnur ábyrgðarstörf.

d)    Samningar Háskóla Íslands við stjórnvöld.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Stefnt er að því að ljúka fyrir sumahlé tveimur samningum við mennta- og menningarmálaráðuneytið, annars vegar samningi um kennslu og rannsóknir fyrir tímabilið 2012-2016 og hins vegar samningi um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands. Rektor mun senda fulltrúum í háskólaráði drög þegar þau liggja fyrir.

e)    Kjaramál starfsfólks Háskóla Íslands og stundakennara.
Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu. Greindi Guðmundur frá því að í kjaramálum starfsfólks Háskóla Íslands verður lögð sérstök áhersla á að bæta kjör lektora og dósenta sem og stundakennara.

3.    Nýsköpun, hagnýting hugverka og samstarf við atvinnulíf.
a)    Samstarf við atvinnulíf
Rektor gerði grein fyrir málinu og greindi frá áformum um heildargreiningu samstarfs Háskóla Íslands við atvinnulífið, áform um aukna aðkomu nemenda að verkefnum í samstarfi við fyrirtæki, menningarstofnanir, skólakerfið, heilbrigðisstofnanir, opinberrar stofnananir.  Rektor greindi m.a. frá nýlegum fundi með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins þar sem ræddar voru leiðir til aukins samstarfs. Málið var rætt ítarlega.

b)    Hagnýtingar- og nýsköpunarsjóður Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá minnisblað með tillögu um stofnun Hagnýtingar- og nýsköpunarsjóðs Háskóla Íslands sem hafi þann tilgang að styðja við hagnýtingu hugverka sem tengjast rannsóknaniðurstöðum, nýsköpun, umsóknir um einkaleyfi og vernd hugverka sem til koma á vettvangi Háskóla Íslands.
- Tillaga um stofnun Hagnýtingar- og nýsköpunarsjóðs samþykkt einróma.

c)    Starfsreglur Hugverkanefndar og erindisbréf.
Fyrir fundinum lá minnisblað um erindisbréf og starfsreglur Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala. Halldór Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Aflað verður umsagna, m.a. Landspítalans, og málið síðan lagt fram til afgreiðslu á fundi háskólaráðs í september nk.

4.    Umsögn um tillögur fræðasviða um samkennslu og tölfræðihlaðborð, sbr. fund ráðsins 12. apríl sl.
Fyrir fundinum lá umsögn stafshóps háskólaráðs um tillögur fræðasviða um samkennslu og tölfræðihlaðborð, dags. 29. maí 2012. Starfshópinn skipuðu þau Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun, formaður, Daði Már Kristófersson, dósent við Félagsvísindasvið, og Sigríður Ólafsdóttir, ráðgjafi og fulltrúi í háskólaráði. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Guðmundur R. Jónsson og rektor spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma að fela kennslumálanefnd háskólaráðs að meta kosti og galla þess að taka upp fjögurra missera skiptingu ársins fyrir allan háskólann (tillaga nr. 2 í umsögn starfshópsins). Öðrum tillögum starfshópsins (nr. 1, 3 og 4) er lúta að skiptingu fjár vegna kennslu er vísað til fjármálanefndar í tengslum við heildarendurskoðun deililíkans háskólans. Sérstaklega verði lögð áhersla á að ná settu marki um samkennslu á sviði tölfræði.

5.    Málefni Miðstöðvar framhaldsnáms.
a)    Fjöldi og samsetning hóps doktorsnema við Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá samantekt Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands um fjölda og samsetningu hóps doktorsnema við Háskóla Íslands. Málið var rætt.

b)    Breyting á 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 er varðar Miðstöð framhaldsnáms.
Fyrir fundinum lá tillaga að breytingum á 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 um Miðstöð framhaldsnáms, sem gerð er í kjölfar endurskoðunar á Viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands sem samþykkt voru á síðasta fundi ráðsins. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.

6.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögunum.

a)    Reglur Hugvísindasviðs um doktorsnám.
- Samþykkt einróma.

Pétur Gunnarsson vék af fundi.

b)    Endurskoðaðar verklagsreglur um einkunnaskil.
Framlögð tillaga um endurskoðaðar verklagsreglur um einkunnaskil var rædd ítarlega.
- Samþykkt einróma og kennslusviði falið að ganga frá orðalagi með hliðsjón af umræðum á fundinum.

Fannar Freyr Ívarsson vék af fundi.

7.    Nefndir, stjórnir, ráð.
a)    Fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
Rektor bar upp tillögu um að Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Hugvísindasviðs, verði fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í stað Önnu Agnarsdóttur sem óskað hefur eftir að víkja úr stjórninni frá 30. júní nk. Ágústa Pálsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Félagsvísindasviðs, verði varamaður hennar. Skipunartíminn er til 30. september 2014.
- Samþykkt einróma.

8.    Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs mætir á fundinn.
Inn á fundinn kom Sigurður Guðmundsson, fráfarandi forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og greindi frá stöðu mála og helstu áherslum í starfi fræðasviðsins og deilda og stofnana þess. Málið var rætt og svaraði Sigurður spurningum ráðsmanna. Rektor þakkaði f.h. Háskóla Íslands Sigurði fyrir gott starf sem forseti Heilbrigðisvísindasviðs og óskaði honum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Gagnasafn vegna fundar með skólameisturum framhaldsskóla 7. maí 2012. Gögn unnin á kennslusviði í samráði við kennslumálanefnd háskólaráðs.
b)    Umsóknir um nám í Háskóla Íslands 2012-2013.
c)    Úthlutun úr Háskólasjóði hf. Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
d)    Úrslit í hönnunarsamkeppni um byggingu fyrir alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.
e)    Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands fyrir árið 2011.
f)    Ársreikningur Keilis ehf. 2011.
g)    Ályktun frá ársfundi norrænna háskólakennara.
h)    Árbók Háskóla Íslands 2010.

Að formlegri dagskrá lokinni þakkaði rektor fulltrúum í háskólaráði fyrir farsælt samstarf á umliðnum tveimur árum.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.45.