Skip to main content
13. mars 2024

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2024

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2024 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands heldur ársfund fimmtudaginn 14. mars. Ársfundurinn verður í Eddu, húsi íslenskunnar og stendur frá kl. 13:00 til 16:15.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra setur fundinn og  Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands flytur ávarp.  Fundarstjóri er Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra HÍ.

Dagskrá fundarins endurspeglar þá fjölbreytni sem er i rannsóknastarfi starfsfólks setranna og fjalla erindi m.a. um áhrif mengunar á lífríki sjávar; fagurfræði vistkerfanna eins og hún birtist í bókmenntum; sáttamiðlun á 19. og 20. öld og kerfisbundna endurtekningu og samsetningu hljóða í samskiptum háhyrninga.

Að loknu kaffihléi verður sjónum beint að háskólastarfi á landsbyggðinni. Rektor Háskólans á Hólum fjallar um nýsköpun í rannsóknum og atvinnulífi og nokkrir forstöðumenn rannsóknasetra HÍ um sóknarfæri í samstarfi. Ársfundinum lýkur á pallborðsumræðum með þátttöku Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, Hólmfríðar Sveinsdóttur, rektors Háskólans á Hólum og  Sæunnar Stefánsdóttur, forstöðumanns Stofnunar rannsóknasetra HÍ

Fundurinn er öllum opinn og verður einnig í beinu streymi, sjá nánar:

Markmið Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er að stuðla að rannsóknum og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land og vera um leið vettvangur samstarfsverkefna háskólans við nærumhverfi og nærsamfélag setranna. Með þeim hætti leggja rannsóknasetrin sitt af mörkum við að efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnulíf og samfélag. Rannsóknaviðfangsefni setranna eru afar fjölbreytt en á meðal þeirra eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði, þjóðfræði og jarðfræði.

Árið 2023 voru ársverk við stofnunina 37 og fjölgaði um þrjú frá árinu áður. Starfsmenn voru alls 56, þar af 22 í fullu starfi allt árið. Ellefu rannsóknasetur eru starfrækt um landið, á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi, Breiðdalsvík og það nýjasta er í Þingeyjarsveit. Einnig er akademískur sérfræðingur starfandi á vegum stofnunarinnar í Vestmannaeyjum.

Edda