Ný rannsókn þriggja vísindakvenna við Háskóla Íslands bendir til að tvítyngd börn með íslensku sem annað mál læri takmarkaða íslensku í leikskólum. Helstu niðurstöður í rannsókninni eru mjög umhugsunarverðar en í þeim kemur fram að tvítyngdu börnin sýni mun slakari færni í íslensku samanborið við meðalgetu eintyngdra jafnaldra á öllum athugunum sem voru gerðar.
Vísindakonurnar segja að munurinn hafi reynst mun meiri en búast hefði mátt við út frá sambærilegum rannsóknum í stærri málsamfélögum. Þær segja að niðurstöðurnar séu mjög alvarlegar og kalli á breytt viðhorf í málörvun tvítyngdra leikskólabarna. Nauðsynlegt sé að gera gangskör að eflingu íslenskukunnáttu tví- og fjöltyngdra barna á Íslandi.
Vísindakonurnar eru þær Jóhanna T. Einarsdóttir, prófessor í talmeinafræði við Læknadeild HÍ og á Menntavísindasviði, Iris Edda Nowenstein, MS í talmeinafræði frá HÍ og doktorsnemi í íslenskri málfræði, og Hjördís Hafsteinsdóttir talmeinafræðingur, en þær birtu nýlega grein um niðurstöður rannsóknarinnar í tímaritinu Netlu. Þar kemur fram að allt að 97% eintyngdra jafnaldra séu með betri færni í íslensku máli en þau tvítyngdu.
„Við vitum út frá íslenskum rannsóknum að málþroski barna við lok leikskóla spáir fyrir um gengi í grunnskóla. Við vitum líka að á sama tíma og fjöldi fjöltyngdra barna eykst innan leik- og grunnskólanna eru mun færri í þessum hópi sem ljúka námi úr framhaldsskóla,“ segir Jóhanna T. Einarsdóttir.
„Niðurstöðurnar benda til að ráðast þurfi í aðgerðir til að tryggja öllum börnum jafnt aðgengi að menntun óháð uppruna. Kallað er eftir breyttum viðhorfum og gangskör í að efla íslenskukunnáttu tví- og fjöltyngdra barna á Íslandi, að hagsmuna þeirra sé betur gætt og aðgengi þeirra að menntun sé tryggt.“
Hjördís tekur í svipaðan streng en rannsóknin byggir á meistaraverkefni hennar í talmeinafræði við HÍ. Reynsla hennar af því að starfa innan leikskólana með fjöltyngdum börnum var henni einmitt innblástur að lokaverkefni í talmeinafræði.
„Þetta er lítil rannsókn sem þyrfti að endurtaka um allt land, og niðurstöðurnar eru í raun í ákveðinni mótsögn við algengt viðhorf þar sem leikskólabörn eru alltaf talin fljót að tileinka sér nýtt mál í nýju málsamfélagi,“ segir Iris Edda. „Þær eru engu að síður í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýna að fjöltyngd börn eru lengur að tileinka sér íslensku sem annað mál samanborið við börn sem tileinka sér t.a.m. ensku sem annað mál,“ segir Iris Edda. Hún hefur einmitt reynslu af því að læra íslensku sem annað mál.
Alvarlegri staða á íslensku en áður var talið
Jóhanna segir að rannsóknin sýni alvarlegri stöðu á kunnáttu barnanna í íslensku en áður hafi verið talið. „Leikskólabörnin sem rannsókn okkar tók til mældust langt undir viðmiðum eintyngdra jafnaldra þrátt fyrir að hafa fæðst á Íslandi og dvalið lengi á íslenskum leikskólum. Munurinn á eintyngdum börnum og börnum með íslensku sem annað mál var í raun mun meiri en búast mætti við út frá sambærilegum erlendum rannsóknum,“ segir Jóhanna.
Hún bætir því við að fyrri rannsóknir á Íslandi hafi gefið ákveðnar vísbendingar í þessa átt en með tilkomu staðlaða málþroskaprófsins MELB hafi verið hægt að mæla með nákvæmum hætti þekkingu barnanna á íslensku máli.
Vísindakonurnar eru þær Jóhanna T. Einarsdóttir, prófessor í talmeinafræði við Læknadeild HÍ og á Menntavísindasviði, Iris Edda Nowenstein, MS í talmeinafræði frá HÍ og doktorsnemi í íslenskri málfræði, og Hjördís Hafsteinsdóttir talmeinafræðingur, en þær birtu nýlega grein um niðurstöður rannsóknarinnar í tímaritinu Netlu. Þar kemur fram að allt að 97% eintyngdra jafnaldra séu með betri færni í íslensku máli en þau tvítyngdu. MYND/Kristinn Ingvarsson
Tvítyngdu börnin marktækt slakari í íslensku
Þegar vikið er að bakgrunni rannsóknarinnar segir Hjördís Hafsteinsdóttir að markmið hennar hafi verið tvíþætt. „Í fyrsta lagi að meta íslenskukunnáttu tvítyngdra leikskólabarna með ítarlegum mælingum á málfærni þeirra og bera saman við meðalfærni eintyngdra jafnaldra. Í öðru lagi að bera saman niðurstöður af mælingum með málþroskaprófum við mælingar á sjálfsprottnu tali með málsýnum.“
Hjördís segir að þátttakendur í rannsókninni hafi verið 25 tvítyngd leikskólabörn af Suðurnesjum á aldrinum fimm til sex ára og á síðasta ári í leikskóla. Börnin hafi öll verið fædd á Íslandi og hafi dvalið í íslenskum leikskóla í nokkur ár. Báðir foreldrar hafi haft sama móðurmál sem jafnframt hafi verið talað heima fyrir. Heimamál barnanna var því ekki íslenska, að sögn Hjördísar.
„Börnin höfðu dvalið í íslenskum leikskóla að jafnaði í um átta klukkustundir á dag, fimm daga vikunnar í þrjú til fjögur ár. Færni þeirra í íslensku var athuguð með mismunandi mælitækjum, bæði með stöðluðum málþroskaprófum og óformlegri athugunum. Helstu niðurstöður voru þær að tvítyngdu börnin sýndu marktækt slakari færni í íslensku í samanburði við meðalgetu eintyngdra jafnaldra á öllum athugunum sem voru gerðar. Á stöðluðu íslensku málþroskaprófi sem kallast MELB voru börnin að meðaltali tveimur til þremur staðalfrávikum frá meðalgetu jafnaldra og sýndu mjög slaka færni í þáttum sem reyndu á orðaforða og málfræði. Sterkust voru þau í þáttum sem reyndu á hljóðkerfið þar sem færnin var í lágu meðaltali. Á orðaforðaprófi sem heitir Ísl-PPVT-4 var meðaltal tvítyngdu barnanna meira en fjórum staðalfrávikum frá meðaltali eintyngdra jafnaldra. Málsýni af sjálfsprottnu tali sýndu að tvítyngdu börnin tjáðu sig að meðaltali í marktækt styttri setningum, notuðu marktækt færri og ekki eins fjölbreytt orð og gerðu marktækt fleiri villur í samanburði við eintyngda jafnaldra. Fylgni var milli hlutfallslegs fjölda villna í málsýnum og niðurstaðna málþroskaprófa,“ segir Hjördís.
Afar mikilvægar niðurstöður fyrir íslenskt samfélag
Jóhanna segir að niðurstöður rannsóknarinnar séu afar mikilvægar fyrir íslenskt samfélag, bæði fyrir þau sem eru að vinna með fjöltyngdum börnum og þau sem skipuleggja menntun og þjónustu fyrir fjöltyngd börn á Íslandi.
„Við vitum að málefni tví- og fjöltyngdra barna brenna á starfsfólki leikskólanna,“ segir Jóhanna. „Alvarleg staða barnanna eftir að hafa dvalið meirihluta vökutíma í íslensku leikskólaumhverfi er verulega umhugsunarverð. Samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru það grundvallarmannréttindi að geta látið skoðanir sínar í ljós og í því hlýtur að felast að búa yfir nægilegri færni í tungumálinu til að geta orðað það sem maður er að hugsa og átt í samskiptum við aðra.“
Jóhanna segir að niðurstaðan sé það alvarleg að af þátttakendum í rannsókninni falli 23 börn af 25 undir skilgreiningu þess að vera með málþroskaröskun.
„Við teljum reyndar ekki að börnin séu með málþroskaröskun heldur kunni þau ekki nægilega vel íslensku. Það er vel þekkt innan talmeinafræðinnar að það er sérstaklega erfitt að meta málþroskaröskun hjá tví- og fjöltyngdum börnum, bæði því hópurinn er mjög fjölbreyttur og flest mælitæki miða við eintyngd börn. Rannsóknir á borð við þessa gefa því talmeinafræðingum mikilvægar upplýsingar um stöðu barna með íslensku sem annað mál og vísbendingar um hvernig beri að túlka útkomu þeirra í málþroskamati þannig að betur sé hægt að greina á milli málþroskaröskunar DLD - sem ætti þá að koma fram í öllum tungumálum barnsins - og í íslenskukunnáttu sem þarf að bæta.“