„Það er sagt að konur upplifi þrefalda ógn (e. triple effect). Aldurinn, útlitið og það að vera kona,“ segir Erla Sólveig Kristjánsdóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, sem ýtir á næsta ári úr vör rannsókn á kynbundnum aldursfordómum gegn konum, eldri en 50 ára, á vinnumarkaði.
Erla segir að upp úr fertugu byrji konur að finna fyrir hindrunum á vinnumarkaði. Þær fái jafnvel ekki svar þegar þær sækja um vinnu og að litið sé fram hjá þeim varðandi stöðuhækkun.
„Mig langar að taka viðtöl við konur sem eru eldri en 50 ára, og jafnvel 45 ára og eldri. Ég er nú þegar með komin 12 konur sem hafa áhuga á að koma í viðtal án þess að hafa haft nokkuð fyrir því. Þetta eru háskólamenntaðar konur með starfsreynslu, eru 50 ára og eldri en eru atvinnulausar.“
Erla segist þó vilja bæði skoða stöðu kvenna sem eru í vinnu og þeirra sem eru atvinnulausar. „Ég hef séð þetta þegar ég er að skoða konur almennt, þá hafa kynbundnir aldursfordómar komið upp. Þá sýnir nýleg rannsókn sem var gerð meðal doktorsnema í HÍ, að útskrifaðir doktorsnemar, sérstaklega konur, áttu erfitt með að fá vinnu við hæfi.“
Lítið rannsakað svið á Íslandi
Erla segir samspil kyns og aldurs á Íslandi lítið hafa verið rannsakað. Þegar fjölbreytileiki á vinnumarkaði sé skoðaður hafi frekar verið litið til kyns, þjóðernis, bakgrunns og menningar. Hún segir erlendar rannsóknir benda til þess að eldri konur standi frammi fyrir hindrunum á vinnumarkaði og það sé hvatinn að rannsókninni. Þetta eigi meira mæli við um konur en karla á seinni skeiðum starfsferils.
„Nú þegar fólk lifir lengur og er hressara vill það gjarnan vinna lengur. Konurnar finna fyrir hindrunum og karlarnir gera það líka en það gerist yfirleitt 10 árum seinna hjá körlunum. Þetta sýna niðurstöður erlendra rannsókna. Þegar karlmenn verða gráhærðir verða þeir virðulegir en breytingar á útliti kvenna, sem fylgja hækkandi aldri, er hindrun.“
Nýlegar rannsóknir benda enn fremur til að þrátt fyrir reynslu og menntun kvenna eiga þær erfiðara með að fá stöðuhækkun. Aðrar rannsóknir undirstrika mikilvægi þess að hafa blöndu af eldra og yngra fólki á vinnumarkaði. Erla telur báða hópa geti miðlað ólíkum þáttum hvor til annars.
„Mikilvægt er að vera bæði með fólk sem er að koma inn og eldra fólk með reynslu sem getur verið „mentor“ fyrir yngra fólkið. Þess vegna fékk ég svona mikinn áhuga á þessu. Þau geta miðlað svo miklu, yngra fólkið hefur mögulega meiri tæknikunnáttu og eldra fólkið er hokið af reynslu og með mikla menntun.“
Ég mun nota niðurstöðurnar þegar ég er að kenna fjölbreytileika og inngildingu í grunn- og meistaranámi. Mig langar svo að nota þetta í kennslu til þess að miðla þar. Til þess að það verði eitthvað gagn af rannsókninni. Ég vil rannsaka en ég vil líka getað miðlað til annarra. Það er heildarmarkmiðið, langtímamarkmiðið ef svo má segja,“ segir Erla.
Erlendar rannsóknir sýna fram á hindranir kvenna á vinnumarkaði
Nýsjálenskar rannsóknir sýna að konur sem eru sendar erlendis til að vinna í ráðuneytum, eigi erfitt með að fá vinnu þegar þær koma til baka, séu þær komnar yfir fimmtugt. Því þurfa þær að sætta sig við störf langt undir þeirra menntunarstigi og reynslu þrátt fyrir að vegna hækkandi aldurs hafi þær oft meiri tíma þar sem börnin eru uppkomin. Einnig hafa þær oft mikla ástríðu og þekkingu á starfinu. Erla segir mikla sóun að þessi hópur sé ekki nýttur á vinnumarkaði.
Með meiri starfsreynslu vinnur fólk sér inn aukin réttindi og hærri laun. Að mati Erlu gæti það verið möguleg ástæða þess að fyrirtæki láti eldra starfsfólk fara. Hún bendir á að hægt sé að bjóða þeim hlutastarf frekar en að láta það hætta alveg.
„Mér finnst við missa svo mikilvæga auðlind með þeim sem eru búin að ná þessari reynslu og menntun. Við gætum nýtt hana en erum bara ekki að því, það segir sig sjálft.“
Rannsóknin hefur skýra tengingu við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem eru eitt af áhersluatriðunum í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, til að mynda markmiði númer fimm sem snýr að jafnrétti kynjanna og sterkari stöðu kvenna og stúlkna í samfélögum.
Erla vill m.a. nýta þessa þekkingu í sinni kennslu í háskólanum. „Ég mun nota niðurstöðurnar þegar ég er að kenna fjölbreytileika og inngildingu í grunn- og meistaranámi. Mig langar svo að nota þetta í kennslu til þess að miðla þar. Til þess að það verði eitthvað gagn af rannsókninni. Ég vil rannsaka en ég vil líka getað miðlað til annarra. Það er heildarmarkmiðið, langtímamarkmiðið ef svo má segja,“ segir Erla að endingu.
Höfundur greinar: Jón Már Ferro, nemandi í blaða- og fréttamennsku.