Ungar konur á Íslandi upplifa foreldrahlutverkið kvíðavaldandi og sjá ekki hvernig þær eiga að uppfylla þær vaxandi kröfur sem gerðar eru til kvenna í samfélagi sem einkennist af lífsgæðakapphlaupi, einstaklingshyggju og yfirvofandi loftslagssvá. Um leið er meiri skilningur á því en áður í samfélaginu að fólk kjósi að hafna foreldrahlutverkinu þótt konur finni enn fyrir fjandsamlegum viðbrögðum vegna slíkrar ákvörðunar. Þetta er meðal þess sem rannsóknir innan umfangsmikils verkefnis á vegum þverfræðilegs hóps fræðafólks við Háskóla Íslands hafa leitt í ljós. Í verkefninu er leitað svara við lækkandi fæðingartíðni á Íslandi og hvort eitthvað í stefnumótun og menningu hér á landi stuðli að henni.
Verkefnið nefnist „Áhrif stefnumótunar og foreldramenningar á barneignir á Íslandi“ og hlaut í fyrra öndvegisstyrk frá Rannsóknasjóði Íslands. Það eru einir hæstu styrkir sem veittir eru hér á landi til rannsóknarverkefna og geta numið á annað hundrað milljóna króna. Öndvegisstyrkir eru einungis veittir til rannsóknarverkefna sem eru líkleg til að skila íslenskum rannsóknum í fremstu röð á alþjóðavettvangi og samkeppni um þá er gríðarhörð.
Meðal stjórnenda verkefnisins er Sunna Kristín Símonardóttir, nýdoktor í félagsfræði, en hún hefur allt frá því í doktorsnámi rýnt í móðurhlutverkið og þær ólíku kröfur sem gerðar eru til foreldra hér á landi. „Rannsóknir mínar eru á sviði kynjafélagsfræði en hafa þó fjölmarga snertifleti við önnur svið félagsfræðinnar eins og fjölskyldufélagsfræði, heilsufélagsfræði og stéttarannsóknir,“ segir hún.
Fæðingartíðni hefur lækkað hratt
Sunna bendir á að Ísland hafi um langt skeið haft nokkra sérstöðu á Vesturlöndum þar sem fæðingartíðni hér var umtalsvert hærri en í nágrannalöndunum. „Hér á landi átti fólk almennt fleiri börn og átti þau fyrr. Fæðingartíðni á Íslandi hefur hins vegar lækkað hratt undanfarinn áratug og nýjustu tölur sýna að íslenskar konur eignast að meðaltali 1,82 börn yfir ævina, sem er umtalsverð lækkun frá því sem áður var,“ segir Sunna og bætir við að yfirleitt sé miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn á konu til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið.
Þróun í frjósemi hér á landi er því að verða svipuð og annars staðar á Norðurlöndum, þar sem konur eignast börn seinna á lífsleiðinni og eignast færri börn auk þess sem fleiri velja barnleysi. „Mikilvægt er að greina og skilja þessa þróun og í þessu þverfaglega verkefni er áhersla lögð á að rannsaka þær breytingar sem hafa orðið á fæðingartíðni á síðastliðnum árum og öðlast skilning á ástæðum þeirra. Þetta verður gert með því að leita svara við því hvort fjölskyldustefna á Íslandi styðji nægilega við barnafjölskyldur og fangi síaukinn fjölbreytileika og breyttar þarfir fjölskyldna, ásamt því að greina hvernig foreldramenning mótar ákvarðanir um barneignir,“ útskýrir Sunna. Þessi þróun getur haft mikil áhrif á samfélög því dragi mjög úr fæðingartíðni getur það haft áhrif á aldurssamsetningu og þar með getu samfélaganna til þess að styðja vel við alla hópa þess.
Fæðingartíðni hér á landi hefur lækkað hratt undanfarinn áratug.
Aðstæður til rannsókna á fæðingartíðni hér um margt einstakar
Auk Sunnu stýra nýdoktorarnir Ari Klængur Jónsson og Ásdís Arnalds rannsókninni ásamt Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur, forstöðumanni Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, en það var samtal við tvö þau fyrstnefndu sem kom boltanum af stað í rannsókninni. „Ég hef verið að rannsaka foreldrahlutverkið á Íslandi um margra ára skeið og undanfarin þrjú ár hef ég einbeitt mér að fæðingartíðni og hvernig breytt viðhorf til foreldrahlutverksins hafa áhrif á fæðingartíðni. Ég var þó alltaf meðvituð um að mínar rannsóknir einar og sér myndu ekki duga til þess að svara þessum stóru spurningum sem ég hef áhuga á að svara og þess vegna vildi ég breikka rannsóknina og nýta fleiri aðferðir til þess að öðlast þessa heildrænu sýn. Fyrir um það bil tveimur árum fórum við Ari Klængur Jónsson og Ásdís Arnalds svo af stað með hugmyndavinnu og umsóknarskrif og fundum fljótt að sérhæfing okkar og rannsóknarviðfangsefni tengdust og bættu hvert annað upp. Rannsóknarverkefnið er því afurð þessarar samvinnu og afar gleðilegt að fá tækifæri til þess að vinna að þessari yfirgripsmiklu rannsókn á næstu árum,“ segir Sunna.
Þegar skýringa er leitað á þessum samfélagsbreytingum er ljóst að nálgast þarf viðfangsefnið frá fjölbreyttum fræðasviðum því kemur ekki á óvart að fræðafólk úr hug- og menntavísindum kemur einnig að verkefninu auk félagsvísinda. „Auk okkar fjögurra stýra vinnupökkum þær Íris Ellenberger og Annadís Greta Rúdólfsdóttir frá Menntavísindasviði HÍ og Guðbjörg Ottósdóttir og Unnur Dís Skaptadóttir frá Félagsvísindsviði HÍ. Tveir doktorsnemar vinna að rannsókninni auk meistaranema og fjölmargra samstarfsaðila innan HÍ sem utan,“ segir Sunna enn fremur.
Hún bendir á að á Íslandi séu um margt einstakar aðstæður til að rannsaka fæðingartíðni og barneignir. „Hér á landi er mikil áhersla á jafnrétti kynjanna, fjölskyldur eru fjölbreyttar og fjölskyldustefna styður við atvinnuþátttöku beggja foreldra og jafna fjölskylduábyrgð.“
„Verkefnið fangar stórar rannsóknarspurningar um þróun fæðingartíðni en ekki síður ástæður og orsakir breytinga á foreldramenningu og frjósemishegðun. Mikilvægt er að greina og skilja þessa þróun þar sem hún er líkleg til þess að hafa afdrifarík áhrif á aldurssamsetningu þjóðar, samfélagsgerð og velferðarríkið í heild sinni,“ segir Sunna Kristín Símonardóttir, nýdoktor í félagsfræði.
Móðurhlutverkið ungum konum kvíðavaldandi
Þau öndvegisverkefni sem hljóta styrk standa yfirleitt yfir í að minnsta kosti þrjú ár og hafa marga anga. Í tilviki Sunnu og félaga skiptist rannsóknin í fimm hluta sem hver hefur sérstaka áherslu og tekur mið af breyttri samsetningu samfélagsins.
„Hver vinnupakki er í raun sjálfstætt rannsóknarverkefni en allir tengjast þeir og ná því saman að fanga ákveðna heildræna sýn á viðfangsefnið. Í fyrsta vinnupakkanum erum við að skoða lýðfræðilega þróun – hvernig fæðingartíðni er að þróast, hjá hvaða hópum og hvað hefur áhrif á þá þróun. Vinnupakki tvö skoðar foreldramenningu; hvernig fólk tekur ákvarðanir um barneignir og hvernig kynjaðar byrðar foreldrahlutverksins hafa áhrif þar á. Þriðji vinnupakkinn skoðar áhrif vinnu og fjölskyldustefnu á fæðingartíðni og foreldrahlutverk og fjórði vinnupakkinn rýnir í reynslu hinsegin foreldra af foreldrahlutverkinu, sögulega jafnt sem í nútímanum. Í síðasta vinnupakkanum erum við svo að skoða fæðingartíðni hjá innflytjendum og rýna í reynslu þeirra og viðhorf til barneigna.“
Þótt aðeins sé eitt ár síðan verkefnið hlaut öndvegisstyrk og gagnaöflun standi enn yfir hefur það þegar leitt í ljós afar athyglisverðar niðurstöður. Í nýbirtri grein eftir Sunnu og Hlédísi Guðmundsdóttur er að finna niðurstöður úr rýnihópaviðtölum við ungar íslenskar konur þar sem meðal annars kemur fram að þær upplifa foreldrahlutverkið sem kvíðavaldandi og líklegt til þess að hafa neikvæð áhrif á stöðu þeirra í samfélaginu. „Niðurstöður benda enn fremur til þess að ungar konur eigi erfitt með að sjá fyrir sér hvernig þær geti uppfyllt vaxandi kröfur um ákafa mæðrun í samfélagi sem einkennist af lífsgæðakapphlaupi, einstaklingshyggju og yfirvofandi loftslagssvá,“ segir Sunna.
Rýnt í reynslu foreldra í COVID
Önnur rannsókn hennar, sem snýr að þeirri ákvörðun einstaklinga að velja barnleysi, er í ritrýni hjá erlendu tímariti. „Í viðtölunum sem eru til grundvallar í henni birtist sú eindregna sýn að ekki sé hægt sé að breyta eða aðlaga foreldrahlutverk þannig að þau verði meira aðlaðandi. Móðurhlutverk er skilgreint sem kvíðavaldandi, yfirþyrmandi, flókið og til þess að sinna því með sóma þurfi konur að fórna sjálfum sér. Meira samfélagslegt rými er í dag til þess að hafna foreldrahlutverkinu en fólk og þá sérstaklega konur upplifa þó enn fjandsamleg viðbrögð frá umhverfinu vegna ákvörðunar sinnar um að eignast ekki börn,“ segir Sunna.
Hún bætir við að fleiri spennandi niðurstöður eru væntanlegar. „Um þessar mundir erum við Ásdís Arnalds til að mynda að vinna úr rýnihópaviðtölum við foreldra sem eignuðust börn COVID-árið 2021 þar sem fram kemur mikil gagnrýni og óánægja með útilokun feðra frá meðgönguvernd og fæðingarferlinu vegna sóttvarnatakmarkanna,“ segir Sunna og hvetur fólk til þess að kynna sér nýjustu greinar og fréttir af rannsóknarverkefninu á vef þess.
Í verkefninu er jafnframt lögð mikil áhersla á að færa vísindin nær almenningi með því að efna til samstarfs milli fræðafólks, hagsmunaaðila og fjölmiðla.
Þróun fæðingatíðni hefur áhrif á velferðarríkið
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi verkefnisins fyrir samfélagið enda geta niðurstöður þess m.a. nýst vel til að móta hagnýtar ábendingar fyrir stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila við stefnumótun í málefnum fjölskyldunnar. „Í verkefninu er jafnframt lögð mikil áhersla á að færa vísindin nær almenningi með því að efna til samstarfs milli fræðafólks, hagsmunaaðila og fjölmiðla,“ segir Sunna um samfélagslega þýðingu verkefnisins.
Vísindaleg þýðing þess er ekki síður mikil og undirstrikast í öndvegisstyrknum, sem eins og fyrr segir er aðeins veittur verkefnum sem hafa mikilvæga alþjóðlega skírskotun. „Verkefnið fangar stórar rannsóknarspurningar um þróun fæðingartíðni en ekki síður ástæður og orsakir breytinga á foreldramenningu og frjósemishegðun. Mikilvægt er að greina og skilja þessa þróun þar sem hún er líkleg til þess að hafa afdrifarík áhrif á aldurssamsetningu þjóðar, samfélagsgerð og velferðarríkið í heild sinni,“ segir Sunna.
Hún bendir einnig á að kallað hafi verið eftir því að nýta þurfi betur eigindlegar rannsóknaraðferðir til þess að öðlast betri skilning á þessari samfélagsbreytingu og við þróun verkefnisins hafi aðstandendur þess verið meðvitaðir um að nýta ólíkar aðferðir og skoða ólíka hópa samfélagsins. „Mikilvægt er að samþætta femínísk sjónarmið inn í rannsóknir á fæðingartíðni og foreldrahlutverkum þar sem þau færa okkur mikilvæga linsu til þess að skoða hvernig breytt tækifæri fyrir konur og karla hafa áhrif á frjósemi og hvernig kynjaðar kröfur og hugmyndafræði um foreldrahlutverkið hefur áhrif á ákvarðanir er varða barneignir, fjölda barna og tímasetningu barneigna.“
Vill vera leiðandi á sínu sviði á alþjóðavettvangi
Samkeppni um rannsóknarstyrki bæði innan lands og utan eykst með hverju árinu og oft er liðið langt á vísindaferilinn þegar fólk nær að afla stórra styrkja til rannsókna sinna. Árangur Sunnu og samstarfsfólks, sem flest á að baki tiltölulega skamman vísindaferil, er því afar glæsilegur. „Ég hef skýra sýn á hvers konar vísindakona ég vil vera og hvernig rannsóknir ég vil stunda. Ég vil halda áfram að stunda rannsóknir af hæsta gæðaflokki sem hafa möguleika á því að breyta heiminum og hafa áhrif út fyrir akademíuna. Ég vil vera leiðandi rannsakandi á mínu sviði alþjóðlega og stunda rannsóknir sem sýna fram á mikilvægi eigindlegra aðferða og hins félagsfræðilega sjónarhorns. Það að fá öndvegisstyrk frá Rannís á þessum tímapunkti í okkar vísindaferli er mikil lyftistöng og gríðarleg traustyfirlýsing sem við munum svo sannarlega sjá til að við stöndum undir,“ segir Sunna að endingu.