Skip to main content
16. mars 2016

Fjallar um för sína í Alþjóðlegu geimstöðina

""

Daninn Andreas Mogensen flytur erindi um geimferðir og för sína í Alþjóðlegu geimstöðina í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 18. mars kl. 12-13.

Mogensen varð á síðasta ári fyrstur Dana til þess að ferðast til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Evrópska geimferðastofnunin (ESA) valdi hann til þátttöku í geimferðaáætlun sinni árið 2009 og eftir áralanga þjálfun hélt hann loks í geimstöðina 2. september 2015 um borð í Soyuz TMA-18. Mogensen dvaldi tíu daga í geimstöðinni við ýmis verkefni.

Mogensen er staddur hér á landi á vegum kvikmyndagerðarmanna sem vinna að heimildamyndinni Tilgangur lífsins í leikstjórn Portúgalans Miguel Gonçalves Mendes, en þess má geta að tónlistarmaðurinn Hilmar Örn Hilmarsson kemur þar einnig við sögu. Í myndinni fylgja kvikmyndagerðarmennirnir m.a. Mogensen eftir í gegnum stranga þjálfun fyrir förina út í geiminn en þjálfunin fór fram víða um heim, þar á meðal í Japan, Bandaríkjunum og Kasakstan. Tökur fyrir myndina fara fram hér á landi m.a. vegna þess að það hefur lengi verið draumur Mogensens að sjá norðurljósin.

Andreas Mogensen er með doktorsgráðu í geimverkfræði frá Háskólanum í Texas í Bandaríkjunum. Hann býr nú og starfar í Köln í Þýskalandi.

Í fyrirlestrinum í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 18. mars mun Mogensen fjalla um geimferðir og ferð sína í Alþjóðlegu geimstöðina en jafnframt gefst gestum færi á að spyrja hann um förina. Fyrirlesturinn verður á ensku og er öllum opinn.

Fundarstjóri verður Kristinn Andersen, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands.

Andreas Mogensen
Andreas Mogensen