Viljum við samfélag án kennara?
Alvarleg staða menntakerfisins, mannekla í leikskólum og yfirvofandi kennaraskortur verður til umræðu á opnum fundi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þriðjudaginn 4. október nk. kl. 12:10–13:10 í Hátíðasal Háskóla Íslands.
Ef fram fer sem horfir mun kennurum fækka í skólum landsins á næstu árum og áratugum. Nýnemum í kennaranámi við Háskóla Íslands hefur fækkað um ríflega 60% undanfarin ár. Þá hafa nýútskrifaðir grunnskólakennarar ekki skilað sér sem skyldi í störf í skólum. Svipaða sögu er að segja um leikskóla landsins en nú vantar um 1300 leikskólakennara.
Á fundinum á þriðjudag munu þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og Stefán Hrafn Jónsson, prófessor í félagsfræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, fjalla um þann vanda sem við blasir. Fulltrúar sjö stjórnmálaflokka munu í framhaldinu sitja fyrir svörum um þær aðgerðir sem flokkarnir hyggjast ráðast í til að sporna gegn frekari skorti á kennurum í leik- og grunnskólum. Fundarstjórn verður í höndum Helga Seljan, fjölmiðlamanns og eins umsjónarmanna Kastljóss.
Framtíð okkar er í húfi
„Fréttir af fækkun kennaramenntaðs fólks í skólum landsins vekur ugg í brjósti. Gæði skólastarfs og menntun barna er undirstaða velferðar hverrar þjóðar og er menntun kennara þar mikilvægur áhrifaþáttur. Í þeim löndum, þar sem árangur nemenda er bestur samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum og þar sem jöfnuður og lífsgæði eru jafnframt hvað mest, er litið á menntakerfið sem mikilvægan áhrifavald,“ segir Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Hún segir að ein skýring á fækkun kennara í skólum landsins sé sú að um þessar mundir séu stórir árgangar að fara á eftirlaun og endurnýjun í kennarahópnum hafi ekki haldist í hendur við þá þróun. „Leikskólinn stendur enn fremur frammi fyrir þeirri alvarlegu stöðu að einungis um 30% starfsfólks hefur leikskólakennaramenntun. Leikskólum landsins hefur fjölgað á undanförnum áratugum en fjölgun útskrifaðra leikskólakennara er ekki í samræmi við þá þróun. Þessi fækkun útskrifaðra leik- og grunnskólakennara hefur átt sér stað þrátt fyrir gott kennaranám og mikla atvinnumöguleika að námi loknu. Framúrskarandi skólastarf byggist á mörgum samverkandi þáttum þar sem kennarar, stjórnmálamenn og foreldrar eru mikilvægir áhrifavaldar. Menntamál ættu að vera forgangsverkefni allra ábyrgra stjórnmálamanna og þeirra keppikefli að búa sem best að skólum landsins. Framtíð okkar er í húfi,“ segir Jóhanna.
Þungar áhyggjur af þróuninni
Hjörvar Gunnarsson, kennaranemi við Háskóla Íslands, segir nemendur hafa þungar áhyggjur af þróun mála í menntakerfinu. „Ég leyfi mér að fullyrða að enginn vilji skóla án menntaðra kennara. Mikilvægt er að grípa til aðgerða strax til að koma í veg fyrir þann stórkostlega vanda sem það mun hafa í för með sér ef spár ganga eftir um yfirvofandi kennaraskort.“
Hjörvar telur nokkrar ástæður valda því að ungt fólk sæki í minna mæli í kennaranám en áður. „Slæmt umtal um störf kennara og sá ímyndarvandi sem stéttin á við að etja dregur úr áhuga ungs fólks á kennaranámi að mínu mati. Eins er ekki nægjanlega mikil virðing borin fyrir störfum kennara; þeir eru sagðir hafa lág laun og vera alltaf í sumarfríi. Þeir sem lifa og hrærast í skólakerfinu vita að hvorugt á við rök að styðjast enda hafa orðið þær breytingar á síðustu árum að skólaárið hefur lengst og laun kennara stórbatnað frá því sem áður var,“ segir Hjörvar og hvetur alla aðila sem láta sig menntamál varða að mæta á fundinn.
Á meðan á fundinum stendur verður hægt að „tísta“ og fylgjast með umræðum á Twitter undir myllumerkinu #kennaraskortur.