Skip to main content
11. mars 2016

Verðlaunuð fyrir stórvirki um Þórberg

""

„Áhrif Þórbergs eru mjög mikil á íslenskar sjálfsævisögur og ekki síst skáldævisögur sem nú eru mjög áberandi í íslenskum bókmenntum,“ segir Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hún tók í síðustu viku við menningarverðlaunum sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrir „Ég skapa – Þess vegna er ég“, nýja bók um skrif Þórbergs Þórðarsonar. Soffía hefur rannskað verk hans í á annan áratug og verður m.a. með erindi um dýrafræði skáldsins á Hugvísindaþingi sem fram fer nú um helgina.

Áhuga Soffíu á þessum sérstæða en þekkta rithöfundi má rekja allt til unglingsára hennar en þá las hún Bréf til Láru og varð að eigin sögn strax stórhrifin. „Mér fannst hann svo fyndinn, ögrandi og ólíkur öðru sem ég hafði lesið. Bækur hans urðu þó ekki oft á vegi mínum í skipulögði námi, hvorki í menntaskóla né háskóla, og ákvörðun um rannsaka skrif hans skipulega kom ekki fyrr en ég hafði lokið námi og var farin að kenna sjálf. Ég kenndi hann í námskeiðum í Háskóla Íslands og hélt námskeið fyrir almenning um höfundaverk hans hjá Endurmenntun Háskólans og síðan seinna á Hornafirði,“ segir Soffía.

Bókin nýja á sér langan aðdraganda og Soffía hefur unnið að henni með fram öðrum störfum. „Ég skrifaði kennsluleiðbeiningar við Ofvitann árið 2001 og birti sama ár fyrstu greinina, um Íslenskan aðal. Síðan hef ég rannsakað skrif Þórbergs hægt og rólega í mörg ár en skriður komst á þær rannsóknir eftir að ég flutti á Hornafjörð og komst í návígi við Suðursveitina. Það jók bæði á skilning og áhuga að búa á heimaslóðum Þórbergs,“ segir Soffía sem einnig var tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir bókina.

Íslendingasögurnar fyrirmyndir að skáldævisögulegum verkum

Í bókinni rýnir Soffía í skáldævisöguleg verk Þórbergs og hlut hans í innkomu þessa bókmenntaforms á Íslandi. En hvaðan skyldu hugmyndir hans og fyrirmyndir í þessum efnum koma? „Ég sýni fram á það að fyrirmynd þessa nýja bókmenntagervis, eins og ég vil kalla það, eru kannski einna helst Íslendingasögur. Þegar Þórbergur stundaði nám í norrænudeild Háskóla Íslands á árunum 1913-1918 kynntist hann nýjum viðhorfum til Íslendingasagna, að þær væru blendingur sagnfræði og skáldskapar og hans „nýja ritform“, eins og hann sjálfur kemst að orði, er byggt á svipaðri aðferð. Einnig bendi ég á samsvaranir við erlendar bókmenntir, t.d. Ferðamyndir (Reisebilder) Heinrich Heine, sem var höfundur sem Þórbergur dáði, og þá bendi ég líka á hliðstæður með hinu blandaða efni Bréfs til Láru og Lestrarbók alþýðu, sem Þórbergur las upp til agna sem barn og talar mikið um. Alþýðubókin er sambland af ritgerðum, skáldskap og fræðsluefni af ýmsum toga,“ bendir Soffía á.  Þórbergur hafi sótt sér fyrirmyndir víða en að sjálfsögðu sett sinn eigin svip á öll sín skrif. „En mesta nýsköpunin er fólgin í hreinskilnum sjálfslýsingum og þeirri afbyggingu karlmennskuímyndar sem fram fer í öllum hans bókum, í sjálfslýsingum sínum er hann langt á undan sínum tíma.“

Þórbergur „eins og menn verða eftir næstu aldamót“

Skáldævisagan hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og áhrif Þórbergs á rithöfunda nútímans eru mikil að sögn Soffíu. „Hann var sannspár þegar hann sagði að hann væri „eins og menn  verða eftir næstu aldamót“ en þau orð lét hann falla í viðtali við menntaskólapilt sem innti hann eftir því hvers konar bækur þetta væru sem hann skrifaði. Hann gaf í skyn að menn myndu ekki átta sig á aðferð hans fyrr en „eftir næstu aldamót“, sem sagt núna. Það merkilega er að margir þeirra höfunda sem nú skrifa skáldævisögur tengja sig beint við Þórberg á einn eða annan hátt og kinka kolli til hans í bókum sínum. Hér má nefna höfunda á borð við Jón Kalman Stefánsson, Jón Gnarr, Oddnýju Eir Ævarsdóttur og fleiri.“

Aðspurð hvort eitthvað hafi komið henni sérstaklega á óvart við rannsóknir á verkum Þórbergs og ritun bókarinnar segir Soffía að hún hafi m.a. uppgötvað hversu menntaður Þórbergur var þótt ekki hafi hann skartað prófskírteini. Einnig hversu vel hann var að sér í erlendum bókmenntum. „Í skrifum hans mætast íslensk þjóðleg hefð og áhrif frá erlendum straumum sem hann kynntist meðal annars í gegnum nám sitt og í gegnum esperantótímarit, en hann var altalandi og -skrifandi á esperantó. Staðalmyndin af Þórbergi hefur verið mynd hins ómenntaða sveitamanns, trúðs og pólitísks eldhuga. Hann var vissulega pólitískur eldhugi og hafði gaman af að skemmta með trúðslátum en ómenntaður var hann ekki,“ bætir Soffía við.

Þórbergur líklega alltaf nálægur í rannsóknum

Að loknu svo viðamiklu verkefni vaknar að sjálfsögðu spurningin hvort Soffía hyggist áfram rýna í verk Þórbergs. Hún jánkar því og segist nýbúin að skila af sér grein um skáldið í tímaritið Skírni. „Svo held ég að minnsta kosti fjóra fyrirlestra á árinu um skrif hans, þann fyrsta nú um helgina á Hugvísindaþingi,“ segir hún en erindið þar ber heitið „Hin skemmtilega dýrafræði Þórbergs Þórðarsonar“ og er hluti af málstofunni Víðáttur og (villi)dýr. „Ég er reyndar með allt annað rannsóknaverkefni í pípunum en mér hefur ekki enn tekist að losna frá Þórbergi og líklega mun hann alltaf vera nálægur í minni rannsóknarvinnu,“ segir Soffía að endingu en þess má geta að hún ver doktorsritgerð sína um Þórberg við Háskóla Íslands þann 12. maí næstkomandi.

Soffía Auður Birgisdóttir
Soffía Auður Birgisdóttir