Varði doktorsritgerð við Sorbonne og Háskóla Íslands
Rósa Elín Davíðsdóttir varði doktorsritgerð sína í málvísindum þann 9. apríl í París. Um er að ræða fyrstu sameiginlegu doktorsgráðuna við frönskudeild Sorbonne-háskóla (Université de Paris-Sorbonne, Paris IV) og Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Þetta er einnig fyrsta doktorsgráðan við námsbraut rómanskra og klassískra mála við Háskóla Íslands. Ritgerðin fékk bestu mögulegu umsögn dómnefndar.
Andmælendur voru Jean Pruvost, prófessor í málvísindum við háskólann í Cergy-Pontoise í Frakklandi, og Annick Farina, dósent við deild erlendra tungumála og bókmennta við háskólann í Flórens.
Aðalleiðbeinandi Rósu var André Thibault, prófessor í frönsku við Sorbonne-háskóla og meðleiðbeinandi var Erla Erlendsdóttir, dósent við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands, en í doktorsnefnd við Háskóla Íslands voru auk hennar Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og François Heenen, aðjunkt við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Karl Gadelii, prófessor við deild norrænna tungumála við Sorbonne-háskóla var formaður dómnefndar og stýrði athöfninni sem fór fram við Sorbonne háskóla í París.
Í ritgerðinni, sem ber heitið La lexicographie bilingue islandais-français: Propositions d’articles pour un dictionnaire islandais-français avec une attention particulière au traitement des locutions figées et semi-figées (Tvímála orðabókagerð milli íslensku og frönsku: tillögur að orðabókarflettum fyrir íslensk-franska orðabók með áherslu á föst orðasambönd), er fjallað um tvímála orðabókafræði og orðabókagerð milli íslensku og frönsku með áherslu á mikilvægi orðasambanda í tvímála orðabókum. Fjallað er um mismunandi hlutverk tvímála orðabóka. Þær eiga að nýtast fólki til að skilja erlent tungumál og einnig til að tjá sig í ræðu og riti á erlendu máli. Sýnt er fram á að föst orðasambönd og ýmis laustengdari orðasambönd, svo sem orðastæður, séu mikilvægar í tungumálinu og að þeim þurfi að gera skil í tvímála orðabók. Uppbygging orðabókaflettna og þær upplýsingar sem fram þurfa að koma í íslensk-franskri veforðabók eru ræddar.
Niðurstöður eru settar fram sem tillögur að orðabókarflettum fyrir íslensk-franska orðabók ásamt rökstuðningi fyrir orðabókafræðilegum ákvörðunum og þýðingum. Við vinnuna var byggt á nýjum íslenskum orðabókargrunni, ISLEX, sem unninn var hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir samnefnda orðabók.
Rósa Elín Davíðsdóttir er fædd 1981. Hún hefur lokið BA-gráðu í frönskum fræðum frá Háskóla Íslands og MA-gráðu í málvísindum frá Sorbonne-háskóla. Rósa stýrir vinnu við franska hluta nýrrar íslensk-franskrar orðabókar en um er að ræða samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.