Skip to main content
2. maí 2024

Útskrifaðist með hæstu einkunn sem gefin hefur verið í meistaranámi í viðskiptafræði

Útskrifaðist með hæstu einkunn sem gefin hefur verið í meistaranámi í viðskiptafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Lykillinn að árangri er að hafa áhuga á því sem maður tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er í námi eða starfi. Einkunnir segja ekki allt heldur að námið skili fleiri tækjum og tólum í þekkingarkistu nemenda. Það gerist ef maður sýnir áhuga, spyr út í hluti sem maður skilur ekki og veltir fyrir sér gagnrökum,“ segir Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri sviðs fjármála og upplýsingatækni hjá Landsvirkjun, sem útskrifaðist í febrúar síðastliðnum með MS í stjórnun og stefnumótun. Rafnar náði þeim frábæra árangri að útskrifast með hæstu meðaleinkunn sem gefin hefur verið í meistaranámi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands frá upphafi.

Rafnar hafði lengi langað að bæta við sig menntun en rúm 20 ár eru síðan hann lauk MS í fjármálum. „Ég skoðaði því mismunandi meistaranám milli háskóla og deilda þar sem óhemju margt kveikti áhuga. En þegar ég las yfir skipulag meistaranámsins í stjórnun og stefnumótun við HÍ, sá ég að það smellpassaði við áhugasvið mitt,“ segir Rafnar spurður að því hvers vegna þetta nám varð fyrir valinu.

Nýtti námið til að kynnast nýjustu straumum og stefnum

Rafnar hefur verið í stjórnendastörfum í tæp 20 ár og tekið þátt í stefnumótun og þróun fyrirtækja. Að eigin sögn hefur hann alltaf haft gaman að þeirri hlið starfsins og leit því á námið sem tækifæri til að kynnast nýjustu stefnum og straumum. „Námið gaf mér fullt af hugmyndum sem ég verð áfram að grúska í og nýta í starfi. Það er mjög gaman að setjast aftur á skólabekk og frábær heilaleikfimi að nálgast hluti með öðrum hætti en í vinnu. Það er ómetanlegt að sitja með öðrum toppnemendum, ræða um kenningar og tengja við daglegt líf og fá innblástur út frá mismunandi sjónarhornum og reynslu annarra,“ segir Rafnar og bætir við að ekki skemmi fyrir hvað kennararnir séu metnaðarfullir, áhugasamir og fróðir og að samtalið innan hópsins alls hafi því verið mjög gefandi.

Rafnar ber meistaranámi í stjórnun og stefnumótun vel söguna og segir það vera góða leið til þess að kynnast því hvernig fyrirtæki virka og hvernig stjórnun og leiðtogafærni byggjast upp. Þá er fjöldi valnámskeiða þar sem hægt er að kynna sér ýmsar aðrar hliðar fyrirtækjareksturs, til dæmis í gegnum markaðsfræði, mannauðsmál, verkefnastjórnun og nýsköpun. Rafnar bendir einnig á fjölbreyttan bakgrunn nemendanna: „Það var mikil breidd í hópi samnemenda minna, bæði út frá aldri, kynjum, reynslu og bakgrunni sem skapaði skemmtilega flóru og opnaði aðra sýn en ég hafði sem viðskiptafræðingur. Þarna voru lögfræðingar, hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfarar, verkfræðingar og ferðamálafræðingar svo eitthvað sé nefnt.“
 

Rafnar ásamt Eydísi Sigrúnu Jónsdóttur, MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum, Gylfa Magnússyni, forseta Viðskiptafræðideildar, og Katrínu Þórðardóttur, MS í stjórnun og stefnumótun. Rafnar, Eydís og Katrín luku öll prófi frá Viðskiptafræðideild með ágætiseinkunn í febrúar. MYND/Kristinn Ingvarsson

Púsluspil að vera í námi, vinnu og eiga fjölskyldu 

Sem fyrr segir útskrifaðist Rafnar með hæstu einkunn sem gefin hefur verið í meistaranámi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ásamt því að stunda fullt nám var hann í fullu starfi hjá Landsvirkjun. Rafnar segir það vera púsluspil að vera bæði í námi og fullri vinnu ásamt því að eiga fjölskyldulíf. Spurður hvort hann hafi einhver ráð fyrir nemendur í svipaðri stöðu segir hann að hver nemandi þurfi að finna sinn hraða. „Það lærist fljótt hvaða hraði hentar best. Sjálfur tók ég námskeiðin miðað við fullan námshraða því það hentaði mér vel. Ég nýtti kvöldin til lesturs og einnig helgar þegar kom að verkefnaskilum og prófum. Meistararitgerðinni skilaði ég í febrúar í ár í stað síðasta vors, en ég vildi sökkva mér vel inn í ritgerðarefnið og gaf mér því góðan tíma.“

Í meistararitgerð sinni fjallaði Rafnar um stöðuna á þróun upplýsingatækni innan bankakerfisins út frá stofnanakenningum. Þar veltir hann upp þeirri spurningu hvort bankar nýti sér örar framfarir í upplýsingatækni eða hvort þeir sporni við þeim í nafni lögmætis sem er þeim mikilvægt. Framförum fylgja vissulega breytingar og breytingar geta ógnað lögmæti. Sem hluta af eigindlegri rannsókn sinni ræddi Rafnar við 11 viðmælendur úr bankageiranum. Niðurstöðurnar benda til togstreitu innan bankanna milli bankaskoðanakerfis og stafræns skoðanakerfis og sýna að tækniþróun á ekki greiða leið innan bankakerfisins.

Gæði náms og kröfur til nemenda það sem stendur upp úr

Aðspurður um hvað standi helst upp úr að námi loknu nefnir Rafnar gæði námsins og þær kröfur sem Háskóli Íslands setur nemendum. „Þetta gerði námið krefjandi en um leið skemmtilegt. En umfram allt eru það minningar af því góða fólki sem var samferða veginn, bæði nemendur og kennarar.“

Rafnar tekur jafnframt fram að hann sé ánægður með hversu vel háskólanum tekst að flétta saman hagnýtar og fræðilegar áherslur. „Metnaður kennara og námsáherslur eru krefjandi og búa nemendur jafnt undir starf í atvinnulífinu og við fræðimennsku. Skólinn hefur mikið þroskast síðan ég var í grunnnámi fyrir um 25 árum og nálgast atvinnulífið betur núna en þó án þess að tapa fræðilegum einkennum sínum. Einnig hef ég samanburð erlendis frá þar sem ég kláraði meistaranám frá háskóla í Bandaríkjunum. Þar stenst háskólinn allan samanburð við framúrskarandi skóla erlendis. Meistaranám í stjórnun og stefnumótun fær mín allra bestu meðmæli og ég hvet eindregið áhugasöm að kynna sér námið og slá til.“

Rafnar Lárusson