Skip to main content
14. mars 2016

Tvenn verðlaun fyrir heimildamynd um kvennabaráttuna

""

Heimildamyndin Hvað er svona merkilegt við það? eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur, kvikmyndagerðarkonu og aðjunkt í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, hefur nýverið unnið til tvennra verðlauna. Í lok febrúar fékk myndin Edduna, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin, sem besta heimildamyndin og í liðinni viku hlaut myndin Menningarverðlaun DV 2015 í flokki kvikmyndalistar.

Í myndinni er fjallað um hóp kvenna sem ákvað að láta til sín taka á hinum pólitíska vettvangi á Íslandi snemma á níunda áratugnum í kjölfar róttækrar kvennabaráttu. Þær stofnuðu bæði Kvennaframboðið til borgarstjórnar og Kvennalistann sem átti fulltrúa á Alþingi í rúman einn og hálfan áratug. Myndin hlaut áhorfendaverðlaun á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði í vor og var einnig tilnefnd sem besta norræna heimildamyndin á Nordisk Panorama. Halla leikstýrði myndinni en Hrafnhildur Gunnarsdóttir hjá Krumma Films er framleiðandi. 

Í umsögn dómnefndar Menningarverðlauna DV segir um myndina: „Í þessari kraftmiklu heimildarmynd varpar Halla Kristín Einarsdóttir leikstjóri ljósi á skrautlega og gróskumikla kvennabaráttu níunda og tíunda áratugarins. Með húmor og hnyttni að vopni tryggja leikstýran Halla Kristín og framleiðandi Hrafnhildur Gunnarsdóttir, að saga íslenskra kvenna sé ekki aðeins áhugaverð, heldur einnig stórskemmtileg. Byltingarandi tímabilsins er fangaður með einstökum hætti í þessu mikilvæga innleggi inn í íslenska kvennasögu.“ Hér er hægt að lesa umfjöllun DV um verðlaunin.

Hvað er svona merkilegt við það? Verður sýnd á RÚV föstudaginn langa, 25. mars.

Stefanía Thors klippari, Halla Kristín Einarsdóttir með Edduna og Hrafnhildur Gunnarsdóttir framleiðandi.