Tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis
Hópur núverandi og fyrrverandi kennara við Háskóla Íslands er meðal þeirra sem tilnefndir eru til viðurkenningar Hagþenkis fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings á árinu 2014. Tilkynnt var um tilnefningarnar fimmtudaginn 5. febrúar í Borgarbókasafninu í Grófarhúsinu.
Í hartnær 30 ár hefur Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings sem þykir hafa skarað fram úr og frá árinu 2006 hafa tíu höfundar og bækur verið tilnefndar. Sérstakt viðurkenningaráð, sem skipað er fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum til tveggja ára í senn, velur hinar tilnefndu bækur.
Í hópi þeirra tíu bóka sem tilnefndar eru fyrir árið 2014 eru bækur eftir fræðimenn á Hugvísindasviði, Menntavísindasviði og Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Bókin „Grímur Thomsen. – Þjóðerni, skáldskapur, þversagnir og vald“ eftir Kristján Jóhann Jónsson, dósent við Menntavísindasvið, er þar á meðal en í umsögn viðurkenningaráðs Hagþenkis um bókina segir að hún veiti nýtt sjónarhorn á þjóðskáldið þar sem umfjöllun um ritstörf fléttast saman við nýstárlega greiningu á goðsögninni um Grím Thomsen.
Páll Skúlason, prófessor í heimspeki við Hugvísindasvið og fyrrverandi háskólarektor, er einnig tilnefndur til verðlaunanna fyrir þrjár bækur sem hann sendi frá sér á síðasta ári. Það eru bækurnar „Háskólapælingar. – Um stefnu og stöðu háskóla í samtímanum“, „Hugsunin stjórnar heiminum“ og „Náttúrupælingar – Um stöðu mannsins í ríki náttúrunnar“. „Í þessum þremur ritum er varpað ljósi á ýmis brýnustu álitamál samtímans frá sjónarhóli heimspekinnar. Djúp hugsun helst í hendur við læsilegan texta,“ segir í umsögn viðurkenningarráðs.
Þá er bókin „Ofbeldi á heimili. – Með augum barna“ í ritstjórn Guðrúnar Kristinsdóttur, prófessors við Menntavísindasvið, einnig tilnefnd til verðlaunanna. Auk Guðrúnar rita þær Ingibjörg H. Harðardóttir, lektor í sálfræði við Menntavísindasvið, Margrét Ólafsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið, og Steinunn Gestsdóttir, dósent í þroskasálfræði við Sálfræðideild, kafla í bókinni ásamt þeim Margréti Sveinsdóttur og Nönnu Þ. Andrésdóttir, sem báðar rituðu meistararitgerðir við Háskóla Íslands um ofbeldi á heimilum. Þess má geta að bókin fékk á dögunum Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Í umsögn viðurkenningaráðs Hagþenkis segir að „Ofbeldi á heimili“ sé „merkilegt brautryðjandaverk sem á ríkt erindi við kennara, foreldra og alla sem láta sér annt um börn og velferð þeirra“.
Allar áðurnefndar bækur komu út á vegum Háskólaútgáfunnar á síðasta ári.
Auk þessa er bókin „Orð að sönnu – íslenskir málshættir og orðskviðir“ eftir Jón G. Friðjónsson, prófessor emeritus í íslensku við Háskóla Íslands, einnig tilnefnd til verðlaunanna en viðurkenningaráðið segir þar á ferðinni „menningarsögulegt eljuverk þar sem höfundur hefur safnað íslenskum málsháttum frá fornu máli til nútíma og skýrir merkingu þeirra og uppruna“.
Lista yfir aðrar bækur sem tilnefndar eru til viðurkenningar Hagþenkis má sjá á heimasíðu félagsins.
Viðurkenning Hagþenkis verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars. Hún felst í árituðu heiðursskjali og einni milljón króna.