Skip to main content
15. mars 2016

Rætt um stjórnarskrárákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur

""

Lagastofnun Háskóla Íslands og Lögfræðingafélag Íslands efna þriðja málþingsins um tillögur stjórnarskrárnefndar um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Málþingið fer fram miðvikudaginn 16. mars kl. 12.00-13.30 í  stofu 101 í Lögbergi og að þessu sinni verður rætt um tillögu að stjórnarskrárákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu almennings.

Tillögur stjórnarskrárnefndar voru kunngjörðar á dögunum og eru á stjornarskra.is. Þar kemur m.a. fram að fimmtán af hundraði kosningarbærra manna geta krafist þess að nýstaðfest lög frá Alþingi verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu. Til þess að hnekkja lögum eða ályktunum samkvæmt þessari grein þarf meirihluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst fjórðungur kosningarbærra manna, að synja þeim samþykkis. 

Með lögum, sem samþykkt eru með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi, skal mælt nánar fyrir

um upphafstíma og fyrirsvar undirskriftasöfnunar, form og söfnun undirskrifta, miðlun upplýsinga, framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og lausn ágreiningsmála fyrir dómstólum.

Er tillagan þannig úr garði gerð að hún hvetji raunverulega til virkrar þátttöku almennings?

Er skynsamlegt að hafa tvenns konar ákvæði í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur?

Hvers vegna er lagt í hendur almenna löggjafanum að ákveða nánar um undirskriftasafnanir og framkvæmd og hvers vegna þarf að samþykkja slíka löggjöf með 2/3 hluta atkvæða í stað einfalds meirihluta? Við þessar spurningar auk fleiri verður fengist á málþinginu.

Framsöguerindi flytur Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands. Auk hennar taka þátt í pallborði þau Eiríkur Bergmann, prófessor við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi fulltrúi í stjórnlagaráði, og Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og fyrrverandi formaður stjórnlagaráðs.

Fundarstjóri er Kristján Andri Stefánsson, formaður Lögfræðingafélags Íslands.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Stjórnarskrá
Stjórnarskrá