Hjúkrunarfræðideild hlýtur veglegan styrk frá NordForsk
Fulltrúar frá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hlutu nýverið 91 milljónar króna styrk frá NordForsk, stofnun sem hefur umsjón með rannsóknasamstarfi á Norðurlöndum, til þátttöku í norrænu þverfaglegu rannsóknarverkefni.
Verkefnið ber heitið: „ActivABLES: Einfaldur tæknibúnaður til að stuðla að árangursríkri endurhæfingu heima fyrir fólk með heilablóðfall.“ Verkefnið er á frumstigi en það felur í sér þróun á tæki sem stuðlar að aukinni hreyfingu fólks með heilablóðfall. Unnið er að því að tækið verði einfalt í notkun og að sjúklingar og aðstandendur þeirra geti nýtt sér það heima hjá sér.
Alls bárust 34 umsóknir um styrki til NordForsk vegna áætlunar sem snýr að heilsu og velferð á Norðurlöndum (Nordic Programme on Health and Welfare). Tvö verkefni hlutu styrk að þessu sinni og eru styrkirnir veittir til rannsóknarverkefna sem beinast að því að þróa nýjungar í tækniþáttum og þjónustu sem hægt er að innleiða á hagnýtan hátt inn í heilbrigðis- og velferðarkerfi. Verkefnið hér að ofan er til þriggja ára og hlaut styrk í flokknum „Notendamiðuð nýsköpun í heilsu og velferð.“
Þriggja landa þverfræðileg samvinna
Að verkefninu kemur hópur norrænna sérfræðinga undir forystu Charlotte Magnusson, lektors við Hönnunarvísindadeild Verkfræðisviðs Háskólans í Lundi í Svíþjóð, og Davids McGookin, lektors og verkefnastjóra Tæknideildar Aalto-háskólans í Helsinki í Finnlandi. Þóra B. Hafsteinsdóttir, dósent við deild endurhæfingar, hjúkrunarfræði og íþrótta við Háskólann í Utrecht í Hollandi og gestaprófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, leiðir íslenska hópinn en fulltrúrar Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands í verkefninu eru Helga Jónsdóttir prófessor og Ingibjörg Hjaltadóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun á flæðisviði Landspítalans.
Afleiðingar heilablóðfalls alvarlegar og langvinnar
„Stöðugt er leitað leiða til að bæta endurhæfingu fólks sem fengið hefur heilablóðfall en sjúkdómurinn er þriðja algengasta dánarorsök fólks á Íslandi. Afleiðingar heilablóðfalls eru alvarlegar, langvinnar og afar kostnaðarsamar fyrir þjóðfélagið. Flestir sjúklingar eiga við langvarandi helftarlömun að etja sem heftir hreyfingu og sjálfsbjargargetu auk þess sem um þriðjungur stríðir við vitsmunaskaða og/eða tjáskiptaerfiðleika. Þverfagleg endurhæfing skilar bættri hæfni, getu og lífsgæðum,“ segir í fréttatilkynningu frá rannsóknarhópnum.