Skip to main content
10. mars 2016

Háskóli Íslands í hópi 150 bestu háskóla Evrópu

""

Háskóli Íslands er í sæti 131-140, nánar tiltekið 134. sæti, yfir bestu háskóla Evrópu samkvæmt matslista Times Higher Education European Top 200 Rankings sem birtur var í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem sérstakur listi yfir 200 bestu háskóla Evrópu er gefinn út.

Háskóli Íslands hefur verið undanfarin fimm ár á lista tímaritsins Times Higher Education yfir bestu háskóla heims (Times Higher Education World University Rankings) og var í sæti 251-275 á lista sem birtur var haustið 2015. Um 17 þúsund háskólar eru í heiminum sem þýðir að Háskóli Íslands er meðal efstu tveggja prósenta háskóla á heimsvísu. 

Listi Times Higher Education yfir bestu háskóla Evrópu byggist á sömu þáttum og gögnum og liggja til grundvallar listanum á heimsvísu, þar á meðal rannsóknastarfi, áhrifum á alþjóðlegum vettvangi, kennslu og námsumhverfi. Rannsóknir eru metnar á grundvelli fjölda vísindagreina sem birtast í virtum alþjóðlegum vísindatímaritum og gæði þeirra og áhrif eru mæld með fjölda tilvitnana. Þar stendur Háskóli Íslands best að vígi samkvæmt mati Times Higher Education. 

Alls eiga 22 Evrópulönd fulltrúa á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla álfunnar en listann í heild sinni má nálgast á heimasíðu Times Higher Education.

Aðalbygging Háskóla Íslands
Aðalbygging Háskóla Íslands