Benedikt Atli hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands
Benedikt Atli Jónsson, BS-nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, hlýtur Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2015 fyrir verkefnið „Sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda“. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, sunnudaginn 22. febrúar.
Benedikt Atli var í hópi fimm námsmanna sem tilnefndir voru til verðlaunanna fyrir verkefni sín en þau voru valin úr hópi verkefna sem unnin voru fyrir tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna sumarið 2014. Þess má geta að nemendur við Háskóla Íslands stóðu að þremur af fimm öndvegisverkefnanna sem tilnefnd voru en auk verkefnis Benedikts Atla voru verkefni Maríu Guðnadóttur, MS-nema í lýðheilsuvísindum, sem bar heitið „Eden hugmyndafræðin og hlýleiki á öldrunarheimilum Akureyrar“ og verkefni Edvardas Paskevicius, BA í íslensku sem öðru máli og MA-nema í upplýsingafræði, sem bar titilinn „Íslenskuþorpið; leið til þátttöku í samskiptum á íslensku“ tilnefnd til verðlaunanna.
Verkefni Benedikts Atla var unnið í samstarfi Oxymap, Háskóla Íslands og Landsspítalans og leiðbeinendur hans voru Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild, Gísli Hreinn Halldórsson og Róbert Arnar Karlsson, starfsmenn sprotafyrirtækisins Oxymap, og Sveinn Hákon Harðarson, nýdoktor við Læknadeild.
Á heimasíðu Rannís, sem heldur utan um Nýsköpunarsjóð námsmanna, segir um vinningsverkefni „Sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda“ að augnbotnamyndir séu mikilvægar í augnlækningum til að greina og fylgjast með augnsjúkdómum. Árangur slíkrar greiningar ráðist þó af myndgæðum þar sem léleg myndgæði geta falið læknisfræðileg ummerki og valdið rangri greiningu. „Hingað til hefur reynst erfitt að meta gæði og skerpu mynda, en í verkefninu var þróuð sjálfvirk aðferð til að meta gæði augnbotnamynda. Aðferðin hjálpar þeim sem tekur myndir að sjá strax hvort myndirnar eru nægilega góðar og voru 254 augnbotnamyndir, af jafnmörgum einstaklingum notaðar til að þjálfa gervigreindar-reiknirit til að meta skerpu og fókus mynda. Niðurstöður reikniritsins voru síðan bornar saman við einkunnir frá sérfræðingum. Sjálfvirka aðferðin, sem var þróuð í þessu verkefni, metur myndgæði með mun áreiðanlegri hætti en sérfræðingar. Því tryggir hún að myndatakan verður skilvirkari og áreiðanlegri. Þannig er t.d. ólíklegra að endurtaka þurfi myndatöku síðar vegna lélegra myndgæða. Í því felst sparnaður og greiningin verður öruggari vegna betri myndgæða. Að auki felur aðferðin í sér ýmsa möguleika til hagnýtingar sem hugbúnaðarvara fyrir augnbotnamyndatöku og fleira,“ segir enn fremur um verkefnið.
Þar er einnig tekið fram að þessi nýja aðferð verði hluti af næstu hugbúnaðaruppfærslu fyrirtækisins Oxymap, sem hefur þróað tæki og hugbúnað til að greina augnbotnamyndir. Aðferðin er nú einnig komin í notkun á Landspítalanum og áhugi er á henni erlendis.
Í viðurkenningarskyni hlaut Benedikt Atli listaverkið Óljóst (2015) eftir listamanninn Þór Sigurþórsson. Allir fimm námsmennirnir, sem tilnefndir voru til verðlaunanna, fengu enn fremur viðurkenningarskjal undirritað af forsetanum.
Rétt er að vekja athygli á því að Nýsköpunarsjóður námsmanna auglýsir nú eftir umsóknum um styrki vegna verkefna sem unninn verða sumarið 2015. Sjóðurinn, sem stofnaður var árið 1992, gerir háskólum, stofnunum og fyrirtækjum kleift að að ráða háskólanema til sumarstarfa við rannsóknir og er markmiðið að stuðla að nýsköpun, jafnt fyrir atvinnulíf sem og á viðkomandi fræðasviði.
Upplýsingar um sjóðinn má finna á heimasíðu Rannís.