Skip to main content
14. maí 2024

Aurora auglýsir ferðastyrki til þróunar kennslusamstarfs

Aurora auglýsir ferðastyrki til þróunar kennslusamstarfs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aurora-samstarfið auglýsir eftir umsóknum um ferðastyrki til að efla samstarf um kennslu á milli Aurora-háskólanna. Styrkirnir eru ætlaðir til undirbúnings samstarfs með kennurum í öðrum Aurora-háskólum þar sem markmiðið er að þróa saman námskeið og kenna í framhaldinu. Slík námskeið eru opin nemendum í öllum Aurora-háskólunum níu.  
 
Í boði eru alls tveir styrkir á háskólaárinu 2024-25 sem miðast við fimm daga dvöl að hámarki við annan Aurora-háskóla. Ferðastyrkurinn felur í sér endurgreiddan raunkostnað vegna flug- og lestarferða umfram 100 km ásamt styrk til uppihalds sem miðast við reglur um dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum erlendis. 
 
Samstarfsverkefni geta byggt á núverandi námskeiðum sem kennd eru í HÍ eða nýjum námskeiðum svo lengi sem þau samræmast áherslum Aurora í kennslu, sjá Kennsluvef Aurora. 

Aurora er samstarfsnet öflugra evrópskra rannsóknaháskóla sem vinnur að kennsluþróun og nýsköpun í starfsemi háskóla til að gera nemendum betur kleift að takast á við hnattrænar áskoranir samtímans. Tilgangur styrkjanna er að byggja upp öflugt kennslusamfélag í Aurora-háskólunum, þróa sameiginlegt nám og veita akademískum kennurum möguleika á að finna sér samstarfsaðila innan Aurora-háskólanna.  

Aurora-bandalagið samanstendur af níu evrópskum háskólum sem eru auk Háskóla Íslands:  

  • Vrije Universiteit Amsterdam, Hollandi 
  • University of Duisburg-Essen, Þýskalandi 
  • University of Naples Federico II, Ítalíu 
  • University of Rovira i Virgili, Tarragona, Spáni 
  • University of Innsbruck, Austurríki 
  • Palacký University Olomouc, Tékklandi 
  • Copenhagen Business School, Danmörku 
  • Université Paris-Est Créteil, Frakklandi 

Umsóknarferli 

Áhugasamir umsækjendur skulu sækja um með því að fylla út UMSÓKNARFORM  þar sem m.a. er gerð ítarleg grein fyrir mögulegu kennslusamstarfi og námskeiðsþróuninni og hvernig hún fellur að kennsluhugsjón Aurora-samstarfsins, sjá Kennsluvef Aurora. Aukagögn, ef einhver eru, má senda á aurora@hi.is.  

Umsóknir geta verið á íslensku og ensku. Umsóknarfrestur er til og með 15. júní 2024. 

Aurora-teymi HÍ mun fara yfir umsóknir og velja styrkþega en svör munu  berast fyrir lok júní 2024.  

Almennar upplýsingar um Aurora-samstarfið má finna á heimasíðu HÍ.  

Öllum spurningum má beina til aurora@hi.is