Skip to main content

Reglur nr. 160-2016

Reglur Háskóla Íslands um stjórnunar- og aðstöðugjald, nr. 160/2016

PDF-útgáfa

1. gr.  Innheimta og innleiðing stjórnunar- og aðstöðugjalds.

Stjórnunar- og aðstöðugjald verður innheimt af starfsemi sem fjármögnuð er af sértekjum háskólans. Þetta á jafnt við um alla selda þjónustu og styrki frá innlendum og erlendum aðilum.

Innleiðing gjaldsins er í tveimur þrepum:

  1. Gjaldið verður innheimt af öllum nýjum styrkjum frá sjóðum sem koma til úthlutunar frá og með árinu 2016 og heimila innheimtu stjórnunar- og aðstöðugjalds. Í umsóknum um styrki er skylt að sækja um stjórnunar- og aðstöðugjald þar sem það á við.  
  2. Frá 1. janúar 2017 verður gjaldið jafnframt innheimt af  launalið þjónustuverkefna sem aðilar innan háskólans semja um við utanaðkomandi aðila. Í samningum um þjónustuverkefni er skylt að gera ráð fyrir kostnaðarliðum sem falla undir það, svo sem gera ráð fyrir aðstöðugjaldi í útseldum tímatöxtum.

2. gr.  Hlutfall stjórnunar- og aðstöðugjalds og ráðstöfun þess.

Stjórnunar- og aðstöðugjaldið er almennt 25% ofan á beinan kostnað og skal ráðstafað með eftirfarandi hætti:

  1. 40% til viðkomandi verkefnis/rekstrareiningar,
  2. 40% til viðkomandi fræðasviðs,
  3. 20% til sameiginlegra útgjalda háskólans.

Forseta fræðasviðs er heimilt að verja hluta af því sem rennur til sviðsins til einstakra verkefna/rekstrareininga ef efni standa til. Heimili rannsóknasjóðir hærra eða lægra gjald gilda sömu hlutföll og að ofan.

3. gr.  Verklagsreglur og endurskoðun.

Háskólaráð setur sérstakar verklagsreglur um nánari útfærslu stjórnunar- og aðstöðugjalds, innheimtu, ráðstöfun og meðferð þess.

Stjórnunar- og aðstöðugjaldið verður endurskoðað eigi síðar en eftir þrjú ár, þ.e. fyrir árslok 2018.

4. gr.  Lagastoð og gildistaka.

Reglur þessar, sem háskólaráð Háskóla Íslands hefur samþykkt, eru settar með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. einnig 72. og 73. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, og taka þegar gildi.

Háskóla Íslands, 8. febrúar 2016.