Skip to main content

7. háskólafundur 23. maí 2002

7. háskólafundur haldinn 23. maí 2002 í hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 09:00 – 16:50

Kl. 09.00 - Fundarsetning

Rektor setti sjöunda háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Sérstaklega bauð hann Magnús Pétursson, forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss velkominn til fundarins. Samkvæmt breytingu á 9. gr. reglna um skipan og fundarsköp háskólafundar, sem samþykkt var á 6. háskólafundi 1. nóvember 2001, á forstjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss sæti og atkvæðisrétt á háskólafundi vegna náinnar samvinnu Háskóla Íslands við háskólasjúkrahúsið. Rektor fór yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins og gerði grein fyrir framkomnum tillögum sem bárust innan tilskilins frests og lista yfir útsend gögn og gögn sem dreift var á fundinum.

Þá greindi rektor frá því að í lok fundarins yrði kjörinn nýr fulltrúi í starfshóp um vísinda- og menntastefnu Háskólans í stað Erlu Kolbrúnar Svavarsdóttur, sem ekki á lengur sæti á háskólafundi.

Loks bar rektor fram tillögu um að Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs, yrðu skipaðir ritarar fundarins og var það samþykkt einróma.

Kl. 09:10 - Dagskrárliður 1: Rektor ræðir sameiginleg málefni Háskólans

Í upphafi máls síns vísaði rektor á framlagðar glærur frá ársfundi Háskólans sem haldinn var 21. maí 2002. Glærurnar gefa í senn almennt yfirlit yfir starfsemi Háskólans, fjármál og ársreikning 2001, og helstu markmið og verkefni framundan. Sérstaklega nefndi rektor eftirtalin atriði:

1. Samningur Háskólans og ríkisvaldsins um fjármögnun kennslu. Þótt kennslusamningurinn, sem undirritaður var í október 1999 og rennur út í árslok 2002, hafi skilað Háskólanum umtalsverðum ávinningi á síðustu árum er það áhyggjuefni hversu lítið hefur gerst í endurskoðun hans þrátt fyrir ítrekaðar óskir Háskólans. Við endurskoðun samningsins hefur Háskólinn einkum beitt sér fyrir því að launastika verði hækkuð til samræmis við raunverulegan kennslukostnað, viðmið um fjölda virkra nemenda verði hækkuð og viðurkennd sérstaða fámennra greina.

2. Samningur Háskólans og ríkisvaldsins um fjármögnun rannsókna. Yfirlýst markmið Háskólans er að fjárveiting til rannsókna verði jöfn fjárveitingu til kennslu. Samningurinn sem undirritaður var í desember 2001 er mikilvægur áfangi í átt að þessu marki og mun hann tryggja Háskólanum allt að 240 m.kr. viðbótarfjárveitingu á þremur árum. Eitt mikilvægasta atriði samningsins er að hann er árangurstengdur og háður skilyrðum um rannsóknavirkni. Samkvæmt samningnum eiga ráðuneytið og Háskólinn að þróa og koma sér saman um árangursmælikvarða fyrir mitt ár 2002, en því verki er enn ekki lokið.

3. Þá fór rektor nokkrum orðum um framlagt minnisblað sitt, „Samkeppnisstaða Háskólans – brýn mál“, dags. í mars 2002, en það mál verður sérstaklega á dagskrá síðar á fundinum.

4. Næst greindi rektor frá drögum að framkvæmdaáætlun fyrir Háskóla Íslands 2002-2005, sem tekur mið af hinni sameiginlegu vísinda- og menntastefnu Háskólans og þróunaráætlunum deilda og stofnana. Eftir síðustu áramót hefur hópur deildarforseta ásamt rektor og fleirum unnið drög að þessari áætlun og er stefnt að því að hún verði tilbúin í haust. Fyrirliggjandi drög að framkvæmdaáætlun Háskólans leggja einkum áherslu á þrjú markmið:
·    Að gera Háskólann að enn öflugri rannsóknaháskóla.
·    Að auka fjölbreytni og efla alþjóðleg samskipti.
·    Að bæta starfsskilyrði nemenda og starfsmanna í því skyni að styrkja háskólasamfélagið.

5. Formlegt gæðakerfi Háskólans. Málið var á dagskrá seinasta háskólafundar og var þá samþykkt að fela deildarforsetum undir forystu rektors að ganga frá endanlegri tillögu til háskólaráðs. Fyrstu drög að gæðakerfinu fóru til umsagnar fjölmargra aðila innan Háskólans og hafa verið rædd ítarlega á fundum deildarforseta. Stefnt er að því að afgreiða gæðakerfið í háskólaráði fyrir sumarleyfi. Þakkaði rektor Ágústi Einarssyni, forseta viðskipta- og hagfræðideildar, sérstaklega fyrir framlag hans til þessa máls.

6. Markaðs- og kynningarmál Háskólans. Síðastliðið haust skipaði rektor starfshóp undir forystu Ólafs Þ. Harðarsonar, forseta félagsvísindadeildar, til að gera úttekt á þessum málaflokki og skilaði hópurinn áliti ásamt tillögum um aðgerðir snemma vors 2002. Eitt meginmarkmiðið er að deildir Háskólans samhæfi og stilli saman krafta sína til að halda uppi öflugu markaðs- og kynningarstarfi. Stefnt er að því að hefja átak í þessum efnum næsta haust.

7. Tillögur nefndar sem falið var að fara yfir lög um háskóla nr. 136/1999. Í áliti nefndarinnar, sem Eiríkur Tómasson prófessor veitti forstöðu, skipta þrjú atriði mestu:
·    Gerður verði skýr greinarmunur á rannsóknaháskólum og öðrum skólum á háskólastigi sem einkum sinna kennslu á afmörkuðum fræðasviðum.
·    Kröfur til háskóla verði auknar og eftirlit með þeim hert.
·    Rekstrarskilyrði háskóla verði sambærileg, hvert sem eignarfyrirkomulagið er.

8. Samningur Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss frá 10. maí 2002. Rektor reifaði helstu efnisatriði samningsins. Gat rektor sérstaklega nefndar um framtíðarstaðsetningu háskólasjúkrahússins sem Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrv. heilbrigðisráðherra, stýrði. Meginniðurstaða nefndarinnar var að framtíðarstaðsetning háskólasjúkrahússins skuli vera við Hringbraut.

Kl. 09:40 - Dagskrárliður 2: Endurskoðuð stefna Háskóla Íslands í málefnum fatlaðra ásamt reglum um sértæk úrræði í námi

Inn á fundinn kom Rósa Erlingsdóttir, jafnréttisfulltrúi Háskólans, og gerði grein fyrir fyrirliggjandi drögum að endurskoðaðri stefnu Háskóla Íslands í málefnum fatlaðra ásamt reglum um sértæk úrræði í námi. Gert er ráð fyrir að háskólafundur taki afstöðu til stefnudraganna, en gefi aðeins umsögn um reglurnar. Stefnudrögin eru samin af starfshópi sem framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs skipaði að frumkvæði jafnréttisnefndar í febrúar 2002. Í framsögu Rósu kom m.a. fram að við gerð stefnudraganna var tekið mið af samþykkt háskólaráðs um málefni fatlaðra stúdenta við Háskóla Íslands frá 1995, erlendum fyrirmyndum og almennum verklagsreglum Námsráðgjafar Háskólans. Meginástæðan fyrir því að ráðist var í að endurskoða stefnumörkun Háskólans í þessum málaflokki er ör þróun hans á undanförnum árum og mikil fjölgun nemenda sem njóta sérúrræða við Háskóla Íslands. Fyrirliggjandi stefnudrög voru rædd á fundi háskólaráðs 30. apríl 2002 og ákvað ráðið að þau skyldu lögð fyrir háskólafund. Þá hafa drögin verið send til umsagnar fjölmargra aðila innan Háskólans og utan og tekið mið af umsögnunum við endanlegan frágang stefnudraganna.

Að lokinni kynningu þakkaði rektor starfshópnum fyrir ágætt starf og gaf orðið laust.
Málið var rætt ítarlega og voru fundarmenn á einu máli um að fyrirliggjandi drög að endurskoðaðri stefnu Háskóla Íslands í málefnum fatlaðra væru mikið framfaramál fyrir Háskóla Íslands. Í umræðunni var m.a. komið inn á þá skilgreiningu á hugtakinu „fötlun“ sem lögð er til grundvallar stefnudrögunum og nauðsyn þess að takmarka hana ekki við líkamlega fötlun og úrræðin ekki við tæknileg úrræði heldur láta hana einnig ná yfir geðræna fötlun og gera ráð fyrir félagslegum hindrunum í úrræðunum.

Einnig var rætt um nauðsyn þess að kennarar og fatlaðir eigi fulltrúa í fyrirhuguðu ráði sem hafa á yfirumsjón með málefnum fatlaðra í Háskóla Íslands. Þá töldu fundarmenn gagn af því að tiltaka sértæk úrræði aftast í reglunum, einkum varðandi sveigjanleika við fyrirkomulag prófa.

Í lok umræðunnar þakkaði Baldur Þórhallsson, formaður jafnréttisnefndar, fundarmönnum fyrir gagnlegar ábendingar og greindi frá því að fyrirliggjandi stefnudrög væru liður í því að víkka út skilning á hugtakinu jafnrétti og hlutverki jafnréttisnefndar. Tók Baldur fram að það eigi að vera hlutverk ráðs um málefni fatlaðra, sem gert er ráð fyrir í stefnunni, að útfæra stefnuna nánar og verður við þá vinnu tekið mið af athugasemdum og ábendingum sem fram komu á fundinum.

Að umræðu lokinni bar rektor fyrirliggjandi drög að stefnu Háskóla Íslands í málefnum fatlaðra undir atkvæði.
- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors, Rósa Erlingsdóttir, Már Jónsson, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Rannveig Traustadóttir og Baldur Þórhallsson.

Kl. 10:10 - Kaffihlé

Kl. 10:30 - Dagskrárliður 3: Þróunaráætlanir læknadeildar og hjúkrunarfræðideildar. (Lágu ekki fyrir á seinasta háskólafundi þegar málið var til umfjöllunar)

Rektor greindi frá því að farið yrði með málið á sama hátt og þegar þróunaráætlanir annarra deilda og stofnana voru til umræðu á 6. háskólafundi: Fyrst geri formenn starfsnefnda háskólaráðs og fulltrúar þeirra grein fyrir umsögnum sínum, þá bregðist forsetar deildanna tveggja við umsögnum starfsnefndanna og skýri frá áætlunum sínum. Loks verði orðið gefið laust fyrir almennar umræður.

Umsagnir starfsnefnda háskólaráðs

Fyrstur umsagnaraðila tók formaður vísindanefndar til máls. Í umsögn nefndarinnar kemur m.a. fram að hún telur þróunaráætlanir beggja deilda mjög vel unnar, metnaðarfullar og í góðu samræmi við vísinda- og menntastefnu Háskólans. Í báðum deildum er gert ráð fyrir eflingu rannsókna og rannsóknatengds framhaldsnáms í samræmi við almenna stefnu Háskólans. Í hjúkrunarfræðideild er stefnt að því að innan fimm ára verði boðið upp á meistaranám í ljósmóðurfræði og doktorsnám í hjúkrunarfræði, til viðbótar við þær tvær leiðir til meistaraprófs í hjúkrunarfræði sem nú þegar er boðið upp á. Þá stefnir deildin að því að auka rannsóknavirkni kennara, sem nú er undir meðallagi í Háskólanum, efla alþjóðlegt samstarf, auka kynningu á rannsóknum og leggja meiri áherslu á styrkumsóknir til innlendra og erlendra rannsóknasjóða. Í umsögn nefndarinnar er gerð athugasemd við áform hjúkrunarfræðideildar um að setja á laggirnar tölfræði- og gagnamiðstöð og stoðþjónustu við skjalalestur og þýðingarvinnu. Í læknadeild er gert ráð fyrir samþættingu kennslu og rannsókna í öllu innra starfi, enda er rannsóknavirkni kennara við deildina, ef frá er talin sjúkraþjálfunarskor, með því mesta sem gerist við Háskólann. Þá eru nú yfir 40 meistaranemar og 20 doktorsnemar við nám við deildina. Í áætluninni kemur fram að deildarráð hefur ákveðið að fé það sem deildin fær vegna rannsóknasamnings Háskólans við menntamálaráðuneytið renni að hluta til uppbyggingar á rannsóknatengdu námi og að hluta til þeirra kennara sem mesta virkni sýna í rannsóknum. Telur nefndin valnefndafyrirkomulag deildarinnar við ráðningar í störf áhugavert frumkvæði sem fróðlegt verði að sjá hvernig muni reynast. Einnig lofar umsögn nefndarinnar öflugt ráðstefnuhald læknadeildar og áform hennar um uppbyggingu Lífvísindaseturs í tengslum við Læknagarð og LSH. Loks hvetur nefndin sjúkraþjálfunarskor til að efla rannsóknaþáttinn í starfi sínu.

Næst gerði varaformaður kennslumálanefndar grein fyrir umsögn nefndarinnar. Að dómi nefndarinnar fela þróunaráætlanirnar almennt í sér ýmis framfaramál og nýmæli, þótt ekki sé gerð grein fyrir því hvernig á að afla fjár til að hrinda þeim í framkvæmd. Þannig gerir þróunaráætlun hjúkrunarfræðideildar ráð fyrir að fastráðnum kennurum verði fjölgað um fimm og aðstoðarfólki verði fjölgað fyrir árið 2003, húsakostur verði aukinn og starfsaðstaða kennara bætt, án tillits til þess hvort slík áætlun sé raunhæf eða ekki. Þó er bent á að deildin gerir ráð fyrir að vera færð úr þriðja flokki í sjötta flokk í reiknilíkani. Þá gagnrýnir nefndin að hjúkrunarfræðideild tengi áætlun sína um aukna rannsóknavirkni breyttum skilningi á því hugtaki, án þess að útskýra í hverju breytingin felst. Í umsögn kennslumálanefndar um þróunaráætlun læknadeildar er tekið fram að deildin standi á ákveðnum tímamótum. Áætlað er að festa inntökupróf í sessi og endurskoða grunnnám lækna á næstu fimm árum. Stefnt er að því að nám við deildina jafnist á við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Þróunaráætlunin er hins vegar mjög almennt orðuð og erfitt að festa hendur á einstök atriði. Loks fagnar nefndin þeirri stefnu læknadeildar að efla samstarf heilbrigðisvísindadeilda Háskólans og samstarf við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, en með því megi efla líf- og læknavísindi í landinu verulega.

Þá tók formaður fjármálanefndar til máls. Nefndin telur áætlanirnar að mörgu leyti vel unnar, en ekki er gert nóg til þess að meta fjárhagslegar afleiðingar þeirra. Á þetta einkum við um þróunaráætlun hjúkrunarfræðideildar. Í áætlun læknadeildar kemur m.a. fram að deildin hyggst leggja aukna áherslu á að sækja um styrki úr innlendum og erlendum sjóðum og afla sértekna frá fyrirtækjum og fagnar fjármálanefnd því. Þá telur nefndin að meta þurfi fjárhagsleg áhrif fyrirhugaðrar breytingar á inntöku nemenda í deildina og fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl hennar við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum. Eins og fram kom í umsögnum hinna nefndanna hefur hjúkrunarfræðideild uppi metnaðarfull áform varðandi fjölgun fastráðinna kennara, aukningu húsnæðis og eflingu alþjóðlegra tengsla og kynningarstarfs. Allt er þetta þó háð því að hjúkrunarfræðinám verði fjármagnað samkvæmt læknisfræðiflokki og að ljósmóðurnám verði fjármagnað samkvæmt tannlæknisfræðiflokki. Telur fjármálanefnd ekki mögulegt að breyta stöðu hjúkrunarfræðideildar í deililíkani Háskólans nema breyting fáist á flokkun deildarinnar í samningi við menntamálaráðuneyti um fjármögnun kennslu.

Loks gerði fulltrúi jafnréttisnefndar grein fyrir umsögn nefndarinnar. Í þróunaráætlun hjúkrunarfræðideildar kemur fram að deildin er ekki mjög vongóð um að kynjahlutfall meðal nemenda verði jafnað í fyrirsjáanlegri framtíð. Hvetur jafnréttisnefnd til þess að unnið verði markvisst að því að laða karlkyns nemendur að námi við deildina, einkum með námskynningu sem höfðar markvisst til beggja kynja. Þá fagnar jafnréttisnefnd því að við deildina er starfrækt sérstök nemendaráðgjöf sem getur dregið úr brottfalli nemenda. Í þróunaráætlun læknadeildar er ekki fjallað sérstaklega um jafnréttisstarf heldur aðeins settar fram almennar athugasemdir og ábendingar um samþættingu jafnréttissjónarmiða við starfsemi deildarinnar.
Viðbrögð deildarforseta og forstöðumanna stofnana

Deildarforsetar gerðu í stuttu máli grein fyrir helstu atriðum í áætlunum sínum og brugðust við umsögnum starfsnefndanna. Almennt tóku þeir umsögnunum vel og töldu þær geyma gagnlegar ábendingar.

Almennar umræður
Fulltrúi stúdenta lýsti ánægju stúdenta með ýmis nýmæli í starfi læknadeildar en gagnrýndi þó þá hugmynd sem sett er fram í þróunaráætlun deildarinnar að fjölga skuli erlendum nemendum með það í huga að auka kennslu á ensku fyrir nemendur sem greiði skólagjöld. Þá fagnaði hann áformi hjúkrunarfræðideildar um aðgerðir til að bæta einkunnaskil.

Fulltrúi félags háskólakennara gerði tvær athugasemdir við þróunaráætlun læknadeildar. Í fyrsta lagi væri það ekki í takt við framgangskerfi háskólakennara að nota starfsheitið „valprófessor“, enda væru prófessorar með því greindir í sundur eftir því með hvaða hætti þeir ráðast til starfa. Í öðru lagi væri óeðlilegt að deildarforseti læknadeildar verði sjálfkrafa skorarformaður læknisfræðiskorar, eins og þróunaráætlunin leggur til. Þetta leiði í raun til þess að fulltrúi sjúkraþjálfunarskorar geti aldrei orðið deildarforseti eða að læknisfræðiskor sætti sig við að fulltrúi sjúkraþjálfunarskorar verði skorarformaður í læknisfræðiskor.

Að umræðu lokinni beindi rektor þeim orðum til fundarmanna að deildir og stofnanir Háskólans haldi áfram að vinna við þróunaráætlanir sínar þótt háskólafundur hafi lokið umfjöllun sinni um þær að sinni. Á síðustu háskólafundum hefur komið skýrt fram að deildir og stofnanir telja sig hafa haft mikið gagn af vinnunni við gerð þróunaráætlana sinna, enda er hér um að ræða afar þýðingarmikinn þátt í gæðastarfi Háskólans. Þakkaði rektor deildarforsetum og formönnum og fulltrúum nefndanna fyrir þeirra framlag.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Jón Atli Benediktsson, Friðrik H. Jónsson, Ingjaldur Hannibalsson, Rósa Erlingsdóttir, Þorvarður Tjörvi Ólafsson og Sigríður Ólafsdóttir.

Kl. 11:00 - Dagskrárliður 4: Samkeppnisstaða Háskólans. Greining og umræða

Ingjaldur Hannibalsson, formaður fjármálanefndar háskólaráðs, flutti inngangserindi um samkeppnisstöðu Háskólans. Í upphafi erindis síns velti Ingjaldur upp þeirri spurningu, í hverju sterk samkeppnisstaða háskóla felist yfirleitt. Til að svara þessu dró hann upp mynd af starfsemi Háskóla Íslands sérstaklega og bar hann saman, bæði frá sjónarhóli starfsfólks og stjórnenda, við skóla á háskólastigi sem eru reknir sem sjálfseignastofnanir. Þá ræddi Ingjaldur um ólíka samkeppnisstöðu þessara tveggja tegunda skóla með því að bera saman það fé sem þeir hafa til ráðstöfunar vegna hvers virks nemanda á sviði lögfræði, viðskiptafræði og tölvunarfræði. Í máli Ingjaldar kom m.a. fram að gríðarlegur munur er á ráðstöfunartekjum skólanna sem verður aðallega rakinn til heimildar sjálfseignastofnana á háskólastigi til að innheimta skólagjöld til viðbótar við fjárveitingu frá ríkinu. Þannig stendur t.d. lagadeild Háskóla Íslands nú frammi fyrir því að þurfa að keppa með 278 þús.kr. ráðstöfunarfé fyrir hvern virkan nemanda við skóla sem hefur 510 þús.kr. til ráðstöfunar. Í viðskiptafræði gegnir svipuðu máli, en þar hefur Háskólinn 250 þús.kr. til ráðstöfunar á móti 510 þús.kr. hjá öðrum skólum og í tölvunarfræði koma 535 þús.kr. á móti 722 þús.kr. Næst vék Ingjaldur að ólíkum forsendum endurmenntunar og náms með starfi. Eins og í fyrri dæmunum eru sanngjarnar forsendur fyrir eðlilegri samkeppni ekki fyrir hendi í þessu tilviki. Munar þar mestu um að nám við Endurmenntun Háskólans telur ekki til gráðu og gefur því ekki þreyttar einingar, andstætt því sem gildir um sjálfseignastofnanirnar. Þá greindi og ræddi Ingjaldur fjórar stoðir fjármögnunar háskóla á Íslandi, þ.e. kennslusamning, rannsóknasamning, skólagjöld og styrki og sértekjur, og skýrði að hvaða leyti skólarnir nýttu sér þær. Loks dró Ingjaldur saman eftirfarandi niðurstöður: 1. Samkeppnisstaða Háskóla Íslands er þrátt fyrir allt sterk; 2. Háskóli Íslands ber höfuð og herðar yfir aðra skóla á háskólastigi á Íslandi; 3. Fjárhagslegt umhverfi sjálfseignarstofnana er hagstæðara en umhverfi þeirra rekstrareininga Háskólans sem þær keppa við; 4. Jafna verður aðstöðu rekstrareininga Háskólans og þeirra sem þær keppa við; 5. Taka verður afstöðu til þess hvort Háskóli Íslands vill nýta allar fjórar fjármögnunarleiðirnar; 6. Endurskoða verður skipulag og fjármögnun náms með starfi í Háskóla Íslands.

Að lokinni framsögu Ingjalds gaf rektor orðið laust.
Í umræðunni kom m.a. fram það sjónarmið að þótt samkeppnisstaða Háskólans væri enn allgóð muni henni hraka í fyrirsjáanlegri framtíð ef fjárhagslegar forsendur haldast óbreyttar. Einnig var á það bent að gagnlegt gæti verið að greina á milli þeirra eininga innan Háskólans sem eru í samkeppni og hinna sem ekki búa við samkeppni.

Þá var rætt um skólagjöld og hvatt til þess að umræðan um þau verði brátt til lykta leidd með einhverjum hætti, bæði af hálfu stjórnvalda og innan Háskólans. Verði ákveðið að innheimta skólagjöld við Háskólann séu ýmsar leiðir færar, t.d. að hafa grunnnámið áfram ókeypis en innheimta hóflegt gjald fyrir framhaldsnámið. Fulltrúi stúdenta andmælti þessari skoðun og taldi algjöra samstöðu vera um það meðal stúdenta að ekki verði tekin upp skólagjöld við Háskóla Íslands. Ef breyta ætti þeirri stefnu væri það hlutverk háskólafundar. Þótt ríkisvaldið virtist leynt og ljóst reyna að knýja Háskólann til að taka upp skólagjöld ættu menn að gera sér grein fyrir því að það leysti ekki fjárhagsvanda skólans. Reynsla annarra þjóða, s.s. Breta, sýndi að upptaka skólagjalda hefði ekki bætt rekstrarstöðu háskólanna vegna þess að ríkið hefði dregið úr framlögum sínum að sama skapi. Að auki hefði sýnt sig að skólagjöld hefðu neikvæðar félagslegar afleiðingar og nemendum fækkaði.

Rætt var um kennslusamninginn og bent á að ein af ástæðunum fyrir fjárhagsvanda Háskólans væri að yfirvöld menntamála hefðu ekki gengið frá endurnýjun samningsins og Háskólinn fengi því ekki einu sinni að fullu greitt fyrir þreyttar einingar nemenda sinna.
Einnig var rætt um vanda svonefndra fámennisgreina og hvort til greina komi að fella einhverjar þeirra niður eða leita eftir því að þær fái sérstaka fjárveitingu.

Þeirri hugmynd var varpað fram hvort breyta mætti rekstrarformi Háskólans, t.d. með því að fella tiltekna hluta starfseminnar undir sjálfseignaformið. Á móti var á það bent að það væri hlutverk Háskólans að halda uppi vandaðri röksemdafærslu um hvað það kostar að reka háskóla með sóma á Íslandi. Einnig kom fram það viðhorf að óháð rekstrarforminu þyrfti að gera ráðningarformið sveigjanlegra við Háskólann. Núverandi kerfi væri ósveigjanlegt og þungt í vöfum sem leiðir til þess að við missum af lestinni í samkeppni um starfsfólk.

Rætt var um samkeppnisstöðu Endurmenntunarstofnunar, sem er eini 'skólinn' á háskólastigi sem ekki nýtur ríkisframlags, enda geta nemendur Endurmenntunar ekki safnað saman sínum einingum til háskólagráðu. Var þeirri hugmynd varpað fram að skipuð verði nefnd, t.d. á vegum háskólaráðs, sem gerði tillögur um það hvernig deildir og Endurmenntun geti unnið saman að úrlausn þessara mála.

Rektor þakkaði fyrir málefnalegar og gagnlegar umræður og vakti athygli fundarmanna á minnisblaði sínu um samkeppnisstöðu Háskólans sem dreift var í upphafi fundarins. Benti rektor á að ef Háskólinn fengi hámarks fjölda nemenda hækkaðan til samræmis við aukna aðsókn og leiðréttingu á launastikunni í kennslusamningnum myndi rekstrarstaða hans skána mikið.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Ágúst Einarsson, Ólafur Þ. Harðarson, Baldvin Þór Bergsson, Þorsteinn Loftsson, Jóhann Malmquist, Kristín Jónsdóttir, Hörður Filippusson, Sigríður Þorgeirsdóttir, Guðmundur Ómar Marteinsson, Jón Atli Benediktsson, Stefán Arnórsson, Þorvarður Tjörvi Ólafsson og Rannveig Traustadóttir.

Kl. 11:50 - Dagskrárliður 5: Starfsheiti háskólakennara og notkun þeirra í öðrum skólum og stofnunum

Eiríkur Tómasson prófessor og formaður nefndar um endurskoðun á lögum um háskóla tók fyrstur til máls. Framsögu sína hóf Eiríkur á því að benda á að í almennum lögum um háskóla eru engin fyrirmæli um starfsheiti háskólakennara, en þau er aftur á móti að finna í sérlögum háskólanna. Þetta þýðir að hverjum skóla sé í sjálfsvald sett hvaða starfsheiti þeir nota og hvaða kröfur þeir gera til þeirra sem bera þessi starfsheiti. Í reynd hafa hinir skólarnir haldið sig við sömu starfsheiti og tíðkast við Háskóla Íslands. Næst ræddi Eiríkur um dómnefndir og greindi frá því að í öðrum skólum á háskólastigi tíðkast að kennarar séu ráðnir án dómnefnda og án skilgreindra krafna þótt lög um háskóla geri ráð fyrir því að ráðið sé í slík störf að undangengnu áliti dómnefndar. Þegar þeir svo fá sömu starfsheiti og við H.Í., þar sem allt aðrar kröfur gilda, er það ekki aðeins villandi heldur beinlínis skaðlegt. Ekki bætir úr skák að dómnefndar- og ráðningarferlið er mjög tímafrekt við skóla sem halda uppi skýrum kröfum í þessum efnum. Rík ástæða er fyrir Háskóla Íslands að hafa áhyggjur af þessari þróun, bæði fyrir Háskólann í heild og þær deildir sem eiga í samkeppni. Benti Eiríkur á að fólki er almennt ekki kunnugt um þessa þróun og ætti þetta jafnvel við um alþingismenn. Til að bregðast við þessum vanda koma fjögur atriði til skoðunar: 1. Löggjafinn setji skýrari reglur um starfsheiti, kröfur til kennara og skipun og starfshætti dómnefnda. 2. Stjórnvöld fari eftir þeim lögum sem gilda, t.d. um dómnefndir. 3. Stytting og einföldun dómnefndaferlisins án þess að slakað sé á efnislegum kröfum sem gerðar eru til háskólakennara. 4. Einstökum háskóladeildum verði veitt heimild til að setja sérreglur og skilgreina áherslur fyrir ráðningar, án þess að slaka á kröfum.

Næstur tók Reynir Tómas Geirsson, forseti læknadeildar, til máls og fjallaði um notkun starfsheita háskólakennara í stofnunum á borð við Landspítala-háskólasjúkrahús. Um er að ræða samstarfsstofnanir sem vinna náið með háskóladeildum og eru meginvettvangur kennslu í viðkomandi greinum. Þetta á ekki við í öllum tilvikum, því eins og áður hefur komið fram á fundinum er Háskólinn misleit og margbrotin stofnun. Liður í því að efla hið nýja háskólasjúkrahús er að laða hæfa starfsmenn til Háskóla Íslands í því skyni að styrkja enn frekar rannsóknasamstarfið. Um er að ræða fólk með akademískt hæfi sem Háskólinn þarf ekki nauðsynlega að borga samsvarandi laun. Þannig eru t.d. margir af kennurum læknadeildar í hlutastörfum, sem er mögulegt vegna þess að þeir gegna jafnframt störfum á sjúkrahúsinu og ná þannig samtals a.m.k. 100% starfi. Loks velti Reynir Tómas upp þeirri spurningu, hver ávinningurinn er af því að veita þeim sem hafa akademískt hæfi jafnframt akademískar nafnbætur. Í svari sínu við þessari spurningu benti Reynir Tómas m.a. á að akademískt starfsheiti tengir betur viðkomandi starfsmenn við Háskólann og því eflir starfsheitafyrirkomulagið Háskólann og spítalann í samkeppni um starfsfólk. Þá myndi nám með virkri leiðbeiningu eflast, því gerðar eru kröfur til þeirra sem bera akademískar nafnbætur um að þeir séu virkir í rannsóknum. Þótt starfsmenn háskólasjúkrahússins fengju akademísk starfsheiti fylgdi því ekki kjörgengi í deild. Tryggð verður skýr aðgreining milli þessara starfsmanna og annarra starfsmanna Háskólans sem bera akademísk starfsheiti.

Að framsögum loknum gaf rektor orðið laust.
Í umræðunni var m.a. spurt, hvort sömu rök og notuð eru til að réttlæta veitingu akademískra nafnbóta til starfsmanna Landspítala-háskólasjúkrahúss megi t.d. nota til að mæla með flutningi sérfræðinga, fræðimanna og vísindamanna í störf lektora, dósenta og prófessora. Einnig var bent á að varhugavert sé að grundvallaratriði eins og starfsheiti séu samningsatriði við stéttarfélög og hluti af kjarasamningum.

Rætt var um ókosti dómnefndafyrirkomulagsins eins og það tíðkast nú hjá Háskóla Íslands. Dæmi væru um að ráðningarferlið tæki svo langan tíma að umsækjendur gæfust upp á biðinni og Háskólinn missti þannig fólk frá sér. Til að koma í veg fyrir þetta kæmi til greina að vera með tvöfalt kerfi. Fyrst myndi valnefnd leita að fólki og meta hæfi þess og þegar álit valnefndarinnar lægi fyrir væri hægt að ráða fólk beint í stað þess að láta það bíða mánuðum saman milli vonar og ótta. Bent var á að Háskólinn hafi nú þegar svigrúm til að setja á laggirnar nefndir sem geti sagt fyrirfram til um það hvort umsækjendur uppfylli lágmarksskilyrði. Slíkt fyrirkomulag væri t.d. í burðarliðnum í læknadeild.

Að umræðu lokinni þakkaði rektor Eiríki Tómassyni og Reyni Tómasi Geirssyni fyrir framsöguerindin og fundarmönnum fyrir umræðuna.
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Þorsteinn Loftsson, Gísli Már Gíslason, Ágúst Einarsson, Hörður Filippusson, Ólafur Þ. Harðarson og Gylfi Magnússon,

Kl. 12:30 – 13:40 - Matarhlé

Kl. 13:40 - Dagskrárliður 6: Menningarstefna Háskóla Íslands

Eftir matarhlé bauð rektor fundarmenn aftur velkomna til starfa og skýrði frá ástæðunni fyrir því að menningarstefna Háskólans væri á dagskrá fundarins. Rifjaði rektor m.a. upp að á 2. háskólafundi í maí 2000 hafi þetta efni borið nokkuð á góma án þess að hafa verið útrætt. Þá gæfi yfirskriftin „menningarstefna Háskólans“ fundarmönnum kost á að ræða í samhengi ýmis brýn hagsmunamál skólans, s.s. vanda fámennisgreina og skyldu stjórnvalda og Háskólans til að hlúa sérstaklega að tilteknum fræðasviðum, áherslusvið og forgangsröðun í rannsóknum, uppeldishlutverk Háskólans og kennslutungumál í grunn- og framhaldsnámi, svo nokkuð sé nefnt. Ekki stæði þó til að skrá formlega menningarstefnu Háskólans.

Þá bauð rektor Önnu Soffíu Hauksdóttur prófessor og Ástráð Eysteinsson prófessor velkomin til fundarins og gaf þeim orðið. Fyrst tók Anna Soffía til máls og varpaði fram nokkrum grundvallarspurningum um menningarhugtakið og menningarhlutverk Háskólans. Að lokinni framsögu Önnu Soffíu flutti Ástráður erindi undir yfirskriftinni „Hver er menningarstefna Háskóla Íslands?“ Fjallaði hann um nokkur lykilhugtök sem málinu tengjast, s.s. háskólasamfélag, sambandið milli þjóðskóla og þjóðmenningar annars vegar og þjóðskóla og alþjóðlegs rannsóknaháskóla hins vegar, sérstöðu Háskóla Íslands gagnvart öðrum íslenskum skólum á háskólastigi, menningarstefnu í kennslu á tímum hagræðingar og samkeppni og spennuna á milli markaðssjónarmiðs og menningarsjónarmiðs. Þá ræddi Ástráður um menningarstefnuna sem innbyggð væri í vísinda- og menntastefnu Háskólans, einkum í kaflanum um fræðslu og þjónustu, vandann við að skilgreina hvað væru sér íslenskar fræðigreinar, ábyrgð Háskóla Íslands gagnvart íslenski tungu, og menningarpólitískt hlutverk Háskólans í samfélaginu.

Að framsögum loknum gaf rektor orðið laust.
Í umræðunni var m.a. bent á að varhugavert sé að einskorða umræðuna við hefðbundinn skilning á menningarhugtakinu og menningarstefnu Háskólans við hlutverk menningarstofnana á borð við Listasafn Háskólans, Háskólabíó og kennslu í menningarfræðum. Þegar Háskólinn ætti í hlut væri nærtækara að túlka menningu sem vísindamenningu. Spurningin um menningarstefnu Háskólans væri því, þegar öllu væri á botninn hvolft, spurning um hlutverk og tilgang vísindanna í þjóðfélagi okkar. Halda mætti því fram með góðum rökum að vísindi væru “fimmta valdið” í þjóðfélaginu og því væri það ábyrgðarhluti Háskólans að leggja sitt af mörkum til þess að hjálpa almenningi til vísindalegs læsis svo hann væri fær um að taka þátt í opinberri umræðu og mynda sér rökstudda skoðun á fjölmörgum brýnum úrlausnarefnum nútímans. Til greina kæmi að Háskólinn setti á laggirnar stofnun um vísindamenningu og tæknimenningu í samfélagslegu samhengi. Verkefni slíkrar stofnunar væri m.a. að rannsaka ábyrgðina sem fylgir þekkingunni.

Á það var bent að ekki væri rétt að spyrja hvort Háskólinn ætti að hafa menningarstefnu því hún væri til og kæmi t.d. fram í tengslum við hinn svonefnda fámennisvanda í smærri greinum þar sem rekstrarvandamálum væri í raun velt yfir á tilteknar deildir, s.s. heimspekideild. Háskólinn væri m.ö.o. með menningarstefnu innbyggða í peningaútdeilingarstefnu sína og millifærslu fjár milli deilda. Nauðsynlegt væri í þessu sambandi að höfða í ríkara mæli til stjórnvalda og ábyrgðar þeirra til að styrkja greinar sem þjóðskólinn heldur uppi.

Einnig kom fram það sjónarmið að menningarstefna Háskólans fælist einkum í því að draga til hans hæft rannsóknafólk. Til þess þyrfti Háskólinn að afla fjár í því skyni að geta greitt samkeppnishæf laun. Þá kæmi menningarstefna skólans einnig fram í því að stigamatskerfið byggi á hreinum magnmælikvarða, ekki frumleika og gæðum rannsóknanna. Slíkt mat væri alltaf að nokkru leyti huglægt og því þyrftu að koma til mismunandi kerfi fyrir mismunandi fræðasvið.

Þá var menningarhlutverk Háskólans sett í samband við sérstöðu hans í samanburði við aðra innlenda skóla á háskólastigi. Þannig væri það yfirlýst markmið Háskólans í Reykjavík að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, Háskólinn á Akureyri liti á sig sem skóla landsbyggðarinnar og Viðskiptaháskólinn í Bifröst leggur áherslu á hvoru tveggja. Háskóli Íslands væri hins vegar þjóðskóli Íslendinga og það legði honum á herðar þær skyldur að glíma við samfélagsleg vandamál og að vera í forystu um mótun akademískrar menningar í landinu.

Bent var á að Háskóli Íslands væri í senn alþjóðlegasta og þjóðlegasta stofnun landsins. Það sem sameinaði heiminn í dag væri einkum tæknileg þekking, auk markaðshagkerfisins. Lengi vel hafi Íslendingar aðeins verið þiggjendur í þessum efnum, en með tilkomu Háskóla Íslands hafi þeir einnig orðið skapandi á sviði þeirrar tæknilegu þekkingar sem umbylti íslensku þjóðfélagi. Hugsanlega þyrfti Háskóli Íslands að setja sér ný markmið með breyttum tímum. Til dæmis eigi hann framúrskarandi hóp vísinda- og fræðimanna á sviði jarðvísinda, miðaldafræða og lífvísinda og e.t.v. væri ástæða til að halda þessum fræðasviðum á lofti, án þess að það bitnaði á öðrum sviðum.

Að umræðu lokinni þakkaði rektor framsögumönnum fyrir þeirra framlag og fundarmönnum fyrir góðar umræður.
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og framsögumanna, Sigríður Þorgeirsdóttir, Vésteinn Ólason, Vilhjálmur Árnason, Jón Torfi Jónasson, Stefán Arnórsson, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Már Jónsson og Auður Hauksdóttir.

Kl. 16:10 - Kaffihlé

Kl. 15:30 - Dagskrárliður 7: Tillögur að ályktunum háskólafundar um einstök málefni, sem fyrir liggja

Fjórar tillögur lágu fyrir fundinum.

6.1 Tillaga Félags prófessora og Félags háskólakennara um veitingu akademískra nafnbóta
Tillagan er svohljóðandi:
Akademískar nafnbætur
Háskólafundur haldinn 23. maí 2001 felur rektor að skipa millifundanefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um veitingu akademískra nafnbóta til aðila sem ekki hafa kennslu við Háskóla Íslands sem aðalstarf, sbr. samstarfssamning H.Í. og LSH. Nefndin skal fyrir næsta háskólafund hafa kannað vilja akademískra starfsmanna H.Í. til slíkra nafnbóta og leggja niðurstöður sínar fyrir fundinn. Nefndin skal skipuð fulltrúum tilnefndum af Félagi prófessora og Félagi háskólakennara auk fulltrúa rektors.

Greinargerð
Vísað er í 4. mgr. 7. gr. samstarfssamnings Háskóla Íslands (H.Í.) og Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH), dags. 10. maí 2001, drög að viðbótarsamningi H.Í. og LSH dags. 25. mars 2002 (umfjöllun um veitingu akademískra nafnbóta) ásamt fylgiskjali nr. 3, dags. 21. mars 2002.

Í samstarfssamningi H.Í. og LSH segir að standist starfsmaður þær kröfur sem Háskólinn gerir til ákveðins starfs skuli hann hljóta akademíska nafnbót í samræmi við það. Ekki er í samningnum kveðið á um hverjar hinar akademísku nafnbætur skuli vera. Í fylgiskjali 3 með drögum að viðbótarsamningi koma fram tillögur um að hinar akademísku nafnbætur skuli vera; klínískur lektor, klínískur dósent og klínískur prófessor. Væntanlega er þá einnig átt við að sambærilegar nafnbætur sérfræðinga verði; klínískur sérfræðingur, klínískur fræðimaður og klínískur vísindamaður. Einnig kemur fram að slíkar nafnbætur séu bundnar við 5 ár og starf á LSH eða eftir atvikum öðrum heilbrigðisstofnunum sem H.Í. hefur gert samning við.

FH og FP telja nauðsynlegt að kannað verði með ítarlegum hætti hver afstaða hinna akademísku starfsmanna Háskólans sé til nafnbóta af því tagi sem kemur fram í fylgiskjali 3. FH og FP leggja áherslu á að „lektor“, „dósent“ og „prófessor“ eru starfsheiti starfsmanna við háskóla sem hafa hlotið hæfnisdóm og sem hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Á sama hátt eru „sérfræðingur“, „fræðimaður“ og „vísindamaður“ starfsheiti starfsmanna sem hafa rannsóknir að aðalstarfi við háskólastofnun og sem hafa hlotið hæfnisdóm til að gegna umræddu starfi. Að mati FH og FP er óásættanlegt að taka þessi starfsheiti upp sem nafnbætur. Það ber einnig að hafa í huga að eins og samstarfssamningurinn kemur FH og FP fyrir sjónir þá verður LSH ekki hluti af H.Í. á sama hátt og t.d. Raunvísindastofnun Háskólans og Tilraunastöð H.Í. í meinafræði, heldur fyrirtæki óháð Háskólanum. Starfsmenn sem hljóta akademískar nafnbætur í samræmi við samninginn verða því ekki starfsmenn H.Í. Líklegt er að þessi samstarfssamningur hafi fordæmisgildi gagnvart öðrum samningum sem e.t.v. verða gerðir við aðrar sjálfstæðar stofnanir og fyrirtæki.

Að lokum vilja fulltrúar FH og FP koma því á framfæri við 7. háskólafund að þeir telja að gengið hafi verið fram hjá Félagi háskólakennara og Félagi prófessora með því að leita ekki eftir umsögnum félaganna áður en skrifað var undir samstarfssamning H.Í. og LSH. Í ljósi þess er farið fram á að 8. háskólafundur hafi, á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga millifundanefndar á vilja akademískra starfsmanna, ákvörðunarvald um það hvort veita beri akademískar nafnbætur. Í því tilfelli að 8. háskólafundur samþykki veitingu akademískra nafnbóta skuli hann einnig kveða á um hverjar þær skuli vera.
Fyrir tillögunni mælti Þorsteinn Loftsson. Greindi hann m.a. frá því að hann hygðist gera nokkrar breytingar á tillögunni: Í stað „millifundanefnd“ komi „nefnd“, setningin „Nefndin skal fyrir næsta háskólafund hafa kannað vilja akademískra starfsmanna H.Í. til slíkra nafnbóta og leggja niðurstöður sínar fyrir fundinn“ falli niður og aftast bætist við ný setning: „Nefndin skilar tillögum sínum til háskólaráðs.“

Svo breytt hljóðar tillagan þannig:
Háskólafundur haldinn 23. maí 2001 felur rektor að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um veitingu akademískra nafnbóta til aðila sem ekki hafa kennslu við Háskóla Íslands sem aðalstarf, sbr. samstarfssamning HÍ og LSH. Nefndin skal skipuð fulltrúum tilnefndum af Félagi prófessora og Félagi háskólakennara auk fulltrúa rektors. Nefndin skilar tillögum sínum til háskólaráðs.

Rektor gaf orðið laust:
Í umræðunni komu fram skiptar skoðanir á tillögunni, í báðum útgáfum. Mæltu sumir með því að hún skyldi standa óbreytt en aðrir töldu hana gallaða í hvorri útgáfunni sem væri. Málið snérist ekki um gott samkomulag milli Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss, heldur um sjálfa hugsunina sem í tillögunni liggi. Lagði Ólafur Þ. Harðarson til að síðasta setningin verði strikuð út. Á það var bent að þess misskilnings virtist gæta meðal sumra fundarmanna að málið snérist um það hvort almennt skuli veita akademískar nafnbætur eða ekki. Í þessu lægi vanmat á því hvað LSH hefði mikilvægu hlutverki að gegna á sviði kennslu; umræddir starfsmenn væru sannarlega kennarar í heilbrigðisvísindadeildum. Lagði Þórarinn Sveinsson til að í stað síðustu setningarinnar í upphaflegu tillögunni komi: „Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum tilnefndum af rektor, öðrum tilnefndum af heilbrigðisvísindadeildunum, og þriðja fulltrúanum tilnefndum sameiginlega af Félagi prófessora og Félagi háskólakennara.“

Þá bar Ólafur Þ. Harðarson fram þá breytingartillögu að í stað síðustu tveggja setninganna í upphaflegu tillögunni komi: „Nefndin skal skipuð af rektor og skila áliti sínu til háskólaráðs.“ Svo breytt hljóði tillagan:
Háskólafundur haldinn 23. maí 2001 felur rektor að skipa millifundanefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um veitingu akademískra nafnbóta til aðila sem ekki hafa kennslu við Háskóla Íslands sem aðalstarf, sbr. samstarfssamning H.Í. og LSH. Nefndin skal skipuð af rektor og skila áliti sínu til háskólaráðs.
Að lokinni umræðu bar rektor breytingartillögu Ólafs Þ. Harðarsonar undir atkvæði, þar sem hún gengur lengst, og var hún samþykkt með 17 atkvæðum gegn tveimur.

Loks bar rektor tillöguna í heild svo breytta undir atkvæði.
- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Þorsteins Loftssonar, Hörður Filippusson, Ólafur Þ. Harðarson, Þórarinn Sveinsson og Björn Þ. Guðmundsson,

7.2 Tillaga Páls Sigurðssonar, forseta lagadeildar, til ályktunar um starfshætti dómnefnda
Tillagan er svohljóðandi:
Starfshættir dómnefnda
Háskólafundur beinir þeirri áskorun til háskólaráðs, að 7. mgr. 43. gr. almennra reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000 verði breytt á þann veg, að í stað núverandi reglu um að við mat á umsóknum um störf háskólakennara og sérfræðinga sé dómnefndum heimilt að hafa til hliðsjónar formlegt gæðakerfi Háskólans sé dómnefndum gert skylt að hafa til hliðsjónar framgangsreglur Háskólans.

Greinargerð
Miklu varðar fyrir framtíð og orðspor Háskóla Íslands að mjög vel sé vandað til nýráðningar háskólakennara og annarra manna í hliðstæð sérfræðistörf, hvað faglegt hæfi þeirra varðar, og að skilgreindum stefnumiðum sé fylgt eins og frekast er kostur varðandi mat á fræðiverkum umsækjenda sem og á starfsferli þeirra að öðru leyti. Vísindastörf umsækjenda og skipulegt mat á þeim vega að sjálfsögðu langsamlega þyngst í ráðningarferlinu. Háskóli Íslands samþykkti, snemma árs 2001, vísinda- og menntastefnu, þar sem m.a. er á því byggt að jafnan skuli leitast við að Háskólinn standi faglega jafnfætis virtum og sambærilegum vísindastofnunum í grannlöndum okkar. Er markið sett hátt svo sem eðlilegt er, enda býr Háskóli Íslands við samkeppnisumhverfi í háskólasamfélagi þjóðanna auk þess sem sumar deildir hans og aðrar starfseiningar taka nú þegar eða munu á næstunni taka fullan þátt í samkeppni um akademískan árangur og orðspor, um nemendur o.fl.

Á grundvelli þeim, sem lagður var með fyrrnefndri vísinda- og menntastefnu Háskólans, hefur stofnunin m.a. sett sér almennar og allnákvæmar reglur um framgangskerfi meðal háskólakennara og sérfræðinga. Eiga reglur þessar jafnt við um starfsmenn í öllum háskóladeildum. Eru þar sett ströng skilyrði um vísinda- og rannsóknastörf, þegar meta skal hæfni hlutaðeigandi starfsmanna til framgangs í störf, er bera hærra stöðuheiti. Er þar að meginstefnu byggt á kröfu um lágmarksfjölda svonefndra “rannsóknastiga” ásamt viðeigandi matsreglum (t.d. er nú miðað við að háskólakennari þurfi, við umsókn um framgang í prófessorsstarf, að leggja á borð með sér 270 rannsóknastig og 400 heildarviðmiðunarstig að lágmarki og aðrar viðmiðanir af sama tagi eiga einnig við um önnur stöðuheiti.

Hljóta þessar reglur að bera með sér stefnuyfirlýsingu Háskólans um þau hæfnisskilyrði, er nú þurfa að liggja að baki þeim starfsheitum, er hér skipta máli, m.a. hvað varðar vísinda- og fræðistörf allra hlutaðeigandi manna og stigamat á þeim störfum við upphaf ferils í föstu háskólastarfi. Að sumu leyti er þar stuðst við eldri afstöðu og verklag innan háskólasamfélagsins, þótt kröfur hafi nú verið skerptar eftir rækilegan undirbúning. Reglur þessar – sem hljóta að vera, og eiga að vera, háðar endurmati og breytingum eftir því sem tímar líða og munu aldrei taka á sig „endanlega“ mynd – eru í reynd mikilvægur hluti hins formlega gæðamatskerfis Háskólans, sem haldið er uppi af faglegum ástæðum, er vita, öðrum þræði, að háskólasamfélaginu inn á við en eru jafnframt til samræmis við kröfur og skilyrði ríkisvaldsins í tengslum við fjárframlög þess til stofnunarinnar.

Enda þótt þær reglur um framgang í starfi, sem hér um ræðir, fjalli samkvæmt orðanna hljóðan einvörðungu um það afmarkaða svið, er svo nefnist, gefa þær engu að síður til kynna tiltekin grundvallaratriði um hæfni allra akademískra starfsmanna, sem hljóta að gilda á gjörvöllu háskólasviðinu, þ.e. í öllum deildum og starfseiningum Háskóla Íslands, og eru fyllilega til samræmis við þá sjálfsögðu en um leið metnaðarfullu vísinda- og menntastefnu, sem Háskólinn hefur sett sér.

Má ætla, að nokkur samstaða sé í reynd að myndast um þennan skilning innan háskólasamfélagsins, þótt hægt gangi og endanlegur árangur hafi alls ekki náðst, svo sem kemur m.a. fram í því, að við nýráðningar í störf er dómnefndum, skv. gildandi reglum, ekki gert skylt að hafa mið af sömu hæfnisskilyrðum og gilda skv. framgangskerfinu. Verði niðurstaðan hins vegar sú að óbreyttum reglum – eins og full ástæða er til að óttast – að við nýráðningar í störf háskólakennara eða sérfræðinga samkvæmt auglýsingu verði öðru hverju slakað mjög á kröfum í þessu efni frá því, sem framgangsreglur mæla fyrir um, mun það, hvort tveggja í senn, fela í sér 1) óviðunandi stefnuleysi og 2) afar mikla ósanngirni í garð starfandi lektora, dósenta, sérfræðinga og fræðimanna, sem verða að fullnægja hinum ströngu skilyrðum um árangur í rannsóknum, sem fyrr voru nefnd, óski þeir eftir framgangi í starfi. Myndu þá verða til tveir „flokkar“ eða tvær „tegundir“ hlutaðeigandi starfsmanna Háskólans, sem fullnægja mismunandi hæfisskilyrðum en njóta sambærilegra kjara þrátt fyrir mjög mikinn hæfnismun, allt eftir atvikum – en sú niðurstaða væri vitaskuld ótæk og bæri vott um óverjandi stjórnunarhætti. Þá má einnig vænta þess, að ímynd Háskólans myndi af þeim sökum bíða mikinn hnekki í hugum þeirra, sem fylgjast með málefnum hans. Jafnframt verður að ætla, að sú skipan mála fengi trauðla staðist gagnvart jafnréttisákvæðum stjórnarskrár.

Tillagan tekur að sjálfsögðu mið af því, að dómnefndum sé skylt að hafa hliðsjón af framgangsreglum eins og þær eru á hverjum tíma, og því er hér enginn dómur lagður á kosti eða galla núverandi reglna. Þess skal þó minnst, að núverandi reglur gefa m.a. allnokkurt svigrúm við mat á skilyrðum fyrir framgangi, sem dómnefndir, er fjalla um umsóknir um nýráðningar, gætu þá einnig nýtt sér ef þær sjá ástæðu til, auk þess sem þær geta vafalaust einnig, eftir atvikum, tekið tillit til annarra þátta en fram koma í hinum eiginlegu framgangsreglum.

Tillögunni er ætlað að bæta úr því hróplega ójafnvægi og misrétti, sem leitt getur af núverandi reglum, óbreyttum. Engu að síður geta allar dómnefndir að sjálfsögðu nýtt sér það svigrúm, sem framgangsreglur gefa, og vonandi munu nefndirnar, enn sem fyrr, huga í ríkum mæli að gæðum framlagðra ritstarfa umsækjenda, ekki síður en stigafjölda vegna rannsókna þeirra og annarra starfa.

Rektor gaf orðið laust.
Í umræðunni kom fram að mikilvægt er að sömu reglur gildi um nýráðningu og framgang. Þá var bent á mikilvægi þess að einfalda ráðningarkerfið og mat á störfum við framgang. Einnig kom fram að um réttlætismál væri að ræða, þ.e. að ávallt séu gerðar sambærilegar kröfur, hvort sem um er að ræða framgang eða nýráðningu. Ennfremur var bent að að mikilvægt er að kröfur að þessu leyti séu samræmdar milli háskólanna í landinu.

Loks lagði rektor til að tillögunni yrði breytt og bar hana undir atkvæði svo breytta:
Háskólafundur beinir þeirri áskorun til háskólaráðs, að 7. mgr. 43. gr. almennra reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000 verði breytt á þann veg, að við mat á umsóknum um störf háskólakennara og sérfræðinga sé dómnefndum að jafnaði gert skylt að hafa til hliðsjónar framgangsreglur Háskólans.
- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Páls Sigurðssonar, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Reynir Tómas Geirsson, Þorsteinn Loftsson, Vilhjálmur Árnason, Hörður Filippusson, Gylfi Magnússon, Ólafur Þ. Harðarson og Rannveig Traustadóttir.

7.3    Marga Thome f.h. heilbrigðisvísindadeilda um þróun ráðgjafamiðstöðvar við Háskóla Íslands í töl- og aðferðafræði
Tillagan er svohljóðandi:
Fundur samráðsnefndar heilbrigðisvísindadeilda H.Í fjallaði á fundi sínum í dag um þróun aðstöðu til rannsókna við skólann.
Fundurinn var sammála um að sárlega skorti við Háskóla Íslands samhæfða þjónustu í töl- og aðferðafræði. Þar sem Háskóli Íslands hefur lagt mikla áherslu á sérstöðu sína sem rannsóknaháskóli finnst fundarmönnum brýnt að Háskóli Íslands beiti sér fyrir þróun slíkrar aðstöðu, sem er næstum undantekningalaust fyrir hendi við erlenda rannsóknaháskóla.

Fundurinn leggur til að eftirfarandi tillaga verði lögð fyrir háskólafund 23. maí 2002:
Háskóli Íslands beiti sér fyrir því að koma upp miðlægri þjónustumiðstöð í töl- og aðferðafræði innan eins árs. Veitt verði ráðgjöf og sérhæfð aðstoð sem þjónar öllum fræðigreinum og nær bæði til megindlegra og eigindlegra rannsóknaaðferða. Þjónustan skal taka fyrst og fremst mið af þörfum kennara, auk þess sem æskilegt er að nemendur í framhaldsnámi njóti hennar.

Rektor gaf orðið laust.
Í umræðunni komu fram skiptar skoðanir á tillögunni. Meðal annars var á það bent að tillagan hefði ekki hafi verið rædd innan annarra deilda og því væri ekki vitað hvaða hag þær geti haft af þjónustumiðstöð sem þessari. Þá gerði tillagan ráð fyrir að miðstöðinni yrði komið upp innan eins árs án þess að fyrir liggi áætlun um mannafla og kostnað. Því væri nauðsynlegt að undirbúa málið betur. Einnig kom fram það sjónarmið að tillagan væri mjög jákvæð fyrir tilteknar deildir, s.s. félagsvísindadeild og raunvísindadeild. Hins vegar væri nauðsynlegt að þær töluðu saman um stærð og umfang verkefnisins. Aðrir töldu eðlilegt að verkefni sem þessu væri beint til viðkomandi deilda fremur en að setja á laggirnar miðlæga þjónustumiðstöð af þessu tagi. Loks var á það bent, að það væri ekki hlutverk háskólafundar að greiða atkvæði um framkvæmdamál af þessu tagi, einkum ef þau fela í sér fjárhagslega skuldbindingu.
Að umræðu lokinni bar rektor upp þá tillögu að tillögunni verði vísað til háskólaráðs sem taki afstöðu til hennar, m.a. á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram hefðu komið á fundinum
- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Marga Thome, Ágúst Einarsson, Ólafur Þ. Harðarson, Hörður Filippusson, Jón Atli Benediktsson, Reynir Tómas Geirsson, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Stefán Arnórsson, Auður Hauksdóttir, Ingjaldur Hannibalsson og Einar Ragnarsson.

7.4    Tillaga Sigrúnar Valgarðsdóttur og Magnúsar D. Baldurssonar um breytingu á 9. kafla starfsmannastefnu Háskóla Íslands
Fyrir tillögunni mælti Sigrún Valgarðsdóttir. Formlega felur tillagan í sér að kaflar 9.1 („Framkvæmd“) og 9.2 („Ábyrgð“) verði felldir saman í nýjan kafla 9.1 sem beri yfirskriftina „Framkvæmd og ábyrgð“. Í framhaldi af þessu verði kafli 9.3 („Gildistími og endurskoðun“) númeraður 9.2. Efnislega felur tillagan í sér að í hinum nýju köflum 9.1 og 9.2 verði felld niður ákvæði um tíðni áætlana, greinargerða og endurskoðunar og að þessi framkvæmdaratriði verði lögð á herðar þeim sem bera ábyrgð á starfsmannastefnunni.

Samkvæmt tillögunni hljóði 9. kafli starfsmannastefnu Háskóla Íslands svo breyttur þannig:

9    Framkvæmd, ábyrgð og gildistími
9.1    Framkvæmd og ábyrgð
Yfirstjórn Háskólans, stjórnendum deilda, stofnana og sameiginlegrar stjórnsýslu ber að annast framkvæmd starfsmannastefnunnar. Stefnan er gefin út af rektor og háskólaráði, sem bera jafnframt ábyrgð á því að henni sé framfylgt.

9.2    Gildistími og endurskoðun
Starfsmannastefna Háskóla Íslands tekur gildi þann 18.05.2000. Stefnan skal endurskoðuð eftir þörfum.

Rektor gaf orðið laust um tillöguna.
Enginn tók til máls undir þessum lið.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.
- Samþykkt samhljóða.

Að lokinni afgreiðslu tillagna til ályktunar um einstök málefni bar rektor upp tillögu um nýjan fulltrúa í starfshóp háskólafundar um vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands, sem hann hafði boðað í upphafi fundarins. Lagði rektor til að Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður tæki sæti Erlu Kolbrúnar Svavarsdóttur í starfshópnum, en Erla Kolbrún er ekki lengur fulltrúi hjúkrunarfræðideildar á háskólafundi.
- Samþykkt samhljóða. Var Sigrún boðin velkomin með lófataki.

Í lok fundarins tilkynnti rektor að á meðan á fundinum stóð hafi borist ósk frá menntamálaráðuneytinu um viðræður um rannsóknasamning sem vonandi boðaði góð tíðindi. Aftur var tekið undir með lófataki.

Rektor þakkaði þeim sem tóku þátt í undirbúningi fundarins. Beindi rektor því til fundarmanna að þeir veltu fyrir sér hvort bæta mætti framkvæmd háskólafundar í framtíðinni og kæmu ábendingum þar um á framfæri við rektorsskrifstofu.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.50.

Rektor þakkaði fundarmönnum fyrir fundinn og bauð þeim að þiggja léttar veitingar.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 6. háskólafundi:
1.    Dagskrá háskólafundar 23. maí 2002.
2.    Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3.     Drög að stefnu í málefnum fatlaðra og drög að reglum um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands ásamt greinargerð.
4.    Þróunaráætlanir læknadeildar og hjúkrunarfræðideildar.
5.    Umsagnir kennslumálanefndar, vísindanefndar, fjármálanefndar og jafnréttisnefndar um þróunaráætlanir læknadeildar og hjúkrunarfræðideildar.
6.    Samkeppnisstaða Háskólans. Glærur með erindi Ingjalds Hannibalssonar.
7.    Veiting akademískra nafnbóta. Tillaga til ályktunar frá Félagi prófessora og Félagi háskólakennara.
8.    Starfshættir dómnefnda. Tillaga til ályktunar frá Páli Sigurðssyni, forseta lagadeildar.
9.    Þróun ráðgjafamiðstöðvar við Háskóla Íslands í töl- og aðferðafræði. Tillaga til ályktunar frá Marga Thome, forseta hjúkrunarfræðideildar, f.h. heilbrigðisvísindadeilda.
10.    Breyting á 9. kafla starfsmannastefnu Háskóla Íslands. Tillaga til ályktunar frá Sigrúnu Valgarðsdóttur og Magnúsi D. Baldurssyni.
11.    Reglur um skipan og fundarsköp háskólafundar. Samþykktar á háskólafundi 5. nóvember 1999, með breytingum samþykktum á fundi 19. maí 2000 og 1. nóvember 2001.
12.    Samkeppnisstaða Háskóla Íslands. Minnisblað frá Páli Skúlasyni háskólarektor, mars 2002.
13.    Ársfundur Háskóla Íslands 21. maí 2002. Glærur.
14.    Árbók Háskóla Íslands 2001.
15.    Ritaskrá Háskóla Íslands 2001.