Skip to main content

8. háskólaþing 18. apríl 2012

8. háskólaþing Háskóla Íslands

haldið 18. apríl 2012 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-16.00

Dagskrá

Kl. 13.00 – 13.05 Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.

Kl. 13.05 – 13.25 Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.

Kl. 13.25 – 14.20 Dagskrárliður 2. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Endurskoðuð Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Kl. 14.20 – 14.40 Dagskrárliður 3. Tilnefning þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2012 til 30. júní 2014.

Kl. 14.40 – 15.00 Fundarhlé.

Kl. 15.00 – 15.05 Dagskrárliður 3 (frh.). Niðurstaða kjörs þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa í háskólaráð.

Kl. 15.05 – 16.00 Dagskrárliður 4. Viðhorf nemenda til náms við Háskóla Íslands.

Kl. 16.00 Rektor slítur háskólaþingi.

Kl. 13.00-13.05 - Fundarsetning

Rektor setti háskólaþing Háskóla Íslands og bauð þingfulltrúa velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og var þetta 8. háskólaþing (sem áður hét háskólafundur) Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa sem mættir voru í fyrsta sinn á þingið, gesti frá öðrum stofnunum, þ.e. Björn Zoëga, forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókavörð, Sigurð Ingvarsson, forstöðumann Rannsóknastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Guðrúnu Nordal, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og fulltrúa stúdenta, þ.á.m. Söru Sigurðardóttur, formann Stúdentaráðs.

Fundargerð síðasta háskólaþings var send fulltrúum fyrir þingið og bárust engar athugasemdir við hana. Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra háskólans að vera fundarritari.

Kl. 13.05-13.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor fór yfir helstu verkefni umliðins vetrar og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands.

Áhersluverkefni á vormisseri 2012

Meginlínur í starfi háskólans voru lagðar með Stefnu Háskóla Íslands 2012-2016 sem var samþykkt bæði á háskólaþingi og í háskólaráði. Hér á eftir er gerð grein fyrir stöðu nokkurra stefnumála.

Rannsóknir og nýsköpun

  • Miðstöð framhaldsnáms
    • Miðstöðin heldur m.a. utan um gerð samninga um sameiginlegar doktorsgráður til að tryggja gæðakröfur til námsins.
    • Á vettvangi gæðanefndar háskólaráðs, sem jafnframt er stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms, er nú unnið að endurskoðun á gildandi Viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.
  • Aukið samstarf við innlendar rannsóknastofnanir, háskóla, fyrirtæki og menningarstofnanir.  Þróunar- og samstarfsverkefni:
    • Endurnýjun samstarfssamnings við Landspítala.
    • Samstarfsnet opinberu háskólanna.
    • Samningur um aðild Landbúnaðarháskóla Íslands að Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands.
  • Aukin sókn í innlenda og erlenda samkeppnissjóði:
    • Efling stoðþjónustu við styrkumsóknir, m.a. með endurskipulagi Rannsóknaþjónustu háskólans.
  • Fjölgun nýdoktorastarfa
  • Mótun stefnu um opinn aðgang (e. open access) - drög liggja fyrir.

Nám og kennsla

  • Endurskoðun stefnu um inntökukröfur og námsástundun
    • Vinna við þróun aðgangsprófs stendur yfir og verður því beitt í fyrsta skipti í tilraunaskyni í Hagfræðideild vorið 2012.
  • Mótun kennslustefnu hjá fræðasviðum og deildum stendur yfir.
  • Endurskoðun kennslukannana í grunn- og framhaldsnámi.
  • Samræming vinnuframlags og námseiningamats.
  • Samþætting rannsókna og kennslu á öllum námsstigum:
    • Vinna stendur yfir og munu Kennslumiðstöð og kennslumálanefnd m.a. standa fyrir námskeiði fyrir kennara 3. maí nk.
  • Fjarkennsla í samstarfi við erlenda háskóla.
  • Viðhorfskannanir meðal núverandi og fyrrverandi nemenda. Meðal annars verður fylgst með reglubundnum hætti með afdrifum brautskráðra nemenda.

Mannauður

  • Nýliðun starfsfólks.
  • Vinnustaða-/starfsánægjukönnun meðal starfsmanna verður gerð á árinu 2012.
  • Tengd störf (joint appointments).

Ábyrgð gagnvart samfélagi og umheimi

  • Háskóli Íslands setji sér metnaðarfulla umhverfisstefnu.
    • Sjálfbærni- og umhverfisstefna Háskóla Íslands var nýlega samþykkt á háskólafundi og í háskólaráði. Í kjölfarið verður skipuð nefnd sem fylgir stefnunni eftir.
  • Samþætting siðfræði og faglegs náms.

Skipulag og stjórnkerfi

  • Stjórnkerfi styrkt, verklagsregluhandbók og gæðahandbók eru í smíðum og í tengslum við þessi verkefni verður endurskoðuð verka- og ábyrgðarskipting á milli miðlægrar stjórnsýslu og stjórnsýslu fræðasviða, skipurit samræmd o.fl.
  • Endurskoðun á starfi og skipulagi Rannsóknaþjónustu og Alþjóðaskrifstofu stendur yfir.
  • Endurskoðun á skipulagi upplýsingatæknimála er fyrirhuguð.
  • Eftirfylgni sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

Upplýsingamiðlun – umbætur

  • Fundargerðir háskólaráðs á vefnum ítarlegri en áður.
  • Vikulegir fundir rektors og fræðasviðsforseta.
  • Vikulegir fundir stjórna fræðasviða. Fundargerðir aðgengilegar á vefnum.
  • Ítarlegar fundargerðir háskólaþings á vefnum.
  • Fundir stjórna fræðasviða og deilda haldnir reglulega.
  • Nýr ytri vefur opnar 26. apríl nk.
  • Unnið er að gerð nýs innri vefs.
  • Átak í efnisuppfærslu (ritaskrár o.fl.).
  • Tímarit Háskóla Íslands. Sjónvarpsþættir um vísindastarf Háskóla Íslands.
  • Fréttabréf fræðasviða.
  • Viðburðir og fyrirlestrar teknir upp í auknum mæli.
  • Gæðahandbók.
  • Bætt tölfræði og upplýsingar um nemendur.
  • Heimsóknir rektors á vormisseri í allar deildir og starfseiningar skólans.

Vefur styrktur sem upplýsingagátt

  • Markhópar vandlega greindir.
  • Rýnihópur myndaður.
  • Spurningalistar sendir út til hagsmunaaðila.
  • Ráðgjöf fagaðila.
  • Fundir með hagsmunaaðilum og öllum sviðum og stjórnsýslu.
  • Þarfalýsing unnin.
  • Útlit, viðmót og aðgengi hannað.
  • Spurningalisti sendur aftur út til að staðfesta niðurstöður í forvinnu.
  • Hafist handa við forritun.
  • Í loftið 26. apríl 2012.

Tillögur starfshóps Vísinda- og tækniráðs um einföldun á vísinda- og nýsköpunarkerfinu

  • Áform um aukið fé til rannsókna og doktorsnáms
  • Megintillögur:
    • Sameiginleg miðstöð doktorsnáms á Íslandi.
    • Hærra hlutfalli fjár ráðstafað í samkeppni.
    • Endurskipulagning háskólakerfisins.
  • Tillögurnar eru til umsagnar hjá fræðasviðum og háskólaráði.
  • Umsagnarfrestur til 25. apríl nk.

Byggingarverkefni og nýframkvæmdir

  • Endurheimt votlendis í friðlandi austan Sæmundargötu. Framkvæmdum lýkur í apríl 2012 fyrir varptíma.
  • Hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum – 3000 m2. Hönnunarsamkeppni stendur yfir, niðurstaða dómnefndar kynnt í maí.
  • Hús íslenskra fræða – 6000 m2 (Hlutur Háskóla Íslands verður 2000 m2). Hönnun lokið, vonast til að unnt verði að hefja framkvæmdir 2013.
  • Nýbygging fyrir Heilbrigðisvísindasvið við Læknagarð – 9000 m2. Forhönnun lokið. Vinna við deiliskipulag stendur yfir.
  • Stækkun á 1. og 2. hæð Háskólatorgs – 750 m2. Framkvæmdir til loka árs 2012.

Fjármál

  • Aldarafmælissjóður 2012-2014:
    • 2011: 150 m.kr. (þegar ráðstafað)
    • 2012: 250 m.kr.
    • 2013: 400 m.kr.
    • 2014: 700 m.kr.
  • Fræðasvið, stúdentar, stofnanir og nefndir hafa skilað tillögum. Óskað var eftir forgangsröðun frá fræðasviðum.
  • Fjárlagagerð 2013:
    • Kennsla. Vantar 720 nemendaígildi.
    • Endurskoðun á reikniflokkum.
    • Athugasemd vegna útreiknings í reiknilíkani á frádrætti vegna húsnæðis.
    • Athugasemd vegna brautskráningarframlaga.
    • Aðstoð vegna fatlaðra nemenda.
    • Nýbyggingar og stærri viðhaldsverkefni.
  • Kjaramál.

Evrópskir háskólar - viðbrögð við skertum fjárveitingum

  • Sameiningar háskóla og sameiningar háskóla og rannsóknastofnana.
  • Breytingar á rekstrarformi.
  • Innleiðing skólagjalda. Hækkun skólagjalda.
  • Fækkun námsleiða.
  • Aukið samstarf við atvinnulíf.
  • Aukin sókn í samkeppnissjóði.
  • „Philanthropy“.

Gæðamál og úttektir

Áætlun gæðaráðs háskóla:

  • Úttektir og sjálfsmat deilda á 5 ára fresti. Fyrsta lota 2012-2015.
  • Heildarmat á Háskóla Íslands 2015.

Vormisseri 2012

  • Íslensku- og menningardeild.
  • Stjórnmálafræðideild.
  • Jarðvísindadeild.
  • Lýðheilsuvísindi.
  • Umhverfis- og auðlindafræði.

Veturinn 2012-2013

  • Deild erlendra tungumála.
  • Félagsráðgjafardeild.
  • Félags- og mannvísindadeild.
  • Hagfræðideild.
  • Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild.
  • Matvæla- og næringarfræðideild.
  • Sálfræðideild.
  • Umhverfis- og byggingarverkfræðideild.
  • Uppeldis- og menntunarfræðideild.
  • Viðskiptafræðideild.

Söfnun og samræming verklagsreglna og ferla:

  • Reglusafn komið á innri vef háskólans fyrir lok árs 2012.

Gæðahandbók:

  • Rafræn akademísk gæðahandbók tilbúin fyrir árslok 2012.

Háskóladagurinn 18. febrúar sl.

Brautskráning kandídata 24. febrúar sl.

Samstarf um doktorsnám

  • Lagadeildir Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla undirrituðu samning um sameiginlegar doktorsgráður í febrúar sl.
  • Fyrsta sameiginlega doktorsgráða Háskóla Íslands og University of Washington var veitt í desember 2011.

Heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands

  • Dr. Thomas William Shakespeare hlaut heiðursdoktorsnafnbót frá Félags- og mannvísindadeild í mars sl.

Úthlutanir úr styrktarsjóðum

  • Fjórum styrkjum úr Styrktarsjóði Watanabe við Háskóla Íslands var úthlutað í apríl sl.
    • Styrkir akademísk og menningarleg tengsl Íslands og Japans.
  • Tveir nemendur fengu styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar í febrúar sl.
    • Um er að ræða styrki til eineltisrannsókna.

Nemendur úr Háskóla Íslands  fengu Gulleggið, fyrstu verðlaun frumkvöðlakeppni Innovit

Nemendur úr umhverfis- og auðlindafræði sigruðu í nemendasamkeppni í vistvænni hönnun matar- og drykkjarvara – verkefnið Mysuklakinn Íslandus

Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema í febrúar – „2 harðir“ unnu!

Vilhjálmur Steingrímsson læknanemi hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir verkefnið Áhættureiknir fyrir hjarta- og kransæðasjúkdóma hjá öldruðum

Vísindasmiðja Háskóla Íslands í Háskólabíói

  • Uppistaða tækjanna er gjöf frá Orkuveitu Reykjavíkur.
  • Markmiðið er að efla áhuga ungmenna á vísindum og styðja við framþróun kennslu í náttúru- og raunvísindum.
  • Endurmenntun fyrir kennara.

Áfangastaðir Háskólalestarinnar 2012

  • Kirkjubæjarklaustur 4.-5. maí nk.
  • Siglufjörður 11.-12. maí nk.
  • Grindavík 16. og 19. maí nk.
  • Ísafjörður 25. og 26. maí nk.

Samstarf við Caltech og Stanford

  • SURF (Summer Undergraduate Research Fellowship) í Caltech
  • Rannsóknasamstarf leiðbeinanda og nemenda í grunnnámi, 10 vikna verkefni.
  • Til Caltech fara þrír nemendur Háskóla Íslands á styrk:
    • Nemendur í eðlisfræði og tölvunarfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði og efnafræði.
    • Tveir nemendur frá Caltech koma til Háskóla Íslands, í sálfræði og iðnaðarverkfræði.

Stanford Summer International Honors Program (SSIHP)

  • 8 vikna sumarnámskeið
  • Til Stanford fara tveir nemendur á styrk:
    • Nemendur í stærðfræði og eðlisfræði.
    • Þrír aðrir nemendur hafa skráð sig í sumarnámið hjá Stanford, en þeir fara á eigin vegum.

Háhraðatölva tekin í notkun í gær

  • Samstarf Háskóla Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytis og þriggja norrænna rannsóknarstofnana.

Viðburðir framundan

  • Heilsumánuðurinn:
    • Göngu- og hlaupahópar, fyrirlestrar, skyndihjálparnámskeið, hlaupagreining o.fl.
    • Háskólahlaupið 15. maí nk. kl. 15.

Vinnustofur Mick Healeys 3. maí á vegum Kennslumiðstöðvar og Kennslumálanefndar

  • Samþætting rannsókna og kennslu.

Málþing um gæði doktorsnáms 1. júní nk.

Vorfagnaður starfsfólks Háskóla Íslands í maí á Háskólatorgi

Með fróðleik í fararnesti

  • Áframhald á samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands:
    • Kræklingaferð í Hvalfjörð 21. apríl nk. Leiðsögn: Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.
    • Landfræði á hjólum: Rýnt í borgarlandslagið, 5. maí nk. Leiðsögn: Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
    • Lífríki Vífilsstaðavatns og nágrennis, 27. maí. Leiðsögn: Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands, og Sigurður Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild.
    • Þjóðsögur, draugasögur, hjátrú og vikivaki, 8. september. Leiðsögn: Kristín Einarsdóttir, aðjunkt í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild
    • Söguslóðir ljósmæðra í 250 ár, 6. október. Leiðsögn: Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

Kl. 13.20-13.40 - Dagskrárliður 2: Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Endurskoðuð Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og formaður gæðanefndar, gerði grein fyrir málinu.

I. Bakgrunnur

  • Á alþjóðlegum vettvangi er lögð sívaxandi áhersla á gæði í háskólastarfi.
  • Þetta endurspeglast hér á landi m.a. í lögum um háskóla nr. 63/2006 sem fjalla að miklu leyti um gæðamál.
  • Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 kvað á um verulega eflingu doktorsnáms við Háskóla Íslands og að skólinn kæmi á fót Miðstöð framhaldsnáms.
  • Samningur Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis um kennslu og rannsóknir (2007) gerði ráð fyrir að slík miðstöð yrði sett á laggirnar.
  • Háskóli Íslands hefur óskilyrta viðurkenningu ráðuneytisins til doktorsnáms á öllum fræðasviðum.
  • Doktorsnám við Háskóla Íslands hefur verið stóreflt á undanförnum árum.
  • Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hóf starfsemi 2009.
  • Landbúnaðarháskóli Íslands gerðist aðili 2012.

Stefna Háskóla Íslands 2011-2016 heldur áfram á sömu braut og fyrri stefna:

  • „Virkni doktorsnema í námi verði tryggð með því að styrkja umgjörð þess, bæta aðstöðu námsins og skýra ábyrgð leiðbeinenda.“
  • „Við upphaf doktorsnáms verði gerð krafa um raunhæfa áætlun um fjármögnun og framvindu.“
  • „Fylgst verði reglulega með virkni og árangri doktorsnema, m.a. með árlegum framvinduskýrslum.“
  • „Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands verði efld og fest í sessi, m.a. með því að fá henni ríkara eftirlits- og samræmingarhlutverk í tengslum við framkvæmd doktorsnámsins.“
  • „Gildandi Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands verði endurskoðuð, m.a. með hliðsjón af hlutverki Miðstöðvar framhaldsnáms.“
  • „Skilgreind verði hliðstæð viðmið og kröfur um rannsóknatengt meistaranám.“
  • Gæðanefnd falið að undirbúa málið.

II. Hlutverk og helstu verkefni Miðstöðvar framhaldsnáms

  • 66. gr. reglna Háskóla Íslands:

    „Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands með það að markmiði að stuðla að kröftugu vísindastarfi sem stenst alþjóðlegan samanburð og samkeppni.“
  • Fagleg ábyrgð á framhaldsnámi er á höndum deilda.
  • Miðstöð framhaldsnáms hefur heildaryfirsýn yfir framhaldsnámið og starfar náið með háskóladeildum, gæðanefnd háskólaráðs og sameiginlegri stjórnsýslu
  • Miðstöðin er aðili að Council of Graduate Schools (CGS).

III. Drög að endurskoðuðum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands

Vinna gæðanefndar

  • Fór vandlega yfir viðmiðin sem sett voru árið 2004, mat reynsluna af Miðstöð framhaldsnáms frá 2009 og fór yfir breytingar á lögum og reglum.
  • Notaði margs konar erlendar fyrirmyndir, m.a.:
    • Stefnumörkun European University Association (EUA).
    • Gögn frá Center of Graduate Studies (CGS).

Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms

  • Viðmiðin eru sambærileg við það sem tíðkast í samanburðarháskólum.
  • Þau skiptast í:
    • Almenn viðmið sem eru rammi er vísar til alþjóðlega viðurkenndra forsenda um gæði doktorsnáms.
    • Fagleg viðmið sem tilgreina lágmarkskröfur um menntun, leiðbeiningarreynslu og rannsóknavirkni leiðbeinenda og doktorsnefnda.
    • Efnisleg viðmið sem fela í sér lágmarkskröfur um námsaðstöðu doktorsnema.

Almenn viðmið – helstu nýmæli

  • Markmið og hæfniviðmið doktorsnáms.
  • Námssamningur og fjármögnun:
    • Í upphafi náms skal gerður námssamningur þar sem kveðið er á um gagnkvæmar skyldur og réttindi doktorsnema, leiðbeinanda, doktorsnefndar og Miðstöðvar framhaldsnáms f.h. Háskóla Íslands.
  • Árleg námsframvinduskýrsla:
    • Doktorsnemi skal árlega skila til viðkomandi deildar/fræðasviðs námsframvinduskýrslu sem staðfest er af leiðbeinanda.
  • Námstími:
    • Doktorsnám  að loknu meistaranámi er 180-240 einingar (ECTS). Miðað við full námsafköst er námstími í doktorsnámi því 3-4 ár. Hámarkstími til að ljúka doktorsgráðu skal að jafnaði vera 5-6 ár.
  • Skráning eininga:
    • Doktorsnefnd og leiðbeinandi skulu gæta þess að skráning eininga í nemendakerfi (Uglu) sé í samræmi við raunverulega framvindu námsins.
  • Leiðbeining og ráðgjöf:
    • Leiðbeinandi skal að jafnaði ekki leiðbeina fleirum en fjórum doktorsnemum á hverjum tíma.

Fagleg viðmið – helstu nýmæli

  • Leiðbeinandi skal að jafnaði:
    • Hafa lokið doktorsprófi eða jafngildi þess á viðkomandi fagsviði. Hæfnisdómur fyrir starf prófessors getur komið í stað doktorsprófs.
    • Hafa sýnt fram á ritvirkni, mælda í rannsóknastigum skv. matskerfi opinberra háskóla, sem nemur a.m.k. 15 rannsóknastigum á ári úr tilteknum flokkum matkerfisins (svonefndum aflstigum) eða sem nemur 30 heildarrannsóknastigum að meðaltali sl. 3 ár. Stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms er heimilt að víkja frá þessari kröfu þegar sérstaklega stendur á.
    • Til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur skulu aðilar sem leggja mat á doktorsverkefni, s.s. doktorsnefnd og andmælendur, ekki vera tengdir viðkomandi doktorsnema.

Efnisleg viðmið

  • Doktorsnemum  skal  boðið  upp á rannsóknar-  og vinnuaðstöðu sem er  fullnægjandi fyrir verkefni þeirra.
  • Doktorsnemum skal tryggður reglulegur aðgangur að leiðbeinendum.
  • Doktorsnemar skulu eiga þess kost að sitja vísindaráðstefnur og kynna verkefni sín þar.
  • Doktorsnemum skulu standa til boða reglubundnar málstofur og skipulegur vettvangur fyrir umræðu og kynningu á verkefnum sínum.

Kvörtunarferli og endurskoðun

  • Kvörtunarferli fyrir doktorsnema:
    • Doktorsnemi getur beint erindi til Miðstöðvar framhaldsnáms telji hann að viðkomandi  fræðasvið, deild eða námsleið fullnægi ekki  þessum viðmiðum og kröfum um gæði  doktorsnáms við Háskóla Íslands.
  • Endurskoðun:
    • Gæðanefnd háskólaráðs og stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms fjalla reglulega um þessi viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.
    • Endurskoða skal viðmiðin og kröfurnar eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra.

Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir kynninguna og gaf orðið laust. Málið var rætt ítarlega.

Deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar vakti máls á því að í byrjun apríl hefði starfshópur Vísinda- og tækniráðs lagt fram skýrslu með tillögum um einföldun á vísinda- og nýsköpunarkerfinu þar sem m.a. væri gerð tillaga um sjálfstæða miðstöð doktorsnáms utan Háskóla Íslands. Lýsti forsetinn furðu sinni yfir þessari ráðstöfun enda færi doktorsnám á Íslandi að langmestu leyti fram innan Háskóla Íslands og óskiljanlegt hvers vegna byggja ætti upp aðra miðstöð doktorsnáms til hliðar við þá sem nú þegar er starfrækt við Háskóla Íslands. Mikilvægt sé að Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands standi öðrum háskólum opin að því gefnu að þeir uppfylli settar gæðakröfur. Að endingu vék deildarforsetinn að ákvæði gæðaviðmiðanna um hámarksfjölda doktorsnema sem hver leiðbeinandi gæti haft umsjón með og sagði þetta ákvæði aðeins eiga að gilda um aðalleiðbeinendur.

Kjörinn fulltrúi Hugvísindasviðs lýsti ánægju með hin endurskoðuðu gæðaviðmið og sagði þau vera gagnlegt og vel unnið plagg. Taldi fulltrúinn sérstaklega mikilvægt að Háskóli Íslands fengi til sín bestu doktorsnemana og að skólinn gæti tryggt fjármögnun námsins. Þótt Eimskipafélagssjóðurinn hefði haft mjög góð áhrif í þessa veru væri vandinn sá að styrkirnir úr sjóðnum væru ekki nógu háir til að duga fyrir fullri framfærslu. Sagðist fulltrúinn sjálfur nýlega hafa sótt um styrk fyrir doktorsnema skv. svonefndri B-leið Eimskipafélagssjóðsins og hefði áhugasamur erlendur doktorsnemi næstum verið búinn að þiggja slíkan styrk þegar honum hefði boðist doktorsstyrkur frá Kaupmannahöfn sem næmi u.þ.b. tvöfaldri fjárhæð íslenska styrksins.

Kjörinn fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs lagði orð í belg varðandi áðurnefnt ákvæði um hámarksfjölda doktorsnema á hvern leiðbeinanda. Sagðist fulltrúinn vera aðalleiðbeinandi fimm doktorsnema auk þriggja meistaranema og að reynsla sín væri að þetta væri hæfilegur fjöldi. Einnig vék hann að ákvæðum gæðaviðmiðanna um mikilvægi góðrar aðstöðu til doktorsnámsins. Sagði hann koma til álita að fræðasviðum og deildum yrði gert skylt að halda til haga upplýsingum um innviði og aðstöðu, s.s. hversu miklu fé væri varið til aðstöðu fyrir doktorsnám og doktorsnema.

Aðstoðarrektor vísinda og kennslu og formaður gæðanefndar þakkaði fyrir góða umræðu og ábendingar. Um ábendingu fulltrúa Hugvísindasviðs um fjárhæð doktorsstyrkja sagði hann það vera óumdeilt að hækka þyrfti styrkina. Til dæmis væri ljóst að sumir styrkir Evrópusambandsins væru mun hærri en styrkir Eimskipafélagssjóðsins og skapaði það óæskilegt ójafnvægi. Vandinn væri hins vegar einfaldlega sá að meiri peninga vantaði í kerfið hér á landi til að geta staðið undir hærri styrkjum. Um ábendingu kjörins fulltrúa Heilbrigðisvísindasviðs um mögulega aðild annarra háskóla að Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands sagði aðstoðarrektor að í reglum um Miðstöðina væri einmitt gert ráð fyrir þessu og hefði innlendu háskólunum verið boðið til slíks samstarfs. Fyrir skömmu hefði fyrsti samningurinn af þessu tagi verið gerður við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Þetta gilti einnig um einstaka leiðbeinendur úr öðrum háskólum. Að lokum tók aðstoðarrektor undir með fulltrúa Heilbrigðisvísindasviðs og sagði það vera algjört lykilatriði að Miðstöð framhaldsnáms yrði við Háskóla Íslands.

Deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar þakkaði gæðanefnd fyrir góða vinnu við endurskoðun gæðaviðmiðanna. Tók deildarforsetinn undir með þeim sem áður höfðu tekið til máls og sagði afar mikilvægt að halda Miðstöð framhaldsnáms innan Háskóla Íslands. Taldi forsetinn hlutverk Miðstöðvarinnar ekki síst vera mikilvægt til að tryggja samræmdar gæðakröfur, þótt vissulega væri enn margt óunnið á því sviði. Um ákvæði nýju gæðaviðmiðanna um gerð námssamnings og árleg skil á námsframvinduskýrslum sagði deildarforsetinn slíkt fyrirkomulag hafa verið við lýði innan Félags- og mannvísindadeildar og að mikilvægt væri að það yrði að almennri reglu innan háskólans. Þá vék forsetinn að ákvæðinu um hámarksfjölda doktorsnema sem hver leiðbeinandi gæti haft umsjón með og sagði fjóra nemendur vera skynsamlega viðmiðun, þótt góð og gild rök gætu verið til að víkja frá henni í einstökum tilvikum. Loks vék deildarforsetinn að ákvæði í viðauka 3 með gæðaviðmiðunum, um að við upphaf doktorsnáms skyldi lögð fram áætlun um fjármögnun námsins. Þetta væri mjög æskilegt og eðlilegt að stefnt yrði að því að trygg fjármögnun yrði skilyrði fyrir því að nemendur gætu hafið doktorsnám við Háskóla Íslands.

Annar kjörinn fulltrúi Hugvísindasviðs gerði að umtalsefni þær kröfur til leiðbeinenda sem tilgreindar væru í gæðaviðmiðunum. Sagði fulltrúinn það vera skoðun sína að þegar allar kröfurnar væru taldar saman væru þær býsna þröngar og gætu hamlað vexti doktorsnámsins. Varpaði fulltrúinn fram þeirri spurningu hvort framgangskerfi akademískra starfsmanna gæti e.t.v. þjónað sama tilgangi, þannig að t.d. allir prófessorar teldust sjálfkrafa hæfir til að leiðbeina í doktorsnámi. Upptalning sérstakra hæfniskrafna til leiðbeinenda í gæðaviðmiðunum gæti virst fela í sér vantraust á starfsmenn og framgangskerfið. Nefndi fulltrúinn í þessu sambandi að þótt í erlendum háskólum væri að vísu sjaldgæft að nýráðnir kennarar væru leiðbeinendur í doktorsnámi, væri það sjaldnast ekki beinlínis bannað.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs sagðist vera mjög ánægður með plaggið. Tók hann undir með forseta Matvæla- og næringarfræðideildar og fleiri fulltrúum sem lagt hefðu orð í belg um að tillagan í skýrslu starfshóps Vísinda- og tækniráðs um sjálfstæða Miðstöð doktorsnáms utan Háskóla Íslands væri fráleit. Háskóli Íslands væri eini háskólinn á Íslandi sem hefði nauðsynlega breidd og nægan fjölda hæfra leiðbeinenda og stúdenta til að standa undir doktorsnámi. Því væri með öllu rakalaust að gera tillögu um að umsjón með náminu yrði færð frá skólanum. Þá tók fræðasviðsforsetinn undir með forseta Félags- og mannvísindadeildar um að tímabært væri að huga að því hvort gera ætti fyrirfram tryggða fjármögnun að skilyrði fyrir inntöku doktorsnema.

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs tók undir með fyrri fulltrúum sem kvatt höfðu sér hljóðs og sagði hugmyndina um Miðstöð doktorsnáms utan Háskóla Íslands vera fáránlega. Einnig taldi forsetinn það vera forgangsmál að auka fjármagn til framfærslu doktorsnema og bættrar námsaðstöðu.

Kjörinn fulltrúi Menntavísindasviðs sagði nýju gæðaviðmiðin vera gott plagg. Þó mætti huga betur að tvennu: Í fyrsta lagi ákvæðinu um fjölda doktorsnema sem hver leiðbeinandi gæti haft umsjón með og í öðru lagi ákvæðinu um hámarkslengd doktorsnáms. Varðandi fyrra atriðið sagði fulltrúinn einstaka leiðbeinendur geta sinnt fleiri en fjórum doktorsnemum ef t.d. sterkir meðleiðbeinendur kæmu við sögu, helst erlendis frá. Um síðarnefnda atriðið sagði fulltrúinn að gera þyrfti ráð fyrir því að eitt ár færi í undirbúning doktorsritgerðar og tvö ár í sjálfa ritgerðasmíðina.

Annar kjörinn fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði gæðanefnd fyrir mjög góða vinnu. Gæðaviðmiðin væru tímabært og þarft plagg og gott væri að heyra að Miðstöð framhaldsnáms væri að styrkjast í sessi. Sagði fulltrúinn reynslu sína sem leiðbeinandi hafa kennt sér að þrennt skipti höfuðmáli varðandi gæði doktorsnáms: Í fyrsta lagi gæði doktorsnemana sjálfra, í öðru lagi gæði leiðbeinendanna og í þriðja lagi gæði aðstöðunnar til námsins. Lykilatriði til að Háskóli Íslands gæti laðað til sín góða doktorsnema, t.d. í tilraunavísindum, væri að fyrir hendi væri góð aðstaða. Þetta væri sá þáttur sem héldi í núverandi nemendur og laðaði að nýja. Einnig skipti miklu máli samstarf við góða erlenda háskóla, en til að það tækist þyrfti Háskóli Íslands sjálfur að geta boðið góða aðstöðu.

Fulltrúi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og formaður Vísinda- og tækniráðs brást við framkominni gagnrýni á tillögu starfshóps ráðsins um stofnun sérstakrar Miðstöðvar doktorsnáms utan Háskóla Íslands. Sagði fulltrúinn tillögurnar nú vera í umsagnarferli og gæti Háskóli Íslands nýtt sér það til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í ljósi stærðar háskólans og umfangs doktorsnáms við hann gætu sjónarmið hans haft afgerandi áhrif á endanlegar tillögur. Mikilvægt væri að Háskóli Íslands kæmi fram sem sameiningarafl sem byði öðrum háskólum, rannsóknastofnunum og hagsmunaaðilum til samstarfs um Miðstöð framhaldsnáms. Vísinda- og tækniráð þyrfti að ná samstöðu um sem bestar tillögur fyrir íslenskt vísindasamfélag í heild. Sagði fulltrúinn það vera brýnt að efla fjármögnun doktorsnámsins, en styrkjakerfi Háskóla Íslands stæði aðeins undir fjármögnun um 150-200 doktorsnema af þeim 500 nemendum sem nú væru í doktorsnámi við skólann. Þessu gati þyrfti að loka.

Forseti Félagsvísindasviðs sagði framlögð endurskoðuð gæðaviðmið vera mikilvægan áfanga á þeirri leið að koma doktorsnámi við háskólann í fastan farveg og að tryggja enn betur gæði námsins. Um tillögur Vísinda- og tækniráðs sagði fræðasviðsforsetinn að sú hugmynd að færa Miðstöð doktorsnáms út fyrir Háskóla Íslands væri fullkomlega galin og að hún vekti hjá sér áhyggjur af þróun mála innan Vísinda- og tækniráðs. Tillögurnar væri settar fram eins og hér á landi væri starfræktir sjö fullburða háskólar sem allir væru jafn réttháir. Með þessu væri verið að festa í sessi þá hugmynd að hér á landi yrðu til frambúðar margir rannsóknaháskólar og til viðbótar ætti að setja yfir háskólana stofnanir á borð við Vísinda- og tækniráð og Rannís sem einhverskonar yfirstjórn háskólanna. Þessar hugmyndir væru á villigötum og þyrfti Háskóli Íslands að koma að þessari umræðu af krafti.

Deildarforseti Lagadeildar gerði tvö efnisatriði gæðaviðmiðanna að umtalsefni, þ.e. í fyrsta lagi ákvæðið um námssamning, sbr. viðauka 3, og í öðru lagi ákvæðin um kröfur til leiðbeinenda. Varðandi fyrra atriðið sagði deildarforsetinn það hafa verið vaxandi tilhneiging í íslenskri stjórnsýslu að samningsbinda tengsl stofnana og einstaklinga. Sagði hann í þessu felast hugsunarvilla því t.d. nemendur við Háskóla Íslands lytu reglum skólans og um það væri ekki hægt að semja. Til að geta samið þyrfti að hafa forræði um það sem samið væri um – en um það væri ekki að ræða hér. Um síðarnefnda atriðið sagði forsetinn að það hlyti að vera útgangspunktur að prófessorar við Háskóla Íslands teldust hæfir til að vera leiðbeinendur. Þetta mætti ekki vera afstæður mælikvarði, t.d. með því að sumir prófessorar teldust hæfir en aðrir ekki. Að öðrum kosti fælist í þessu viðurkenning á veikleika framgangskerfisins. Svo tekið væri dæmi af lögfræði þá væri óvíða í heiminum gerð krafa um að leiðbeinendur í doktorsnámi væru sjálfir með doktorspróf heldur teldist það vanalega næg gæðatrygging að þeir væru prófessorar. Í því fælist viðurkenningin sem máli skipti.

Deildarforseti Jarðvísindadeildar sagði það vera skoðun sína að óþarft væri að gera kröfur um rannsóknaafköst til prófessora til þess að þeir gætu talist hæfir sem leiðbeinendur. Betra væri að meta hæfið gegnum styrkjakerfið, þannig að ef viðkomandi prófessor stæðist ekki kröfur fengi hann ekki styrk fyrir nemandann. Varðandi samninga við aðra innlenda háskóla um aðild að Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands sagði deildarforsetinn að leysa þyrfti þann vanda að kennarar við þessa skóla hefðu ekki farið gegnum framgangskerfi Háskóla Íslands. Um títtnefndar tillögur Vísinda- og tækniráðs sagði forseti Jarðvísindadeildar að aðeins háskólar hefðu heimild til að brautskrá doktora og það væri fráleitt að t.d. forstöðumenn rannsóknastofnana gætu fengið forræði um slíkt. Einnig bæri að hafa í huga að við þessar stofnanir væri akademíski þátturinn ekki alltaf í forgrunni. Forræði yfir doktorsnámi þyrfti því alltaf að vera innan akademískrar stofnunar, þ.e. í háskóla. Þetta kæmi þó ekki í veg fyrir skynsamlega nýtingu og aðkomu annarra stofnana, en námið þyrfti í öllu falli að vera á forsendum háskóla sem stæðust faglegar kröfur og þar sem fyrir hendi væru akademískir innviðir.

Aðstoðarrektor þakkaði fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar umræður. Um framkomnar athugasemdir um hvort framgangskerfi háskólans tryggði ekki nægilega vel gæði leiðbeinenda sagðist hann í grundvallaratriðum sammála, en hafa þyrfti í huga að ekki væri eingöngu um að ræða þá sem hefðu farið gegnum framgangskerfi háskólans. Einnig þyrfti að horfa til þess að hlutverk gæðaviðmiðanna væri m.a. að verja hagsmuni nemenda, t.d. ef í hlut ætti kennari sem hefði verið óvirkur í rannsóknum í lengri tíma. Koma þyrfti í veg fyrir t.d. að nemandi lyki ekki námi vegna þess að leiðbeinandi hans væri óvirkur í vísindum. Um mögulega aðild annarra innlendra háskóla að Miðstöð framhaldsnáms sagði aðstoðarrektor að gæðaviðmiðunum væri m.a. ætlað að tryggja að kennarar við þessa skóla, sem sannanlega væru virkir og mikilhæfir vísindamenn, gætu verið leiðbeinendur, hvort sem þeir væru prófessorar eða ekki. Um ákvæðið um námssamninginn sagði hann að ætlunin væri ekki að semja um eitthvað sem í eðli sínu væri óumsemjanlegt heldur að hnykkja á gildandi reglum til að tryggja öryggi bæði nemandans og leiðbeinandans. Varðandi framkomnar athugasemdir um það, hvort gera ætti kröfu um að fjármögnun væri tryggð frá upphafi, sagði aðstoðarrektor að þótt slíkt væri æskilegt til lengri tíma litið þyrfti að hafa í huga að doktorsnámið væri enn tiltölulega ungt við Háskóla Íslands og ætti eflaust enn eftir að þroskast frekar. Minnti hann í þessu sambandi á að fyrir aðeins nokkrum árum voru aðeins örfáir doktorsstyrkir í boði. Endurskoðun gildandi Viðmiða og krafna um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands væri mikilvægur áfangi í þessu ferli og aðalatriðið væri að halda áfram að stefna hátt og hvika ekki frá settu marki. Um gæði doktorsnámsins sagði aðstoðarrektor að námið væri á forræði deildanna og endanleg ábyrgð á tryggingu faglegra gæða væri því hjá þeim. Loks sagði aðstoðarrektor að Háskóli Íslands myndi veita umsögn um tillögur  Vísinda- og tækniráðs og myndi þá m.a. koma á framfæri andmælum við hugmyndina um stofnun sérstakrar Miðstöðvar doktorsnáms utan Háskóla Íslands.

Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að háskólaráði yrði falið að ganga frá fyrirliggjandi drögum að endurskoðuðum Viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, að teknu tilliti til framkominna athugasemda og umræðna á vettvangi fræðasviðsforseta.

Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Jóns Atla Benediktssonar, þau Inga Þórsdóttir, Torfi Tulinius, Már Másson, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Guðrún Þórhallsdóttir, Sigurður Guðmundsson, Kristín Vala Ragnarsdóttir, Allyson Macdonald, Elín Soffía Ólafsdóttir, Guðrún Nordal, Ólafur Þ. Harðarson, Róbert R. Spanó og Magnús Tumi Guðmundsson.

Kl. 14.20-14.40 - Dagskrárliður 3: Tilnefning þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2012 til 30. júní 2014

Rektor bar upp tillögu um að Kristínu Helgu Markúsdóttur, lögfræðingi starfsmannasviðs, yrði falið að hafa umsjón með kosningunni og að Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri, yrðu henni til aðstoðar.

Samþykkt einróma.

Kristín Helga byrjaði á því að fara yfir hvernig staðið væri að framkvæmd kosningarinnar. Í 6. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 væri kveðið á um skipan háskólaráðs í háskóla þar sem eru fleiri en 5.000 nemendur. Þar kæmi fram að auk rektors ættu sæti í ráðinu tíu fulltrúar, tilnefndir til tveggja ára í senn:

  1. Þrír fulltrúar háskólasamfélagsins tilnefndir af háskólafundi [háskólaþingi í HÍ].
  2. Tveir fulltrúar tilnefndir af heildarsamtökum nemenda við háskólann.
  3. Tveir fulltrúar tilnefndir af mennta- og menningarmálaráðherra.
  4. Þrír fulltrúar tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Í 3. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 væri kveðið á um hvernig staðið skuli að tilnefningu og kjöri fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands. Tilnefning fulltrúanna þriggja og þriggja varamanna fyrir tímabilið 1. júlí 2012 til 30. júní 2014 færi fram á þessu háskólaþingi.

Í samræmi við reglurnar hefði verið auglýst eftir ábendingum og framboðum um fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð. Alls hefðu borist 7 framboð. Allir frambjóðendur uppfylltu skilyrði 3. gr. reglnanna um að þeir skyldu vera akademískir starfsmenn Háskóla Íslands í fullu starfi (a.m.k. 75% starfshlutfalli), en þó hvorki forseti fræðasviðs, deildarforseti eða varadeildarforseti. Gögn um starfsvettvang frambjóðenda og stutt lýsing starfsferils þeirra hefðu verið send út með fundarboði og gert væri ráð fyrir að þingfulltrúar hefðu kynnt sér þau.

Í framboði væru:

  1. Börkur Hansen, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs (hann hefur setið sem fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði sl. tvö ár).
  2. Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði- vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
  3. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs.
  4. Eyvindur G. Gunnarsson, dósent við Lagadeild Félagsvísindasviðs.
  5. Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
  6. Hákon Hrafn Sigurðsson, dósent við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs (hann hefur verið varafulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði sl. tvö ár).
  7. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við Hagfræðideild Félagsvísindasviðs (hún hefur setið sem fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði sl. tvö ár).

Kosningin færi þannig fram:

  • Dreift yrði kjörseðlum til þeirra sem hefðu atkvæðisrétt.
  • Á kjörseðlinum væru nöfn þeirra sem kosið væri um í stafrófsröð.
  • Hver atkvæðisbær fulltrúi greiddi skriflega atkvæði sitt með þremur (og aðeins þremur) frambjóðendum, en að öðrum kosti væri atkvæðaseðillinn ógildur.
  • Atkvæðisbærir væru:
    • Rektor.
    • Forsetar fræðasviða og staðgenglar þeirra.
    • Deildarforsetar.
    • Fulltrúar kjörnir af fræðasviðum.
    • Tveir fulltrúar samtaka háskólakennara.
    • Tveir fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu.
    • Fulltrúar eftirtalinna stofnana, einn fyrir hverja stofnun: Landspítali, Landsbókasafn-háskólabókasafn, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Raunvísindastofnun Háskólans og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Stúdentar hefðu ekki atkvæðisrétt í þessari kosningu, þar sem þeir hefðu nú þegar kosið sérstaklega sína tvo fulltrúa í háskólaráði.

Með atkvæðisrétt færu samtals 68 fulltrúar.

Þegar atkvæði hefðu verið talin skyldi sá sem flest atkvæði hlyti í kjörinu tilnefndur sem fulltrúi í háskólaráð. Jafnframt skyldi sá tilnefndur sem hlyti næstflest atkvæði og væri áskilið að hann væri starfandi á öðru fræðasviði en sá sem flest atkvæði hlyti. Þriðji fulltrúi háskólasamfélagsins skyldi vera sá sem flest atkvæði hlytir á háskólaþingi að hinum tveimur frátöldum og væri jafnframt starfandi á öðru fræðasviði en hinir tveir. Varamenn fulltrúanna þriggja væru þeir þrír sem hlotið hefðu flest atkvæði að tilnefndum fulltrúum frátöldum. Sá varamaður sem flest atkvæði hlyti væri varamaður þess tilnefnds fulltrúa sem flest atkvæði hefði fengið, annar væri varamaður annars aðalmanns og þriðji væri varamaður þriðja aðalmanns. Ef atkvæði yrðu jöfn í vali á milli manna skyldi hlutkesti ráða. Tilnefning væri bindandi og viðkomandi skylt að taka tilnefningu til setu í háskólaráði til tveggja ára.

Að kosningu lokinni yrði lesin upp röð frambjóðenda eftir atkvæðafjölda.

Spurði Kristín Helga hvort einhver gerði athugasemd við það verklag á kosningunni sem hér hefði verið lýst. Engin gerði athugasemd og var þá gengið til kosningar.  Greindi Kristín Helga frá því að við dyrnar á Hátíðasal stæði kjörkassi og skyldi útfylltum kjörseðlum stungið í hann. Í framhaldinu yrði gert stutt kaffihlé á meðan atkvæði yrðu talin.

Kl. 14.40-15.00 - kaffihlé

Kl. 15.00-15.05 - Dagskrárliður 3 (frh.): Niðurstaða kjörs þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa í háskólaráð

Að loknu kaffihléi, þegar atkvæði höfðu verið talin, las Kristín Helga Markúsdóttir upp niðurstöðu kosningarinnar.

  • Atkvæðisrétt höfðu 68 fulltrúar á háskólaþingi.
  • Atkvæði greiddu 68 fulltrúar.
  • Auðir og ógildir kjörseðlar voru 0.
  • Gildir kjörseðlar voru 68.

Flest atkvæði hlaut Tinna Laufey Ásgeirsdóttir (39) og yrði hún því aðalmaður í háskólaráði.

Næstflest atkvæði hlaut Börkur Hansen (34) og yrði hann því aðalmaður í háskólaráði.

Þriðju flestu atkvæði hlaut Ebba Þóra Hvannberg (33) yrði hún því aðalmaður í háskólaráði.

Fjórði í atkvæðagreiðslunni varð Eiríkur Rögnvaldsson og yrði hann því varamaður fyrir þann sem flest atkvæði hlaut.

Fimmti í atkvæðagreiðslunni varð Hákon Hrafn Sigurðsson og yrði hann því varamaður fyrir þann sem næstflest atkvæði hlaut.

Sjötti í atkvæðagreiðslunni varð Eyvindur G. Gunnarsson og yrði hann því varamaður fyrir þann sem þriðju flest atkvæði hlaut.

Sjöundi í atkvæðagreiðslunni varð Gísli Már Gíslason og yrði hann því hvorki varamaður né aðalmaður.

Lýsti Kristín Helga þá loknu kjöri fulltrúa og varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2012 til 30. júní 2014.

Klöppuðu fundarmenn fyrir hinu nýkjörnu fulltrúum háskólasamfélagsins í háskólaráði Háskóla Íslands.

Kl. 15.05-16.00 - Dagskrárliður 4: Viðhorf nemenda til náms við Háskóla Íslands

Magnús Diðrik Baldursson gerði stuttlega grein fyrir forsendum málsins.

Forsendur

  • Alþjóðleg þróun:
    • Aukin áhersla á nemendamiðað nám og kennslu.
    • Aukin áhersla, m.a. á vettvangi EUA, á að háskólar fylgist með afdrifum brautskráðra nemenda.
  • Stefna Háskóla Íslands 2011-2016:
    • Allar deildir og fræðasvið marki sér skýra kennslustefnu.
    • Fylgst verði reglubundið með afdrifum brautskráðra nemenda í frekara námi og starfi.
  • Áætlun gæðaráðs háskóla (e. Quality Board):
    • Rammaáætlun um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi (e. Icelandic Quality Enhancement Framework, QEF).
    • Lýst í handbók gæðaráðsins (e. Quality Enhancement Handbook for Icelandic Higher Education).
    • Gerir m.a. ráð fyrir reglubundnu sjálfsmati allra deilda og þverfræðilegra námsleiða á fimm ára fresti.
    • Heildarmat á háskólum á fimm ára fresti.

Nemendamiðað nám og kennsla

  • Áhersla á að kennslustefna og sjálfsmat deilda endurspegli reynslu og sjónarmið núverandi og fyrrverandi nemenda til náms og kennslu.
  • Deildir afli með skipulegum og reglubundnum hætti upplýsinga og gagna um námsgengi, viðhorf og afdrif nemenda.
    • M.a. með kennslukönnunum, viðhorfskönnunum, rýnifundum, virkri aðkomu nemenda að stjórnun o.fl.
  • Upplýsingar verði nýttar með skipulegum hætti í umbóta- og gæðastarfi.

Viðhorfskannanir

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands falið að framkvæma fimm kannanir á vormisseri 2012:

  1. Viðhorfskönnun meðal nemenda á 2. ári í grunnnámi:
    • Byggð á National Student Survey (UK).
    • Bætt við nokkrum spurningum um valda þætti úr Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016.
  2. Hliðstæð könnun meðal meistaranema.
  3. Hliðstæð könnun meðal doktorsnema.
  4. Könnun meðal brautskráðra nemenda.
    • Byggð á Destinations of Leavers from Higher Education (UK).
    • Lögð fyrir 1 ½  ári eftir námslok við Háskóla Íslands.
  5. Könnun á nýtingu og gagnsemi margvíslegrar stoðþjónustu við nemendur (í vinnslu).

Kynning

  • Verðmæt gögn sem mikilvægt er að nýta í þágu gæðastarfs Háskóla Íslands.
  • Stefnt að því að endurtaka kannanirnar með reglubundnum hætti.
  • Spurningar og vinnuferli endurskoðað eftir ástæðum.
  • Hér á eftir kynntar nokkrar niðurstöður – nánari niðurstöður hafa verið sendar stjórnendum fræðasviða, deilda og þverfræðilegra námsleiða.

Þá gerði Auður Magndís Leiknisdóttir, verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun, grein fyrir nokkrum niðurstöðum kannananna.

Framkvæmd

Framkvæmd
Nemar Fjöldi í þýði/úrtaki Svarhlutfall
Grunnnemar 1732 61%
Meistaranemar 1942 66%
Doktorsnemar 499 67%
Útskrifaðir 1963 66%
  • Net- og símakönnun.
  • Framkvæmd í janúar og febrúar 2012.

Á heildina litið er ég ánægð/ur með námið

Súlurit: Ánægja með námið

2. árs grunnnemar: Námið er krefjandi

Súlurit: Námið er krefjandi

2. árs grunnnemar: Kennsluhættir eru fjölbreyttir

Súlurit: Kennsluþættir eru fjölbreyttir

2. árs grunnnemar: Framboð á námskeiðum er fullnægjandi

Súlurit: Framboð á námskeiðum er fullægjandi

2. árs grunnnemar: Ég hef fengið næga ráðgjöf og stuðning í námi mínu

Súlurit: Ég hef fengið næga ráðgjöf og stuðning í námi mínu

2. árs grunnnemar: Námið hefur eflt vitund mína um samfélagslega ábyrgð mína

Súlurit: Námið hefur eflt vitund mína um samfélagslega ábyrgð mína

2. árs grunnnemar: Námið hefur eflt vitund mína um jafnréttismál

Súlurit: Námið hefur eflt vitund mína um jafnréttismál

2. árs grunnnemar: Þegar á heildina er lítið er ég ánægð/ur með námið

Súlurit: Þegar á heildina er lítið er ég ánægð/ur með námið

2. árs grunnnemar: Ánægð/ur með námið: Mjög/frekar sammála

Súlurit: Ánægð/ur með námið: Mjög/frekar sammála

2. árs grunnnemar: Endurtekin stef úr svörum við opnum spurningum

  • „Meira samræmi mætti vera milli einingafjölda og vinnuálags námskeiða“.
  • „Leggja meiri metnað í fjarnámið. Fullt af tækifærum sem liggja þar“.
  • „Bæta mætti námsaðstöðu fyrir hópavinnu“.
  • Betra skipulag á stundatöflu, námskeiðaframboði og prófadagsetningum.

Brautskráðir 2010: Mánaðarleg laun f. skatta í aðalstarfi (uppreiknað í 40 stundir)

Súlurit: Mánaðarleg laun fyrir skatta í aðalstarfi (uppreiknað í 40 stundir)

Brautskráðir 2010: Hafa hugleitt að fá sér vinnu erlendis eftir brautskráningu

Súlurit: Hafa hugleitt að fá sér vinnu erlendis eftir brautskráningu

Brautskráðir 2010: Ég fékk næga ráðgjöf og stuðning í námi mínu

Súlurit: Ég fékk næga ráðgjöf og stuðning í námi mínu

Brautskráðir 2010: Á heildina litið er ég ánægð/ur með námið

Súlurit: Á heildina litið er ég ánægð/ur með námið

Brautskráðir 2010: Endurtekin stef úr svörum við opnum spurningum

  • „Taka mark á mati nemenda á frammistöðu kennara“.
  • „Sveigjanlegri kennsluhættir, meiri örvun til sjálfstæðrar hugsunar“.
  • „Skipuleggja fjarnám þannig að það verði markvissara og þá sérstaklega staðlotur“.
  • „Meiri samskipti og upplýsingar. Maður þurfti að leita að öllu sjálfur“.

Rektor þakkaði Auði Magndísi fyrir kynninguna og gaf orðið laust.

Fulltrúi í háskólaráði skipaður af ráðinu varpaði fram þeirri spurningu hvort niðurstöður viðhorfskönnunarinnar meðal nemenda á 2. ári í grunnnámi hafi verið bornar saman við niðurstöður hliðstæðrar könnunar í Bretlandi.

Auður Magndís svaraði því að það hefði ekki verið gert, en benti á að niðurstöður bresku könnunarinnar væru aðgengilegar á vefnum.

Forseti Lyfjafræðideildar vakti máls á því að þegar um fámennar deildir væri að ræða væru gögn sem þessi lítt tölfræðilega marktæk. Í slíkum tilvikum gæti því verið áhugaverðara að lesa svörin við opnu spurningunum. Spurði deildarforsetinn hvort niðurstöður yrðu sendar deildum.

Auður Magndís svaraði því að niðurstöðurnar yrðu senda öllum deildum og bætti því við að þegar um fámennar deildir væri að ræða hefði ekki verið tekið úrtak heldur spurningalistarnir lagðir fyrir alla nemendur.

Formaður Stúdentaráðs lýsti ánægju sinni með það framtak að efna til svo víðtækrar upplýsingaöflunar um viðhorf nemenda til náms við Háskóla Íslands. Sagði hún margt ánægjulegt vera að gerast innan háskólans varðandi málefni náms og kennslu og áberandi hvað mikil rækt væri lögð við að hlýða á sjónarmið nemenda og nýta þau í gæðastarfi. Nefndi hún í því sambandi m.a. fjölsótta ráðstefnu um kennslumál sem Stúdentaráð, kennslumálanefnd og gæðastjóri stóðu sameiginlega að í janúar sl. og ríka áherslu á þátttöku stúdenta í sjálfsmati allra deilda í tengslum við áætlun nýs gæðaráðs háskóla, auk þess sem Stefna Háskóla Íslands 2011-2016 kvæði á um margvísleg framfaramál á sviði náms og kennslu. Sagði formaðurinn nemendur mjög fúsa til að taka þátt í þessu starfi.

Deildarforseti Íslensku- og menningardeildar greindi frá því að deildin væri nú í miðju sjálfsmatsferli og hefði haft mikið gagn og ánægju af þessum viðhorfskönnunum þar sem komið væri inn á mjög marga þætti náms og kennslu. Hins vegar væri það svo að stundum vörpuðu svörin upp spurningum frekar en að svara þeim. Loks spurði deildarforsetinn, hvers vegna farin hefði verið sú leið að leggja spurningalistann fyrir brautskráðu nemendurna 1 ½ ári eftir brautskráningu, en ekki að lengri tíma liðnum.

Gæðastjóri svaraði því að mikilvægt væri að fylgja könnunum eftir með því að grafast fyrir um þau sjónarmið sem lægju að baki svörum nemenda. Þetta mætti gera með ýmsum hætti, s.s. með fundum með nemendum, með rýnihópum, með því að efna til heimskaffifunda o.s.frv. Deildir sem farið hefðu í sjálfsmat hefðu nú þegar reynt ýmsar leiðir í þessu efnum og hefði það skilað góðum árangri og laðað fram gagnlegar hugmyndir um úrbætur þar sem við á. Þá sagði hann mikið hafa verið rætt um hvenær heppilegast væri að leggja spurningalistann fyrir brautskráða nemendur og sitt sýndist hverjum í því efni. Niðurstaðan hefði verið að leggja spurningalistann fyrir 1 ½ ári eftir brautskráningu, en sjálfsagt væri að endurskoða það ef ástæða væri til.

Deildarforseti Viðskiptafræðideildar lagði áherslu á að mikilvægt væri að endurtaka þessar viðhorfskannanir árlega til að fá samanburðartölur og geta fylgst með þróun mála. Varðandi gæði náms og kennslu sagði deildarforsetinn sérlega mikilvægt að auka fjölbreytni kennsluhátta og fjölbreytni í námsmati. Viðskiptafræðideild hefði ákveðið að fá Kennslumiðstöð háskólans í lið mér sér til að skipuleggja rýnihópa einmitt um þessa þætti. Hvatti deildarforsetinn aðrar deildir til að gera slíkt hið sama. Að lokum sagði forseti Viðskiptafræðideildar það vera gott ráð til að auka námsánægju nemenda að innleiða lotukennslu sem víðast í háskólanum. Þetta myndi ekki aðeins glæða áhuga nemenda og draga úr brottfalli heldur væri lotufyrirkomulagið enn fremur til þess fallið að auka rannsóknavirkni kennara því það gerði þeim kleift að helga sig alfarið rannsóknum í eitt misseri af fjórum.

Fulltrúi stúdenta tók undir með forseta Viðskiptafræðideildar og hvatti til þess að lotufyrirkomulag yrðu almennt tekið upp við Háskóla Íslands. Þá vék stúdentafulltrúinn almennt að gæðamálum kennslu og sagði það miður að við röðun bestu háskóla heims skv. matslistum á borð við Times Higher Education væri að mestu leyti byggt á rannsóknavirkni en í minna mæli á kennslugæðum. Taldi hann að þótt Háskóli Íslands hefði nýverið komist inn á lista yfir 300 bestu háskóla heims ætti skólinn nokkuð í land með að teljast í fremstu röð á sviði kennslu. Ýmsa þætti mætti bæta, s.s. að auka fjölbreytni námsmats, en töluvert væri enn um 100% próf við háskólann. Þetta gerði að verkum að nemendur eyddu óþarflega miklum tíma í að læra gömul próf.

Formaður Stúdentaráðs tók undir með forseta Viðskiptafræðideildar og fulltrúa stúdenta og sagði endurgjöf kennara skipta skipta nemendur miklu máli, þ.e. að þeir útskýrðu fyrir nemendum hvað lægi til grundvallar námsmatinu og gæfu nemendum þannig dýrmæta leiðbeiningu.

Forseti Félags- og mannvísindadeildar lýsti ánægju með að ráðist hefði verið í framangreindar viðhorfskannanir og tók undir þá skoðun að miklu skipti að þær yrðu endurteknar reglulega, helst á hverju ári. Sagði deildarforsetinn að Félags- og mannvísindadeild færi í gæðaúttekt á árinu 2013 og væri deildin nú þegar byrjuð að skoða og greina niðurstöður kannananna. Fyrstu niðurstöður sýndu að þótt nemendur væru almennt ánægðir með gæði námsins væru þó veikleikar á einstökum sviðum, s.s. varðandi fjölbreytni kennsluhátta. Ætti þetta sérstaklega við um þær deildir sem væru í lágum reikniflokki.

Annar fulltrúi stúdenta tók undir með fyrri fundarmönnum og sagði niðurstöður kannananna afar athyglisverðar. Spurði hann hvort niðurstöðurnar yrðu birtar á vef Háskólans.

Gæðastjóri svaraði því að ekki hefði verið tekin ákvörðun um birtingu gagnanna utan háskólans, en fyrir lægi að þeim yrði dreift innan skólans og hvatt til sem víðtækastrar umræðu um þau til að gögnin gætu nýst sem best í gæðastarfi háskólans.

Fulltrúi í háskólaráði gerði að umtalsefni endurgjöf til nemenda. Sagði fulltrúinn mikla áherslu lagða á þennan þátt í hugvísindunum og því væri það stundum sárt að sjá hve margir nemendur hirtu ekki um að sækja yfirfarin verkefni og úrlausnir. Til að bregðast við þessu hefði fulltrúinn brugðið á það ráð að spyrja nemendur sína fyrirfram hverjir hygðust sækja ritgerðir sínar og hefði þetta fljótlega leitt til þess að engin ritgerð hefði legið eftir ósótt.

Formaður jafnréttisnefndar sagði að upplýsingar um tekjur brautskráðra nemenda sýndu að strax 1 ½ ári eftir brautskráningu væri kominn fram marktækur kynbundinn launamunur. Mikilvægt væri að vinna markvisst gegn þessu, m.a. með því að samþætta betur kynjasjónarmið og nýta önnur úrræði sem fyrir hendi væru. Greindi formaðurinn frá því að á vegum jafnréttisnefndar væri verið að vinna rannsóknaverkefni um þessi mál, þ. á m. um kynbundinn launamun. Einnig væri í undirbúningi á vegum jafnréttisnefndar rannsókn á þekkingu um jafnrétti og kynjasamþættingu.

Kjörinn fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs varpaði fram þeirri spurningu hvort mögulegt væri að flokka niðurstöður viðhorfskannananna eftir frammistöðu nemenda, t.d. með því að flokka þá í þrjá hópa, góða nemendur, miðlungsgóða og laka nemendur.

Þriðji fulltrúi stúdenta sem tók til máls undir þessum lið vék stuttlega að nokkrum gæðamálum náms og kennslu, s.s. rökstuðningi fyrir einkunnagjöf, lotukerfi og sjúkra- og upptökuprófum. Sagði stúdentinn litla ánægju meðal nemenda sem féllu eða þyrftu að fara í sjúkrapróf um jól að eiga þess ekki kost að endurtaka þau fyrir en um vorið.

Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs ræddi um tölfræðilegar aðferðir við spurningakannanir. Sagði hann almennar ánægjuspurningar geta verið varasamar og stundum væri gagnlegra að spyrja hlutlægra spurninga. Til að komast að gæðum matar væri t.d. gagnlegra að spyrja hversu oft viðkomandi hefði fengið matareitrun í síðustu viku frekar en að spyrja hversu ánægður hann væri með matinn.

Auður Magndís sagði í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að greina svör nemenda út frá námsárangri, en það myndi kosta tíma, vinnu og peninga og spurning hvað háskólinn vildi leggja í miklar viðbótargreiningar á gögnunum.

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs brást við athugasemd fulltrúa stúdenta um sjúkrapróf og sagði að áður hefði það verið viðtekið að efna til sjúkraprófa skömmu eftir jólapróf, en reyndin hefði verið sú að margir nemendur hefðu (mis)notað þetta fyrirkomulag til að fá lengri prófundirbúning. Í sumum tilvikum hefði komið fyrir að 100% nemendahópsins í einstökum námskeiðum hefði lagt fram veikindavottorð.

Til máls tóku undir þessum lið, auk þeirra Auðar Magndísar og Magnúsar Diðriks, Már Másson, Sara Sigurðardóttir, Dagný Kristjánsdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Jökull Viðar Gunnarsson, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Janus Arn Guðmundsson, Anna Agnarsdóttir, Hrefna Friðriksdóttir, Elín Soffía Ólafsdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Helgi Tómasson og Kristín Vala Ragnarsdóttir.

Að endingu þakkaði rektor fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar og málefnalegar umræður. Sleit rektor háskólaþingi og bauð fundarmönnum að þiggja hressingu í anddyri Hátíðasalar.

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 8. háskólaþingi 18. apríl 2012:

  1. Dagskrá og tímaáætlun 8. háskólaþings 18. apríl 2012.
  2. Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
  3. Fundargerð 7. háskólaþings 9. desember 2011.
  4. Drög að endurskoðuðum Viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, dags. 29. mars 2012.
  5. Tilnefning þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.7.2012-30.6.2014. Kynning á framboðum og tilnefningum.