Skip to main content
13. maí 2024

„Sá ókunnugi er bara vinur sem þú hefur ekki hitt enn þá“

„Sá ókunnugi er bara vinur sem þú hefur ekki hitt enn þá“ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Steinunn Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi, er að ljúka námi í jákvæðri sálfræði. Hún var á tímamótum í lífinu þegar hún hóf námið og segir það hafa verið kærkomið enda lífsbætandi nám í hæsta gæðaflokki. Hugmynd hennar að lokaverkefninu Tengivagninum á sér nokkra skemmtilega anga. Við ræddum við Steinunni um það og upplifun hennar af náminu.

„Þessi hugmynd kom til mín með svo miklum látum að ég varð bara að vinna úr henni. Bestu hugmyndirnar eru oft þær sem koma þannig og vilja taka pláss,“ segir Steinunn og útskýrir að það hafi blundað innra með henni þörf til að búa til skapandi vettvang til að efla félagsleg tengsl milli fólks sem hefur ekki endilega hist áður og draga úr einmanaleika.

Ein kveikjan að hugmyndinni var bókasafn í Finnlandi þar sem hægt er að fá lánaða manneskju í stað bókar og þar talar bókin og lesandinn hlustar. „Mig langaði að útfæra það meira út í að bæði deila sögum. Minnka einmanaleika og fordóma og auka skilning, virðingu og samhygð. Ávinningalistinn er svo langur. Svo var mér hugsað til aldraðrar frænku sem ég ólst upp með, kölluð Anna systir, sem tók alltaf leið eitt (hringferðina) með strætó – bara til að hitta fólk. Hún var langt á undan sinni samtíð.“

Steinunn segir að í Bretlandi séu gerðar rannsóknir á því hvaða áhrif það hefur á fólk að tala við ókunnuga sem það er með í lest, strætó eða leigubíl og þar sé búið að stofna embætti einmana-ráðherra sem ætti eiginlega að heita ráðherra félagslegra tengsla. „Þessi ráðherra kom á fót Chatty Bus Day þar sem áherslan er á að spjalla við ókunnuga. Svo er til nokkuð sem heitir Greyhound Therapy, en þar var um að ræða konu sem tók rútuna og gerði rannsókn á sjálfri sér með hvaða áhrif það hefði á hana að tala við ókunnuga. Það er eitthvað við þetta að vera á ferð sem ég held að hafi góð áhrif.“

Leigði ísbíl í Boston

Enn einn innblásturinn var reynsla Steinunnar af því að leigja ísbíl í Boston þegar hún var þar í tónlistarnámi. „Eitt sumarið tók ég þá ákvörðun að leigja ísbíl og selja ís. Lærði af því heilmikið um rekstur og verðlag og sú þekking hjálpaði mér eflaust í viðskiptum seinna meir. Ég var með vöruna á hærra verði þar sem fólk hefur meira á milli handanna og lækkaði hana í fátækari hverfum.“

Svo kom hugljómunin þegar Steinunn sá mynd af Gusunni (ferðagufunni) og upp spratt hugmyndin um Tengivagninn. „Vegna þess að ég hef metnað til á að fara alla leið með mínar hugmyndir þá var ég farin að fá nettan hnút í magann yfir því að þurfa að kaupa hjólhýsi, innrétta það og fá mér meirapróf!“ segir Steinunn og hlær. Hún vissi þó að hún myndi útfæra þetta á sinn hátt og gera hana raunhæfa.

Gestrisnin mest þar sem fólk hefur það verst

Það er örlítið alvarlegur undirtónn í annars jákvæðri hugmynd Steinunnar. „Ég las rannsókn um það að þjóðirnar sem hafa það best og mælast hamingjusamastar, minnsta spilling, kerfið virkar og traust á stjórnvöldum o.s.frv., sem eru Norðurlandaþjóðirnar, þar er fólk minna gestrisið en í löndum þar sem allt er á hvolfi. Líklega vegna þess að þar þarftu mögulega á því að halda að ókunnuga manneskjan verði vinur þinn og veist aldrei hvenær þú þarft á þeim stuðningi að halda. Í þeim löndum þar sem mest er í ólagi tekur fólk best á móti gestum. Þeir sem þurfa á ókunnugum að halda koma vel fram við alla.“

Steinunn tekur fram að auðvitað eigi ekki að þurfa það til. Það eigi bara að vera hluti af okkar mennsku og hegðun að koma vel fram við aðra. „Í Arabalöndum er mjög mikil innbyggð gestrisni og það er hluti af þeirra reisn og sjálfsvirðingu. Og það eru þessi fjölskyldugildi sem hafa áhrif á tengsl, samskipti og þannig á vellíðan. Ástralir skera sig síðan úr því þeir mælast háir í trausti og eru einnig gestrisnir.“

Nýjar rannsóknir sýni einnig fram á að einmanaleiki hefur aukist, sérstaklega á meðal ungmenna og ungs fólks. „Við verðum að fara að grípa til aðgerða sem þjóð því við erum að villast af leið. Við þurfum mest á þessu að halda en neitum okkur um. Það er ákveðin hræðsla hjá fólki með að tala við fólk sem það þekkir ekki. Hana má rekja langt aftur í þróunarsöguna; innbyggða tortryggni sem á að vernda okkur. Svo kemur í ljós að það er svo ofboðslega sjaldan sem eitthvað hættulegt gerist. Við getum prófað að tala saman og séð hvert það leiðir. Nokkrar sekúndur af samtali eða tjáskiptum getur gert svo ótal margt fyrir fólk sem er ekki í miklum tengslum fyrir.“

Steinunn kynnti lokaverkefnið sitt Tengivagninn fyrir viku síðan. Mynd/Endurmenntun HÍ

Einkabarn með ástríðu fyrir tengslum

Steinunn er einkabarn foreldra sinna og segir það mögulega spila inn í hvers vegna hún hefur svona mikla ástríðu fyrir þessu. „Ég hef alltaf haft ofan af fyrir mér og pabbi sagði alltaf að hann mætti ekki líta undan þá var ég farin að spjalla við einhvern. Ég var svo forvitin um annað fólk, hjálpaði gömlu fólki yfir götu og oft varð vinátta úr því eða tengsl. Þegar ég dvaldi um tíma á Spáni og kunni ekki tungumálið upplifði ég ákveðna einangrun þó ég væri með hópi fólks sem var að tala saman. Þar upplifði ég einmanaleika í fyrsta skipti á ævinni. Svissneski sálfræðingurinn Carl Jung sagði að einmanaleikinn sé ekki að þú hafir ekki fólk í kringum þig, heldur að þú getir ekki tjáð það sem liggur þér á hjarta. Þar kemur tengingin við mitt verkefni. Fólk vanmetur oft áhuga annarra á því sem það hefur fram að færa. Það þurfa allir að deila sinni sýn og reynslu og því sem fer fram í sínu innra lífi.“

Sem listrænn stjórnandi hefur Steinunn meðal annars langa reynslu af því að leiða saman fólk og það segist hún einnig munu gera með Tengivagninum. „Ég verð nokkurs konar tengill og ég hef trú á því að Íslendingar munu taka vel í þetta því við þurfum á hvert öðru að halda og höfum þessar mannlegu þarfir að tjá hug okkar í viðeigandi og fallegum farvegi.“

Rannsókn Steinunnar í lokaverkefninu gekk þannig fyrir sig að hún fékk fólk af ólíkum aldushópum til að hittast og eiga spjall saman. „Við erum vön yfirborðsspjalli (e. small talk) og það getur verið fínn inngangur að einhverju dýpra. Einn þátttakandi spurði hvort ekki væri hægt að hafa fyrir fram spurningar fyrir fólk sem dettur ekkert í hug að tala um. Þá datt mér í hug að útbúa kort með alls kyns umræðuefni sem hægt er að nota ef þess gerist þörf.“

Mennskan skiptir mestu máli

Spurð um hvað standi upp úr í náminu í vetur segir Steinunn vera staðfestingin á því sem skiptir mestu máli í lífinu; sem sé allt annað en maður haldi á meðan maður er ungur og margir eltast við. „Líka að fá að fara í svona nám og vera með dásamlegu fólki. Ég held að það veljist í svona nám fólk sem vill láta gott af sér leiða. Þess vegna skapast ákveðin stemning, velvild og traust og ákveðnir hlutir sem allir þurfa á að halda en eru ekki sjálfgefnir. Þarna löbbuðu inn 30 manneskjur sem þekktust flest ekkert og labba svo út sem vinir fyrir lífstíð. Sem er í hnotskurn það sem verkefnið mitt snýst um. Sá ókunnugi er bara vinur sem þú hefur ekki hitt enn þá, eins og Írarnir segja.“

Steinunn leggur áherslu á að á okkar tímum í heiminum í dag skerpist enn þá betur á því sem skiptir mestu máli: mennskan, þetta sammannlega og þessi tenging og góðvild sem við búum öll yfir en erum kannski hikandi yfir að nota. Af svo mörgum ástæðum.

jakvaed salfraedi
Hópurinn sem Steinunn útskrifast með í júní. Mynd/Endurmenntun HÍ

„Í náminu fáum við ekki bara þekkinguna, innsæið og hæfni þeirra sem kenna fræðin, sem eru á heimsmælikvarða, heldur lærum við margar leiðir og öðlumst þar af leiðandi vald til að finna að hamingjan er í okkar eigin höndum. Þetta er svo miklu einfaldara en maður heldur oft. Litlir hlutir sem hafa svo mikil áhrif og dýpka öll samskipti, gildi, sýn og markmið. Allt fær annan tilgang. Ótrúlega gefandi og hamingjuaukandi. Ég finn að þetta er varanleg breyting. Maður upplifir þetta ekki eins og fyrirhöfn og þegar búið að er upplifa góðu áhrifin svona sterkt, þá verður þetta ávani.“

Námið stenst vel alþjóðlegan samanburð

Steinunn bæti við að hún telji að fólk almennt átti sig ekki á því hvað það hefur mikinn efnivið og innihald til að bæta líf sitt og vera hamingjusamara. „Ég hef notið góðs af því að læra í tónlistarháskóla og vinna sem listrænn stjórnandi með frábæru fólki og er í aðstöðu til gera samanburð. Jákvæða sálfræðin hjá Endurmenntun HÍ er í sömu gæðum og stenst algjörlega alþjóðlegan samanburð. Kennararnir eru leiðandi í þessum fræðum á heimsvísu. Væntingar mínar til námsins voru miklar en það fór langt fram úr þeim. Mig langaði að þetta tæki aldrei enda,“ segir Steinunn að endingu.

Umsóknarfrestur í nám í jákvæðri sálfræði er til og með 15. maí. Hér má finna allar nánari upplýsingar um námið.

Steinunn Ragnarsdóttir