Skip to main content
29. apríl 2024

Meta orkuskipti í haftengri starfsemi heildrænt með sjálfbærni að leiðarljósi

Meta orkuskipti í haftengri starfsemi heildrænt með sjálfbærni að leiðarljósi - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Okkur fannst nauðsynlegt í ljósi umræðunnar, ekki bara á Íslandi heldur einnig erlendis, að fara að skoða orkuskipti heildrænt. Það er að horfa ekki aðeins á einstaka geira heldur að skoða hvað orkuskipti þýða í heild fyrir land og þjóð þar sem metnar eru sviðsmyndir orkuskipta á grundvelli þeirra auðlinda sem þarf til auk hagrænna, félagslegra og umhverfislegra þátta,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, um rannsóknarverkefni sem hún vinnur að ásamt samstarfsfólki sínu og snertir orkuskipti sem hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu.

Rannsóknarverkefnið nefnist STORM (Systems transition to renewable marine fuels in the Nordics) og snýr meðal annars að því að greina orkuskipti í haftengdri starfsemi í samhengi við þróun íslenska orkukerfisins og orkuskipta í heild. „Í verkefninu greinum við tæknilega möguleika til orkuskipta, metum möguleika til framleiðslu á líf- og rafeldsneyti innanlands til orkuskipta og metum sviðsmyndir um orkuskipti í haftengdri starfsemi með tilliti til sjálfbærni,“ útskýrir Brynhildur sem stendur að verkefninu ásamt samstarfsfólki innan umhverfis- og auðlindafræði, prófessornum Láru Jóhannsdóttur og rannsóknarsérfræðingnum David Cook auk doktors- og meistaranema í greininni. Rannsóknin hefur hlotið styrk frá Nordic Energy Research og er unnin í samvinnu við Sænsku umhverfisrannsóknastofnunina (IVL), Chalmers-háskóla og Uppsala-háskóla auk hagsmunaaðila innanlands og erlendis.

Í ljósi loftslagsbreytinga og annars umhverfisálags sem hlýst af notkun jarðefnaeldsneytis er afar mikilvægt að allar þjóðir heims ráðist í orkuskipti. Brynhildur bendir á að mikil áhersla hafi verið á orkuskipti í samgöngum á landi, bæði í rannsóknum og stefnumótun stjórnvalda. Mun minni áhersla hafi verið lögð t.d. á orkuskipti í haftengdri starfsemi sem líkleg er til að valda meira álagi á orkuauðlindir landsins, en mikilvægt sé að skoða málið í heild.

„Við höfum höfum skoðað orkuskipti í samgöngum á landi og til dæmis borið saman mismunandi kosti með tilliti til auðlindanýtingar, álags á raforkukerfið, umhverfis- og loftslagsáhrifa og hagrænna og félagslegra sjónarmiða,“ segir Brynhildur og heldur áfram: „Þetta nýja verkefni bætir við nýrri áherslu í okkar rannsóknir.“

Samhliða þessu verkefni vinnur rannsóknarhópurinn að öðru rannsóknarverkefni sem nefnist H2AMN (Hydrogen, Ammonia and Methanol in hydrogen hubs in the Nordic region) og styður við STORM-verkefnið að sögn Brynhildar. „Markmið H2AMN er að meta möguleika á að framleiða vetni, metanól eða ammóníak á Íslandi og komast að því hvernig hægt er að standa að slíkri framleiðslu á Íslandi með sjálfbærni að leiðarljósi,“ bætir hún við.
 
Óhætt er að segja að verkefnin hafi skýra samfélagslega skírskotun og segir Brynhildur að aðstandendur verkefnanna vonist til þess að niðurstöður þeirra gagnist í að þróa orkukerfi Íslands í sátt við náttúru og samfélag. „Verkefnin munu einnig vera mikilvægt innlegg í þróun aðferðafræði við sviðsmyndagreiningar þar sem við nýtum okkur bæði megindlegar og eigindlegar aðferðir, en megindlegi þátturinn byggist meðal annars á dýnamískum líkönum og sjálfbærnivísum. Líkönin gera okkur mögulegt að horfa til framtíðar með tilliti til sjálfbærni, sem styður við stefnumótun og þróun orkukerfisins til framtíðar,“ segir hún að endingu.
 

Brynhildur Davíðsdóttir