Launað starfsnám kennaranema heldur áfram
Haustið 2019 hófst fimm ára átaksverkefni stjórnvalda með það að markmiði að efla menntun í landinu, stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og bregðast við kennaraskorti. Átaksverkefnið var unnið í samvinnu við háskóla sem mennta kennara, Kennarasamband Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga undir forystu þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur. Það fól meðal annars í sér hvatningarstyrki til kennaranema og launað starfsnám í því augnamiði að fjölga þeim sem velja kennaranám, að þeir geti helgað sig náminu og útskrifast með leyfisbréf til kennslu. Jafnframt var lögð áhersla á að fjölga starfandi kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn.
Samþættar aðgerðir skiluðu árangri
Ljóst er að samstaða um fjölgun kennara skilaði árangri: Árið 2018 brautskráðust 166 kennarar úr háskólum sem mennta kennara en 444 kennarar brautskráðust árið 2023, eða nánast þreföldun á fjölda nýrra kennara. Ákveðið var að kanna viðhorf kennaranema til ofangreindra aðgerða og var rafræn könnun send meistaranemum í kennaranámi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Samtals bárust 505 svör, 86% þeirra komu frá nemendum við HÍ en 14% frá nemendum við HA. Af þeim sem svöruðu voru 27% í leikskólakennaranámi, 58% í grunnskólakennaranámi og 12% í framhaldsskólakennaranámi. Hér eru nokkrar áhugaverðar niðurstöður:
- Um 56% svarenda vissu af hvatningarstyrkjum til kennaranema þegar þau tóku ákvörðun um að skrá sig í kennaranám og 49% sögðu hvatningarstyrkinn hafi skipt mjög miklu máli fyrir þá ákvörðun.
- Um 67% þeirra sögðu launað starfsnám á lokaári í meistaranáminu skipta mjög miklu máli við ákvörðun sína um að fara í námið.
- 81% vissu af MT (Master of Teaching) námsleið, þ.e. meistaranámi án lokaverkefnis, þegar tekin var ákvörðun um að fara í kennaranám. Um 66% sögðu möguleikann á MT námsleið hafa skipt mjög miklu máli við ákvörðunina.
Launað starfsnám og Master of Teaching námsleiðir verða áfram í boði
Kristín Jónsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ, hefur setið í starfshópi um nýliðun kennara. „Launaða starfsnámið hefur tekist vel og það er frábært að sjá staðfest í þessari könnun að það hafði jákvæð áhrif að mati kennaranema. Við kennarar við háskólana erum sama sinnis. Það er einna helst að við höfum áhyggjur af því að kennaranemar séu í of háu starfshlutfalli í raun. Hugmyndin um launaða starfsnámið byggist á að það sé hæfilegt að vera í hálfu starfi sem kennari í leik- eða grunnskóla og hálfu námi, en stór hluti kennaranema er í fullu starfi samhliða náminu sem skapar of mikið álag. Við munum halda áfram að þróa launaða starfsnámið rétt eins og námsleiðirnar okkar, M.Ed. rannsóknartengda námið og MT sem er vinsælast núna með um 75% kennaranema,“ segir Kristín. „Ég tel að það verði þungbært fyrir kennaranema ef hvatningarstyrkir taki enda þegar átaksverkefninu lýkur svo vonandi skoða stjórnvöld það mál gaumgæfilega. Aðsókn að kennaranámi hefur aukist verulega á undanförnum árum eins og stefnt var að og við viljum alls ekki sjá hana dala; það vantar svo innilega fleiri kennara.“
Áframhaldandi samvinna um nýliðun kennara er lykilatriði
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, telur að sú samstaða sem hefur ríkt milli stjórnvalda, sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og háskóla sem mennta kennara skipti öllu máli til að auka áhuga á kennarastarfinu og bregðast við kennaraskorti. „Kennarar gegna lykilhlutverki í menntun framtíðarborgara þessa lands, leiða þróun skólastarfs og vinna með stjórnvöldum og foreldrum að því að leggja grunn að framtíðarhæfni einstaklinga. Á síðustu áratugum hefur blasað við verulegur kennaraskortur, ekki síst í leikskólum landsins þar sem eingöngu um fjórðungur starfsfólks eru leikskólakennarar. Þá hefur ráðning leiðbeinenda til kennslu í grunnskólum aukist verulega, en nú eru um 16% þeirra sem starfa við kennslu í grunnskólum leiðbeinendur. Stétt grunnskólakennara er að eldast og þörf fyrir nýja grunnskólakennara fer hraðvaxandi.“
Fjórfalt fleiri brautskrást sem leikskólakennarar
Kolbrún bendir á að tekist hafi að fjórfalda fjölda brautskráðra leikskólakennarar frá HÍ, en áhersla hefur verið á að skipuleggja nám fyrir starfsfólk leikskóla. Meðal annars er nú boðið upp á raunfærnimat til eininga sem felst í mati á reynslu og hæfni þeirra sem hafa starfað í leikskólum um árabil. „Betur má ef duga skal. Könnun á viðhorfum kennaranema staðfestir hve miklu máli skipti að gripið var til margþættra aðgerða til að fjölga kennurum og bjóða upp á fjölbreyttari leiðir í kennaranámi. Verkefninu er ekki lokið. Það þarf að styðja betur við kennara, ekki síst fyrstu árin í starfi. Huga þarf að umgjörð og fjárhagslegum forsendum launaða starfsnámsins, því það gerir miklar kröfur til kennaranema um að samþætta nám og starf. Við í háskólunum erum í samtali við Kennarasamband Íslands, Samband sveitarfélaga og stjórnvöld um hvernig megi þétta raðir okkar enn frekar í þágu skólastarfs og nemenda.“