Skip to main content
1. maí 2024

Aukin fræðsla, aðgengi og stuðningur í nýrri jafnréttisáætlun HÍ

Aukin fræðsla, aðgengi og stuðningur í nýrri jafnréttisáætlun HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Áhersla er á viðamikla jafnréttisfræðslu fyrir starfsfólk, bætt aðgengi á háskólasvæðinu, aukinn stuðning við nemendur með innflytjendabakgrunn auk námskeiða og fræðslu um kynferðislega áreitni og ofbeldi í nýrri jafnréttisáætlun Háskóla Íslands sem samþykkt var í háskólaráði í upphafi árs og gildir í þrjú ár.

Þetta er áttunda jafnréttisáætlun Háskóla Íslands en sú fyrsta tók gildi árið 2000. Háskóli Íslands hefur um langt skeið verið vettvangur frjórrar og framsækinnar umræðu um jafnréttismál, bæði meðal kennara og nemenda, auk þess sem jafnrétti er eitt af þremur grunngildum skólans. Þetta endurspeglast í áætluninni sem unnin af jafnréttisnefnd HÍ undir stjórn formanns nefndarinnar í samvinnu við jafnréttisfulltrúa skólans. 

„Ný jafnréttisáætlun er afrakstur vinnu fjölbreytts hóps nemenda og starfsfólks og fellur hún vel að heildarmarkmiðum HÍ þar sem áhersla er lögð á mannréttindi og jafnrétti í víðum skilningi,“ segir Jón Ingvar Kjaran, formaður jafnréttisnefndar HÍ.

Í áætluninni eru 50 aðgerðir sem skiptast í 6 flokka í takt við stefnu skólans (HÍ26) og eru settar upp í stefnubókhaldi HÍ. Áhersla er lögð á jafnrétti í víðum skilningi, ásamt samtvinnun ólíkra vídda jafnréttis. 

„Við erum mjög ánægð með afrakstur þessarar vinnu og ekki síst hvernig tekist hefur að flétta saman jafnréttisáætlun skólans og stefnu skólans, HÍ26. Fulltrúar starfsfólks og nemenda tóku virkan þátt í stefnumótunarvinnunni og speglast þeirra sjónarmið í þessari jafnréttisáætlun. Við munum leggja mikla áherslu á eftirfylgni og árangur á sviði jafnréttismála og er þessi áætlun okkar helsta tæki til þess,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands eru hvött til að kynna sér inntak og áherslur nýrrar jafnréttisáætlunar sem má finna á jafnréttisvef skólans og á ensku á equality.hi.is.

"""