Kennsla erlendra tungumála, MT
Kennsla erlendra tungumála
MT gráða – 120 einingar
Námið býr nemendur undir kennslu erlendra tungumála. Námið er opið þeim sem hafa lokið B.Ed.-prófi í grunnskólakennslu með áherslu á erlend tungumál, eða BA/BS-prófi í skyldum greinum. Grunnskólakennarar með leyfisbréf geti sótt námið óháð sérhæfingu í fyrra námi.
Nemendur í MT námi vinna ekki 30 eininga lokaverkefni en taka fleiri námskeið í staðinn. Fjarnám að mestu eða hluta.
Skipulag náms
- Vor
- Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga
- Óháð misseri
- Félagsfræði og heimspeki menntunar
- Læsi í faggreinum
- Tölvutengt tungumálanám – upplýsingartækni og kennsla erlendra tungumálaB
- Læsi og leshömlun (dýslexía) í tungumálanámiB
Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga (FAG201F)
Fjallað verður um hugtakið sjálfbær þróun og meginhugmyndir alþjóðlegra sáttmála um sjálfbærni. Tekin verða dæmi af ýmsum vandamálum er tengjast umhverfi og náttúru, s.s. loftslagsmálum, tegundafækkun, jarðvegseyðingu og mengun. Lögð verður áhersla á að greina vandamál úr umhverfi nemenda með áherslu á að finna mögulegar lausnir. Fjallað verður um hlutverk kennara í að vinna með ágreiningsmál og hvernig þeir geta kennt börnum að greina vanda, meta upplýsingar og setja fram hugsanlegar lausnir. Þátttakendur lesi og noti rannsóknir á sjálfbærnimenntun. Einnig munu þátttakendur skoða eigin viðhorf til sjálfbærrar þróunar, gildi sín og meta eigin hegðun.
Skyldumæting er í staðlotur samkvæmt kennslualmanaki Menntavísindasviðs.
Félagsfræði og heimspeki menntunar (SFG106F)
Viðfangsefni: Meginmarkmið námskeiðsins er að veita innsýn í félagsfræðileg og heimspekileg sjónarhorn á menntun og skólastarf. Til að ná því markmiði verður fjallað um valdar félagsfræðilegar og heimspekilegar hugmyndir sem gagnast við að skoða menntun og skólaveruleika. Áhersla er á þrjá þætti. A. Að skilja hugmyndir og hugtök og geta gert grein fyrir þeim. B. Að máta hugmyndir og hugtök við þá menntun og þann skólaveruleika sem við þekkjum. C. Að fjalla með gagnrýnum hætti um hugmyndirnar og þann veruleika sem þær eiga að varpa ljósi á.
Vinnulag: Fyrirlestrar og umræður verða vikulega. Uppteknir fyrirlestrar verða settir á Canvas-vef námskeiðsins. Nemendur kynna sér þá og taka svo þátt í umræðutímum sem ekki verða teknir upp. Í upphafi misseris skrá nemendur sig í umræðuhópa sem haldast út misserið. Mætingarskylda (80%) er í umræðutímana en hægt er að velja um að mæta í Stakkahlíð eða í rauntíma á Zoom. Þá vinna nemendur tvö hópverkefni, tvö einstaklingsverkefni og lokaverkefni.
Læsi í faggreinum (ÍET214F)
Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur þrói hugmyndir sínar um læsi og hvernig vinna megi með læsi þvert á faggreinar þannig að þeir verði betur í stakk búnir að kenna sínar greinar. Í kennaranámi þróa kennaranemar starfskenningu sínu, þ.e. skoða og móta hugmyndir sínar um það hvernig þeir ætla eða vilja starfa sem kennarar
Lögð er áhersla á heildstæða og skapandi nálgun við undirbúning og skipulag kennslu þvert á faggreinar og að nemendur kynnist rannsóknum og nýjungum í kennsluháttum sem efla læsi og fagorðaforða á öllum skólastigum.
Tölvutengt tungumálanám – upplýsingartækni og kennsla erlendra tungumála (ÍET201M, ÍET001F)
Meginmarkmið námskeiðsins er að
- veita þátttakendum yfirsýn yfir og skilning á helstu kenningum og rannsóknum um tölvutengt tungumálanám.
- þátttakendur öðlist þekkingu og kunni skil á helstu kenningum og rannsóknum um rafræn læsi (digital literacies) og tungumálnam.
- þátttakendur fái tækifæri til að tengja saman fræðilega þekkingu og hagnýta reynslu af tölvu og upplýsingartækni í tungumálakennslu.
Viðfangsefni:
Á námskeiðinu verður fjallað um áhríf upplýsingartækni á uppeldi, menntun og skólastarf. Lögð er áhersla á að fjalla um tölvustutt tungumála nám (CALL - Computer Assisted Language Learning) og áhríf og þróun þess síðastliðin 30 ár. Einnig verður fjallað um kenningar og rannsóknir er varðar notkun upplýsingartækni í tungumálanámi í skólastofunni í grunn- og framhaldsskóla. Ýmis forrit verða kynnt og skoðað hvernig má nýta þau til að þjálfa mismunandi þættir tungumálsins.
Vinnulag:
Kennslan fer að jafnaði fram í fyrirlestrum og umræðum. Nemendur fá margvísleg verkefni til úrlausnar og skila úrlausnum ýmist munnlega eða skriflega. Einnig munu þátttakendur vinna einir eða í hópum að efnissöfnun og kynningum á efni sem tengist áhugasviði þeirra. Efnið gætu tengst nýtingu tölvu og veraldarvefsins i tungumálakennslu, rannsóknar- og þróunarstörfum, fjarkennslu erlendra tungumála, gerð rafræns námsefnis til notkunar í tungumálakennslu, vendinám, notkun spjaldtölvur í tungumálanámi o.fl. Nemendur vinna og skila rafræn ferilsmöppu.
Læsi og leshömlun (dýslexía) í tungumálanámi (ÍET005M, ÍET204F)
Meginmarkmið námskeiðsins er að
- þátttakendur öðlist haldgóða og fræðilega þekkingu og innsýn í helstu skilgreiningar, kenningar og rannsóknir um læsi og leshömlun í tengslum við tungumálanám,
- gefa þátttakendum kost á að dýpka þekkingu sína og skilning á kenningum og rannsóknum á læsi og leshömlun í tengslum við tungumálanám.
Viðfangsefni:
Á þessu námskeiði munu þátttakendur kynnast rannsóknum, kenningum og vinnuaðferðum sem tengjast lesskilningi og ritun í tungumálanámi og sem hjálpa kennurum að koma til móts við nemendur sem eiga erfitt með að skilja og skrifa erlent mál. Farið verður ítarlega í kenningar um þróun lestrar, lestraraðferðir í tungumálanámi, tengsl lestrar og erlendra tungumála, orsakir og einkenni lestrar- og ritunarörðugleika og skilgreiningar á þessum erfiðleikum.
Vinnulag:
Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og umræðum. Einnig munu þátttakendur vinna einir eða í smærri hópum að efnissöfnun og kynningum í málstofum á efni sem tengist áhugasviði þeirra.
- Haust
- Nám og kennsla - fagmennska í starfi
- Vor
- Nám og kennsla – vettvangsnám í faggrein
- Óháð misseri
- Íslenskt mál og menntun fjöltyngdra nemenda
- Nám og kennsla: Að mæta sérþörfum
Nám og kennsla - fagmennska í starfi (KME301F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er fagmennska í starfi kennara og hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara sem og fagreinakennara. Sérstök áhersla er lögð á að styðja kennaranema í að móta heildstæða starfskenningu, efla fagvitund, skerpa sýn á kennarastarfið og skilning á þeim skuldbindingum sem starfið felur í sér. Á námskeiðinu er áhersla lögð á tengsl kennslu og náms og það hlutverk kennarans að byggja upp öflugt og skapandi námsumhverfi. Fjallað verður um siðfræði kennarastarfsins, manngildissjónarmið og ábyrgð kennara, gagnvart velferð barna og foreldrasamstarfi. Meðal viðfangsefna verða sjálfsrýni og sjálfsmat, ígrundun eigin kennslu og í samræðu við nema úr öðrum faggreinum. Auk þess er lögð áhersla á samskiptafærni, m.a. í samskiptum við foreldra, viðtalstækni, teymiskennslu og teymisvinnu og mismunandi leiðir til bekkjarstjórnunar.
Vinnulag byggir á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við vettvangsnám. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr skólastarfi. Kennaranemar lesa valdar greinar og rannsóknir sem tengjast námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér. Þeir vinna námsþáttaverkefni og halda rannsóknardagbók a.m.k. einu sinni í viku meðan á vettvangsnámi stendur. Kennaranemar vinna að jafnaði saman í teymi á vettvangi í samstarfi við æfingakennara og kennara námskeiðsins. Þeir fara með ákveðin verkefni til að skoða og vinna með, auk þess sem þeir skipuleggja samþætt, lýðræðislegt verkefni um málfefni líðandi stundar. Einnig safna þeir gögnum af vettvangi sem nýtt eru í tengslum við vinnu að námsþáttum námskeiðsins. Áhersla er lögð á að skrifin tengist kenningum um nám og kennslu, faggrein, siðfræði og starfskenningu kennaranema. Vettvangsnámshlutinn er einnig hluti af námsvinnunni í bóknámshluta námskeiðsins, þ.e. einstakir námsþættir og vettvangsnámið eiga að mynda eina samofna heild.
Vettvangsnámið dreifist yfir allt skólaárið, allt frá því þegar skólar hefja störf í ágúst þar til skóla lýkur að vori. Mætingaskylda er á námskeiðinu á mánudögum eftir hádegi á Menntavísindasviði eða í rauntíma á neti fyrir þá sem búa að landsbyggðinni utan við Selfoss eða Akranes.
Kennaranemar velja sjálfir hvort þeir fara í launað starfsnám eða ólaunað vettvangsnám:
Launað starfsnám (leiðbeinendur í kennslu). Kennaranemar sem hyggja á launað starfsnám leita sér sjálfir að stöðu og sækja um. Þeir stunda vettvangsnámið í eigin bekk/námshópum sem þeir eru að kenna.
Í launuðu starfsnámi er hálft starf fullgilt vettvangsnám og kennaranemar sinna bæði störfum umsjónarkennara og kennslu í faggrein/sérhæfingu sinni. Miðað er við að allir kenni að lágmarki 4 kennslustundir á viku í faggrein sinni. Vettvangsnámið er hluti af starfi og fylgir því skólaárinu í grunnskóla viðkomandi.
Ólaunað vettvangsnám. Kennaranemar sem hyggja á ólaunað vettvangsnám geta lagt til hvar þeir vilji stunda sitt vettvangsnám. Í könnun sem send verður út í maí geta þeir óskað eftir borgarhluta/ landsvæði eða skóla.
Á vettvangi skila þeir að jafnaði fjögurra til sex klukkustunda viðveru á dag, 2 – 3 daga í viku, þ.e. 12 klukkustundum á viku. Þar af er miðað við að þeir kenni 8 kennslustundir og þarf kennsla í faggrein að vera minnst 4 kennslustundir á viku. Einnig þarf nemi að hafa tækifæri til að kynnast hlutverki umsjónarkennara.
Vettvangsnámstímabilið í ólaunuðu vettvangsnámi fylgir háskólaárinu.
Nám og kennsla – vettvangsnám í faggrein (FAG401F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er vettvangsnám í faggrein. Lögð er áhersla á að nemar prófi sig í kennslu og fái tækifæri til að ræða, meta, ígrunda og þróa kennslu sína. Þeir þróa kennsluáætlun byggða á aðalnámskrá grunnskóla og skólanámskrá. Þeir greina atvik úr kennslu sinni og draga lærdóm af þeim. Þeir skoða fjölbreyttar kennsluaðferðir og beita þeim í kennslu á vettvangi.
Vinnulag: Nemendur eru á vettvangi alla önnina á báðum námskeiðum og mæta reglulega í kennslustundir í háskólanum. Byggt er á fyrirlestrum, umræðum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við námskeiðið Nám og kennsla - fagmennska. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér.
Íslenskt mál og menntun fjöltyngdra nemenda (ÍET206F)
Fjallað verður um íslensku sem annað mál og menntun fjöltyngdra grunnskólanemenda. Rætt verður um máltöku og máluppeldi og hver sé munurinn á því að öðlast færni í móðurmáli og öðru máli. Sérstök áhersla verður lögð á það sem kennarar þurfa almennt að kunna um íslenskt mál til að geta sinnt vel annars máls nemendum svo að þau nái framförum í þeirri námsgrein sem til umfjöllunar er.
Farið verður í uppbyggingu íslenska málkerfisins, framburð, orðmyndun, beygingar, setningagerð, merkingu orða og orðasambanda, lagskiptingu orðaforðans og ýmislegt sem viðkemur málnotkun, og fjallað um hvað getur helst vafist fyrir fjöltyngdum grunnskólanemendum sem eru að tileinka sér málið. Rætt verður um persónubundinn mun málhafa þegar þeir tileinka sér íslensku sem annað mál, með sérstaka áherslu á hvert móðurmál þeirra er til að geta greint hvar helst sé að vænta erfiðleika við tileinkun íslensku og til að geta brugðist við því.
Í framhaldi af þessu verður unnið með kennslu mismunandi faggreina og hvernig skipuleggja megi hana þannig að hún taki mið af mismunandi getu fjöltyngdra nemenda í íslensku. Meðal annars verður tekið fyrir hvernig hægt er að semja og einfalda texta svo að laga megi þá að getu fjöltyngdra nemenda í íslensku.
Nám og kennsla: Að mæta sérþörfum (MAL102F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins eru kennsluhættir og námsaðstæður sem miða að því að efla árangur fjölbreyttra nemendahópa, huga að styrkleikum þeirra og veikleikum í skóla án aðgreiningar með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Fjallað er um algengustu sérþarfir nemenda og sérstök áhersla lögð á árangursríkar (gagnreyndar) leiðir til að mæta margbreytilegum þörfum nemenda og efla þá í námi, meðal annars til að draga úr vanda varðandi lestrarnám, hegðun, líðan, einbeitingu, ofvirkni og einhverfu. Samhliða er rætt um mikilvægi þess að hafa hæfileika og styrkleika nemenda ávallt í forgrunni og aðgreina erfiðleika frá eiginleikum einstaklinga. Einnig er fjallað um fjölmenningarkennslu og kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Kynntar eru helstu aðferðir við bekkjarstjórnun og einstaklingsmiðuð úrræði til að bæta hegðun, félagsfærni, líðan og námsárangur fjölbreytts hóps nemenda. Fjallað er um þverfaglegt samstarf, teymisvinnu og samvinnu við foreldra barna með sérþarfir. Umfjöllunarefni námskeiðsins grundvallast á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar og rannsóknum á því sem vel hefur gefist við að mæta fjölbreytilegum nemendahópi, með það að markmiði að veita öllum nemendum jafngild tækifæri í námi.
- Haust
- Vor
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.