Skip to main content
17. maí 2024

Reykjavík og HÍ fá styrk til nýsköpunar í loftslagsmálum

Reykjavík og HÍ fá styrk til nýsköpunar í loftslagsmálum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Reykjavíkurborg er á meðal 25 borga sem fá styrk frá Evrópusambandinu til nýsköpunarverkefna í loftslagsmálum. Verkefnið er til tveggja ára og er í samstarfi við Háskóla Íslands og Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands.

Styrkurinn er veittur til hluta þeirra borga sem voru valdar sem þátttakendur í Evrópusamstarfi um 112 kolefnishlutlausar og snjallar borgir. Styrkurinn á að styðja við markmið borganna um flýta vegferð sinni í átt að kolefnishlutleysi fram til ársins 2030. 

Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar að borgin fái nú titilinn „Pilot borg“ enda sé litið til þessara borga sem fyrirmyndar annarra um að hraða þessu ferli með ýmiss konar nýsköpun í fjölbreyttum loftslagsverkefnum. Styrkurinn er hluti af verkefnum Horizon Europe, rannsóknar- og nýsköpunarvettvangs Evrópusambandsins.

HÍ tekur þátt í rannsóknum og miðlun

Styrkurinn er upp á 90 milljón krónur og verður notaður í tilraunaverkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum og úrgangi. 

Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, Jukka Heinonen, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, og Ole Martin Sandberg, fræðimaður við Deild sagnfræði, heimspeki og fornleifafræði, eru meðal þátttakenda frá Háskóla Íslands í verkefninu en skólinn kemur að rannsóknum um borgaraþátttöku og hvernig nærumhverfið getur stutt við lífsstíl þar sem kolefnisfótspori er haldið í lágmarki. Einnig tekur HÍ virkan þátt í miðlun verkefnisins.

Borgirnar sem valdar voru til þátttöku auk Reykjavíkur eru Helsinki og Tampere í Finnlandi, München, Dortmund, Heidelberg, Leipzig og Dresden í Þýskalandi, Brussel og Antwerpen í Belgíu, Gabrovo í Búlgaríu, Sønderborg í Danmörku, Angers Loire-borgarsvæðið, Bordeaux, Dunkerque og París í Frakklandi, Dublin og Cork á Írlandi, Aþena, Trikala, Kalamata og Þessalónika í Grikklandi, Elbasan í Albaníu, Izmir í Tyrklandi og Gautaborg í Svíþjóð.

 

Maður á gangi