Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði með erindi í HÍ
Bandaríski Nóbelsverðlaunahafinn og hagfræðingurinn Joseph Stiglitz flytur erindi í Veröld - húsi Vigdísar, Háskóla Íslands, þann 1. mars kl. 12:00-13:30. Erindi hans ber yfirskriftina Freedom and Liberty: Perspectives from the 21st Century Economics. Málþingið er skipulagt af forsætisráðuneytinu og menningar- og viðskiptaráðuneytinu í samstarfi við Háskóla Íslands og verður einnig í streymi.
Joe Stiglitz er Íslendingum að góðu kunnur. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2001. Stiglitz hefur verið prófessor í hagfræði um langt skeið við virta bandaríska háskóla. Hann var um skeið einn af efnahagsráðgjöfum Clintons Bandaríkjaforseta og var um tíma aðalhagfræðingur Alþjóðabankans.
Stiglitz er nú prófessor við Columbia University í New York. Hann hefur áður haldið erindi á Íslandi, meðal annars á ráðstefnu íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2011, og var um aldamótin síðustu fenginn til að gera úttekt á íslensku hagkerfi, en árið 2001 gaf Seðlabanki Íslands út rannsóknarskýrslu hans í enskri ritröð bankans, Central Bank of Iceland Working Papers.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, verður fundarstjóri og setur málþingið, en dagskráin verður eftirfarandi:
- Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnar málþingið.
- Joe Stiglitz, prófessor við Columbia University, flytur erindið The Road to Freedom: Economics and the Good Society.
- Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, stýrir umræðum er fundargestum verður gefinn kostur á spurningum.
- Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra lokar málþinginu með samantekt á efni þess.
Í lok málþingsins verða léttar hádegisveitingar í boði Háskóla Íslands.
Málþingið er opið meðan húsrúm leyfir og það fer fram á ensku.