Hvaða viðfangsefni vekja áhuga þinn og skipta þig máli? Hvað gætir þú hugsað þér að starfa við í framtíðinni? Hér getur þú smellt á geiranna í hjólinu og fengið upplýsingar um allar námsgreinar sem eru í boði við HÍ.
Nám í þessum flokki byggir á samspili einstaklings og samfélags. Áhersla er á málefni einstaklingsins og félagsleg tengsl hans, bæði innan sama samfélags og í alþjóðlegu samhengi.
Áherslur námsins í þessum flokki er meðal annars um hvernig samfélagið er byggt upp út frá lögum og reglum. Auk þess er áhersla á efnahagsmál og fjársýslu ýmiss konar, viðskipti og rekstur fyrirtækja og opinberra stofnana.
Námið fjallar um hvernig fólk hugsar, hegðar sér, lærir og þróast. Í ákveðnum námsleiðum er tekist á við mismunandi skynjun á lífinu í mismunandi menningarlegu samhengi. Í öðrum leiðum er áhersla á að mennta og kenna börnum og fullorðnum og þau samskipti sem eiga sér stað á milli fólks.
|
|
|
Námsleiðirnar fjalla um mismunandi þætti samskipta, miðlun efnis og upplýsinga. Áhersla er á ýmis konar fjölmiðlun, upplýsinga- og samskiptatækni og þróun hugbúnaðar.
Námsleiðirnar í þessum flokki fjalla til dæmis um skapandi og fagurfræðileg fyrirbæri og tjáningu í samfélagi okkar, listum og menningu. Auk þess fjallar námið í flokknum um það hvað mannfólkið gerir og hefur gert. Áhersla er á rökhugsun, heimspeki og ýmiss konar menningarlega tjáningu, svo sem trú, bókmenntir og hugmyndir í nútíð, fortíð og framtíð.
Nám í þessum flokki fjallar um tungumál á mismunandi vegu. Nemendur læra um uppbyggingu tungumála og tungumálagerðir. Í sumum námsleiðum er áherslan á nútíma tungumál, bókmenntir, menningu og sögu ákveðins lands. Í öðrum leiðum er áherslan á klassísk tungumál sem tengjast fyrri menningu.
Námsleiðirnar fjalla um þróun og rannsóknir á sviði efnafræði og líffræði. Til dæmis er í þessum flokki að finna námsleiðir sem fjalla um þróun lyfja og lífefnafræðilegra afurða. Auk þess eru námsleiðir sem fjalla um lífverur, sjúkdóma og sjúkdómsmeðferðir.
Í þessum flokki er áhersla á heilsutengd málefni, bæði sem meðferð og forvarnir. Í námsleiðum flokksins er fjallað um líkamsstarfsemi, næringarþörf einstaklinga og hvað þarf til að vera heilbrigður. Í þessum flokki er bæði að finna námsleiðir fyrir þá sem vilja vinna beint með fólki, til dæmis við meðferð sjúklinga en einnig fyrir þá sem vilja greina gögn tengd heilsu einstaklinga og samfélags. Auk þess er að finna námsleiðir þar sem áhersla er á heilsutengd málefni út frá íþróttum, næringu og hreyfingu.
Í flokknum er að finna fjölbreyttar námsleiðir sem eiga það sameiginlegt að unnið er með tölur og stærðfræðilega útreikninga á einhverju formi. Námsleiðirnar fjalla um stærðfræðileg líkön og leiðir til að útskýra eða spá fyrir um fyrirbæri auk þess að fjalla um eðli og samhengi efnis, orku, tíma og rúms. Viðfangsefni námsins snúa meðal annars að því að þróa og hanna lausnir tengdar uppbyggingu og rekstri í nútímaþjóðfélagi.
Námsleiðirnar í þessum flokki fjalla um umhverfið eða náttúruna sem umlykur okkur og efnin í náttúrunni. Áhersla er á byggingareiningar lífsins, svo sem sameindir og frumur, auk þess að fjalla um lífverurnar og samsetningu lífríkisins. Í sumum námsleiðum flokksins er jafnframt áhersla á jörðina og náttúruauðlindir og nýtingu mannsins á umhverfinu