09/2011
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2011, fimmtudaginn 8. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.
1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði stuttlega grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins og málum á döfinni.
a) Fyrir skömmu barst Háskóla Íslands að gjöf frá Áslaugu Hafliðadóttur lyfjafræðingi húseign að Bjarkargötu og peningagjöf. Gjöfinni er ætlað að styðja við eflingu íslenskrar tungu.
b) Fjölmargir atburðir eru á dagskrá í tengslum við aldarafmæli Háskóla Íslands. Hinn 17. júní sl. var haldinn hátíðarfundur í Alþingishúsinu. Við þetta tækifæri færði Alþingi háskólanum glerlistaverk að gjöf og afhjúpaður var skjöldur til minningar um veru skólans í Alþingishúsinu fyrstu 29 árin frá stofnun hans. Þá hefur Háskólalestin farið um allt land með fjölbreytta dagskrá á síðustu mánuðum. September er mánuður Menntavísindasviðs og hófst dagskráin með öndvegisfyrirlestri Lindu Darling-Hammond. Hinn 22. september nk. mun Kaupmannahafnarháskóli gangast fyrir málþingi um dönsk-íslensk akademísk tengsl. Hinn 9. september nk. mun Noam Chomsky flytja öndvegisfyrirlestur Hugvísindasviðs. Hápunktur afmælisdagskrárinnar verður hátíðarmálþing um ögranir 21. aldar sem verður haldið í Háskólabíói 7. október nk. og afmælishátíð og afmælisfagnaður starfsmanna sem hvort tveggja verður haldið í Hörpu 8. október nk.
c) Velferðarráðuneytið og Vinnumálastofnun hafa undanfarið gengist fyrir átaki til að hjálpa atvinnulausu fólki við að komast í nám og hafa 184 skráð sig í grunn- og framhaldsnám við Háskóla Íslands.
d) Fyrir skömmu var haldin við Háskóla Íslands ráðstefna evrópskra stjórnmálafræðinga (ECPR) og var þetta fjölmennasta samkoma þessarar tegundar sem haldin hefur verið hér á landi.
e) Hinn 11. október nk. fer fram aukaúthlutun úr háskólasjóði Eimskipafélags Íslands. Þá verður úthlutað 12 styrkjum, en fyrr á árinu höfðu 15 doktorsnemar hlotið styrk og er heildarfjöldi nýrra doktorsnámsstyrkja á árinu því 27.
2. Fjármál Háskóla Íslands.
a) Endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðanda vegna ársreiknings Háskóla Íslands 2010.
b) Fjárhagsstaða háskólans, yfirlit eftir sjö mánuði.
c) Úrskurður Félagsdóms vegna ákvörðunar háskólaráðs 17. desember 2010.
d) Horfur í fjármálum 2012.
e) Aldarafmælissjóður.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðanda vegna ársreiknings Háskóla Íslands 2010 og yfirliti um fjárhagsstöðu háskólans fyrstu sjö mánuði ársins. Málið var rætt og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna. Innri endurskoðandi háskólans mun koma inn á næsta fund ráðsins og gera grein fyrir innri endurskoðun við skólann.
Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir úrskurði Félagsdóms vegna ákvörðunar háskólaráðs 17. desember 2010. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor og Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði. Málið verður áfram á dagskrá ráðsins.
Þá gerði Guðmundur grein fyrir horfum í fjármálum Háskóla Íslands á næsta ári.
Loks greindi rektor frá stöðu mála varðandi Aldarafmælissjóð og samninga um framlög í hann fyrir tímabilið 2012-2020.
Þórður Sverrisson vék af fundi.
3. Prófessorsstarf tengt nafni Jóns Sigurðssonar, sbr. þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 15. júní 2011.
Fyrir fundinum lágu drög að auglýsingu um prófessorsstarf tengt nafni Jóns Sigurðssonar. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
4. Framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016.
Fyrir fundinum lágu drög að áætlun um framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Beindi rektor því til fulltrúa í háskólaráði að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum varðandi áætlunina fyrir 23. september nk.
5. Úttektir á deildum og öðrum einingum Háskóla Íslands, sbr. rammaáætlun gæðaráðs háskóla.
a) Úttekt á námsbraut í ferðamálafræði, niðurstöður og eftirfylgni, sbr. síðasta fund.
b) Drög að áætlun um úttektir 2011-2016.
Rektor gerði grein fyrr stöðu mála varðandi úttekt á námsbraut í ferðamálafræði og var málið rætt. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að í samræmi við almennt vinnulag við eftirfylgni með ytra gæðamati verði stjórn Verkfræði- og náttúruvísindasviðs falið að gera fyrir marslok 2012 háskólaráði ítarlega grein fyrir því hvernig brugðist hefur verið við ábendingum í lokaskýrslu ytri matshóps vegna úttektar á ferðamálafafræði. Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs geri rektor grein fyrir framvindu vinnunnar fyrir árslok 2011. Jafnframt verði gæðanefnd falið að gera grein fyrir þeim atriðum í lokaskýrslu ytri matshóps um ferðamálafræði er varða háskólann í heild.
- Samþykkt einróma.
Þá gerði rektor grein fyrir framlagðri áætlun um skipulag, tímaáætlun og framkvæmd innra mats við Háskóla Íslands. Málið var rætt. Fram kom að gæðanefnd mun ganga frá endanlegri tímaröð mats á deildum og öðrum einingum.
- Samþykkt einróma.
6. Nefndir, stjórnir og ráð.
a) Skipan formanns vísindanefndar, sbr. síðasta fund.
b) Stjórn Listasafns Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um að Guðrún Marteinsdóttir prófessor verði skipuð formaður vísindanefndar háskólaráðs. Skipunartíminn er til þriggja ára eða til 30. júní 2014. Fyrir fundinum lá ferilskrá Guðrúnar.
- Samþykkt einróma.
Þá bar rektor upp tillögu um að núverandi stjórn Listasafns Háskóla Íslands verði endurskipuð til næstu fjögurra ára eða til 30. júní 2015. Í stjórninni sitja Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar, Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur og Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.
7. Tillögur að breytingu á reglum.
Breyting á 56. og 57. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 er varða próf.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir málinu sem var rætt.
- Samþykkt einróma.
8. Tillögur deilda um kjör heiðursdoktora.
Fyrir fundinum lágu fjórar tillögur deilda um veitingu heiðursdoktorsnafnbóta og umsögn heiðursdoktorsnefndar um hverja tillögu fyrir sig. Rektor bar tillögurnar upp til staðfestingar:
- Tillaga Félags- og mannvísindadeildar um að sæma Thomas William Shakespeare heiðursdoktorsnafnbót samþykkt einróma.
- Tillaga Sagnfræði- og heimspekideildar um að sæma Jóhann Pál Árnason heiðursdoktorsnafnbót samþykkt einróma.
- Tillaga Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar um að sæma Kari Elisabeth Börresen heiðursdoktorsnafnbót samþykkt einróma.
- Tillaga Íslensku- og menningardeildar um að sæma Marianne E. Kalinke heiðursdoktorsnafnbót samþykkt einróma.
9. Mál til fróðleiks.
a) Aldarafmæli Háskóla Íslands.
b) Dagatal Háskóla Íslands 2011-2012, drög.
c) Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 63/2006 um háskóla, sjá slóðina http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/6058.
d) Bréf Ragnars Aðalsteinssonar hrl. til háskólaráðs, dags. 24. júní sl. og svar við því.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.30.