11/2009
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Erna Bjarnadóttir (varamaður Þórðar Sverrissonar), Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Silja Aðalsteinsdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Einnig sat fundinn Jón Atli Benediktsson. Hilmar B. Janusson boðaði forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.
Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor stuttlega frá nokkrum atburðum frá síðasta fundi, m.a. háskólaþingi sem haldið var föstudaginn 27. nóvember sl., fundum vegna fjárlagagerðar, o.fl. Þá ræddi rektor um undirskriftalista hóps kennara og fræðimanna við Heilbrigðisvísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið til að mótmæla endurskoðuðu matskerfi rannsókna, en listinn var sendur ráðsmönnum rafrænt milli funda. Matskerfið er nú til umfjöllunar á vettvangi matskerfisnefndar og vísindanefndar opinberu háskólanna.
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.
1. Mál á dagskrá
1.1 Fjármál Háskóla Íslands. Fjárhagsáætlun Háskólans fyrir árið 2010.
Fyrir fundinum lágu eftirtalin gögn um fjármál Háskólans og fjárhagsáætlun fyrir árið 2010:
(1.) Tillögur um beinar aðgerðir vegna niðurskurðar fjárveitinga til Háskóla Íslands árið 2010,
(2.) tillögur fjármálanefndar um forsendur fyrir úthlutun fjárveitinga árið 2010,
(3.) vinnutafla fjármálanefndar fyrir úthlutun fjárveitinga til einstakra eininga árið 2010,
(4.) yfirlit um skil á fjárhagsáætlunum einstakra fræðasviða og annarra skipulagseininga Háskólans og
(5.) yfirlit um fjárveitingar til einstakra fræðasviða og deilda.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir málinu. Greindu þeir frá því að þeir hefðu haldið fund með fulltrúum í háskólaráði um fjárhagsstöðu og fjárhagsáætlun Háskólans á milli funda ráðsins. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Guðmundur, Sigurður og rektor spurningum ráðsmanna. Rektor greindi frá því að samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður viðbótarsamningi Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 enn frestað árið 2010.
- Fjármálanefnd og fjármálastjóra falið að ljúka gerð fjárhagsáætlunar Háskóla Íslands fyrir árið 2010 í samræmi við aðgerðaráætlun sem kynnt var á fundinum. Rektor, formanni fjármálanefndar, sviðsstjóra fjármálasviðs og forstöðumanni Miðstöðvar framhaldsnáms falið að útfæra skiptingu fjárveitingar vegna aðstoðarkennslu milli fræðasviða skólans. Samþykkt að með tillögu um lækkun kostnaðar við mat á umfangi leiðbeiningar vegna lokaritgerða verði tekið tillit til umfangs og eðlis ritgerðanna. Samþykkt að þóknun fulltrúa í háskólaráði lækki um 7%.
1.2 Niðurstöður 3. háskólaþings 27. nóvember sl.
Rektor gerði grein fyrir ályktun 3. háskólaþings sem haldið var 27. nóvember sl. Ályktunin felur í sér að kennslumálanefnd, gæðanefnd og gæðastjóra er falið að vinna frekar úr þeim hugmyndum um inntöku nýnema við Háskóla Íslands og viðbrögð við brottfalli sem kynntar voru á þinginu og að setja fram tillögur um aðgerðir til að tryggja gæði náms og auka skilvirkni kennslu og ábyrgð nemenda. Ráðist verður í þessa vinnu á næstunni og tillögurnar kynntar í háskólaráði eftir áramót.
- Ályktun háskólaþings staðfest.
1.3 Skýrsla starfshóps um nýsköpun, sbr. fund ráðsins 7. maí sl.
Fyrir fundinum lá skýrsla starfshóps um málefni er lúta að nýsköpun við Háskóla Íslands ásamt tillögum um markmið og aðgerðir, dags. 19. október 2009. Inn á fundinn kom Ebba Þóra Hvannberg prófessor og formaður starfshópsins og gerði grein fyrir skýrslunni. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ebba Þóra spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma að óska eftir umsögn fræðasviða Háskólans um skýrslu starfshópsins og að málið komi að því búnu aftur til ítarlegri umfjöllunar í háskólaráði.
1.4 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011. Endurskoðaðar reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna.
- Frestað.
1.5 Um ráðningu háskólarektors fyrir tímabilið 1.7.2010-30.6.2015 og hlutverk háskólaráðs í því efni.
Rektor vék af fundi undir þessum dagskrárlið og tók Gunnlaugur Björnsson, varaforseti háskólaráðs, við stjórn fundarins. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og gerði ásamt Gunnlaugi grein fyrir framlögðu minnisblaði um ráðningu rektors Háskóla Íslands og hlutverk háskólaráðs í því efni. Málið var rætt ítarlega og lagt til að á næsta fundi ráðsins verði gengið frá texta auglýsingar um starf háskólarektors og skipun nefndar til að fara yfir umsóknir um starfið og undirbúa ákvörðun háskólaráðs um hvaða umsækjendur uppfylla skilyrði um embættisgengi.
- Samþykkt einróma.
2. Erindi til háskólaráðs
2.1 Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögunum.
a) Breyting á 56. og 57. gr. reglna Háskóla Íslands, skv. tillögu kennslumálanefndar háskólaráðs, sbr. fund háskólaráðs 4. júní sl. og síðasta fund.
- Samþykkt samhljóða með þeirri breytingu að við bætist heimildarákvæði um að halda megi endurtökupróf til að tefja ekki brautskráningu, en annar fulltrúi stúdenta sat hjá.
b) Reglur um Erfðafræðinefnd (endurskoðaðar), eftir umfjöllun á Heilbrigðisvísindasviði og í stefnunefnd Háskóla Íslands og Landspítala, sbr. síðasta fund.
Borin var upp tillaga um að í 4. gr. verði kveðið á um að formaður stjórnar Erfðafræðinefndar skuli að jafnaði hafa doktorspróf.
- Framlagðar reglur um Erfðafræðinefnd Háskóla Íslands samþykktar einróma svo breyttar.
c) Tillaga frá stjórn Hugvísindasviðs um endurskoðaðar reglur fyrir Hugvísindastofnun Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.
d) Tillaga frá stjórn Menntavísindasviðs um reglur fyrir Menntavísindastofnun Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.
e) Breyting á 92. gr. reglna Háskóla Íslands, skv. tillögu Félagsvísindasviðs f.h. Stjórnmálafræðideildar. Tvær nýjar námsleiðir í Evrópufræðum.
- Samþykkt einróma að fela stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms að veita umsögn um framlagða tillögu Félagsvísindasviðs um tvær nýjar námsleiðir í Evrópufræðum. Tekið verði mið að ábendingum sem fram komu á fundinum um nauðsyn þess að víðtæk samvinna verði á milli fræðasviða og deilda um nám í Evrópufræðum.
f) Breyting á 101. gr. reglna Háskóla Íslands, skv. tillögu Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Læknadeildar. BS-nám í læknisfræði.
- Samþykkt einróma.
2.2 Stjórnir, nefndir og ráð:
a) Heiðursdoktorsnefnd, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu tilnefningar fræðasviða Háskólans um fulltrúa í heiðursdoktorsnefnd. Rektor gerði grein fyrir málinu og bar upp tillögu um að nefndin verði skipuð þeim Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor við Stjórnmálafræðideild Félagsvísindasviðs, Guðrúnu Kristjánsdóttur, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs, Oddnýju G. Sverrisdóttur, dósent við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Hugvísindasvið, Guðrúnu Kristinsdóttur, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs og Einari H. Guðmundssyni, prófessor við Raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Formaður nefndarinnar (skipaður án tilnefningar) verði Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs. Heiðursdoktorsnefnd er skipuð til þriggja ára.
- Samþykkt einróma.
3. Mál til fróðleiks
3.1 Ytri úttektir sem fara munu fram á vormisseri 2010.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.